Rabarbara- og perubaka með stökkum hafrahjúpi


Rabarbara- og perubaka með stökkri mylsnu

Ég er afar veik fyrir pæjum eða bökum eins og þau kallast á íslensku. Svíar eru mikið bökufólk, það eru alltaf til góðar bökur á kaffihúsunum þar í landi, til dæmis eplabökur og hindberjabökur. Það tók mig nokkur ár að taka í sátt að Svíar bera alltaf fram vanillusósu með bökunum (og eplakökum) en núna finnst mér vanillusósan óskaplega góð – sem minnir mig á að ég þarf að setja inn hingað uppskrift af slíkri sósu! Ég hef sett inn hingað á síðuna nokkrar góðar bökuuppskriftir. Til dæmis þessa uppskrift af kryddaðri eplaböku með hnetum, hún er ákaflega einföld og dásamlega gómsæt:

Krydduð eplabakaKrydduð eplabaka 

Ef þið hafið ekki enn prófað Key lime bökuna þá eruð þið að missa af miklu, hún er hnossgæti!

Key lime bakaKey lime baka

Þessi epla- og hindberjabaka er mjög fljótleg og yndislega góð.

Epla- og hindberjabaka

Epla- og hindberjabaka

Banana-karamellubakan er ein af mínum uppáhalds, ég mæli sannarlega með þessari dásemd

Banana-karamellukaka

Banana-karamellubaka

Að síðustu verð ég að nefna góðu berjabökuna hennar Jóhönnu Ingu, hún er ljúfmeti!Berjabaka

Berjabaka

Að þessu sinni ætla ég að setja inn uppskrift af feykigóðri rabarbaraböku með perum. Mér finnst voðalega gott að setja eitthvað sætt með í rabarbarabökurnar, það gefur svo gott jafnvægi við súran rabarbarann. Stundum set ég hindber með en að þessu sinni notaði ég perur, það kom ofsalega vel út. Ef þið eruð hrifin af hvítu súkkulaði þá er sannarlega ekki verra að strá yfir rabarbarabökuna dálítið af hvítum súkkulaðidropum. Hafrahjúpurinn ofan á bökunni er meðal annars með púðursykri og sírópi sem gefur henni stökka áferð og karamellukennt bragð – ljúffengt!

IMG_1944

Uppskrift:

 • 500 g rabarbari, skorinn í bita
 • 2 stórar perur, afhýddar og skornar í bita
 • 1 msk kartöflumjöl
 • 1 dl sykur + 1 msk
 • 1 dl púðursykur
 • 2 dl haframjöl
 • 2 dl hveiti
 • 1/2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk vanillusykur
 • 1/2 dl ljóst síróp
 • 125 g smjör
 • 1/2 dl rjómi

Ofninn er stilltur á 150 gráður undir- og yfirhita. Rabarbaranum og perunum er dreift í smurt form og 1 msk af sykri og kartöflumjöli er stráð yfir. Smjörið er brætt í potti ásamt rjómanum. Þurrefnunum er blandað saman í skál ásamt sírópinu og brædda smjörinu og rjómanum er svo hrært út í. Blöndunni er því næst dreift jafnt yfir rabarbarann og perurnar. Bakað í ofni við 150 gráður í ca. 40 – 50 mínútur. Bakan er borin fram heit með þeyttum rjóma eða ís.

IMG_1948

Pönnuköku-souffle


Pönnuköku-souffle

Dagurinn í gær var mikill gleðidagur frá upphafi til enda. Okkur fjölskyldunni bárust frábærar fréttir um miðjan dag sem við erum enn að gleðjast yfir. Um kvöldið hringdi svo Elfar frá Svíþjóð en hann var þar í átta daga vinnuferð og átti ekki að koma heim fyrr en eftir helgi … hélt ég! En á meðan ég var að tala við hann í símann kom hann gangandi inn um útidyrnar með rós handa mér! 🙂 Hann hafði þá breytt ferðinni til að geta eytt helginni með fjölskyldunni, okkur öllum til mikillar gleði. Hann gat því farið með Ósk og sænsku vinkonu hennar, Helenu, í skemmtilega göngu í Reykjadal í dag. Þar fóru þau í náttúrulaug sem stelpunum fannst alveg magnað. Dagurinn byrjaði því með staðgóðum ,,brunch“ áður en lagt var af stað í gönguna.

