Rabarbarapæ með stökkum hjúpi úr brúnuðu smjöri


IMG_4000

Síðastliðin tvö sumur höfum við farið í fremur langar utanlandsferðir en nú í sumar höfum við verið heima og notið þess afar vel. Sumrin á Íslandi eru svo stutt en svo dásamlega björt og falleg að í raun ætti maður bara að fara til útlanda á veturna. Yngsta barnið okkar fór hins vegar í ferðalag og það ekkert lítið ferðalag. Hún fór til Colombus í Bandaríkjunum í sumarbúðir barna og var þar í heilan mánuð, 11 ára gömul! Þegar hún orðaði þetta við mig fyrst fyrir tæpu ári síðan, þá hefði hún allt eins getað spurt hvort hún mætti fara til tungslins, svo fráleitt fannst mér að hún færi án okkar til útlanda svona lengi og svona ung. En þegar ég fór að kynna mér starfsemi CISV þá gat ég ekki annað en hrifist af hugmyndafræðinni. Allir sem höfðu farið í slíkar búðir, sem ég heyrði og las um, sögðu þetta vera það magnaðasta sem þau hefðu gert á ævinni. Ég ákvað að láta ekki mína hræðslu standa í vegi fyrir ævintýragirni dóttur minnar og úr varð að hún fór í þetta frábæra ferðalag.

heimkoma

Komin heim!

Markmið CISC er að stuðla að friði og réttlæti í heiminum í gegnum vinskap og samstarf ólíkra menningarbrota, óháð pólitískum eða trúarlegum skoðunum. Það er hugsun á bakvið að börnin séu 11 ára í þessum búðum því þá eru þau nógu þroskuð til þess að taka á móti þessum boðskap en ennþá það mikil börn að þau eru tilbúin að taka þátt í leikjunum sem búðirnar eru byggðar upp á og þetta er líka sá aldur sem börn mynda lífslangan vinskap á. Ég heyrði hér um bil ekkert í Jóhönnu í heilan mánuð og var því spennt að vita hvernig hún hefði upplifað búðirnar. Þegar hún loksins kom heim spurði ég hana hvort þetta hefði verið skemmtilegra eða leiðinlegra en hún hefði gert ráð fyrir. Hún svaraði að dvölin hefði verið miklu skemmtilegri en hún hélt; „ég lærði svo miklu meira um að vera þakklát, hugsa um aðra og verða betri manneskja” :). Hún eignaðist bestu vinkonur frá Indónesíu, Portugal, Costa Rica, Bandaríkjunum og löndum um allan heim og er ákveðin í því að halda áfram í samtökunum. Samtímis því sem hún var í Bandaríkjunum voru CISV sumarbúðir haldnar hér á landi með aðsetur í Mýrhúsaskóla. Ég fór nokkrum sinnum þangað í sjálfboðaliðavinnu í eldhúsið og gat þá fengið innsýn í hvað Jóhanna var að upplifa í sínum sumarbúðum. Ein helgi er svokölluð ”homestay” helgi. Þá fara börnin heim til fjölskyldu og við fengum til okkar þrjár yndislegar 11 ára stelpur frá Brasilíu, Ítalíu og Egyptalandi eina helgi. Við skemmtum okkur vel með þeim þessa helgi, sýndum þeim Reykjavík og mynduðum Facebook-tengsl við fjölskyldur þeirra í Kairo, Sao Paolo og Ferrara. Vinskapurinn sem myndaðist þesssa helgi kristallar einmitt markmið samtakanna svo vel.

cisv

Þar sem ég stóð í eldhúsinu í Mýrhúsaskóla einn daginn, í bongóblíðu, og bjó til súpu í kvöldmatinn fyrir börnin sem voru í sumarbúðum hér fór ég að hugsa um hversu gaman það væri að geta boðið þeim upp á almennilega íslenska grillveislu. Ég sá það nú strax í hendi mér að það myndi duga skammt að dröslast með grillið mitt á staðinn enda voru þetta 70 manns með fararstjórum og búðarteymi. Búðirnar eru reknar í sjálfboðaliðavinnu með lágmarksrekstrarfé. Í bríeríi ákvað ég því að senda Tomma hjá Hamborgarabúllunni tölvupóst, segja honum frá þessum frábæru samtökum og yndislegu börnum sem væru hér stödd allsstaðar að úr heiminum og spyrja hvort hann gæti hugsað sér að koma með grillvagninn sinn og bjóða þeim upp á hamborgaraveislu. Ég bjóst ekkert endilega við svari, enda þekki ég Tomma ekki neitt og þetta var fremur frökk bón, að biðja um ókeypis hamborgaraveislu fyrir 70 manns. Ég fékk hins vegar svar um hæl, ”Ekkert mál, hvenær hentar að við komum?”!! Algjörlega mögnuð viðbrögð og svo frábært að til sé fólk sem er tilbúið að gefa svona af sér án þess að vænta nokkurs tilbaka. Hamborgarabúllan mætti á staðinn í bongóblíðu á ”galadegi” búðanna og bauð upp á ógleymanlega grillveislu. Frábær minning og upplifun fyrir börnin sem dvöldu hér á Íslandi. Takk Tommi og Búllan!!

