Indverskur nautakjötspottréttur með raita jógúrtsósu


Indverskur nautakjötspottréttur með raita jógúrtsósu
Síðastliðnir dagar hafa verið afar annasamir en skemmtilegir. Í dag lauk yfir 200 manna ráðstefnu sem Elfar stjórnaði. Þeir sem fylgjast með Eldhússögum á Instagram hafa fengið að sjá myndir frá þessum dögum. Ég er á Instagram undir „eldhussogur“.

Ráðstefnan byrjaði síðastliðin miðvikudag og það hefur verið mikið að gera síðan þá. Elfar var mættur eldsnemma a morgnana í Hörpu og seinnipartinn mætti ég til þess að vera með í „social“ dagskránni sem stóð fram á nótt öll kvöldin. Samtímis var mikið að gera í báðum vinnunum mínum og yngstu krakkarnir að klára skólann með tilheyrandi tilstandi og sýningum. Ráðstefnan heppnaðist frábærlega vel, ekki síst fyrir tilstilli fyrirtækisins Athygli ráðstefnur, stelpurnar þar eru snillingar! Dagskráin var afar metnaðarfull og flott. Ég einstaklega ánægð með matinn öll kvöldin, allstaðar fengum við frábærlega góðan mat þrátt fyrir að hópurinn væri stór. Við höfum legið á bæn varðandi veðrið. Vikan byrjaði jú ekki vel með slagviðri og hræðilegu veðri. Þar rættist samt ótrúlega vel úr veðrinu sem betur fer.

Á miðvikudagskvöldið byrjaði dagskráin seinni partinn á því að hópurinn kom saman í nýja salnum í Hörpunni, Björtuloft. Ótrúlega fallegur salur með risastórum svölum. Útsýnið þaðan er algjörlega frábært og við fengum meira að segja sólskin! Þar fengu gestir drykki og girnilega  smárétti undir lifandi tónlist. Því næst kom stór bátur og sótti okkur í höfnina við Hörpu og þaðan var haldið út í Viðey. Í Viðey var boðið upp á dásamlega góðan mat og skemmtilega kvöldstund. Hér koma nokkrar Instagram myndir.

IMG_0550 IMG_0551 IMG_0560
Á fimmtudeginum fórum við í heimsókn í Hellisheiðarvirkjun og því næst lá leiðin á veitingastaðinn Fjöruborðið á Stokkseyri. Þar fengum við frábæra humarmáltíð. Við enduðum kvöldið á Slippbarnum með hluta af Svíunum og Íslendingunum – það náðust því ekki margir svefntímar þá nóttina! Í gær var farið í Bláa lónið. Þegar upp úr lóninu var komið beið okkar dásamlega gott hlaðborð í stórkostlega flottum nýlegum sal, Lava. Lava salurinn er byggður inn í hraunið sem umlykur Bláa Lónið. Einn veggur staðarins er náttúrulegur steinveggur en hinir eru háir glerveggir með útsýni yfir lónið. Hápunktur kvöldsins var þegar Eyþór Ingi og félagar tróðu upp, þeir slógu í gegn með frábærum söng og spili! Því næst kom Siggi Hlö og þeytti skífum og það var dansað fram eftir nóttu við mikla stemmningu.

IMG_0575 IMG_0580IMG_0579
IMG_0583
Núna erum við hjónin svolítið eins og sprungnar blöðrur eftir þetta allt saman. Ég fór í garðvinnuna í dag en hún hefur algjörlega setið á hakanum vegna annríkis en líka vegna veðurs. Ég hef aldrei verið svona sein að setja niður grænmetið áður. Ég hafði hvorki tíma né nennu til þess að elda í kvöld og við gæddum okkur í fyrsta sinn á BK-kjúklingi í kvöldmatinn, hann var nú bara alveg ágætur. En uppskriftin sem ég ætla að gefa í dag gerði ég í fyrr í vikunni við góðar undirtektir fjölskyldumeðlima. Ég er alltaf að prófa mig áfram með uppskriftir þar sem ég get notað gúllasið sem ég pantaði af býli. Ókosturinn við gúllas er að oft þarf að elda það mjög lengi eða láta það liggja í maríneringu lengi, það hentar illa fyrir upptekið fólk eins og mig. Þessi réttur er hins vegar fremur fljótlegur og kjötið naut sín vel, virkilega góður réttur! Það er hægt að stjórna hversu sterkur rétturinn er með karrímaukinu. Ég gef upp þrjár matskeiðar í uppskriftinni en það gerir réttinn sterkan, það er því gott að prófa sig áfram með magnið. Raita jógúrsósan er dásamlega góð, hún gefur jafnvægi við kryddið og kallar betur fram góða bragðið.

Uppskrift:

 • 600 nautakjöt í bitum (ég notaði nautagúllas, líka hægt að nota lambakjöt)
 • 4 msk olía
 • 2 laukar, saxaðir smátt
 • 3 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
 • 2 msk rifið ferskt engifer
 • 5 lárviðarlauf
 • 3 msk currypaste (rautt), gott samt að prófa sig áfram með magnið, 3 msk gera réttinn sterkan)
 • 1,5 msk garam masala
 • 3 msk tómatpúrra
 • 2 msk mango chutney
 • 2-3 dl vatn (líka gott að nota helming vatn og helming rjóma)
 • 1-2 grænar paprikur, skornar í strimla
 • 2-3 tómatar, skornir í bita
Kjötið er steikt á pönnu upp úr olíunni þar til það hefur náð dálitlum lit. Þá er lauknum og hvítlauknum bætt út í og steikt áfram. Því næst er engifer, lárviðarlaufum (þau eru svo fjarlægð áður en rétturinn er borinn fram), currypaste, garam masala, tómatpúrru og mango chutney bætt út í og steikt í nokkrar mínútur til viðbótar. Allt er svo flutt yfir í pott, vatni bætt út, lok sett á pottinn og látið malla í 30-40 mínútur eða þar til kjötið er orðið meyrt. Þegar um það bil 10 mínútur eru eftir af eldunartímanum er paprikunni og tómötunum bætt út í. Borið fram með hrísgrjónum, salati, mango chutney og raita jógúrtsósu.

IMG_0152
Raita jógúrsósa:

Gúrkan er skoluð og rifin niður með rifjárni. Mesti vökvinn er pressaður úr gúrkunni. Henni er svo blandað saman við jógúrt, hvítlauk, myntu og hunang. Sósan er svo smökkuð til með salti og pipar. Ef notuð er grísk jógúrt er sósan þynnt með dálitlu vatni, ca. 1/2 dl, sósan á að vera fremur þunn.

4 hugrenningar um “Indverskur nautakjötspottréttur með raita jógúrtsósu

 1. Bakvísun: Töfrar indverskrar matargerðarlistar hjá Salti eldhúsi | Eldhússögur

 2. Vorum með þetta í kvöld og það sveik sko ekki! Fer á fastalistann, við fáum svo oft gúllas og ég var orðin leið á venjulegu uppskriftinni 😀

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.