IMG_9186

Í glasinu er skyrboostið góða og á disknum er eggjakakan mín sem ég fæ aldrei leið á. Reyndar var ekkert brokkolí í henni í dag, þess í stað var appelsínugul paprika auk sveppa og rifins cheddar osts. Á disknum er líka alfalfa spírur sem mér finnst svo góðar. Þær eru rosalega góðar í salat og ég nota þær líka mikið ofan á brauð. Þessar voru sérstaklega góðar, lífrænt ræktaðar og fengust í Nettó.

Í dag prófaði ég nýja útfærslu á pönnukökum sem mér fannst alveg ótrúlega skemmtileg og sjúklega góð! Pönnuköku-souffle! Finnst ykkur þetta ekki lokkandi hugtak?? 🙂 Það var svo gaman og gott að borða þessar pönnukökufrauð! Ég borðaði mitt heitt og dásamlega gott með þeyttum rjóma og hindberjasultu. Ótrúlega ljúffengt og gaman að borða eitthvað sem bragðast eins og pönnukaka en er létt og lokkandi eins og frauð. Það var afar einfalt að baka þessi pönnukökufrauð, ég bakaði þau í nákvæmlega 15 mínútur og þá voru þau fullkomlega bökuð. Ég hvet ykkur til að prófa þetta hnossgæti! 🙂

IMG_9197

Uppskrift í fjögur souffle-form:

 • 50 g smjör
 • 2 egg
 • 1,5 msk sykur
 • 0,5 dl rjómi
 • 0,75 dl mjólk
 • 1,5 dl hveiti
 • 0,5 tsk lyftiduft

IMG_9189

Ofninn er stilltur á 200 gráður við undir- og yfirhita. Fjögur souffle-form eru smurð með smjöri. Eggin eru aðskilin og eggjahvítan stífþeytt og látin bíða í ísskáp. Smjörið er brætt í potti á meðan eggjarauðurnar og sykurinn er þeytt saman. Því næst er mjólkinni, rjómanum og brædda smjörinu bætt út í eggjarauðurnar og sykurinn. Þá er hveitið og lyftiduftið sigtað og bætt út í. Að lokum er blöndunni blandað varlega saman við þeyttu eggjahvíturnar með sleikju. Deiginu er skipt í souffle-formin fjögur og þau bökuð fremur neðarlega í ofni við 200 gráður (undir- og yfirhita) í 15 mínútur. Borið strax fram með þeyttum rjóma og sultu.

IMG_9205Mér fannst þetta dásamlega gott, vona að þið séuð á sama máli! 🙂

IMG_9206

Pecanböku-ostakaka


IMG_7826Vinur okkar hjóna kom í mat til okkar í vikunni. Hann er mikill matgæðingur og góður kokkur, ég gat því ekki boðið honum upp á neitt slor! 😉 Ég hafði í aðalrétt ofnbakaða þorskinn með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu. Þetta er orðinn svona „my go to“ réttur þegar mig langar að bjóða upp á gómsætan aðalrétt í matarboðum. Ég er búin að skoða svo margar góðar uppskriftir af eftirréttum undanfarið að ég var í dálitlum vandræðum með hvað ég ætti að velja. Og þó – ég var langspenntust fyrir þessari köku! Þeir sem hafa smakkað pecanpæ og bakaða ostaköku þurfa ekki að spyrja hvers vegna! Það er greinilega eitthvað þema hjá mér að blanda saman ostakökum við aðrar kökur samanber brownie-ostakökuna sem ég er með uppskrift af hér. En að þessu sinni er  pekanböku blandað saman við ostaköku sem er þvílíka snilldin! Þetta er algjört sælgæti sem er skemmtilegt að baka og enn skemmtilegra að borða!

IMG_7771

Uppskrift:

Botn:

 • 300 g Digestive kex
 • 150 g smjör
Pecanböku-fylling:
  • 200 g sykur
  • 200 g síróp
  • 80 g smjör, brætt
  • 2 egg
  • 150 g pecan-hnetur, saxaðar gróft
  • 1 tsk vanillusykur
Ostakaka:
 •  600 g rjómaostur
 • 130 g púðursykur
 • 2 msk hveiti
 • 4 egg
 • 150 ml rjómi
 • 1 tsk vanillusykur

Ofninn stilltur á 180 gráður undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna á meðan pecanböku-fyllingin er búin til.

