Tælensk kjúklinga- og sætkartöflusúpa


IMG_9654

Ég tók eftir því um daginn að nú býður WordPress upp á að setja inn skoðanakannanir hingað á síðuna. Ég er dálítið veik fyrir svoleiðis! Ég vissi svo sem ekkert hvað ég átti að kanna en ég varð samt að prófa. Nú getið þið sagt til um hvaða uppskriftir þið viljið sjá á síðunni, það er hægt að krossa við fleiri en einn valmöguleika.

Ég er voðalega spennt að setja þessa uppskrift inn í dag. Þessi tælenska kjúklinga- og sætkartöflusúpa er algjört æði! Ein sú einfaldasta súpa sem ég hef gert en með þeim allra bestu. Ég mæli algjörlega með þessari! 🙂

IMG_9651

Uppskrift:

  • olía til steikingar
  • 3 hvítlauksrif, söxuð
  • 1 ferskur rauður chili, fræhreinsaður og saxaður
  • 1 msk ferskt engifer, rifið
  • 30 g ferskt kóríander, stilkar og blöð saxað í sitt hvoru lagi
  • 4 tsk karrímauk, rautt eða grænt (curry paste)
  • 1200 ml kjúklingasoð (gert úr 3 kjúklingateningum)
  • 1 dós kókosmjólk
  • ca. 800 g sætar kartöflur, flysjaðar og skornar í bita
  • 800 g kjúklingabringur, skornar í bita
  • 1 ½  límóna, safinn (lime)
  • 2 tsk sykur
  • 2 tsk fiskisósa (fish sauce)
  • grófmalaður svartur pipar

IMG_9644

Olía hituð í stórum potti og hvítlauki, chili, engifer og kóríander stilkum ásamt karrímauki  bætt út í pottinn og steikt í um það bil 2 mínútur. Því næst er kjúklingasoði, kókosmjólk og sætu kartöflunum bætt út og soðið í 10-15 mínútur eða þar til sætu kartöflurnar eru tilbúnar. Þá er súpan maukuð í matvinnsluvél eða með töfrasprota þar til áferðin er mjúk og kekklaus.  Svo er kjúklingnum bætt út í súpuna og hún látin malla þar til hann er soðinn í gegn. Að lokum er kóríander bætt út í ásamt límónusafa og súpan smökkuð til með sykri, fiskisósu og pipar.

IMG_9652

Sætkartöflusúpa með kjúklingi


IMG_8803

Við áttum góða helgi með frábærri fermingarveislu, ljúfum kvöldverði með góðum vinum á veitingastaðnum Mar og sundferð. Svo slökuðum við bara almennt vel á í dásamlega veðrinu sem hér hefur verið undanfarið og ekkert lát er á. Ósk er hins vegar á ferðalagi um Þýskaland og Pólland með Versló. Hún er í valáfanga sem heitir Helförin og þau eru að skoða útrýmingarbúðir meðal annars í Auschwitz. Þetta er örugglega einstök upplifun fyrir krakkana.

Ég rak augun í að Snickerskakan hér á síðunni er komin yfir tvö þúsund deilingar, „2K“, það er alveg með ólíkindum! Það er klárt mál að vinsælustu uppskriftirnar á síðunni minni eru alltaf girnilegar kökuuppskriftir. Ég ætla nú samt „bara“ að koma með uppskrift af súpu í dag! Þessi súpa er svolítið skemmtileg því hún er búin til úr kjúklingaleggjum. Grunnurinn er hollur og góður úr meðal annars sætum kartöflum og gulrótum. Þetta er afar bragðgóð og saðsöm súpa sem sló gegn hér heima, við mælum með henni! 🙂

Uppskrift:

  • 6 kjúklingaleggir (ca. 600 g)
  • 1 stór kartafla, afhýdd og skorin í litla bita
  • 2-3 gulrætur, skornar í litla bita
  • 1 gulur laukur, skorin í litla bita
  • 5 hvítlauksrif
  • 1 sæt kartafla (ca. 400 g), afhýdd og skorin í litla bita
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í bita
  • ferskur engifer, ca. 3 cm, skorin í litla bita
  • ca. 1 líter vatn
  • smjör
  • 3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 3 kjúklingatengingar
  • 1 tsk karrí
  • 1 tsk Ground Cumin
  • 1/2 stk hvítlauksduft
  • 1 tsk meiram (marjoram) – krydd
  • 1 tsk oregano
  • salt og pipar

IMG_8799

Góður biti af smjöri bræddur í stórum potti og karrí, cumin og hvítlaukskryddi bætt út í þannig að það steikist í örstutta stund. Þá er kjúklingaleggjunum bætt út í og þeir steiktir í smástund þar til kryddin fara að ilma dásamlega, hrært vel í þeim á meðan. Þá er öllu grænmetinu bætt út í fyrir utan hvítlaukinn og steikt í stutta stund. Því næst er vatni hellt út í pottinn þannig að það nái yfir grænmetið og kjúklinginn, ég notaði ca. 1.2 líter. Þá er hvítlauknum bætt út ásamt engiferbitunum auk þess sem oregano og meiram er bætt út í ásamt kjúklingateningum. Látið malla þar til kjúklingurinn fer að losna af beinunum (þá má bæta við vatni ef súpan verður of þykk).