búllan

En svo ég snúi mér að uppskrift dagsins. Ég komst að því mér til mikillar ánægju að ég er með rabarbara í nýja garðinum mínum. Ég fann á sænskum uppskriftavef uppskrift að spennandi rabarbaraböku með brúnuðu smjöri. Brúnað smjör er svo svakalega gott, það kemur svo góður karamellu/hnetukeimur að smjörinu þegar það er brúnað. Ég var því spennt að prófa þessa uppskrift og hún sló algerlega í gegn hér heima. Stökkur hjúpur með karamellukeimi á móti súrum rabarbaranum var frábærlega gott. Það væri hægt að velta rabarbaranum upp úr smá sykri, jafnvel kanelsykri en okkur fannst gott að hafa hann dálítið súran á móti stökka og sæta hjúpnum.

IMG_3990
Uppskrift: 

  • 500 g rabarbari, skorin í bita
  • 150 g smjör
  • 1 1/2 dl haframjöl
  • 1 1/2 dl sykur
  • 1 1/2 dl hveiti
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • 1/2 dl ljóst síróp 
  • 2 msk mjólk
  • örlítið salt

IMG_3988IMG_3989

Ofn hitaður í 175 gráður við blástur. Rabarbarinn skorinn í bita og honum dreift í smurt eldfast mót. Smjörið sett í pott og brætt við fremur háan hita þar til það byrjar að malla vel, þá er fylgst vel með smjörinu, jafnvel aðeins lækkað undir því ef með þarf. Eftir 2-3 mínútur verður það gullinbrúnt með hnetuilmi. Þá er potturinn tekinn af hellunni, mesta froðan veidd af og brúnaða smjörinu hellt í skál, ekki með botnfallinu. Því næst er haframjöli, sykri, hveiti, lyftidufti, sírópi, mjólk og salti bætt út í og allt hrært saman. Þessu er dreift yfir rabarbarann og bakað við 175 gráður í um það bil 45 mínútur. Borið fram með þeyttum rjóma eða ís.

IMG_3996IMG_3995

Sítrónubaka með marengs


Sítrónubaka með marengsMér finnst hinar ýmsu bökur (pæ) algjört hnossgæti og þar trónir eplabaka á toppnum. Mér finnst hins vegar líka allskonar sítrus eftirréttir góðir og ekki síst sítrusbökur. Ein af mínum uppáhaldsuppskriftum hér á Eldhússögum er einmitt að slíkri böku, Key lime bökunni frægu, hér er linkur á þá uppskrift. Undanfarnar vikur hefur fylgt mér löngun á að gæða mér á ferskri sítrónuböku með marengs, ég veit ekki hvers vegna. Kannski er það vegna þess að Ítalíuferðin okkar alveg að bresta á og einhvern veginn finnst mér sítrónupæ minna mig á Ítalíu, ætli það séu ekki sítrónurnar, ég held til dæmis að flestir sem hafa komið til Ítalíu hafi smakkað á ítalska sítrónulíkjörnum, limonchello. Í gær var matarboð hjá foreldrum mínum og mér fannst upplagt að gera fjölskylduna að tilraunakanínum þegar ég prófaði mig áfram með sítrónubökuna í eftirrétt. Ég ákvað tvöfalda sítrónusultuna (lemon curd) og einnig þeytti ég fleiri eggjahvítur en þurfti fyrir bökuna. Þannig gat ég á einfaldan og fljótlegan hátt líka búið til Pavlovu með sítrónusultu, rjóma og berjum. Ólíkir eftirréttir en þó mikið til með sömu hráefnin. 11328799_10152962203577993_1632395666_n Mér fannst sítrónubakan ofboðslega góð, þetta fullkomna hlutfall milli þess sæta og súra gerir sítrónuböku að himneskum eftirrétti í mínum bókum. Ég held að fjölskyldan hafi verið sammála mér þó kannski ekki öll börnin, bakan er meira svona „fullorðins“eftirréttur. Það lítur kannski út fyrir að vera erfitt að búa þennan eftirrétt til en svo er alls ekki. Það þarf til dæmis ekki að sprauta marengsinum á bökuna, það er líka hægt að dreifa bara úr honum með sleikju. Bökuformið mitt er mjög stórt, 30 cm, ég ætla að gefa upp minni uppskrift sem passar í form sem eru ca. 24 cm, sem er algengari stærð.