Öllum hráefnunum fyrir pecanböku-fyllinguna blandað saman í pott og látið ná suðu. Látið blönduna malla á meðalhita þar til hún hefur þykknað. Hrært í stöðugt á meðan, þetta tekur 8-10 mínútur. Blöndunni er hellt yfir kexbotninn. Þá er ostaköku blandan útbúin.

IMG_7781

Rjómaostur hrærður í hrærivél eða með rafmagnsþeytara á meðalhraða þar til hann er orðin mjúkur. Þá er púðursykri og hveiti bætt út í þar til blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við einu og einu í senn og þeytt vel, en þó ekki of lengi. Að síðustu er rjómanum og vanillusykrunum bætt út í og hrært á meðan. Þá er ostakökublöndunni hellt yfir pecanbökuna. Bakað í miðjum ofni við 180 gráður í klukkustund. Þá er slökkt á ofninum og kökunni leyft að bíða í ofninum í klukkustund í viðbót. Þá er kakan kæld í minnst 4 tíma áður en hún er borin fram.

IMG_7815

Epla- og hindberjabaka


IMG_7602Ég er svo hrifin af pæjum eða bökum, þó sérstaklega og aðallega eplabökum. Mér finnst líka hindber sjúklega góð, ég er því búin að horfa lengi á þessa uppskrift og ætla að prófa hana. Þessi baka var ofsalega góð og krökkunum fannst hún himnesk! Svona bökur eru svo þægilegar að gera, þær eru fljótlegar og oftast á maður allt hráefnið til. Ég mæli með þessari fyrir bóndann á morgun! 🙂

Uppskrift:

 • 100 g smjör, skorið í teninga
 • 100 g muscovadosykur eða púðursykur
 • 75 g haframjöl
 • 100 g pecan hnetur, saxaðar smátt
 • 1 tsk vanillusykur
 • ½ tsk kanill

IMG_7599

Fylling:

 • 4-5 epli, afhýdd og skorin í litla jafnstóra teninga
 • ca 2 dl hindber (hægt að nota fryst hindber sem hafa verið afþýdd)
 • Safi úr 1/4-1/2 sítrónu

Eplin eru sett í bökuform ásamt hindberjunum og sítrónusafanum dreift yfir. Þá er restinni af hráefnunum blandað saman í höndunum og dreift yfir eplin og hindberin. „Crumble“-ið (hvað kallast það á íslensku??) er hægt að gera með góðum fyrirvara og geyma í ísskáp. Bakan er bökuð í miðjum ofni við 180 gráður í 20-25 mínútur. Borið fram heitt með þeyttum rjóma eða vanilluís.

IMG_7603

Key lime baka


IMG_7288Í dag er stóra stelpan okkar 19 ára! Tíminn líður svo ótrúlega hratt, það hljómar eins og klisja en er þó svo satt. Maður er svo önnum kafin við uppeldið þegar börnin eru lítil að tíminn líður án þess að eftir því sé tekið. Skyndilega einn daginn eru litlu börnin horfin og í staðinn komnar fullorðnar manneskjur! Ótrúlegt og dásamlegt en kannski örlítið tregafullt líka! 🙂

Að vanda fær afmælisbarnið á heimilinu að velja uppáhaldsmatinn sinn, að auki er boðið upp á köku, pakka og afmælissöng. Það kom mér ekki á óvart að Ósk valdi sushi í afmælismatinn.

IMG_7224Það kom mér heldur ekki á óvart að hana langaði hvorki í köku né eftirrétt, hún er ekkert hrifin af sætmeti. Algjör synd því mér finnst skemmtilegast að búa til eftirrétti og baka kökur! Ég lét það þó ekki á mig fá og notaði tækifærið að búa til böku sem ég er búin að horfa til lengi. Þó svo að afmælisbarnið vildi ekki böku þá komu amman og afinn í heimsókn og nutu góðs af henni með okkur fjölskyldunni. Og það má með sanni segja að þessi baka hafi slegið í gegn! Að vísu fannst yngstu krökkunum hún ekkert sérstök en okkur hinum fannst hún svo afskaplega ljúffeng, hún fór til dæmis strax á topp fimm kökulistann hjá Alexander. Þið verðið að prófa þessa dásemd!

