Ananasbaka


Ég hef séð sömu uppskriftina af ananasböku bregða fyrir á nokkrum sænskum matarbloggum og uppskriftasíðum. Alls staðar fær þessi uppskrift þvílíkt góða dóma og hrós hjá þeim sem hafa prófað. Ég verð nú að viðurkenna að þegar ég las hvað væri uppskriftinni þá var ég ekkert of spennt. Í henni eru afar fá hráefni og aðaluppistaðan er ananas úr dós! Gæti þetta mögulega verið gott? Ég tók áhættuna og lagaði þessa böku í eftirrétt um daginn þegar ég var með sænska gesti í heimsókn. Ég hugsaði sem svo að ég væri örugg með ljúffenga sashimi forréttinn (sem ég fæ ekki nóg af!) og svo ofnbakaða þorskinn með pístasíusalsa í aðalrétt. Ég gæti því vel tekið áhættu með eftirréttinn. Þetta er mögulega fljótlegasti eftirrétturinn sem ég hef nokkurn tímann búið til! Ég held að ég hafi örugglega verið innan við 10 mínútur að útbúa þessa böku fyrir ofninn. Þegar bakan kom út úr ofninum fannst mér hún líta afar óspennandi út og var viss um að hún væri ekki góð. En ég verð að viðurkenna að þessi ananasbaka kom verulega á óvart! Hún var afar ljúffeng, sérstaklega með vanilluís. Gestirnir voru mjög hrifnir en þau eru hins vegar einstaklega kurteist fólk og hefðu örugglega aldrei sagt neitt annað! En þessi baka er að mínu mati afskaplega fljótgerð, verulega ódýr og afar gómsæt! 🙂

Uppskrift:

Bökudeig:

150 gr smjör
1 dl sykur
1 tsk lyftiduft
3- 3 1/2 dl hveiti

Fylling:

ca 400 gr maukaður ananas (sigtaður þannig að vökvinn renni af)
1 dós sýrður rjómi ( 34 %)
1 egg
3/4 dl sykur
1.5 msk vanillusykur
1 dl kókosmjöl (má sleppa)

Aðferð:

Ofninn er stilltur á 175 gráður. Hráefnið í bökubotninn er blandað saman í matvinnsluvél þar til það verður að deigi (það er í lagi þótt það sé laust í sér) og síðan er deiginu þrýst vel í botninn á bökuformi (ca. 22-24 cm, líka hægt að nota lausbotna kökuform). Ef þið eigið ekki matvinnsluvél er hægt að skera smjörið í litla bita og vinna deigið saman í höndunum.
Hráefnunum í fyllinguna er blandað saman og hellt yfir bökubotninn. Bakað í ofni við 175 gráður í 25-30 mínútur. Borið fram volgt eða kalt með vanilluís eða rjóma (mér fannst bakan best köld og með ís!)

Ein hugrenning um “Ananasbaka

  1. Bakvísun: Ananasbaka | Hun.is

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.