Ostakökubrownie með hindberjakremi


Ostakökubrownie með hindberjakremi

Hummingbird bakaríið í London opnaði í Notting Hill árið 2004 og sérhæfir sig í amerískum kökum og bakkelsi. Nú hefur bakaríið opnað fleiri útibú og er orðið afar vinsælt og þekkt. humrecipeHummingbird bakaríið hefur einnig gefið út vinsælar uppskriftabækur. Í annarri bókinni er uppskrift af þessari dásamlegu köku, Ostakökubrownies með hindberjakremi. Þessi kaka er þekkt í matarbloggsheiminum í mörgum löndum og ég gat auðvitað ekki annað en prófað hana líka.

Í gærkvöldi var kjörið tækifæri til þess, matarboð fyrir fjölskylduna sem var eiginlega fyrirfram þrettándaboð. Þar sem við vorum tæplega tuttugu ákvað ég að hafa kjúklingasúpuna góðu og prófa þessa köku í eftirréttt. Ég átti að skila því hér frá matarboðsgestunum að þessi kaka fengi fullar fimm stjörnur af fimm! 🙂 Ég get nú ekki annað en verið sammála, þetta er ótrúlega góð kaka. Ef þið ætlið bara að prófa eina köku af síðunni minni þá er þetta mögulega sú kaka! Sjálf browniekakan er ótrúlega bragðgóð og passlega blaut, þá kemur bökuð amerísk ostakaka sem er afskaplega ljúffeng. Frísklegt og flauelsmjúkt hindberjakremið bindur svo saman kökuna, algjört hnossgæti! Ég þarf að baka þessa aftur fljótt og taka betri myndir af henni, matarmyndartaka fer oft fyrir ofan garð og neðan þegar maður er með stórt matarboð!

Athugið að í upphaflegu uppskriftinni eru hinberin maukuð og svo hrærð saman við 100 gr af flórsykri, því næst er blöndunni bætt við þeytta rjómann. Ég sá hins vegar á sumum matarbloggum að mörgum fannst kremið verða of linnt. Ég breytti því uppskriftinni og blandaði hindberjunum við sultusykur í staðinn sem gerir það að verkum að kremið hleypur betur en er samt kremkennt. Mér fannst það koma mjög vel út og held mig við þá útfærslu. En ef einhver prófar að nota flórsykurinn þá væri gaman að heyra hvernig það kemur út! 🙂

IMG_7132

Brownie
 • 200 g dökkt súkkulaði (ég notaði blöndu af suðusúkkulaði, 56% og 70% súkkulaði)
 • 200 g smjör
 • 250 g flórsykur
 • 3 egg
 • 110 g hveiti

IMG_7100Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði. Flórsykur og smjör er hrært í hrærivél þar til blandan verður létt og ljós. Þá er eggjum bætt út í, einu og einu í senn. Því næst er hveitinu bætt út í smá saman. Í lokin er brædda súkkulaðinu bætt út í og hrært þar til allt hefur blandast vel saman. Deiginu er hellt í ferkantað brownie-form, sem er annað hvort mjög vel smurt að innan eða klætt bökunarpappír (ca 33×23 cm), og slétt vel úr því með spaða eða sleikju. Þá þarf að búa til ostakökudeigið.

Ostakaka:

 • 400 g rjómaostur (ég notaði Philadelphia)
 • 150 g flórsykur
 • 1 tsk vanillusykur
 • 2 egg

Bakarofn hitaður í 170 gráður. Rjómaostur, flórsykur og vanillusykur hrært saman í hrærivél á fremur lágum hraða þar til blandan er orðin jöfn og slétt. Þá er eggjunum bætt út í, einu í senn og hrært á meðan þar til blandan er orðin jöfn og kremkennd. Það getur verið gott að nota sleikju öðru hvoru til þess að losa blönduna úr hliðum skálarinnar. Það er gott að hafa hrærivélina á lágum hraða í lokin til þess að osturinn skilji sig ekki.

IMG_7107Ostablöndunni hellt varlega ofan á browniedeigið. Dreift úr jafnt úr blöndunni með spaða eða öðru hentugu áhaldi. Það er mikilvægt að reyna að slétta jafnt úr bæði browniedeiginu og ostakökublöndunni til þess að útkoman verði sem best.