Uppskrift (í ca. 24-26 cm bökurform):   Botn:

  • 3 dl hveiti
  • 130 g smjör (kalt)
  • 3-4 msk kalt vatn

Sítrónusulta (lemon curd):

  • 2 dl sykur
  • 4 dl vatn
  • 2-3 sítrónur (fer eftir stærð og styrkleika)
  • 1 dl maísenamjöl
  • 4 eggjarauður
  • 20 g smjör

Marengs:

  • 4 eggjahvítur
  • 1.5 dl sykur

IMG_8896 Botn: Ofn hitaður í 150 gráður við undir- og yfirhita. 24-26 cm bökuform smurt að innan. Hveiti, smjör og vatn (gæti þurft meira vatn en gefið er upp) er hnoðað saman í deig. Best er að gera það í höndunum og þá er gott að skera smjörið niður í litla bita og eins er gott að mynda holu í hveitið fyrir vatnið. Þegar deigið er orðið að góðum klumpi er því þrýst ofan í bökuform (deigið þarf ekki að hvíla áður). Fallegt er að láta deigið ná upp á kantana á forminu. Þá er notaður gaffall til að stinga götum á botninn hér og þar. Bakað í ofni við 150 gráður í 15 mínútur.

Á meðan er sítrónusultan útbúin: Sítrónurnar er þvegnar vel og því næst er safinn pressaður úr þeim. Sítrónuhýðið er þá rifið niður með fínu rifjárni, gætið þess að nota bara gula hlutann af hýðinu. Vatn, sykur og 2/3 hlutar af sítrónusafanum er sett í pott ásamt maísenamjöli og suðan látin koma upp, hrært í stöðugt á meðan. Blandan er smökkuð til og restinni af  sítrónusafanum er bætt út í eftir smekk. Þegar blandan er orðin hæfileg þykk er potturinn tekin af hellunni og blöndunni leyft að kólna dálítið. Því næst er eggjarauðum, rifna sítrónuhýðinu og smjöri bætt út í og suðan aftur látin koma upp, hrært í á meðan. Blöndunni er að lokum helt ofan á kaldan bökubotninn.

Marengs: eggjahvíturnar stífþeyttar og sykrinum bætt út í smátt og smátt. Marengsinum er dreift yfir sítrónusultuna, annað hvort með spaða eða sprautað með sprautupoka. Að lokum er bakan sett inn í ofn við 175 gráður í 8-10 mínútur. Í lokin er fallegt að stilla ofninn á grill og leyfa marengsinum að brúnast passlega. Nauðsynlegt er þó að fylgjast stöðugt með bökunni þar sem marengsinn brúnast hratt. Vel er hægt að gera bökuna daginn áður en hún er borin fram og geyma hana í kæli. Gott er að bera bökuna fram með þeyttum rjóma eða vanilluís. IMG_8903 11311859_10152962204277993_1860247481_n

Bananapæ með karamellusósu og Daim súkkulaði


IMG_7333Um síðustu helgi héldum við upp á 10 ára afmæli yngsta barnsins á heimilinu. Hún er svo mikill heimshornaflakkari að þemað sem hún valdi sér í ár var París! Draumur hennar um að sjá New York rættist í sumar og nú stendur Parísarferð efst á óskalistanum. Við keyptum skemmtilegar Parísar servíettur, glös, blöðrur og dúk á Amazon í Bandaríkjunum sem setti tóninn fyrir afmælisþemað í ár. IMG_7432IMG_7436Jóhanna skoðaði Parísartertur á netinu og var með mjög ákveðnar hugmyndir um hvernig tertan ætti að vera. Eins og mér finnst gaman að baka þá finnst mér alltaf jafn erfitt að skreyta afmælisterturnar. Það fer nefnilega ekkert sérlega vel saman að vera með metnað í afmælistertum en hafa svo ekkert sérstaklega mikla skreytingahæfileika! 😉 Ég dreg alltaf þetta verkefni fram á síðustu stundu og er því yfirleitt nóttina fyrir afmælið í eldhúsinu að reyna að skreyta og skera út afmæliskökur sem krakkarnir hafa óskað eftir. Í ár ákvað ég að gera mér lífið létt og bað Önnu frænku mína, sem er konditor, um að gera afmælistertuna og það var frábær ákvörðun.

Eiffel turninn er úr súkkulaði en blúndan og slaufan úr sykurmassa.

Eiffel turninn er úr súkkulaði en blúndan og slaufan úr sykurmassa.

Kakan varð jú fyrir það fyrsta dásamlega falleg og góð, var nákvæmlega eins og Jóhanna mín óskaði sér og ég sjálf gat dundað mér við hefðbundinn kökubakstur og brauðréttagerð án þess að eiga kökuskreytingar hangandi yfir mér!

IMG_7356

Afmælisbarnið útbjó sjálf þessa fínu Parísar-nammipoka handa hverjum og einum gesti.

Afmælisbarnið útbjó sjálf þessa fínu Parísar-nammipoka handa hverjum og einum gesti.