Þá eru kjúklingaleggirnir veiddir upp úr og kjötið losað frá beinunum og það skorið í minni bita ef með þarf.  Súpan með grænmetinu er maukuð með töfrasprota eða í matvinnsluvél þar til súpan er slétt og bitalaus. Þá er kjúklingabitunum bætt út í ásamt rjómanum og súpunni leyft að malla í smástund í viðbót. Smökkuð til með salti, pipar og fleiri kryddum ef þarf.  Súpan er borin fram með grófsöxuðu kóríander eða steinselju.

IMG_8805

Kjúklingasúpa með eplum, karrí og engifer


Ég skrifaði hér á blogginu um daginn að ég væri engin sérstakur aðdáandi súpa. Þannig að ef að ég set uppskrift af súpum hingað inn þá eru þær einstaklega góðar að mínu mati! Fiskisúpan að vestan er til dæmis dásamlega góð og einn af mínum uppáhaldsréttum. Núna bjó ég til súpu sem klárlega kemst með tærnar þar sem fiskisúpan hefur hælana! Þetta er kjúklingasúpa með eplum, karrí, engifer, chili, kókosmjólk, rjóma og fleira góðgæti. Maður sér í hendi sér að þessi blanda getur varla annað en orðið góð. Sú varð líka raunin, allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir, meira að segja yngstu börnin, þetta er dásamlega góð súpa! Mér finnst mikilvægt með súpur að leyfa þeim að malla frekar lengi, lengur en gefið er upp í uppskriftunum venjulega. Ef þær eru bornar fram sjóðandi heitar og hafa bara fengið að malla stutt þá er hráefnið alls ekki farið að njóta sín og súpurnar geta þá stundum verið bragðdaufar. Nokkrir fjölskyldumeðlimir komu seint heim í kvöldmatinn, þá hafði súpan fengið að standa á hellunni, á mjög lágum hita, í hálftíma. Þá var súpan orðin enn betri, bragðið af hráefnunum fékk að njóta sín og hafði bundist góðum böndum og súpan var passlega heit þannig að hægt væri að njóta hennar án þess að brenna sig á tungunni! Ég mæli því með því að leyfa súpunni að standa drjúga stund áður en hún er borin fram. Mér finnst kóríander alltaf betra og betra, eiginlega finnst mér allur matur sem í er kóríander verða að hátíðarmat. Ekki sleppa kóríandernum í súpunni ef þið eruð jafn hrifin af því og ég! Brauðbollurnar eru með gulrótum og kotasælu og uppskriftina er að finna hér.

Uppskrift f. 4 svanga:

  • 1 msk smjör til steikingar
  • 1 lítill laukur, saxaður fínt
  • 1-2 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • 1/4 – 1/2 rautt chili, kjarnhreinsað og saxað fínt
  • 1 msk ferskt engifer, saxað fínt
  • 3 gulrætur, rifnar gróft
  • 2  græn epli, flysjuð og rifin gróft
  • 3 tsk karrí
  • 7 dl kjúklingasoð (3 tsk kjúklingakraftur leystur upp í sjóðandi heitu vatni)
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1 dós hakkaðir tómatar (gjarnan bragðbættir með basiliku)
  • 1 ferna matreiðslurjómi (5 dl)
  • 900 gr kjúklingabringur
  • hvítur pipar
  • salt
  • kóríander, blöðin söxuð gróft

Hráefnið er saxað og rifið eins og gefið er upp hér að ofan. Kjúklingakraftur útbúinn með því að leysa kjúklingakraft upp í sjóðandi heitu vatni. Laukur steiktur upp úr smjöri í stórum potti þar til að hann er orðin mjúkur. Þá er hvítlauk, chili og engifer bætt út í og steikt með lauknum í stutta stund. Því næst er gulrótum, eplum og karrí bætt út og steikt í um það bil mínútu. Nú er kjúklingasoði bætt út í ásamt niðursoðnum hökkuðum tómötum, suðan látin koma upp og súpan síðan látin malla í 10-15 mínútur.

Á meðan eru kjúklingabringur skornar í jafnstóra bita. Kjúklingi, kókosmjólk og matreiðslurjóma er svo bætt við út í súpupottinn, súpan látin ná suðu og síðan leyft að malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Súpan er smökkuð til með karrí, hvítum pipar, salti og jafnvel cayenna pipar eða chili fyrir þá sem vilja sterkari súpu. Áður en súpan er borin fram er kóríander bætt út í.