Mér finnst hinar ýmsu bökur (pæ) algjört hnossgæti og þar trónir eplabaka á toppnum. Mér finnst hins vegar líka allskonar sítrus eftirréttir góðir og ekki síst sítrusbökur. Ein af mínum uppáhaldsuppskriftum hér á Eldhússögum er einmitt að slíkri böku, Key lime bökunni frægu, hér er linkur á þá uppskrift. Undanfarnar vikur hefur fylgt mér löngun á að gæða mér á ferskri sítrónuböku með marengs, ég veit ekki hvers vegna. Kannski er það vegna þess að Ítalíuferðin okkar alveg að bresta á og einhvern veginn finnst mér sítrónupæ minna mig á Ítalíu, ætli það séu ekki sítrónurnar, ég held til dæmis að flestir sem hafa komið til Ítalíu hafi smakkað á ítalska sítrónulíkjörnum, limonchello. Í gær var matarboð hjá foreldrum mínum og mér fannst upplagt að gera fjölskylduna að tilraunakanínum þegar ég prófaði mig áfram með sítrónubökuna í eftirrétt. Ég ákvað tvöfalda sítrónusultuna (lemon curd) og einnig þeytti ég fleiri eggjahvítur en þurfti fyrir bökuna. Þannig gat ég á einfaldan og fljótlegan hátt líka búið til Pavlovu með sítrónusultu, rjóma og berjum. Ólíkir eftirréttir en þó mikið til með sömu hráefnin.
Mér fannst sítrónubakan ofboðslega góð, þetta fullkomna hlutfall milli þess sæta og súra gerir sítrónuböku að himneskum eftirrétti í mínum bókum. Ég held að fjölskyldan hafi verið sammála mér þó kannski ekki öll börnin, bakan er meira svona „fullorðins“eftirréttur. Það lítur kannski út fyrir að vera erfitt að búa þennan eftirrétt til en svo er alls ekki. Það þarf til dæmis ekki að sprauta marengsinum á bökuna, það er líka hægt að dreifa bara úr honum með sleikju. Bökuformið mitt er mjög stórt, 30 cm, ég ætla að gefa upp minni uppskrift sem passar í form sem eru ca. 24 cm, sem er algengari stærð.
Uppskrift (í ca. 24-26 cm bökurform): Botn:
- 3 dl hveiti
- 130 g smjör (kalt)
- 3-4 msk kalt vatn
Sítrónusulta (lemon curd):
- 2 dl sykur
- 4 dl vatn
- 2-3 sítrónur (fer eftir stærð og styrkleika)
- 1 dl maísenamjöl
- 4 eggjarauður
- 20 g smjör
Marengs:
- 4 eggjahvítur
- 1.5 dl sykur
Botn: Ofn hitaður í 150 gráður við undir- og yfirhita. 24-26 cm bökuform smurt að innan. Hveiti, smjör og vatn (gæti þurft meira vatn en gefið er upp) er hnoðað saman í deig. Best er að gera það í höndunum og þá er gott að skera smjörið niður í litla bita og eins er gott að mynda holu í hveitið fyrir vatnið. Þegar deigið er orðið að góðum klumpi er því þrýst ofan í bökuform (deigið þarf ekki að hvíla áður). Fallegt er að láta deigið ná upp á kantana á forminu. Þá er notaður gaffall til að stinga götum á botninn hér og þar. Bakað í ofni við 150 gráður í 15 mínútur.
Á meðan er sítrónusultan útbúin: Sítrónurnar er þvegnar vel og því næst er safinn pressaður úr þeim. Sítrónuhýðið er þá rifið niður með fínu rifjárni, gætið þess að nota bara gula hlutann af hýðinu. Vatn, sykur og 2/3 hlutar af sítrónusafanum er sett í pott ásamt maísenamjöli og suðan látin koma upp, hrært í stöðugt á meðan. Blandan er smökkuð til og restinni af sítrónusafanum er bætt út í eftir smekk. Þegar blandan er orðin hæfileg þykk er potturinn tekin af hellunni og blöndunni leyft að kólna dálítið. Því næst er eggjarauðum, rifna sítrónuhýðinu og smjöri bætt út í og suðan aftur látin koma upp, hrært í á meðan. Blöndunni er að lokum helt ofan á kaldan bökubotninn.
Marengs: eggjahvíturnar stífþeyttar og sykrinum bætt út í smátt og smátt. Marengsinum er dreift yfir sítrónusultuna, annað hvort með spaða eða sprautað með sprautupoka. Að lokum er bakan sett inn í ofn við 175 gráður í 8-10 mínútur. Í lokin er fallegt að stilla ofninn á grill og leyfa marengsinum að brúnast passlega. Nauðsynlegt er þó að fylgjast stöðugt með bökunni þar sem marengsinn brúnast hratt. Vel er hægt að gera bökuna daginn áður en hún er borin fram og geyma hana í kæli. Gott er að bera bökuna fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.
Sítrónan minnir mig óneitanlega á Ítalíu! Dásamlegt hvað bragð og lykt hefur mikið með minningar að gera. Þessi eftirréttur hlýtur að smakkast eins og sólríkur sumardagur á Ítalíu!
Góð samlíking Laufey mín, sólríkur sumardagur á Ítalíu í munninum á mér! 🙂
Get ég gert Lemon curdið nokkrum dögum áður? og ef ég geri kökuna deginum áður er þá betrað brúna marengsinn samdægus?
Sæl Halla Björk. Já, það er ekkert mál að gera lemon curd mörgum dögum áður, það geymist vel. Ég myndi bíða með marengsinn þar til sama dag og bakan á að vera borin fram, þ.e. bæði búa hann til að baka. Gangi þér vel! 🙂
Var með afmæli á sunnud og gekk rosalega vel með þessa köku og mjög góð einföld og sumarleg 🙂
Var með brauðréttinn þinn góða með hunangs dijon sinnepinu hann er svo góður búin að gera hann oft. Prófaði svo rúllubrauðið með pestóinu og rauk það alveg út.
Gerði svo karamellu marengstertuna þína oh hún er svo góð og kláraðist upp til agna, blautu súkkulaðikökuna með glóaldin og bananapæ með karamellu báðar mjög góðar og salthnetutertuna með dumle karamellu og kom hún mjög á óvart hjá mér því ég er ekki fyrir salthnetur en rosalega er hún góð.
Eins og alltaf þegar ég vel uppskriftir frá þér rjúka þær út og var ekki mikill afangur eftir, algjört æði takk fyrir að vera með SÚPER uppskriftir 😉
Vá, en skemmtileg kveðja Halla Björk, held að þú sért nú pottþétt minn tryggasti lesandi…. með svona margar uppskriftir frá Eldhússögum í afmælinu! 🙂 Innilegar þakkir fyrir að skilja eftir svona góða kveðju, hún gleður sannarlega! 🙂