IMG_7349 Ég var hins vegar mjög ánægð með ættingja mína sem héldu í fyrstu að ég hefði gert þessa glæsilega köku, það er mikið hrós fyrir manneskju með þumalputta á öllum þegar kemur að skreytingum! 🙂 Anna er menntaður konditor og er með Facebook síðu hér.

IMG_7336

Ein kakan í afmælinu sem fékk mikið lof var þetta banana-karamellupæ. Sjálfri finnst mér allt sem hefur samsetninguna bananar, karamellur og rjómi ákaflega gott. Ég setti inn uppskrift af svipaðri böku hér en það þarf að hafa meira fyrir henni enda er karamellusósan heimagerð. Þetta pæ er hins vegar ótrúlega fljótlegt og einfalt en sjúklega gott og hentar mjög vel sem eftirréttur. Hugmyndin kom út frá þessari karamellusósu sem ég keypti í Þinni verslun og var búin að eiga inni í skáp þónokkuð lengi. Ég fór á síðuna hjá þeim og sá að þessar vörur eru seldar á eftirfarandi stöðum: í Melabúðinni, Hagkaup Garðabæ, Hagkaup Kringlunni, Ostabúðinni Skólavörðustíg, Vínberinu Laugavegi, Garðheimum, Kjöthöllinni Háaleitisbraut, Þinni Verslun í Breiðholti, Mjólkurstöðinni Neskaupsstað, Blómasetrinu Borganesi og Býflugan og blómið á Akureyri.

IMG_7321

Uppskrift:

  • 300 g Digestive kex
  • 150 g smjör, brætt
  • 3 stórir þroskaðir bananar eða 4 litlir
  • 1 krukka karamellusósa frá Stonewall Kitchen (Stonewall Kitchen Sea Salt Caramel Sauce 347g)
  • 500 ml rjómi
  • 2 tvöföld Daim súkkulaði (56 g stykkið), saxað

Ofn stilltur á 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið. Blöndunni þrýst ofan í smurt eldfast bökuform. Botninn bakaður í 10 mínútur og leyft að kólna. Rjóminn er þeyttur. Bananar eru skornir í þunnar sneiðar og raðað yfir kaldan botninn. Því næst er helmingnum af karamellusósunni dreift yfir bananana og hluta af rjómanum dreift yfir. Þá er restinni af banönunum dreift yfir rjómann, þá afgangnum af karamellusósunni og að lokum er öllum rjómanum smurt yfir eða sprautað með rjómasprautu. Söxuðu Daim súkkulaði er að síðustu dreift yfir rjómann.

IMG_7330IMG_7335

Bláberjabaka


BláberjabakaMichigan-fylki framleiðir mest af bláberjum af öllum fylkjum Bandaríkjanna og núna er aðaluppskerutíminn fyrir bláber. Við fórum á bændamarkað hér í hverfinu og keyptum tæp 2.5 kíló af stórum og ljúffengum bláberjum á 1300 krónur. Þar keyptum við líka ferskan maís sem er dásamlega sætur og góður ásamt fleiru góðu grænmeti. Bláberin heima á Íslandi eru kannski ekki eins stór og hér í Michigan en þau eru sannarlega bragðgóð og nú er einmitt að renna upp sá tími að hægt sé að fara í berjamó. Ég ákvað að búa til einfalt og gott bláberjapæ úr bláberjunum mínum og nota „mylsnudeig“ eða „smulpaj“ eins og Svíarnir kalla það. Mér finnst það alltaf langbestu bökurnar.

IMG_6744

Uppskrift:

  • 750 g fersk bláber (eða frosin)
  • 3 tsk sykur
  • (2 msk kartöflumjöl ef berin eru frosin)
  • 140 g smjör (kalt)
  • 2 dl Kornax hveiti
  • 2 dl haframjöl
  • 1.5 dl sykur
  • 1/2 tsk salt
  • 1-2 dl gott múslí eða granóla (má sleppa)
  • IMG_6726

Ofn hitaður í 225 gráður við undir- og yfirhita. Bláberin eru sett í eldfast mót (kartöflumjöli dreift yfir ef þau eru frosin) og 3 tsk sykri dreift yfir berin. Smjörið er skorin niður í litla bita og sett í skál. Þá er haframjöli, hveiti, sykri, salti bætt út í, allt mulið saman með höndunum og að síðustu er múslí/granóla blandað saman við deigið. Blöndunni er því næst dreift yfir bláberin. Bakað í um það bil 20-25 mínútur við 225 gráður. Borið fram heitt með ís eða þeyttum rjóma. IMG_6735

