Súkkulaðikaka með „fudge“ kremi


Súkkulaðikaka með "fudge" kremi

Eldhússögur óska lesendum sínum gleðilegs sumars með algjörri bombu! Það verður sannarlega hægt að njóta þessarar köku oft í sumar eftir góðar grillmáltíðir! 🙂 Langvinsælustu kökurnar á blogginum mínu eru Snickerskakan, kladdkakan með karamellukremi og súkkulaðikaka með Pippkaramellukremi. Þessi kaka gott fólk, mun kláralega komast léttilega í þá vinsældarklíku! Hún er dálítil blanda af öllum ofangreindum kökum. Hún er gerð í potti eins og Pippkakan og er því afskaplega einfalt að baka hana. Síðan er kremið er karamellukennt eins og kremið í kladdkökunni. Þetta er auðvitað blanda sem getur ekki klikkað!

IMG_9260

Það eru bara tveir ókostir og þá er ég ekki beinlínis að vísa í sjálfa kökuna. Annað er að nafnið „fudge“ er bara ekki til í íslensku, hvað er málið með það?! Fudge er einhverskonar mjúk súkkulaðikaramella en mér finnst sú skýring ekki jafn lýsandi og orðið „fudge“. Ég skrifaði einmitt um þetta karamelluvandamál í íslenskunni í þessari færslu um banana-karamellubökuna (ef þið hafið ekki prófað hana enn þá eruð þið að missa af miklu! 🙂 ). Hitt vandamálið fer nú samt meira í taugarnar á mér! Í gær var ég með matarboð og um daginn var ég að laga til og undirbúa boðið. Ég tók rafhlöðuna úr myndavélinni minni og ætlaði að setja það í hleðslu. Samtímis var ég að gera hundrað aðra hluti eins og okkur konum er einum lagið. Þegar ég ætlaði að smella rafhlöðunni í hleðslutækið var ég skyndilega ekki lengur með það í hendinni. Til að gera langa sögu stutta þá finn ég ekki rafhlöðuna! Ég er búin að leita út um allt, líka í ruslinu, en rafhlaðan finnst hvergi! Ég þurfti því að taka myndir á litlu myndavélina mína. Ég var alveg viss um að þær myndir myndu ekki gera kökunni nógu góð skil. En ég tók nokkrar myndir í dag (átti smá afgang af kökunni) í dagsbirtunni og ég verð að segja að Canon Powershot vélin er nú alveg ótrúlega góð miðað við að þetta sé bara lítil sjálfvirk vél. Ég læt allavega þessar myndir alveg flakka og held áfram að leita að þessari blessuðu rafhlöðu! Í gærkvöldi þegar ég bauð kökuna var hún bara búin að bíða í ísskáp í um það bil þrjá tíma. Þá var kremið ekki alveg harðnað og hún leit svona út.

IMG_9234Vissulega djúsí og hrikalega góð. En í dag var kremið alveg stífnað og hver kökubiti eins og fullkomin blanda af seigri súkkulaðimjúkri karamellu (þ.e. fugde! ). Ég mæli því eindregið með að þið gerið þessa köku deginum áður en þið berið hana fram! Dásamlega stellið mitt frá Cup Company heldur áfram að lyfta matnum og kökunum sem ég elda og baka á hærra plan! 🙂

IMG_9261

Uppskrift:

  • 150 g smjör
  • 3 dl sykur
  • 1 dl kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 egg
  • 2 dl hveiti

Fudge-krem

  • 1,5 dl rjómi
  • 2 msk smjör
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 100 g mjólkursúkkulaði

Ofninn stilltur á 175 gráður undir- og yfirhita. Smjörið brætt í potti og potturinn tekinn af hellunni. Þá er sykri, kakói og vanillusykri bætt út í og hrært vel. Eggjum bætt út í, einu í senn og hrært. Að lokum er hveitinu bætt út í pottinn og hrært saman við deigið. 24 cm smelluform smurt og deiginu hellt í formið. Bakað í ca. 18-20 mínútur við 175 gráður (ekki blástur). Kakan á að vera vel blaut. Á meðan kakan kólnar er kremið útbúið en smelluformið er ekki tekið af kökunni.

