Fylltir sveppir


Fylltir sveppirÉg held að fáar þjóðir séu jafn þakklátar fyrir smá sólarglætu og við Íslendingar. Þegar ég bjó í Svíþjóð hneykslaðist ég oft á vanþakklæti Svía þegar kom að veðrinu. Sumrin í Svíþjóð eru dásamleg, bæði löng og hlý. Samt eru Stokkhólmsbúar stöðugt að kvarta yfir því að sumrin þeirra séu stutt, köld og blaut og þeir grínast jafnvel með að það ætti eiginlega ekki að vera byggjanlegt í svona köldu landi. Meðalhitinn í júlí í Stokkhólmi er þó nálægt 22 stiga hita! Þegar talað er um sumarveðrið í Stokkhólmi þá draga Stokkhólmsbúar gjarnan fram þá fáu daga þegar veðrið var ekki gott. Hér á Íslandi bregst það ekki, sama hversu slæmt sumarið hefur verið, alltaf má heyra okkur Íslendingana segja: „Við fengum nú rosalega góða tvo daga þarna snemma í sumar!“ eða eitthvað álíka. Ég ætla nú rétt að vona að þessir tveir dásamlegu sólardagar um helgina verði ekki þessir „tveir góðu dagar“ sem við þurfum að vitna í eftir sumarið! Reyndar munum við fjölskyldan fá okkar skerf af sól og líklega gott betur þar sem að við gerum húsaskipti í heilan mánuð í sumar og dveljum þá í Michigan í Bandaríkjunum en meðalhiti þar í júlí er hvorki meira né minna en 29 gráður.

IMG_5747

Ég átti alltaf eftir að setja inn fleiri uppskriftir frá útskriftarveislunni hennar Óskar. Ég bauð þá upp á meðal annars fyllta sveppi sem voru afar ljúffengir. Þeir eru líka mjög hentugir á smáréttahlaðborð. Ég útbjó þá kvöldið áður og setti beint á ofnplötu með plastfilmu yfir og geymdi í ísskáp. Ég hitaði sveppina svo rétt áður en veislan hófst þannig að þeir voru enn volgir en það er vel hægt að bera þá fram kalda.

Uppskrift (ca. 16 sveppir):

  • 500 g sveppir (gott að velja meðalstóra sveppi, alla svipað stóra)
  • 1.5 msk olía
  • 4 -5  hvítlauksrif, saxaður mjög fínt eða pressaður
  • 1 blaðlaukur, hvíti hlutinn saxaður mjög smátt
  • Ítölsk hvítlauksblanda frá pottagöldrum (eða annað gott hvítlaukskrydd)
  • 1/4-1/2 tsk cayenne pipar
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • 1 box (200 g) Philadelphia rjómaostur með hvítlauki og kryddjurtum, látið ná stofuhita
  • ca. 50 g rifinn Parmesan ostur

IMG_5672

Ofn hitaður í 175 gráður og ofnplata klædd bökunarpappír. Sveppir hreinsaðir varlega með eldhúspappír og stönglarnir losaðir úr sveppunum. Sveppastönglarnir eru því næst saxaðir mjög smátt og þeir steiktir á pönnu ásamt hvítlauknum og blaðlauknum upp úr olíunni (þess skal gæta að laukurinn brenni ekki). Þegar sveppirnir hafa tekið lit er pannan er tekin af hellunni og látið kólna dálítið. Þá er rjómaosti, helmingnum af parmesan ostinum og kryddum bætt út í og blandað vel saman, smakkað til og kryddað meira eftir smekk. Sveppahöttunum er raðað á ofnplötuna. Hver sveppur er því næst fylltur vel að sveppa/ostablöndunni. Að lokum er afgangnum af rifna parmesan ostinum dreift yfir sveppina. Bakað í ofni við 175 gráður í um það bil 20 mínútur eða þar til sveppirnir byrja að mynda vökva og osturinn hefur brúnast.