IMG_6751

Rabarbarabaka með jarðarberjum og hvítu súkkulaði


Rabarbarabaka með jarðaberjum og hvítum súkkulaðiMér finnst alltaf dálítið skrítið og óþægilegt að skrifa lýsingar við uppskriftirnar sem ég set hér inn á síðuna. Að skrifa um mat, sem ég hef sjálf útbúið, eitthvað í líkingu við „dásamlega gott og besti réttur í heimi“ hljómar eins og mann skorti alla hógværð og sé í meira lagi sjálfumglaður! 🙂 Ég er nefnilega meira týpan í ætt við ömmur þessa lands, þar sem þær standa við matarborðið og segja: „Æ, þetta er nú nauðaómerkilegt, vonandi getið þið borðað eitthvað af þessu“. Hins vegar finn ég það sjálf þegar ég skoða matarblogg að ég vil fá álit á uppskriftunum. Þegar ég sé uppskrift á bloggi sem ekkert er skrifað um, bara „hér kemur uppskrift að… “ þá dæmi ég ósjálfrátt uppskriftina ekkert sérstaka. Að þessu sögðu þá kynni ég til leiks langbesta rabarbarapæ sem ég hef smakkað hingað til! 😉 Ég ákvað sem sagt að gera rabarbaraböku en þar sem hún verður stundum heldur til súr lagði ég höfuðið í bleyti, hvað gæti vegið upp á móti því? Jarðarber voru augljóst svar, svo sæt og góð. Mér finnst hvítt súkkulaði passa einstaklega vel við heita berja- og ávaxtarétti og ákvað að prófa það með. Mylsnan ofan á er klassísk en svo ótrúlega góð. Ég bauð stórfjölskyldunni upp á þessa böku um síðustu helgi og hún var kláruð upp til agna í einni svipan með þeim orðum að þetta væri besta rabarbarabakan sem þau hefðu smakkað … það er sem sagt ekki bara ég sem er að slá um mig! 🙂

IMG_6242

Uppskrift: 

  • 5-600 g rabarbari, skorinn í bita
  • 250 g jarðarber, helst fersk, skorin í sneiðar
  • 2/3 dl sykur
  • 2 msk maísmjöl
  • 100 g Siríus hvítir súkkulaðidropar (þ.e 2/3 úr pokanum)
  • 2 dl Kornax hveiti
  • 1 dl púðursykur
  • 1 dl sykur
  • 2 dl haframjöl
  • 110 g smjör (kalt)

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Rabarbara, jarðarberjum, maísmjöli og 3/4 dl sykri er blandað saman og sett í eldfast mót. Hvítu súkkulaðidropunum er því næst dreift yfir.

Hveiti, púðursykur, sykur, haframjöl og smjör er mulið saman í höndunum þar til að blandan minnir á haframjöl. Þá er blöndunni dreift yfir berin og rabarbarann. Bakað við 180 gráður í 35-40 mínútur eða þar til toppurinn er orðin gullinbrún og berjablandan farin að „bubbla“ upp um hliðar formsins. Borið fram heitt með þeyttum rjóma eða vanilluís.

IMG_6214IMG_6224

Eplabaka með Pipp karamellusúkkulaði


Eplabaka með Pipp karamellusúkkulaðiNú er maí handan við hornið en mér finnst sá mánuður einhvern veginn alltaf laumast aftan að manni. Veturinn hefur varla hvatt þegar maí skyndilega skellur á en það er einn af mínum uppáhaldsmánuðum, hann líður bara yfirleitt alltof hratt. Það er margt spennandi að gerast í maí. Við hjónin förum saman í utanlandsferð og Óskin okkar útskrifast sem stúdent. Ég þarf því fljótlega að fara að huga að annarri veislu en mér finnst það sem betur fer ekkert leiðinlegt verkefni! 🙂

Um síðustu helgi nutum við góða veðursins og ég bjó til gott meðlæti með kaffinu á sunnudeginum. Eins og svo oft áður þegar við Jóhanna mín fáum að ráða þá bjó ég til eplaböku, við mæðgur fáum ekki nóg ef eplaréttum! Það er fátt sem slær út rjúkandi heitri og ljúffengri eplaböku með þeyttum rjóma eða vanilluís. Að þessu sinni ákvað ég að sameina tvennt sem mér finnst gott, það er eplabaka og súkkulaði. Ég átti Pipp súkkulaði með karamellufyllingu og ég gat ekki ímyndað mér annað en að þessi blanda yrði góð, sem hún var! 🙂 Við fengum okkur bökuna með kaffinu og kláruðum hana svo á sunnudagskvöldinu yfir skemmtilegum þáttum sem við fjölskyldan (þ.e við ásamt eldri börnunum) erum farin að fylgjast spennt með. Þetta eru þættirnir Äkta människor, sænskir þættir sem við höfum ákaflega gaman að. Mér sýnist að það sé nýfarið að sýna þessa þætti á RUV, „Alvöru manneskjur„, ég mæli með að þið kíkið á þá! 🙂

IMG_5495

Uppskrift:

  • 4-5 meðalstór græn epli, afhýdd og skorin í fremur þunna báta
  • 2 tsk kanill  chocolate-caramel-pipp-karamellu
  • 1 msk sykur
  • 100 g Pipp súkkulaði með karamellu
  • 2.5 dl Kornax hveiti
  • 1.5 dl haframjöl
  • 1 dl sykur
  • 150 g smjör, kalt

IMG_5484

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Bökuform (ca. 22-24 cm) smurt að innan. Eplunum er velt upp úr kanil og sykri (1 msk) og því næst raðað ofan í bökuformið. Pippsúkkulaðið er saxað smátt og dreift yfir eplin.