Kakan er bökuð í miðjum ofni við 170 gráður í 30-40 mínútur eða þar til ostakakan er orðin ljós í miðjunni, kantarnir orðnir ljósgylltir og hafa losnað aðeins frá brúnunum. Kælið kökuna alveg. Setjið svo plastfilmu yfir kökuna og setjið í kæli í minnst tvo tíma (gjarnan yfir nóttu). Þá er komið að hindberjakreminu.

Hindberjakrem: 
 • 300 gr. frosin hindber sem búið er að afþýða
 • 1 dl sultusykur með pektíni
 • 2 tsk vanillusykur
 • 3 dl rjómi

Hindber maukuð í matvinnsluvél eða með töfrasprota og sett í pott ásamt sultusykrinum, suðan látin koma upp. Blandan tekin af hitanum og vanillusykri bætt við, blandan látin bíða. Rjóminn þeyttur. Þegar hindberjablandan er orðin köld og farin að stífna, en rennur þó lítilsháttar enn til er henni blandað saman við þeytta rjómann. Hindberjakreminu er svo dreift yfir ostabrowniekökuna. Kakan skorin í ferkantaða bita sem eru gjarnan skreytir með ferskum hindberjum og myntublöðum.

Það kemur fram að vel sé hægt að geyma kökuna í ísskáp í allavega tvo daga en það mun ekki reyna á það hjá okkur ….

IMG_7136

29 hugrenningar um “Ostakökubrownie með hindberjakremi

 1. Bakvísun: Key lime baka | Eldhússögur

 2. Gleðilegt nýtt árið… Ég bakaði sem sagt Pavlovuna (í fínu formi) og skúffukökuna hjá þér fyrir barnaafmælið, var svo óheppin að ofninn hjá mér bilaði og varð ég því að fara og baka hjá mömmu, hafði ég því ekki eins góðan tíma til þess og varð því að sleppa nokkkru af listanum til að ná að klára, en þessar tvær kökur heppnuðust ofsalega vel og voru mjög góðar. Aftur á móti hefði ég viljað sjá þessa uppskrift sem þú ert með hér núna aðeins fyrr, þar sem auðvitað setti ég mér markmið um sykurát og allt það á nýju ári og ætla að reyna að halda það út í allavega nokkrar vikur.. 😉 Glænýr ofn er kominn í hús og þessi kaka verður fyrst á lista þegar banninu léttir, enda er hér allt komið saman í eina köku sem er mitt uppáhald… hvernig gat ég ekki vitað (fattað) að hægt væri að blanda þessu svona dásamlega vel saman.. hehe.. ég slefaði þegar ég sá myndirnar! Hlakka til að fylgjast með á nýju ári!!

  • Gleðilegt ár Anna Sigga! 🙂 Frábært að heyra að Pavlovan og skúffukakan var góð en verra að heyra um ofninn! En það er enn verra að heyra að þú sért komin í sykurbindindi komin með þennan nýja og fína bakarofn og ég búin að setja inn uppskrift af ostakökubrownie með hindberjarjóma!! 😉 Ég vona þín vegna að bindindinu verði aflétt mjög fljótt! 🙂

   • hehe.. já meðan ég held áfram að skoða þetta blogg verð ég fljót að aflétta því.. 😉 .. reyndar er maður bara aðeins að koma sér á réttan kjöl eftir át desember mánaðar. Svo fer maður að leyfa sér að baka eina og eina um helgar og svona.. ég er gríðarlega spennt að prófa hana. 🙂 Verð svo líka að prófa lasagnað sem þú settir inn.. lítur gríðarlega vel út!

 3. Bakvísun: Pecanböku-ostakaka | Eldhússögur

 4. Þetta er það girnilegasta sem ég hef séð. Hversu mikið helduru að maður þurfi að minnka uppskriftina svo hún passi í svona hringlaga form með lausum botni?
  p.s. þú ert komin í harða samkeppni við eiginmanninn hvort hefur meiri áhrif á almennalækna 🙂

  • Æ, ég missti af kommentinu þínu Halldóra Kristín og svara því seint. En ég giska á að það sé hægt að nota 2/3 af uppskriftinni til þess að hún passi í hringlaga form. Það þarf þá örugglega líka að aðlaga eitthvað bökunartímann, fylgjast bara vel með kökunni í ofninum.
   Ég reikna auðvitað fastlega með að vinna eiginmanninn í þessari keppni! 🙂

   • Takk fyrir þetta, er búin að kaupa í kökuna og hlakka til að prófa á eftir 🙂

   • Ég lét verða af því að baka þessa, gerði bara hálfa uppskrift og setti í minnsta hringlagaformið mitt og það passaði fínt 🙂
    Ég notaði flórsykur í kremið þar sem ég fann ekki sultusykur í Bónus eða Hagkaup og það virkaði bara mjög vel, kremið hélt sér alveg 🙂

   • Gaman að heyra það Halldóra! 🙂 Gott að vita að hægt sé að helminga uppskriftina í hringlaga form og nota flórsykur!

