Ég er alltaf að prófa mig áfram með uppskriftir þar sem ég get notað gúllasið sem ég pantaði af býli. Ókosturinn við gúllas er að oft þarf að elda það mjög lengi eða láta það liggja í maríneringu lengi, það hentar illa fyrir upptekið fólk eins og mig. Þessi réttur er hins vegar fremur fljótlegur og kjötið naut sín vel, virkilega góður réttur! Það er hægt að stjórna hversu sterkur rétturinn er með karrímaukinu. Ég gef upp þrjár matskeiðar í uppskriftinni en það gerir réttinn sterkan, það er því gott að prófa sig áfram með magnið. Raita jógúrsósan er dásamlega góð, hún gefur jafnvægi við kryddið og kallar betur fram góða bragðið.
Uppskrift:
- 600 nautakjöt í bitum (ég notaði nautagúllas, líka hægt að nota lambakjöt)
- 4 msk olía
- 2 laukar, saxaðir smátt
- 3 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
- 2 msk rifið ferskt engifer
- 5 lárviðarlauf
- 3 msk currypaste (rautt), gott samt að prófa sig áfram með magnið, 3 msk gera réttinn sterkan)
- 1,5 msk garam masala
- 3 msk tómatpúrra
- 2 msk mango chutney
- 2-3 dl vatn (líka gott að nota helming vatn og helming rjóma)
- 1-2 grænar paprikur, skornar í strimla
- 2-3 tómatar, skornir í bita
Kjötið er steikt á pönnu upp úr olíunni þar til það hefur náð dálitlum lit. Þá er lauknum og hvítlauknum bætt út í og steikt áfram. Því næst er engifer, lárviðarlaufum (þau eru svo fjarlægð áður en rétturinn er borinn fram), currypaste, garam masala, tómatpúrru og mango chutney bætt út í og steikt í nokkrar mínútur til viðbótar. Allt er svo flutt yfir í pott, vatni bætt út, lok sett á pottinn og látið malla í 30-40 mínútur eða þar til kjötið er orðið meyrt. Þegar um það bil 10 mínútur eru eftir af eldunartímanum er paprikunni og tómötunum bætt út í. Borið fram með hrísgrjónum, salati, mango chutney og raita jógúrtsósu.
Raita jógúrsósa:
Gúrkan er skoluð og rifin niður með rifjárni. Mesti vökvinn er pressaður úr gúrkunni. Henni er svo blandað saman við jógúrt, hvítlauk, myntu og hunang. Sósan er svo smökkuð til með salti og pipar. Ef notuð er grísk jógúrt er sósan þynnt með dálitlu vatni, ca. 1/2 dl, sósan á að vera fremur þunn.