Key lime baka


IMG_7288Í dag er stóra stelpan okkar 19 ára! Tíminn líður svo ótrúlega hratt, það hljómar eins og klisja en er þó svo satt. Maður er svo önnum kafin við uppeldið þegar börnin eru lítil að tíminn líður án þess að eftir því sé tekið. Skyndilega einn daginn eru litlu börnin horfin og í staðinn komnar fullorðnar manneskjur! Ótrúlegt og dásamlegt en kannski örlítið tregafullt líka! 🙂

Að vanda fær afmælisbarnið á heimilinu að velja uppáhaldsmatinn sinn, að auki er boðið upp á köku, pakka og afmælissöng. Það kom mér ekki á óvart að Ósk valdi sushi í afmælismatinn.

IMG_7224Það kom mér heldur ekki á óvart að hana langaði hvorki í köku né eftirrétt, hún er ekkert hrifin af sætmeti. Algjör synd því mér finnst skemmtilegast að búa til eftirrétti og baka kökur! Ég lét það þó ekki á mig fá og notaði tækifærið að búa til böku sem ég er búin að horfa til lengi. Þó svo að afmælisbarnið vildi ekki böku þá komu amman og afinn í heimsókn og nutu góðs af henni með okkur fjölskyldunni. Og það má með sanni segja að þessi baka hafi slegið í gegn! Að vísu fannst yngstu krökkunum hún ekkert sérstök en okkur hinum fannst hún svo afskaplega ljúffeng, hún fór til dæmis strax á topp fimm kökulistann hjá Alexander. Þið verðið að prófa þessa dásemd!

IMG_7258

Þessi baka kemur líka úr uppskriftabók Hummingbird bakaríisins eins og ostakökubrownie kakan. „Key lime pie“ er bandarískur eftirréttur gerður úr limesafa, eggjarauðum og niðursoðinni sætmjólk. Ofan á bökuna er settur þeyttur rjómi en upprunalega var sett þeytt eggjahvíta ofan á bökuna, sem sagt marengs. Nafnið er dregið af Keys í Florída eftir límónunum (lime) sem vaxa þar. Þær eru talsvert minni (þarf að nota ca 12 á móti 4 venjulegum) og beiskari en þessar hefðbundnu límónur sem við þekkjum. Key límónurnar hafa einstaka sinnum verið til í Hagkaup. Í þessari uppskrift er gert ráð fyrir hefðbundnum límónum. Ég er ekkert mikið fyrir rétti með miklum sítrusi en þessa böku á ég klárlega eftir að búa til aftur, hún er dásamlega fersk og góð. Kjörin eftirréttur til dæmis eftir þunga máltíð. Næst er ég spennt fyrir því að prófa hana með marengs þó svo að þeytti rjóminn passi líka afar vel við bökuna.

sætmjólkVarðandi sætu niðursoðnu mjólkina þá fæst hún í Kosti, Melabúðinni, búðum sem selja asískar vörur og stundum í Hagkaup. Hafið þið kannski séð hana í fleiri búðum? Þegar ég fór í Kost síðast fann ég ekki þessa sætu mjólk og þurfti að spyrja um hana. Þá var hún falin einhverstaðar á bakvið. Stúlkan sagði að þeir mættu í raun ekki lengur selja hana. Mér skilst að þetta snúist um hvernig þessi mjólk er tolluð. Ég keypti allavega nokkuð margar dósir, það er svo mikið af skemmtilegum réttum sem hægt er að nota þessa sætu niðursoðnu mjólk í. Ég tala nú ekki um að búa til gómsæta karamellusósu úr henni!

Nýjasta græjan í eldhúsinu kom sér vel við eftirréttagerðina í dag. Inga frænka gaf okkur þetta Microplane úr Kokku í jólagjöf, alveg magnað áhald við til dæmis rif á sítrónum og límónum. Mæli sannarlega með því!

IMG_7201

Sushi kvöldsins kom frá Tokyo sushi, við erum mjög hrifin af því, frábært sushi á mjög góðu verði.

IMG_7223

En þá að uppskriftinni af þessari ljúffengu límónuböku!IMG_7257Uppskrift Key Lime baka:

Botn:
400 g Digestive kex (1 pakki)
200 g brætt smjör

Fylling:
8 eggjarauður
1 dós sæt niðursoðin mjólk (condensed milk)
safi af 4 límónum (lime)
4 dl rjómi, þeyttur

Ofninn stilltur á 175 gráður, undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við brædda smjörið. Blandan sett í bökunarform með lausum botni eða bökuform og henni þrýst i í botninn og upp í hliðarnar á forminu. Bakað í ofni í ca. 20 mínútur. Þá er bökubotninn kældur. Þar sem mér liggur alltaf á setti ég hann út í smástund þar til hann var orðin nægilega kaldur til að fara í ísskáp. Botninn þarf að vera alveg kaldur þegar fyllingin er sett á hann.
Ofninn lækkaður í 150 gráður. Athugið, þegar fyllingin er blönduð saman á að nota venjulegan þeytara ekki rafmagnsþeytara eða hrærivél. Eggjarauðum, niðursoðnu sætu mjólkinni og safanum frá límónunum (lime) blandað saman í skál og þeytt með handafli í smá stund þar til blandan þykkist örlítið. Þá er fyllingunni hellt ofan á kaldan botninn og bakað í ofni í 20-35 mínútur (ég bakaði bökuna í 25 mínútur). Kælt í ísskáp í minnst klukkutíma, helst lengur. Áður en bakan er borin á borð er þeytti rjóminn settur yfir bökuna (ég notaði rjómasprautu), gjarnan skreytt með dálítlum fínrifnum límonuberki. Njótið! 🙂

IMG_7281

Ein hugrenning um “Key lime baka

  1. Sæl Vertu
    Hvar annars staðar en í Kosti get ég fundið niðursoðna mjólk?
    Líst svo afsaplega vel á þessa köku.

    • Þessi baka er algjört æði! 🙂 Niðursoðna mjólkin fæst, fyrir utan Kost, í asískum búðum eins til dæmis Mai Thai við Hlemm og í asíska horninu í Kolaportinu (allavega síðast þegar ég vissi).