IMG_5485 Hveiti, haframjöli, sykri og smjöri er blandað saman í höndunum þar til úr verður massi og honum deift yfir eplin. Bakað í ofni við 200 gráður í um það bil 30 mínútur eða þar til deigið er orðið gullinbrúnt. Borið fram heitt með þeyttum rjóma eða vanilluís.

IMG_5506

 

Stökk berjabaka með vanillusósu


Stökk berjabaka með vanillusósu

Undanförnum kvöldum hef ég eytt í annað en að blogga. Meðal annars fórum við hjónin á skemmtilega árshátíð í Hörpunni um síðustu helgi og í fjölskyldu-þorrablót til foreldra minna. Að auki erum við dottin í að horfa á Breaking bad þættina og erum orðin afar spennt fyrir þeim. En það sem okkur fjölskyldunni hefur þótt allra skemmtilegast að gera undanfarin kvöld er að horfa á fjölskyldumyndir síðastliðna ára. Við höfum alltaf verið mjög dugleg við að taka vídeómyndir, svo dugleg að við áttum orðið heilan kassa af litlum videóspólum sem pössuðu ekki lengur í nein tæki og því ekki hægt að horfa á þær. Nú tók ég mig taki og fór með þetta allt til fyrirtækis sem færði þær yfir á harðan disk. Fyrir helgi var sú vinna tilbúin og við fengum afhent yfir hundrað klukkutíma efni sem spannar síðastliðin 20 ár í lífi okkar fjölskyldunnar. Það sem við höfum skemmt okkur við að horfa á þessar myndir – alveg ómetanlegar minningar! 🙂

Það er þó löngu tímabært að setja inn uppskrift hingað á síðuna. Fyrir nokkrum dögum komu amma og afi í mat og ég ákvað að hafa fljótlegan og góðan eftirrétt, berjaböku. Svíarnir kalla svona bökur „smulpaj“ en ég veit eiginlega ekki hvernig það er þýtt á íslensku en bein þýðing er „mylsnubaka“. Þetta er eftirréttur sem er gott að grípa í því oftast nær á maður til öll hráefnin í hann. Ég ákvað að taka Svíann á þetta, gerði vanillusósu blandaða rjóma og bar fram með rjúkandi heita pæinu, dásamlega gott!

Uppskrift:

  • 500 g frosin berjablanda (afþýdd)
  • 1 dl sykur
  • 2 msk. kartöflumjöl
  • 100 g smjör
  • 1 1/2 dl hveiti
  • 1 dl haframjöl
  • 1 dl kókosmjöl
  • 1 dl púðursykur eða sykur
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk vanillusykur

Aðferð:

Ofn hitaður í 200 gráður. Berin eru afþýdd og sett í eldfast mót, sykri og kartöflumjöli stráð yfir.

Kókosmjöl og haframjöl ristað á þurri pönnu í stutta stund þar til það hefur tekið smá lit. Smjör brætt í potti og kókosmjöli, haframjöli, púðursykri, lyftidufti og vanillusykri blandað út í. Blöndunni er síðan dreift jafnt yfir berin. Bakað í ofni við 200 gráður í 20-30 mínútur eða þar til bakan hefur tekið góðan lit. Borið fram með þeyttum rjóma, ís eða vanillusósu.

IMG_3613

Vanillusósa:

  • 1 vanillustöng
  • 4 dl mjólk
  • 1 dl sykur
  • 4 eggjarauður
  • 1 tsk maizenamjöl eða kartöflumjöl
  • 2 dl þeyttur rjómi (mældur eftir að hann er þeyttur)

Eggjarauður, sykur og maizenamjöl (eða kartöflumjöl) þeytt vel saman þar til blandan verður létt og ljós. Á meðan er vanillustöngin er klofin og fræin skafin innan úr henni. Mjólk sett í pott ásamt vanillufræunum og sjálfri vanillustönginni. Mjólkin látin ná suðu (má ekki brenna við botninn), potturinn tekinn af hellunni og látin standa í nokkrar mínútur til að kólna lítillega. Vanillustöngin veidd upp úr. Þegar eggjablandan er tilbúin er henni blandað út í mjólkina. Potturinn er settur aftur á helluna við meðalhita og hrært í á meðan þar til að blandan þykknar og verður fremur kremkennd. Blandan má alls ekki sjóða og ef maður vill er hægt að fylgjast með henni með hitamæli, hitinn má ekki fara yfir 74 gráður. Þegar sósan er passlega þykk er hún tekin af hellunni og látin kólna alveg áður en þeytta rjómanum er bætt út í. Borin strax fram með heitri berjaböku.

