- 600 nautakjöt í bitum (ég notaði nautagúllas, líka hægt að nota lambakjöt)
- 4 msk olía
- 2 laukar, saxaðir smátt
- 3 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
- 2 msk rifið ferskt engifer
- 5 lárviðarlauf
- 3 msk currypaste (rautt), gott samt að prófa sig áfram með magnið, 3 msk gera réttinn sterkan)
- 1,5 msk garam masala
- 3 msk tómatpúrra
- 2 msk mango chutney
- 2-3 dl vatn (líka gott að nota helming vatn og helming rjóma)
- 1-2 grænar paprikur, skornar í strimla
- 2-3 tómatar, skornir í bita
Greinasafn fyrir merki: gúllas uppskrift
Asískur pottréttur með grilluðum ananas og sweet chili-jógúrtsósu
Það er nú meiri snilldin að það sé „aftur“ komin helgi eftir bara einn vinnudag! Sérstaklega er ljúft að eiginmaðurinn á líka fríhelgi en þær eru ekki á hverju strái. Í dag fórum við á vortónleika hjá börnunum, í hjólaferð og svo bökuðum við mæðgurnar. Eins og venjulega þegar Jóhanna Inga fær að ráða þá er bökuð eplakaka en hún fær aldrei nóg af eplakökum í allskonar útfærslum. Þó hún sé bara átta ára þá er hún farin að baka hér um bil sjálfstætt og hefur afar gaman af. Í sumar mun hún fara á matreiðslunámskeið sem hún fór á í fyrra líka, hún hlakkar mjög mikið til.
Ég ákvað að elda eitthvað í kvöld úr gúllasinu sem ég fékk þegar ég keypti nautakjötið frá Mýranauti. Einhvern veginn þá vill það kjöt oft verða það sem ég nýti síst. Mig langaði að búa til eitthvað rosalega gott og lagðist yfir uppskriftabækur og netuppskriftir. Ég endaði á því að nýta hugmyndir héðan og þaðan, breyta og bæta. Og vá hvað maturinn varð góður! Meðlætið var frekar óvenjulegt og passaði ákaflega vel saman. Jógúrtsósan er alveg hreint dásamlega góð og ég mun pottþétt gera hana aftur sem allra fyrst! Mest á óvart kom ananasinn! Ég kryddaði hann með cajunkryddi og grillaði. Þetta var himneskt meðlæti með réttinum og sósunni góðu. Það var nú svolítið fyndið að ég ætlaði að krydda ananasinn með karrí en greip óvart cajun kryddið. Hins vegar þá kom það ofsalega vel út, ég mun örugglega halda mig við cajunkryddið þegar ég geri ananasinn aftur! 🙂 En við kolféllum sem sagt öll fyrir þessum himneska rétti og átum á okkur gat – þetta var veisla fyrir bragðlaukana! Gúllasið var meyrt og gott enda var ég með frábært kjöt beint af býli. Ég hugsa að það sé líka mjög gott að nota kjúklingakjöt í þennan rétt. Jógúrtsósan og grillaði ananasinn smellpassa allavega örugglega með kjúklingi. Ég veit ekki hvort þessi matreiðsla virkar flókin en hún er það alls ekki, þvert á móti, þetta var allt ákaflega einfalt og fljótlegt (ég reyndar skellti kjötinu í marineringuna fyrr um daginn). Á meðan kjötið mallaði á pönnunni grillaði ég ananasinn og hrærði í sósuna. Aldrei þessu vant voru ekki einu sinni hrísgrjónin tilbúinn þegar allt hitt var tilbúið, þó hafði ég byrjað á þeim.
Uppskrift:
- 1 kíló nautagúllas (eða kjúklingabitar)
- ca. 100 g belgbaunir (má sleppa)
- 200 g sveppir
- 1/2 tsk nautakraftur
Marinering:
- 4 hvítlauksrif, fínsöxuð eða pressuð
- 1.5 dl sojasósa
- 2 msk sesamfræ
- 2 tsk sambal oelek (chili mauk)
- 1 dl ólífuolía
- ferskmalaður svartur pipar
Hráefninu í marineringuna hrært saman. Kjötið lagt í marineringuna, annað hvort í poka eða skál og látið bíða í ísskáp í minnst 30 mínútur en því lengur því betra. Sveppirnir skornir í bita og steiktir á pönnu upp úr smjöri og/eða olíu, kryddaðir með nautakraftinum. Sveppirnir eru svo veiddir af pönnunni. Kjötið er tekið úr marineringunni og steikt á pönnu í 2-3 mínútur. Þá er restinni af marineringunni bætt á pönnuna ásamt sveppum og belgbaununum. Það er hægt að bæta við dálitlu af vatni til þess að búa til meiri sósu ef með þarf. Látið malla í nokkrar mínútur þar til kjötið er tilbúið. Borið fram með sweet chili – jógúrtsósu, grilluðum cajun-ananas og hrísgrjónum.