 5. Guð minn góður, ég bakaði þessa fyrir afmæli og hún vakti mikla lukku 🙂 Mér fannst hún sérstaklega góð. Ég notaði 150 gr. afþýdd hindber og Dansukker í hindberjakremið. Þetta var svo gott 🙂 Næst verður súkkulaðikakan með hindberjakreminu prófuð.

  Ég hef sjaldan lent á svona uppskriftarsíðu þar sem svona gríðarlegt magn er girnilegt og sem ég vil prófa og í öllum flokkum 🙂

  • En hvað þetta var skemmtileg kveðja Arndís! 🙂 Kærar þakkir! Vonandi líkar þér súkkulaðikakan með hindberjakreminu jafnvel! 🙂

 6. Bakvísun: Ostakaka með crème brûlée | Eldhússögur

 7. Bakvísun: Vinsælustu eftirréttirnir | Eldhússögur

 8. Góðan daginn og takk fyrir yndislegt blogg! ég er að velta fyrir mér hvort ég eigi að gera þessa uppkrift eða Brownie-kaka með hindberjarjóma (sem kom í kökublaði Vikunnar) og hafa í eftirrétt á gamlárs. Þær eru svo líkar en stór smáatriði sem munar á þeim – eins og sultusykur eða matarlím og bara hvort ég eigi að hafa ostakökuna með á milli…. hver er helsti munurinn á þeim? og hverju mælir þú með?

 9. Ég prófaði þessa nú um jólin og hún var æði! Ég setti þetta í tvö föt en það var allt of mikið svo að ég frysti bara annað þeirra í um 10 daga áður en við borðuðum það og það var alveg jafn gott og nýbakaði skammturinn.

  • Sæl Ólöf. Mig minnir að ég hafi séð hann í Krónunni. Annars er hann líka pottþétt til í Hagkaup og öðrum stórum matvöruverslunum. Heitir yfirleitt Syltsukker med Pektin eða eitthvað svipað.

 10. Jæja ég ætla skella í eina í kvöld fyrir gesti sem koma á morgun, en nota ég þá 1 dl flórsykur í staðinn fyrir sultusykur?? og geri ég ekki hindberjakremið bara á morgun? Hlakka rosalega til að baka hana og gefa gestum 🙂

  • Sæl Anna María. Ég hef ekki prófað að nota flórsykurinn sjálf en í kommentunum var ein sem prófaði það og það heppnaðist vel. Ég fór eftir uppskriftinni í bókinni og þá er talað um að gera hindberjakremið samdægurs. Ég sé hins vegar í raun því ekkert til fyrirstöðu að gera alla kökuna í dag og geyma til morguns (tek samt enga ábyrgð á því! 😉 ). Gangi þér vel!

 11. já og med hinberjakremið, set ég berin í pott eða? þar sem ég nota ekki sultusykurinn?? vona að þú svarar áður en ég fer i gang 🙂

  • Ef þú notar flórsykur þá myndi ég afþýða berin og láta vökvann renna alveg af þeim. Mauka þau létt með gaffli. Þeyta rjómann þar til að hann er næstum því tilbúinn. Setja svo berin, flórsykurinn út í og þeyta stutt (alls ekki lengi) þar til kremið er orðið nokkuð þétt („firm but not stiff“).

   • æðislegt takk fyrir þetta 🙂 hlakka til að klára kremið í dag, ég notaði einnig spelti og hrásykur, þannig spennandi að sjá hvernig smakkast í kvöld. Og verð að hlægja smá þar sem þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég skrifa hérna á síðunni þinni en þú skrifar alltaf Anna María 🙂 haha heiti Maria Anna en múttan heitir Anna María, þannig þetta er ekki í fyrsta sinn 🙂 hahaha góða helgi 🙂

  • Ég var einmitt að gera þessa um síðustu helgi og notaði þá form sem er 23x33cm þannig að ég myndi halda að það væri ákkurat passlegt að tvöfalda þessa uppskrift fyrir ofnskúffu.

   • Hafði hana í afmæli í gær og VÁ hvað hún er góð svo mikiið af brögðum og passar allt svo vel saman 🙂

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.