Ég hef verið að prófa allskonar uppskriftir af öðru lasagna en því sem ég geri oftast nær, þessu hér. Flestar uppskriftirnar hafa verið góðar, en hingað til hafa engar slegið mínu lasagna við. Ég hef ekki einu sinni séð ástæðu til að setja þau hingað á bloggið. Karlmennirnir í fjölskyldunni sérstaklega voru hins vegar afar hrifnir af því lasagna sem ég gerði um síðastliðnu helgi og Elfar er búinn að spyrja mig oft hvort ég ætli ekki örugglega að setja það á bloggið!
Ég fann uppskriftina í Delicious Magazine og þar kallast það hvorki meira né minna en “Really very good lasagne”! Mér fannst uppskriftin hljóma mjög spennandi, ekki síst fyrir það að í henni var dálítið rauðvín! Okkur hjónunum finnst voða gott að fá okkur eitt vínglas með matnum um helgar (þá sjaldan sem Elfar er ekki á bakvakt) en við látum aldrei verða af því. Mér finnst nefnilega alltaf svo mikil sóun að opna heila vínflösku en taka bara af henni tvö glös, svo eyðileggst afgangurinn. En þarna sá ég mér leik á borði, við gætum dreypt á smá rauðvíni og notað afganginn í matinn, ekkert færi því til spillis! 🙂 Þetta lasagna verður afar bragðgott með rjómaostasósu auk beikons, salami-pylsu og rauðvíns meðal annars. Þetta er tilvalinn réttur til að dunda sér við um helgi með smá rauðvín í glasi og hlusta á góðan djass á meðan! 🙂
Uppskrift f. 4
- 150 ml rauðvín
- 150 ml kjötkraftur
- 100 gr beikonteningar
- 1 rauðlaukur, fínsaxaður
- 2 rósmarínkvistar, blöðin tekin af og söxuð smátt
- 2 tsk oregano (þurrkað krydd)
- 1 msk ólífuolía
- 2 hvítlauksrif, söxuð fínt
- 500 nautahakk
- 150 g góð pylsa, t.d. salami, skorin í litla bita (má sleppa og bæta við meira hakki í staðinn)
- 1 dós niðursoðnir tómatar
- 2-3 msk tómatpúrra
- 1 tsk púðursykur
- fersk basilika
- lasagnaplötur
- rifinn ostur
Rjómaostasósa:
- 40 g smjör
- 40 g hveiti
- 300 ml rjómi
- 300 ml mjólk
- salt og pipar
- smá múskat
- rifinn piparostur (í 85 g öskju)
Bakarofn hitaður í 200 gráður, undir- og yfirhita. Rauðvíni hellt í lítinn pott, suðan látin koma upp og rauðvínið soðið niður um helming. Þetta tekur ca. 2-3 mínútur, látið rauðvínið svo bíða í pottinum.
Beikonið er steikt á pönnu. Því næst er lauk, rósmarín, oreganokryddi bætt út. Ef með þarf er hægt að bæta við smá olíu og jafnvel smjör bragðsins vegna. Blandan látin malla á meðalhita í ca 6-8 mínútur. Þá er hvítlauk bætt á pönnuna og hann steiktur í stutta stund. Svo er hakki og pylsu bætt út í.
Nú er kjötkraftinum bætt út í pottinn með rauðvíninu, suðan látin koma upp og blandan látin sjóða kröftugt þar til hún hefur soðið niður um helming (tekur ca. 2-3 mínútur). Þá er blöndunni hellt út á pönnuna með hakkinu. Tómötum í dós, tómatpúrru, púðursykri, salti og pipar bætt við. Kjötsósan látin malla í allavega 10 mínútur til viðbótar (því lengur því betri verður hún) og hún smökkuð til með kryddum. Á meðan er rjómaostasósan búin til.
Rjóma og mjólk hellt í lítinn pott og látið hitna dálítið á vægum hita (það kemur í veg fyrir að sósan kekkist). Smjörið er brætt í potti á meðalhita og hveitinu hrært út í. Þá er rjóma/mjólkurblöndunni bætt út í smátt á smátt. Hrært í stöðugt á meðan við meðalhita. Þá er osti bætt út og hann látin bráðna í sósunni og hún krydduð með salti, pipar og múskati.
Dálítið af ostasósunni er hellt í eldfast mót, því næst er lasagnaplötum raðað yfir, þá kjötsósu og síðan er ferskum basilkublöðum raðað yfir kjötsósuna. Þetta er gert til skiptis, endað á ostasósu. Að lokum er ferskum osti dreift yfir og bakað í miðjum ofni í ca. 25-30 mínútur. Borið fram með góðu salati og brauði (og ekki gleyma rauðvíni í glasi! 🙂 ).
Girnilegt, á eftir að prófa þetta. Sá á e-u heimilisbloggi sniðuga hugmynd um afgangs rauðvín, skella í klakabox og inní frysti þá getur maður gripið í það við matargerð 🙂
Takk fyrir gott blogg, er búin að elda mikið af uppskriftunum þínum og þær klikka aldrei!
Kv. Helga Rún
Takk fyrir hrósið Helga Rún! 🙂 Þetta með klakaboxið er góð hugmynd, ég þarf að nýta mér hana! 🙂
Klárlega besta lasagna sem ég hef smakkað – algert æði!
Prófuðum þetta í kvöld og þetta sló í gegn, borðuð allir sér til óbóta 🙂
En hvað það var gaman að heyra Halldóra, takk fyrir kveðjuna! 🙂
Mjög gott lasagna, bætti sveppum við og skipti á rjómaostasósunni með sósu úr kotasælu, sinnepi og syrðum rjóma.
Skemmtilegt Blogg hjá þér með góðum uppskriftum.
Kveðja
Ása
Það gleður mig að heyra Ása, takk fyrir góða kveðju! 🙂
Þetta er besta lasagne sem eldað hefur verið á mínu heimili. Frábær síða.
Kveðja
Hjōrdís
Vá, en frábært að heyra þetta Hjördís, kærar þakkir! 🙂
Dröfn, þetta er nu bara besta lasagnauppskriftin. Ætla borða ikvöld og geri alltaf tvöfalda uppskrift til að eiga i frysti.
Æðislegt að heyra Halla! Ég man nú eftir þvi þegar við Svava fengum hrikalega gott lasagna hjá ykkur um árið! 🙂