IMG_7258

Þessi baka kemur líka úr uppskriftabók Hummingbird bakaríisins eins og ostakökubrownie kakan. „Key lime pie“ er bandarískur eftirréttur gerður úr limesafa, eggjarauðum og niðursoðinni sætmjólk. Ofan á bökuna er settur þeyttur rjómi en upprunalega var sett þeytt eggjahvíta ofan á bökuna, sem sagt marengs. Nafnið er dregið af Keys í Florída eftir límónunum (lime) sem vaxa þar. Þær eru talsvert minni (þarf að nota ca 12 á móti 4 venjulegum) og beiskari en þessar hefðbundnu límónur sem við þekkjum. Key límónurnar hafa einstaka sinnum verið til í Hagkaup. Í þessari uppskrift er gert ráð fyrir hefðbundnum límónum. Ég er ekkert mikið fyrir rétti með miklum sítrusi en þessa böku á ég klárlega eftir að búa til aftur, hún er dásamlega fersk og góð. Kjörin eftirréttur til dæmis eftir þunga máltíð. Næst er ég spennt fyrir því að prófa hana með marengs þó svo að þeytti rjóminn passi líka afar vel við bökuna.

sætmjólkVarðandi sætu niðursoðnu mjólkina þá fæst hún í Kosti, Melabúðinni, búðum sem selja asískar vörur og stundum í Hagkaup. Hafið þið kannski séð hana í fleiri búðum? Þegar ég fór í Kost síðast fann ég ekki þessa sætu mjólk og þurfti að spyrja um hana. Þá var hún falin einhverstaðar á bakvið. Stúlkan sagði að þeir mættu í raun ekki lengur selja hana. Mér skilst að þetta snúist um hvernig þessi mjólk er tolluð. Ég keypti allavega nokkuð margar dósir, það er svo mikið af skemmtilegum réttum sem hægt er að nota þessa sætu niðursoðnu mjólk í. Ég tala nú ekki um að búa til gómsæta karamellusósu úr henni!

Nýjasta græjan í eldhúsinu kom sér vel við eftirréttagerðina í dag. Inga frænka gaf okkur þetta Microplane úr Kokku í jólagjöf, alveg magnað áhald við til dæmis rif á sítrónum og límónum. Mæli sannarlega með því!

IMG_7201

Sushi kvöldsins kom frá Tokyo sushi, við erum mjög hrifin af því, frábært sushi á mjög góðu verði.

IMG_7223

En þá að uppskriftinni af þessari ljúffengu límónuböku!IMG_7257Uppskrift Key Lime baka:

Botn:
400 g Digestive kex (1 pakki)
200 g brætt smjör

Fylling:
8 eggjarauður
1 dós sæt niðursoðin mjólk (condensed milk)
safi af 4 límónum (lime)
4 dl rjómi, þeyttur

Ofninn stilltur á 175 gráður, undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við brædda smjörið. Blandan sett í bökunarform með lausum botni eða bökuform og henni þrýst i í botninn og upp í hliðarnar á forminu. Bakað í ofni í ca. 20 mínútur. Þá er bökubotninn kældur. Þar sem mér liggur alltaf á setti ég hann út í smástund þar til hann var orðin nægilega kaldur til að fara í ísskáp. Botninn þarf að vera alveg kaldur þegar fyllingin er sett á hann.
Ofninn lækkaður í 150 gráður. Athugið, þegar fyllingin er blönduð saman á að nota venjulegan þeytara ekki rafmagnsþeytara eða hrærivél. Eggjarauðum, niðursoðnu sætu mjólkinni og safanum frá límónunum (lime) blandað saman í skál og þeytt með handafli í smá stund þar til blandan þykkist örlítið. Þá er fyllingunni hellt ofan á kaldan botninn og bakað í ofni í 20-35 mínútur (ég bakaði bökuna í 25 mínútur). Kælt í ísskáp í minnst klukkutíma, helst lengur. Áður en bakan er borin á borð er þeytti rjóminn settur yfir bökuna (ég notaði rjómasprautu), gjarnan skreytt með dálítlum fínrifnum límonuberki. Njótið! 🙂

