Ég er afar veik fyrir pæjum eða bökum eins og þau kallast á íslensku. Svíar eru mikið bökufólk, það eru alltaf til góðar bökur á kaffihúsunum þar í landi, til dæmis eplabökur og hindberjabökur. Það tók mig nokkur ár að taka í sátt að Svíar bera alltaf fram vanillusósu með bökunum (og eplakökum) en núna finnst mér vanillusósan óskaplega góð – sem minnir mig á að ég þarf að setja inn hingað uppskrift af slíkri sósu! Ég hef sett inn hingað á síðuna nokkrar góðar bökuuppskriftir. Til dæmis þessa uppskrift af kryddaðri eplaböku með hnetum, hún er ákaflega einföld og dásamlega gómsæt:
Ef þið hafið ekki enn prófað Key lime bökuna þá eruð þið að missa af miklu, hún er hnossgæti!
Þessi epla- og hindberjabaka er mjög fljótleg og yndislega góð.
Banana-karamellubakan er ein af mínum uppáhalds, ég mæli sannarlega með þessari dásemd
Að síðustu verð ég að nefna góðu berjabökuna hennar Jóhönnu Ingu, hún er ljúfmeti!
Að þessu sinni ætla ég að setja inn uppskrift af feykigóðri rabarbaraböku með perum. Mér finnst voðalega gott að setja eitthvað sætt með í rabarbarabökurnar, það gefur svo gott jafnvægi við súran rabarbarann. Stundum set ég hindber með en að þessu sinni notaði ég perur, það kom ofsalega vel út. Ef þið eruð hrifin af hvítu súkkulaði þá er sannarlega ekki verra að strá yfir rabarbarabökuna dálítið af hvítum súkkulaðidropum. Hafrahjúpurinn ofan á bökunni er meðal annars með púðursykri og sírópi sem gefur henni stökka áferð og karamellukennt bragð – ljúffengt!
Uppskrift:
- 500 g rabarbari, skorinn í bita
- 2 stórar perur, afhýddar og skornar í bita
- 1 msk kartöflumjöl
- 1 dl sykur + 1 msk
- 1 dl púðursykur
- 2 dl haframjöl
- 2 dl hveiti
- 1/2 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk vanillusykur
- 1/2 dl ljóst síróp
- 125 g smjör
- 1/2 dl rjómi
Ofninn er stilltur á 150 gráður undir- og yfirhita. Rabarbaranum og perunum er dreift í smurt form og 1 msk af sykri og kartöflumjöli er stráð yfir. Smjörið er brætt í potti ásamt rjómanum. Þurrefnunum er blandað saman í skál ásamt sírópinu og brædda smjörinu og rjómanum er svo hrært út í. Blöndunni er því næst dreift jafnt yfir rabarbarann og perurnar. Bakað í ofni við 150 gráður í ca. 40 – 50 mínútur. Bakan er borin fram heit með þeyttum rjóma eða ís.
Er svo bara púðursykrinum og sýrópinu blandað saman og sett ofaná og bakað með allan tímann ??
Fyrst er smjörið brætt með rjómanum. Svo er þurrefnum blandað saman (það er púðursykur, haframjöl, hveiti, lyftiduft og vanillusykur) auk þess sem sírópið er sett út í þurrefnablönduna. Þessu er svo blandað saman við brædda smjörið og rjómann. Það blandast sem sagt allt saman og fer yfir perurnar og rabarbarann.
Dásamlega ljúffeng baka! Takk fyrir frábært blogg.
Kærar þakkir Sigurlaug! 🙂
Frábært..blogg æðisleg baka eins aog allt annað á þessari síðu 🙂 takk.
Takk fyrir falleg orð Sóldís! 🙂
Er nokkuð mál að frysta bökuna strax eftir bakstur ? takk fyrir frábært blogg og alla æðislegu réttina þína 🙂
Takk fyrir góða kveðju Þorgerður. Ég hef ekki prófað að frysta bökuna en ég tel að það sé óhætt! 🙂
Þessi er geðveikt góð 🙂
Bakvísun: Nautnalegt ávaxtapæ | Nautnaseggir
Góðan dag