Ég tók eftir því um daginn að nú býður WordPress upp á að setja inn skoðanakannanir hingað á síðuna. Ég er dálítið veik fyrir svoleiðis! Ég vissi svo sem ekkert hvað ég átti að kanna en ég varð samt að prófa. Nú getið þið sagt til um hvaða uppskriftir þið viljið sjá á síðunni, það er hægt að krossa við fleiri en einn valmöguleika.
Ég er voðalega spennt að setja þessa uppskrift inn í dag. Þessi tælenska kjúklinga- og sætkartöflusúpa er algjört æði! Ein sú einfaldasta súpa sem ég hef gert en með þeim allra bestu. Ég mæli algjörlega með þessari! 🙂
Uppskrift:
- olía til steikingar
- 3 hvítlauksrif, söxuð
- 1 ferskur rauður chili, fræhreinsaður og saxaður
- 1 msk ferskt engifer, rifið
- 30 g ferskt kóríander, stilkar og blöð saxað í sitt hvoru lagi
- 4 tsk karrímauk, rautt eða grænt (curry paste)
- 1200 ml kjúklingasoð (gert úr 3 kjúklingateningum)
- 1 dós kókosmjólk
- ca. 800 g sætar kartöflur, flysjaðar og skornar í bita
- 800 g kjúklingabringur, skornar í bita
- 1 ½ límóna, safinn (lime)
- 2 tsk sykur
- 2 tsk fiskisósa (fish sauce)
- grófmalaður svartur pipar
Olía hituð í stórum potti og hvítlauki, chili, engifer og kóríander stilkum ásamt karrímauki bætt út í pottinn og steikt í um það bil 2 mínútur. Því næst er kjúklingasoði, kókosmjólk og sætu kartöflunum bætt út og soðið í 10-15 mínútur eða þar til sætu kartöflurnar eru tilbúnar. Þá er súpan maukuð í matvinnsluvél eða með töfrasprota þar til áferðin er mjúk og kekklaus. Svo er kjúklingnum bætt út í súpuna og hún látin malla þar til hann er soðinn í gegn. Að lokum er kóríander bætt út í ásamt límónusafa og súpan smökkuð til með sykri, fiskisósu og pipar.
mmm… þessi lítur líka hrikalega vel út.. en ég ætla að byrja á að prófa fiskisúpuna um helgina.. 🙂
Gaman að heyra það, láttu vita hvernig ykkur líkaði! 🙂
Ég er þakklát fyrir allar uppskriftir á þessari síðu, allt svo girnilegt og skrifin svo jákvæð og skemmtileg. Öll fjölskyldan nýtur góðs af og maðurinn minn er farinn að segja matargestum frá íslenskum matarbloggurum sem aldrei klikka! Takk fyrir mig, Rósa í Danmörku
Mikið var þetta falleg og góð kveðja sem gleður mig ákaflega! 🙂 Kærar þakkir og kveðja til Danmerkur!
Ætlaði elda kjúkling- og sesamfræ-sallaðið enn fann þennan súpa í staðin.. . Mjög gott og einfalt á föstudags kvöldið ; ) (Notaði samt spínatið úti súpunni). Langar að deila annan uppskrift við þig sem við eldum mjög oft í minni fjölskylda og sem líka er tælensk;
http://www.arla.se/recept/tom-kha-gai/
Gaman að heyra Erika, takk fyrir kveðjuna og slóðina á uppskriftina! 🙂
Þessi er ekta thai, æðislega góð, alveg hægt að nota afgangs kjúlla
Einmitt Kristín, gott að nota afgangs kjúkling í þessa! 🙂
Mjög góð þessi;)
Gaman að heyra það María! 🙂
Mæli svo sannarlega með þessari súpu, sló í gegn hjá mér í dag.
Frábært Elsa, það gleður mig! 🙂
Æðisleg súpa, allir svakalega ánægðir á heimilinu, takk fyrir uppskriftina 🙂
Flott að heyra Berglind, takk fyrir kveðjuna! 🙂
Algjörlega GEÐVEIK – takk fyrir mig
Gaman að heyra Berglind! 🙂
Prófaði í fyrsta sinn að gera súpu sem ekki kemur úr pakka:) Og hún tókst fullkomlega. Takk fyrir allar dásamlegu uppskriftirnar þínar
Vá, en frábært að heyra Hildur! 🙂 Vonandi prófar þú fleiri súpuuppskriftir héðan! 🙂
Sæl. Er hægt að nota einhverja aðra ferska jurt í staðinn fyrir kóríander?
Já, notaðu bara flatblaða steinselju í staðinn eða basiliku.
Flott, ég prófa það. Takk takk.
Dásamleg súpa sem var elduð í matarorgíunni okkar í sumarbústaðnum. Varð reyndar smá brunaslys þegar heit súpan slettist út um allt úr blandaranum en það grær vonandi fljótt 🙂
Úpps! 😉 Gott að súpan bragðaðist samt vel! 🙂
HVAÐ ER ÞESSI UPPSKRIFT FYRIR CIRKA MARGA?
Ég myndi áætla að hún dugi fyrir allavega 5 manns.