IMG_7281

Krydduð eplabaka


Mér finnst eiginlega allt gott sem er með eplum eða eplabragði. Samt er ég ekkert sérstaklega hrifin af eintómum eplum, mér finnst ég nefnilega alltaf fá svengdartilfinningu eftir að hafa borðað epli! En ég slepp alveg við svoleiðis vandamál eftir að hafa borðað þessa eplaböku! 😉 Það sem er sérlega ljúffengt við hana er að hún er með bragðgóðum kryddum eins og kanel og engifer. Svo eru í henni heslihnetur sem gera bökuna enn betri. Ég tók þessa með mér í saumaklúbb og stelpunum fannst hún voða góð. Annars eru þær nú svo sætar í sér að þær myndu auðvitað aldrei segja neitt annað! Jóhanna Inga deilir ást minni á eplabakelsi og lá á bæn að ég myndi koma heim með afgang. Það var það fyrsta sem hún spurði um þegar hún vaknaði daginn eftir og var ekkert lítið glöð að heyra að ég hefði geymt smá skammt fyrir hana. Þetta er afar fljótleg baka og auðvelt að búa hana til á meðan kvöldmaturinn er eldaður og bera hana fram heita og ljúffenga með ís eða þeyttum rjóma í eftirrétt!

Uppskrift

 • 4 epli
 • 1/2 dl sykur
 • 1 tsk kanill
 • 1 tsk engifer
 • 1/2 tsk múskat

Deig:

 • 150 gr kalt smjör
 • 1 dl heslihnetur, grófsaxaðar
 • 3 dl hveiti
 • 1/2 dl sykur
 • Þeyttur rjómi eða ís

Aðferð:

Ofninn stilltur á 225 gráður. Smjörið skorið niður í litla bita og blandað við hveiti, sykur og heslihnetur. Best að nota hendurnar til að mylja þetta saman, þannig úr verður eins konar mulningur. Epli afhýdd og rifinn gróft. Sykri og kryddum blandað við rifnu eplin. Eplablandan sett í eldfast smurt mót (ég notaði bökuform sem er ca. 23 cm) og deiginu dreift yfir. Bakað við 225 gráður í ca. 20 mínútur. Borið fram heitt með þeyttum rjóma eða ís.

Ananasbaka


Ég hef séð sömu uppskriftina af ananasböku bregða fyrir á nokkrum sænskum matarbloggum og uppskriftasíðum. Alls staðar fær þessi uppskrift þvílíkt góða dóma og hrós hjá þeim sem hafa prófað. Ég verð nú að viðurkenna að þegar ég las hvað væri uppskriftinni þá var ég ekkert of spennt. Í henni eru afar fá hráefni og aðaluppistaðan er ananas úr dós! Gæti þetta mögulega verið gott? Ég tók áhættuna og lagaði þessa böku í eftirrétt um daginn þegar ég var með sænska gesti í heimsókn. Ég hugsaði sem svo að ég væri örugg með ljúffenga sashimi forréttinn (sem ég fæ ekki nóg af!) og svo ofnbakaða þorskinn með pístasíusalsa í aðalrétt. Ég gæti því vel tekið áhættu með eftirréttinn. Þetta er mögulega fljótlegasti eftirrétturinn sem ég hef nokkurn tímann búið til! Ég held að ég hafi örugglega verið innan við 10 mínútur að útbúa þessa böku fyrir ofninn. Þegar bakan kom út úr ofninum fannst mér hún líta afar óspennandi út og var viss um að hún væri ekki góð. En ég verð að viðurkenna að þessi ananasbaka kom verulega á óvart! Hún var afar ljúffeng, sérstaklega með vanilluís. Gestirnir voru mjög hrifnir en þau eru hins vegar einstaklega kurteist fólk og hefðu örugglega aldrei sagt neitt annað! En þessi baka er að mínu mati afskaplega fljótgerð, verulega ódýr og afar gómsæt! 🙂

Uppskrift:

Bökudeig:

150 gr smjör
1 dl sykur
1 tsk lyftiduft
3- 3 1/2 dl hveiti

Fylling:

ca 400 gr maukaður ananas (sigtaður þannig að vökvinn renni af)
1 dós sýrður rjómi ( 34 %)
1 egg
3/4 dl sykur
1.5 msk vanillusykur
1 dl kókosmjöl (má sleppa)

Aðferð:

Ofninn er stilltur á 175 gráður. Hráefnið í bökubotninn er blandað saman í matvinnsluvél þar til það verður að deigi (það er í lagi þótt það sé laust í sér) og síðan er deiginu þrýst vel í botninn á bökuformi (ca. 22-24 cm, líka hægt að nota lausbotna kökuform). Ef þið eigið ekki matvinnsluvél er hægt að skera smjörið í litla bita og vinna deigið saman í höndunum.
Hráefnunum í fyllinguna er blandað saman og hellt yfir bökubotninn. Bakað í ofni við 175 gráður í 25-30 mínútur. Borið fram volgt eða kalt með vanilluís eða rjóma (mér fannst bakan best köld og með ís!)