  2. Bakvísun: Rabarbara- og perubaka með stökkum hafrahjúp | Eldhússögur

  3. Bakvísun: Rabarbara- og perubaka með stökkum hafrahjúpi | Eldhússögur

  4. Sæl
    Er hægt að nota eitthvað annað en niðursoðna mjólk…hef eitthvað látið það afra mér að gera þessa köku.

    kv. Þóra

    • Sæl Þóra. Niðursoðna mjólkin er lykilhráefni í bökunni og ekki hægt að sleppa henni. Hún fæst í Melabúðinni, Kosti, Mai thai og í fleiri búðum. Ef þú býrð úti á landi og getur ekki keypt svona dós þá er hægt að búa til sína eigin niðursoðnu mjólk.

      1 líter nýmjólk
      200 g sykur
      1 msk smjör

      Mjólk og sykur sett í pott með þykkum potti og látið ná suðu við meðalhita. Þá er lækkað undir og mjólkin látin malla við mjög vægan hita í 2 tíma þar til mjólkin er soðin niður um helming. Mjólkin á bara rétt að malla, aldrei að sjóða. Hrært í blöndunni á ca. 15 mínútna fresti til þess að forðast að mjólkin myndi skán. Eftir 2 tíma er smjörinu bætt út í. Blandan er tekin af hellunni og látin kólna, þá þykknar hún enn meira. Ef blandan er geymd í ísskáp getur hún orðið enn þykkari og hægt er að þynna hana með því að hræra hana út með örlitlu vatni.

  5. Fann niðursoðnu mjólkina í búðinni við Hlemm en reyndar stendur á henni sweetend condensed filled milk en sé að það stendur ekki filled á dósinni sem þú notar. Veistu hvort það skiptir máli?

    • Það er ekki alveg eins en líkt. Ég held að þú getir alveg notað þessa sætmjólk án þess að ég þori að sverja fyrir það – ég hef jú ekki prófað það sjálf.

      • Elska hvað þú svarar alltaf fljótt;) skrapp í kolaportið áðan og fann dós sem er bara sweetend condensed milk. Ætlað baka þessa köku fyrir afmæli svo vil ekki taka áhættu að hún mistakist með hinni dósinni. En ætlað prófa hana bara seinna með henni 🙂 þúsund þakkir

      • Já, svona er maður nú alltaf límdur við símann sinn eða tölvuna! 😉 Frábært að þú fannst þessa hefðbundnu, það er þvílíkt vesen að fá svoleiðis nú um mundir. Mér skilst að þessi sem er „filled“ sé að hluta búin til úr „palm oil“ en það sem ég hef séð á netinu þá virðist vera hægt að nota hana líka með næstum því sama árangri og þá hefðbundnu. Gangi þér vel og vonandi líkar ykkur bakan jafnvel og okkur! 🙂

  6. Jæja verð að þakka fyrir mig 😉 Var með barnaafmæli seinustu helgi og fyrir fullorðna var ég með allt frá þér. Key lime bökuna alveg dásemdarkaka sem var öðruvísi en mjög góð, ameríska ostaköku með bláberjum, pavlovu og æðislegan brauðrétt ( eins og hann heitir hjá þér ) og var hann geggjaður eins og hinn brauðrétturinn hér á síðunni ( sem ég er auðvitað búin að prófa )
    Allir ótrúlega glaðir með veitingarnar og hlakka ég til að velja kökur hér fyrir næsta afmæli sem er í maí og 3ja afmælið í júní 😉
    Svo má ég nú ekki gleyma á barnaborðinu hafði ég melónubroddgölt sem sló heldur betur í gegn og banana íspinna, þúsund þakkir 🙂

  7. Bakvísun: Sítrónubaka með marengs | Eldhússögur

  8. Langadi bara ad koma med mjog audvelda og odyra uppskrift af nidursodinni saet mjolk. Erfitt ad fa hana i budum a Islandi.

    2 bollar bla mjolk
    3/4 bolli strasykur
    sodid a millihita i um thad bil halftima. Mjolkin minnkar (nidursodin) og a ad vera 1 og 1/4 bolli i lokin. Eg notadi pott med „non stick“ og thurfti ad hraera a svona 7 min fresti. 1 og 1/4 bolli er sama staerd og standard dosin i budunum, eins og a myndinni herna fyrir ofan i blogginu.

    Eftir ad mjolkin er nidursodin er 2 matskeidum af smjori
    og ein tsk vanilludropar baett ut i og blandad saman med sleif. Kaelt og tilbuid!!

    Kvedja,
    Elisabet

    • Bull i kellu! Se ad thu ert buin ad setja inn uppskrift ad nidursodinni mjolk.

      Bid afsokunar 🙂

      • Þarft nú ekkert að biðjast afsökunar, bara frábært að fá fleiri uppskriftir af niðursoðinni mjólk! 🙂

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.