Cajun-ananas:
- 1/2 – 2/3 ferskur ananas
- ca 1 tsk cajun krydd
Ananasinn er skorin í bita. Best er að skera ananasinn á þennan hátt (byrjar við 1.20 mín í myndbandinu). Hann er svo kryddaður með cajun kryddi og grillaður við meðalhita í 2-3 mínútur á báðum hliðum.
Sweet chili – jógúrtsósa:
- 2 dl grísk jógúrt
- 4 tsk sweet chili sósa
- 1-2 hvítlauksrif, pressað
- ca. 2 tsk fínsaxaður ferskur kóríander
Öllum hráefnunum blandað vel saman.
Boeuf bourguignon
Jæja, þá er maður bara farinn að slá um sig með frönskum titlum! Boeuf bourguignon er þekktur franskur kjötréttur. Boeuf þýðir nautakjöt en bourguignon er héraðið Búrgúnd í Frakklandi og vísar til þess að kjötið er soðið í Búrgúnd rauðvíni. Mig hefur langað til að elda gúllas um tíma, það er líklega haustið sem hefur þessi áhrif. Þegar ég fór að skoða uppskriftir af gúllasi datt ég hvað eftir annað niður á uppskriftir af Boeuf bourguignon og varð að prófa. Gúllas er í raun allt annar réttur. Þá er átt við ungverskt gúllas sem í er meðal annars kartöflur, laukur og paprikukrydd. En orðið gúllas er hins vegar almennt notað hérlendis yfir alla pottrétti sem innihalda nautakjöti í bitum. Þetta er einfaldur réttur að útbúa og fljótgerður, þá meina ég að koma kjötréttinum í pottinn. Hins vegar þarf rétturinn að malla í allavega tvo tíma. Þetta er því upplagður réttur til að laga á laugardegi. Byrja snemma í eldhúsinu, kveikja á kertum, opna rauðvín og sötra þær dreggjar sem ekki fara í pottinn, á meðan beðið er eftir að ljúffengur kjötrétturinn verði tilbúinn. Þessi eldunaraðferð gerir kjötið ákaflega meyrt og gott. Já sko, að elda kjötið svona lengi meina ég, ekki að drekka rauðvín á meðan … þó hjálpar það örugglega líka! 🙂 Þó svo að strangt til tekið eigi að nota Búrgúnd rauðvín þá notaði ég nú bara það rauðvín sem við áttum hér heima. Það þarf ekki að óttast að sósan verði eitthvað áfeng, allt áfengið gufar upp á meðan kjötrétturinn mallar í þessa tvo tíma, eftir stendur bara ákaflega bragðgóð sósa! Með réttinum bjó ég til kartöflumús, ég elska kartöflumús! Ég geri hana á mjög hefðbundinn hátt, stappa kartöflurnar, bæti við mjólk, sykri, salti og smá pipar. Til hátíðarbrigða bæti ég stundum við smá rjómaosti. Að auki bjó ég til afar einfalt og gott hrásalat, mér finnst það passa mikið betur með svona rétti heldur en ferskt salat, uppskriftin fylgir hér að neðan.
Uppskrift f ca. 6:
- 1.5 kg. nautakjöt, t.d. gúllas
- 1 bréf beikon
- 2 laukar, saxaðir smátt
- 250 gr sveppir, skornir í fjórðunga
- 5-6 dl rauðvín
- 4 msk tómatpúrra
- 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
- ca 3 msk smjör til steikingar
- 3 msk hveiti
- 1 tsk kjötkraftur
- 1 msk salt
- 1 tsk timjan (þurrkað eða ferskt)
- 1 tsk steinselja (þurrkuð eða fersk)
- 1 tsk grófmalaður hvítur pipar
- 1/2 dl rauðvínsedik
Beikonið er steikt, umfram fita þerruð af því og það skorið í bita. Pannan er ekki þvegin! Annar laukurinn (fínsaxaður) ásamt rauðvínsedik og pipar látið malla í stórum potti. Smjöri er bætt við á pönnuna sem beikonið var steikt á og kjötið brúnað. Síðan er kjötið fært yfir í pottinn (ásamt steikarvökvanum af pönnunni) og hveitinu sáldrað yfir kjötið. Tómatpúrru, hvítlauk, timjan, steinselju, kjötkrafti og salti bætt út í. Rauðvíninu er svo hellt út í. Lok sett á pottinn og kjötið látið malla í ca. tvo tíma.
- 1/4 hvítkálshaus
- 1/2 dós sýrður rjómi
- ca 200-300 gr maukaður ananas í dós (án vökvans)
/>