Kjúklingabaka


Um daginn þegar við héldum fjölskylduafmæli fyrir hana Jóhönnu okkar á þá gerði ég þessa böku fyrir veisluna. Mér finnst hún voða góð og bakan er líka skemmtileg tilbreyting frá þessum hefðbundnu heitu brauðréttum. Það er ekkert flóknara að gera bökuna en að gera heitan brauðrétt. Ég notaði kjúklingabringur en það er líka hægt að kaupa tilbúinn heilan kjúkling og rífa hann niður. Smjördeigið sem ég nota er frá Findus, það er frosið en þiðnar fljótt. Degið er í fimm plötum, þeim er raðað þannig að brúnirnar leggjast örlítið ofan á hvor aðra og síðan flatt út með kökukefli. Það er ekkert mál að fletja smjördeigið út en það verður að hafa dálítið hveiti, bæði undir og ofan á deiginu, annars klessist það. Þessa böku er sniðugt að bera fram í veislum en það er líka hægt að nota hana sem aðalrétt og bera þá fram með henni gott salat.

Uppskrift:

 • 500 g smjördeig
 • 300 g sveppir
 • salt og pipar
 • kjúklingakrydd
 • 1 stk. rauð paprika
 • 300 g kjúklingur, steiktur
 • 200 g goudaostur
 • 50 g fetaostur í kryddlegi
 • 1 dós sýrður rjómi

Hitið ofn í 200 gráður. Fletjið smjördeigið út og setjið í eldfast form. Sneiðið sveppina niður og steikið þá upp úr smjöri á pönnu. Kryddið með salti, pipar og góðu kjúklingakryddi. Skerið paprikuna niður í teninga, bætið henni út á pönnuna og hitið með í restina. Rífið steiktan kjúkling niður og blandið honum saman við ásamt goudaosti og fetaosti. Kælið áður en sýrða rjómanum er hrært saman við. Hellið blöndunni yfir smjördeigið í forminu, bakið við 200°C í um 25 mín, eða þar til brúnirnar á smjördeiginu hafa tekið góðan lit.

Tacobaka


Ég er alltaf á höttunum eftir góðum nautahakksuppskriftum. Nautahakk er fremur ódýrt hráefni, það er fljótlegt í matreiðslu og það er hægt að gera úr því margskonar ólíka matrétti. Í gærkvöldi bjó ég til tacoböku sem var býsna góð. Uppskriftina fann ég á sænskri uppskriftasíðu. Ég reyndar breytti henni töluvert, bætti meðal annars við maís, papriku, kotasælu og lauk ásamt því að gera fleiri breytingar. Í uppskriftinni er jalapeños sem er sterkt en mér finnst það afar gott í þennan rétt. En það þarf að kannski að minnka magnið talsvert ef börn borða réttinn, þeim líkar sjaldan sterkur matur. Það er líka sniðugt að setja ekki jalapeños í hakkið heldur raða því ofan á réttinn ásamt tómötum, þá er hægt að skilja eftir horn fyrir börnin án jalapeños.

Uppskrift f. 4

Deig:

 • 2 ½ dl hveiti
 • 125 gr smjör, kalt
 • 2-3 msk kalt vatn

Smjöri og hveiti blandað saman, gott að gera það í matvinnsluvél eða með tveimur göfflum, þar til það er orðið eins og gróft mjöl. Bætið þá vatninu saman við deigið og hnoðið. Fletjið út deigið milli smjörpappírs og setjið það svo í bökuform (eða eldfast mót). Kælið deigið í ísskáp í 30 mínútur (til þess að það dragist ekki saman við baksturinn). Bakið svo við 225 gráður í 10 mínútur.