IMG_3621

Eplabaka með piparkökum


Eplabaka með piparkökum

Mér finnst eplabökur vandræðalega góðar. Svíar eru mikið bökufólk og á kaffihúsum þar í landi eru alltaf allskonar pæ í boði, hindberjapæ, eplapæ og fleiri góð pæ. Fyrstu árin sem ég bjó í Svíþjóð var ég stórhneyksluð á því hvernig Svíar eyðilögðu þessar góðu bökur með því að drekkja þeim í vanillusósum. En eftir nokkurra ára dvöl þar í landi var ég orðin frelsuð og vildi líka að eplabökunni minni væri drekkt í ljúffengri vanillusósu!

Eitt kvöldið fyrr í vikunni var ég í jólaskapi, nýbúin að kaupa box af gómsætum sænskum piparkökum (þessum sænsku í rauðu boxunum merktum „Göteborgs“ – þær eru bestar!) og langaði að búa til eplaböku. Skyndilega fékk ég þá hugdettu að það væri gott að blanda piparkökum við eplabökudeigið. Ég beið ekki boðanna og hófst strax handa. Hálftíma seinna stóð rjúkandi heit og gómsæt eplabaka á borðinu og húsið angaði af jólailmi. Vissulega var ég ekki með neina sænska vanillusósu til að drekkja bökunni í en í þetta sinn setti þeytti rjóminn punktinn yfir i-ið. Eiginlega skil ég ekkert í mér að hafa ekki uppgötvað þetta fyrr því eplabakan var með þeim betri og jólalegri bökum sem ég hef bragðað!

image.aspx

Uppskrift:

Deig:
  • 125 g smjör (gott ef það hefur fengið að standa í stofuhita í smá tíma)
  • 1dl sykur
  • 1dl Kornax hveiti
  • 1.5 dl haframjöl
  • ca. 10-12 piparkökur, muldar fremur smátt
  • 1/2msk kanill
  • 1 tsk engifer
  • 1 tsk negull
Fylling: 
  • 3-4 græn epli, afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í þunnar sneiðar
  • 2 msk hrásykur

IMG_1560

Ofn hitaður í 210 gráður. Öllum hráefnunum í deigið blandað saman í höndunum í massa. Eplaskífunum raðað í eldfast mót og hrásykrunum dreift yfir. Því næst er deiginu dreift yfir eplin. Bakað í ofni í ca. 20 mínútur eða þar til eplin eru orðin mjúk og deigið stökkt. Berið fram heitt með vanilluís eða þeyttum rjóma.
IMG_1570

Rifsberjabaka


Rifsberjabaka

Auk þess sem ég rækta grænmeti þá er ég með stæðilegan rifsberjarunna. Í fyrra var einstaklega þurrt sumar, í minningunni finnst mér ég hafa vökvað garðinn hér um bil daglega. Síðastliðið sumar var hins vegar svo blautt að ég tók aldrei fram garðslönguna, ekki einu sinni! það eina jákvæða við þetta blauta sumar var uppskeran úr garðinum var góð. Í fyrrahaust fékk ég nefnilega engin rifsber en í ár er runninn stútfullur af berjum sem reyndar voru óvenjulengi að verða rauð, líklega vegna sólarleysis.

IMG_7299

IMG_7303Ljúf rifsber í dásamlega fallegri skál frá Cup Company

IMG_7304

Mig langaði að prófa að gera eitthvað annað úr rifsberjunum en hefðbundna rifsberjahlaupið. Ég bjó því til rifsberjaböku sem var æðislega góð, við mælum með henni!

IMG_7315

Uppskrift:

  • 200 g hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 110 g smjör, við stofuhita
  • 100 g sykur
  • 2 eggjarauður

Marengs:

  • 2 eggjahvítur
  • 100 g sykur
  • 2 tsk kartöflumjöl
  • 150 g rifsber

IMG_7295

Hveiti, lyftiduft, smjör, sykur og eggjarauður er hnoðað saman í vél eða höndum og geymt í ísskáp í um það bil 20-30 mínútur. Ofn hitaður í 165 gráður. Því næst er deigið flatt út með höndunum í smurt bökuform (eða lausbotna form) sem er ca. 24-26 cm. Gott er að pikka aðeins í deigið með gaffli. Bakað 25 mínútur við 165 gráður eða þar til bakan er orðin gullinbrún.

IMG_7306

Á meðan er marengsinn undirbúinn. Eggjahvítur, sykur og kartöflumjöl er þeytt saman þar til stífþeytt. Þá er rifsberjunum blandað varlega út í. Þegar botninn er tilbúinn er hann tekinn úr ofninum og ofninn hækkaður í 200 gráður. Marengsinum er dreift yfir botninn og bakað í ofninum við 200 gráður í ca. 8 mínútur eða þar til marengsinn hefur tekið fallegan lit. Gott er að fylgjast vel með eftir að ca. 5 mínútur eru liðnar. Borið fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.