IMG_5674IMG_5745

Asískar kjötbollur


IMG_3461

Um síðustu helgi hélt stóra stelpan mín upp á tvítugsafmælið sitt. Ég keypti hluta af veitingunum frá Osushi og bjó til eitthvað af þeim sjálf. Það var dálítið vatnsmelónuþema í gangi, við gerðum vatnsmelónu mojito sem var víst ákaflega góður drykkur. Hann er gerður úr Bacardi Melon (romm með vatnsmelónubragði), lime, vatnsmelónu, sírópi og fullt af ferskri myntu – ég set inn uppskriftina hér við tækifæri. Einn af þeim matréttum sem ég bjó til voru kjötbollur með asískri sósu. Ég gerði þær litlar og notaði þær sem smárétt en í raun er ekkert því til fyrirstöðu að búa til máltíð úr þeim og hafa þá til dæmis hrísgrjón með. Myndirnar voru teknar í miklum flýti og eru ekkert til að hrópa húrra fyrir en ekki láta þær fæla ykkur frá! 🙂

Asískar kjötbollurUppskrift (ca. 50 litlar kjötbollur):

  • 900 g nautahakk
  • 2 tsk sesamolía
  • 2.5 dl brauðmylsna
  • 1 tsk engifer (krydd)
  • salt & pipar
  • 2 egg
  • 3-4  hvítlauksrif, pressuð eða skorin smátt
  • 1 búnt vorlaukur (hvíti hlutinn saxaður smátt – græni hlutinn geymdur)
 Sósa:
  • 2 dl Hoisin sósa
  • 4 msk hrísgrjónaedik (rice vinegar)
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 msk sojasósa
  • 1 tsk sesamolía
  • 1 tsk engifer (krydd)
  • Sesam fræ og græni hlutinn af vorlauknum notað til skreytingar.

Ofn hitaður í 200 gráður. Nautahakkið er sett í skál ásamt kryddi, eggjum, brauðmylsnu, hvítlauki og vorlauki, blandað vel saman. Litlar bollur eru mótaðar úr hakkinu og raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 10-12 mínútur eða þar til bollurnar eru tilbúnar.

Á meðan bollurnar eru í ofninum er sósan útbúin. Öllum hráefnunum í sósuna er blandað vel saman. Þegar bollurnar eru tilbúnar er þeim velt upp úr sósunni eða henni hellt yfir bollurnar. Græni hlutinn af vorlauknum er saxaður og dreift yfir ásamt sesamfræjum.

Asískar kjötbollur

Chili-hakk í salatvefju


IMG_9033

Ég er býsna spennt yfir þeirri matargerð sem bíður mín næstu vikurnar. Ég pantaði nefnilega 1/4 af nautaskrokk beint frá býli. Ég hef gert það áður og það er svo mikill munur á gæðum kjötsins, sérstaklega nautahakkinu, miðað við það sem er keypt hjá stórmörkuðunum. Ég pantaði kjöt frá Mýranauti. Þeir eru með svo góða þjónustu. Í fyrsta lagi er hægt að biðja um að þau geri hamborgara úr hluta af nautahakkinu gegn mjög vægri greiðslu. Í öðru lagi er hægt að fá snitsel úr klumpinum og flatsteikinni, sem annars nýtist kannski ekki sérlega vel. Í þriðja lagi þá er hægt að panta hakkið og gúllasið í þeim stærðarpakkningum sem maður óskar. Og í fjórða lagi er kjötið keyrt beint heim til manns! Ég fékk kjötið heim rétt fyrir páska og þar leyndust afar girnilegir bitar, nautalund, sirloin steik, ribeye, entrecote og fleira. Ég held að kalkúninn á páskadag sé mögulega að víkja fyrir gómsætri nautasteik! 🙂

IMG_8845IMG_8850

Ég prófaði nautahakkið strax í dag, það var afar ljúffengt. Ég gerði nokkurs konar smárétt eða tapasrétt sem var mjög bragðgóður, skemmtilegt að útbúa og enn skemmtilegra að borða. Frábær og fljótlegur smáréttur með köldum bjór eða sniðugur réttur á hlaðborð. Eins gæti þetta verið góður réttur til að bera fram með fleiri mexíkóskum smáréttum. Ég ákvað að búa til guacamole með þessum rétti, mér fannst það voða gott með, eins bar ég fram með þessu nachos fyrir þá sem vildu dálítið af kolvetnum! 😉 Salatið fæst í Hagkaup, mér finnst það ómissandi með þessum rétti en það er líka hægt að nota venjulegar tortillakökur.

