Jæja, þá er maður bara farinn að slá um sig með frönskum titlum! Boeuf bourguignon er þekktur franskur kjötréttur. Boeuf þýðir nautakjöt en bourguignon er héraðið Búrgúnd í Frakklandi og vísar til þess að kjötið er soðið í Búrgúnd rauðvíni. Mig hefur langað til að elda gúllas um tíma, það er líklega haustið sem hefur þessi áhrif. Þegar ég fór að skoða uppskriftir af gúllasi datt ég hvað eftir annað niður á uppskriftir af Boeuf bourguignon og varð að prófa. Gúllas er í raun allt annar réttur. Þá er átt við ungverskt gúllas sem í er meðal annars kartöflur, laukur og paprikukrydd. En orðið gúllas er hins vegar almennt notað hérlendis yfir alla pottrétti sem innihalda nautakjöti í bitum. Þetta er einfaldur réttur að útbúa og fljótgerður, þá meina ég að koma kjötréttinum í pottinn. Hins vegar þarf rétturinn að malla í allavega tvo tíma. Þetta er því upplagður réttur til að laga á laugardegi. Byrja snemma í eldhúsinu, kveikja á kertum, opna rauðvín og sötra þær dreggjar sem ekki fara í pottinn, á meðan beðið er eftir að ljúffengur kjötrétturinn verði tilbúinn. Þessi eldunaraðferð gerir kjötið ákaflega meyrt og gott. Já sko, að elda kjötið svona lengi meina ég, ekki að drekka rauðvín á meðan … þó hjálpar það örugglega líka! 🙂 Þó svo að strangt til tekið eigi að nota Búrgúnd rauðvín þá notaði ég nú bara það rauðvín sem við áttum hér heima. Það þarf ekki að óttast að sósan verði eitthvað áfeng, allt áfengið gufar upp á meðan kjötrétturinn mallar í þessa tvo tíma, eftir stendur bara ákaflega bragðgóð sósa! Með réttinum bjó ég til kartöflumús, ég elska kartöflumús! Ég geri hana á mjög hefðbundinn hátt, stappa kartöflurnar, bæti við mjólk, sykri, salti og smá pipar. Til hátíðarbrigða bæti ég stundum við smá rjómaosti. Að auki bjó ég til afar einfalt og gott hrásalat, mér finnst það passa mikið betur með svona rétti heldur en ferskt salat, uppskriftin fylgir hér að neðan.
Uppskrift f ca. 6:
- 1.5 kg. nautakjöt, t.d. gúllas
- 1 bréf beikon
- 2 laukar, saxaðir smátt
- 250 gr sveppir, skornir í fjórðunga
- 5-6 dl rauðvín
- 4 msk tómatpúrra
- 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
- ca 3 msk smjör til steikingar
- 3 msk hveiti
- 1 tsk kjötkraftur
- 1 msk salt
- 1 tsk timjan (þurrkað eða ferskt)
- 1 tsk steinselja (þurrkuð eða fersk)
- 1 tsk grófmalaður hvítur pipar
- 1/2 dl rauðvínsedik
Beikonið er steikt, umfram fita þerruð af því og það skorið í bita. Pannan er ekki þvegin! Annar laukurinn (fínsaxaður) ásamt rauðvínsedik og pipar látið malla í stórum potti. Smjöri er bætt við á pönnuna sem beikonið var steikt á og kjötið brúnað. Síðan er kjötið fært yfir í pottinn (ásamt steikarvökvanum af pönnunni) og hveitinu sáldrað yfir kjötið. Tómatpúrru, hvítlauk, timjan, steinselju, kjötkrafti og salti bætt út í. Rauðvíninu er svo hellt út í. Lok sett á pottinn og kjötið látið malla í ca. tvo tíma.
- 1/4 hvítkálshaus
- 1/2 dós sýrður rjómi
- ca 200-300 gr maukaður ananas í dós (án vökvans)
/>
hæ þetta lítur vel út, hef einmitt líka langað að gera gott gúllas. En hvað gefur þú upp fyrir ca marga?
Sæl! Þetta magn dugði rúmlega fyrir 5 fullorðna og 1 barn.
Þetta var stóóókostlega góður matur. Vááá, við vorum reyndar bara með 500 gr gullas og eg timdi ekki rauðvini en það kom ekki að sök….
Æðislegt að heyra Þórunn! 🙂
Jeminn eini! Besti matur sem ég hef nokkurn tíman eldað. Allir matargestirnir sammála 🙂 Búin að mæla með réttinum við alla sem vilja heyra 😀
Vá það það gleður mig að heyra Unnur, kærar þakkir fyrir kveðjuna! 🙂