Tacofylling:

 • 700 gr nautahakk
 • 1 bréf tacokrydd
 • 200 gr kotasæla
 • 1 rauð paprika, skorin í bita
 • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
 • 2 dl maísbaunir
 • 1 dós sýrður rjómi með hvítlauk
 • 2 niðurskornir tómatar
 • jalapeños eftir smekk
 • rifinn ostur

Steikið lauk og papriku á pönnu. Bætið við hakki og þegar það er gegnumsteikt er tacokryddi bætt við ásamt maísbaunum, kotasælu og jalapeños. Látið malla á lágum hita, hrærið í blöndunni öðru hverju. Hellið nautahakkinu í bökuformið. Breiðið ofan á hakkið sýrða rjómanum, leggið tómatsneiðar yfir sýrða rjómann (og jalapeños ef maður kýs þar frekar að dreifa því yfir réttinn fremur en að setja það í hakkið). Að lokum er rifnum osti dreift yfir réttinn. Bakið í ofni við 225 gráður í 10-15 mínútur eða þar til osturinn hefur fengið fallegan lit.

Berið fram með guacamole, sýrðum rjóma, tómatsalsa og salati.

Baka með sætum kartöflum


Sætar kartöflur eru í raun alls óskyldar venjulegum kartöflum. Þær eru upprunnar frá Suður Ameríku og hafa verið ræktaðar í nokkur þúsund ár. Þær eru stútfullar af C- og E-vítamíni auk beta-karótíns og eru þar með ríkar af andoxunarefnum. Að auki hafa sætar kartöflur lágan blóðsykurstuðul. En síðast en ekki síst eru þær afar bragðgóðar og það er hægt að matreiða þær á margvíslegan hátt. Þessi ljúffenga sætukartöflubaka er það matarmikil að hana er hægt að flokka sem grænmetisrétt og hún passar afar vel sem aðalréttur með góðu salati. En við fyrsta bita þá hugsaði ég samt strax um kalkún! Auðvitað fara sætar karöflur og kalkúnn saman eins og hönd í hanska og þó svo að rétturinn sé á mörkunum að vera of matarmikill til að hægt sé að flokka hann sem meðlæti þá ætla ég samt að prófa hann með kalkún við fyrsta tækifæri. Það tækifæri kemur reyndar fyrr en varir þar sem Elfar og kollegar ásamt mökum halda kalkúnaboð árlega og í ár verður boðið hjá okkur. Þó enn séu rúmir tveir mánuðir í boðið er ég strax farin að skipuleggja í huganum forrétt, meðlæti og eftirétti! 🙂

Uppskrift:

 • 2-3 sætar kartöflur
 • 1 pakki smjördeig, afþýtt
 • 200 gr sýrður rjómi
 • 1 egg
 • 1 eggjarauða
 • 1/2 tsk salt
 • 1 krukka fetaostur
 • 2-3 msk salatblanda (hnetu- og fræblanda)
 • nýmalaður pipar
 • 4 msk parmesanostur, rifinn
 • 2 msk olía

Hitið ofninn í 200 gráður. Pakkið sætu kartöflunum í álpappír og bakið þær í 40 mínútur eða þar til þær eru næstum bakaðar í gegn. Þar sem ég er óþolinmóð og alltaf í tímaþröng þá skar ég hverja kartöflu í ca. þrjá bita og bakaði þær þannig, þá gat ég stytt bökunartímann. Ef þið notið Findus smjördeig, 5 plötur, þá eru þær afþýddar, lagðar á hveitstráð borð og samskeytin lögð ofan á hvert annað. Deigið er svo flatt út dálítið þannig að það passi í eldfast mót. Fóðrið botn og hliðar á eldfasta mótinu (20×30 cm) með smjördeiginu, látið 3 cm deigkant vera allan hringinn. Blandið sýrðum rjóma, eggi, eggjarauðu og salti saman. Smyrjið blönduna yfir deigið. Afhýðið kartöflurnar, skerið í bita og setjið ofan á blönduna. Sigtið olíuna frá fetaostinum og dreifið honum yfir kartöflurnar. Sáldrið salatblöndu, nýmöldum pipar og parmesanosti ofan á. Penslið deigkantana með olíu. Bakið í um það bil 25 mínútur eða þar til deigið er orðið gullið. Berið fram með góðu salati.