IMG_9036

Uppskrift:

  • 800 g nautahakka
  • salt & pipar
  • olífuolía
  • 1-2 rauður chili
  • 2 hvítlauksrif
  • 5 cm biti af fersku engifer
  • 3 vorlaukar
  • 1 msk sesamolía
  • 1 msk púðursykur
  • 1 tmsk fiskisósa (fish sauce)
  • hýði af 1 límónu (lime)
  • safi frá ½ límónu
  • hjartasalat (fæst m.a. í Hagkaup)
Hakkið steikt á pönnu upp úr ólífuolíunni, saltað og piprað vel. Steikt á fremur háum hita til þess að hakkið nái góðum lit. Þegar hakkið er steikt í gegn er því hellt í sigti þannig að öll fita renni af því.
Chili, hvítlaukur og engifer er fínsaxarð og steikt upp úr sesamolíunni. Þá er sykrinum bætt út á pönnuna og því næst er hakkinu bætt út í ásamt fiskisósunni, límónuhýðinu og límónusafanum. Vorlaukarnir eru saxaðir niður og þeim bætt út í lokin.
IMG_9016
Sósa:
  • 1 tsk púðursykur
  • 1 tsk sojasósa
  • safi frá ½ límónu (lime)
  • ½ chili, saxað
  • 1-2 tsk fiskisósa (fish sauce)
  • ferskt kóríander eftir smekk, saxað (ég notaði 1/2 30 gramma box)
  • 1 msk ólífuolía

Öllum hráefnunum er blandað vel saman. Hakkið er borið fram í hjartasalatsblöðunum og sósunni dreift yfir.

IMG_9025

Brieostabaka með mango chutney


Eitt kvöldið í vikunni fengum við góða gesti í kvöldkaffi. Ég vildi bjóða upp á osta en langaði í tilbreytingu frá venjulegum ostabakka. Ég fór að hugsa um þegar góðir ostar eru bakaðir í ofni með mango chutney og kasjúhnetum og datt í hug hvort að það væri ekki hægt að gera meira úr því, einhverskonar böku. Ég fór á netið og fann ekkert á íslenskum vefsíðum. En þegar ég fór að skoða sænskar vefsíður kom í ljós að ég var ekkert að finna upp hjólið! Það voru til nokkrar útgáfur af bökum með brie og mango chutney enda eru Svíar mikið fyrir allskonar bökur. Ég skoðaði nokkrar uppskriftir og týndi saman það mér leist vel á úr hverri uppskrift og útkoman var þessi baka sem var afar ljúffeng. Það er hægt bera fram með bökunni parmaskinku sem er örugglega afar gott en þar sem gestirnir okkar eru grænmetisætur þá gerði ég það ekki. Þessa böku er líka hægt að bera fram sem forrétt. Þá er hægt að setja bökusneið og salat á forréttadiska.

Uppskrift

Botn:

  • 3 dl hveiti
  • 125 gr smjör (kalt, skorið niður í litla bita)
  • 1 msk kalt vatn
  • 1/2 dl sólblómafræ (má sleppa)

Fylling:

  • 400g brie ostur (ég notaði einn brie ost og einn gullost)
  • U.þ.b. 1.5 dl mango chutney
  • 3 egg
  • 2 1/2 dl rjómi (má nota matargerðarjóma)
  • salt og pipar
Hveiti og smjör sett í matvinnsluvél þar til það verður að deigi. Vatni bætt við og hrært í smástund í viðbót. Sólblómafræjum bætt við í lokin, gott að láta þau ekki myljast of mikið niður. Deginu þrýst niður á botninn í  bökuformi og upp með hliðunum, kælt í 30 mínútur. Botninn bakaður við 225 gráður í 10 mínútur. Brie ostur skorinn í sneiðar og raðað ofan á botninn. Helmingurinn af mango chutney smurt ofan á ostinn (ég mældi ekki magnið af mango chutneyið, smurði því bara vel á!). Eggjum, rjóma, salt og pipar pískað saman. Helmingnum af eggjahrærunni helt ofan á bökufyllinguna. Afgangnum af brie osti raðað yfir ásamt mango chutney og að lokum er restinni af eggjablöndunni hellt yfir. Lækkið ofnin niður í 200 gráður og bakið í 30-40 mínútur eða þar til bakan er tilbúin. Setjið álpappír yfir bökuna ef hún dökknar of mikið.

Balsamedik-síróp
  • 2 dl balsamedik
  • 1 msk hunang
  • 1 hvítlauksrif

Hráefninu blandað saman í lítinn pott og látið krauma þar til blandan hefur soðið niður um helming og hefur þykknað. Hvítlauksrifið fjarlægt, blandan kæld, hellt yfir bökuna.