RifsberjabakaRifsberjabakaRifsberjabaka

Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu


Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu

Í dag fengum við góða sænska gesti til okkar í mat. Ég veit ekki hvernig það er með ykkur en ég tek oft rispur þar sem ég býð upp á sama matréttinn í matarboðum í allmörg skipti – þar til að ég fæ nóg og sný mér að öðrum rétti! 🙂 Nú í sumar hafa þessir uppáhaldssréttir verið tveir fiskréttir héðan frá Eldhússögum. Annarsvegar er það ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu og hinsvegar sojamarineraður lax með mangó-avókadó salsa og smörsteiktu spínati. Þegar við fáum til okkar Svía í mat þá bjóðum við hér um bil alltaf upp á fisk. Almennt eru Svíar hrifnir af fiski en í Stokkhólmi er lítið um góðan fisk og Stokkhólmsbúar kunna því vel að meta góða fiskinn okkar. Að þessu sinni bauð ég upp á þorskinn en grillaði hann í stað þess að baka í ofninum.

IMG_6582

Ég bauð upp á eftirrétt sem ég gerði oft fyrir nokkrum árum en var búin að steingleyma þar til hann rifjaðist upp fyrir mér nýlega. Ég var að fletta uppskriftabók um daginn og sá þá mynd af svipuðum eftirrétti. Í framhaldinu rótaði ég í uppskriftablöðunum mínum og fann þá uppskriftina sem ég notaði alltaf – mikið var ég glöð því rétturinn er einn af mínum uppáhalds! Ég prófaði nýjung í dag. Ég útbjó smjördeigsböggul fyrir hvern og einn gest. Í upphaflegu uppskriftinni er smjördeiginu pússlað saman með því að leggja brúnirnar örlítið yfir hvor aðra og deigið flatt dálítið út, eldfast mót klætt að innan með smjördeiginu og fyllingunni hellt út í. En mér fannst mikið betra að útbúa svona böggla eins og ég gerði í dag, ég mæli með því. Ég notaði smjördeig sem ég keypti í Nettó (hafið þið kannski séð þessa tegund í annarri verslun?). Mér finnst þetta smjördeig eiginlega betra en Findus smjördeigið og það er talsvert ódýrara. Í pakkanum eru sex plötur (fimm hjá Findus) og þær eru bæði þynnri og stærri, það er mjög hentugt í þessari uppskrift. Ef þið notið plötur frá Findus í þessa uppskrift þá mæli ég með því að fletja þær örlítið út (muna að nota hveiti, annars klessast þær).

Uppskrift: TC bröd smjördeig

  • 1 pakki frosið smjördeig (ég notaði frá TC brød sem fæst í Nettó, það eru 6 plötur eða 450 g)
  • ca 700 g græn epli (ég notaði 4 stór epli)
  • 70 g smjör
  • 70 g hrásykur (má líka nota venjulegan sykur)
  • 70 g rjómakaramellur (ég notaði Werther’s Original)
  • 100 g pekan- eða valhnetur, saxaðar gróft
  • 1 lítið egg, slegið (má sleppa)

Smjördeigsplötunar látnar þiðna (þær þiðna á mjög skömmum tíma) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Ofninn hitaður i 210 gráður við undir- og yfirhita. Eplin eru afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í bita. Smjör, hrásykur og karamellur eru settar í pott og brætt við meðalhita, hrært í á meðan.

IMG_6579

Þegar karamellurnar eru bráðnaðar og sósan er orðin slétt er eplum og hnetum bætt út í. Á þessum tímapunkti hleypur sósan oft í kekki þar sem að eplin kæla sósuna. Látið ekki hugfallast heldur skerpið aðeins á hitanum og látið sósuna hitna aftur. Hrærið í blöndunni og smátt og smátt verður karamellusósan aftur mjúk. Þegar eplin og hneturnar eru öll þakin sósu er góður skammtur settur í miðjuna á hverri smjördeigsplötu.

IMG_6580

Ég reyndi að hafa ekki mikinn vökva með, til þess að deigið héldist stökkt, en gott er að geyma vökvann sem verður afgangs til að nota í lokin. Því næst eru hornin á hverri plötu tekin upp og lögð að miðjunni. Það er allt í lagi þó þau leggist ekki alveg að fyllingunni, það er bara fallegra að hafa bögglana aðeins opna. Smjördegið er þá smurt með eggi. Bakað í ofni við 210 gráður í um það 20-25 mínútur eða þar til smjördeigið er orðið fallega brúnt. Borið fram heitt með vanilluís eða rjóma. Karamelluvökvann, sem varð afgangs, er frábærlega gott að hita upp aftur og hella yfir eplin í hverjum böggli. Njótið!

IMG_6585