Rjóma hellt í pott og suðan látin koma upp. Þá er potturinn tekinn af hellunni og súkkulaðinu bætt út , hrært þar til það er bráðnað. Að síðustu er smjörinu bætt út í. Kreminu er hellt yfir kökuna þegar hún hefur kólnað dálítið. Athugið að kremið er það þunnt að kakan þarf að vera í kökuforminu þar til kremið hefur stífnað. Kakan er látin inn í ísskáp í minnst þrjá tíma, helst yfir nóttu, þar til kremið hefur stífnað.

IMG_9255

Ostakökubrownie með hindberjakremi


Ostakökubrownie með hindberjakremi

Hummingbird bakaríið í London opnaði í Notting Hill árið 2004 og sérhæfir sig í amerískum kökum og bakkelsi. Nú hefur bakaríið opnað fleiri útibú og er orðið afar vinsælt og þekkt. humrecipeHummingbird bakaríið hefur einnig gefið út vinsælar uppskriftabækur. Í annarri bókinni er uppskrift af þessari dásamlegu köku, Ostakökubrownies með hindberjakremi. Þessi kaka er þekkt í matarbloggsheiminum í mörgum löndum og ég gat auðvitað ekki annað en prófað hana líka.

Í gærkvöldi var kjörið tækifæri til þess, matarboð fyrir fjölskylduna sem var eiginlega fyrirfram þrettándaboð. Þar sem við vorum tæplega tuttugu ákvað ég að hafa kjúklingasúpuna góðu og prófa þessa köku í eftirréttt. Ég átti að skila því hér frá matarboðsgestunum að þessi kaka fengi fullar fimm stjörnur af fimm! 🙂 Ég get nú ekki annað en verið sammála, þetta er ótrúlega góð kaka. Ef þið ætlið bara að prófa eina köku af síðunni minni þá er þetta mögulega sú kaka! Sjálf browniekakan er ótrúlega bragðgóð og passlega blaut, þá kemur bökuð amerísk ostakaka sem er afskaplega ljúffeng. Frísklegt og flauelsmjúkt hindberjakremið bindur svo saman kökuna, algjört hnossgæti! Ég þarf að baka þessa aftur fljótt og taka betri myndir af henni, matarmyndartaka fer oft fyrir ofan garð og neðan þegar maður er með stórt matarboð!

Athugið að í upphaflegu uppskriftinni eru hinberin maukuð og svo hrærð saman við 100 gr af flórsykri, því næst er blöndunni bætt við þeytta rjómann. Ég sá hins vegar á sumum matarbloggum að mörgum fannst kremið verða of linnt. Ég breytti því uppskriftinni og blandaði hindberjunum við sultusykur í staðinn sem gerir það að verkum að kremið hleypur betur en er samt kremkennt. Mér fannst það koma mjög vel út og held mig við þá útfærslu. En ef einhver prófar að nota flórsykurinn þá væri gaman að heyra hvernig það kemur út! 🙂

IMG_7132

Brownie
  • 200 g dökkt súkkulaði (ég notaði blöndu af suðusúkkulaði, 56% og 70% súkkulaði)
  • 200 g smjör
  • 250 g flórsykur
  • 3 egg
  • 110 g hveiti

IMG_7100Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði. Flórsykur og smjör er hrært í hrærivél þar til blandan verður létt og ljós. Þá er eggjum bætt út í, einu og einu í senn. Því næst er hveitinu bætt út í smá saman. Í lokin er brædda súkkulaðinu bætt út í og hrært þar til allt hefur blandast vel saman. Deiginu er hellt í ferkantað brownie-form, sem er annað hvort mjög vel smurt að innan eða klætt bökunarpappír (ca 33×23 cm), og slétt vel úr því með spaða eða sleikju. Þá þarf að búa til ostakökudeigið.

Ostakaka:

  • 400 g rjómaostur (ég notaði Philadelphia)
  • 150 g flórsykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2 egg

Bakarofn hitaður í 170 gráður. Rjómaostur, flórsykur og vanillusykur hrært saman í hrærivél á fremur lágum hraða þar til blandan er orðin jöfn og slétt. Þá er eggjunum bætt út í, einu í senn og hrært á meðan þar til blandan er orðin jöfn og kremkennd. Það getur verið gott að nota sleikju öðru hvoru til þess að losa blönduna úr hliðum skálarinnar. Það er gott að hafa hrærivélina á lágum hraða í lokin til þess að osturinn skilji sig ekki.

IMG_7107Ostablöndunni hellt varlega ofan á browniedeigið. Dreift úr jafnt úr blöndunni með spaða eða öðru hentugu áhaldi. Það er mikilvægt að reyna að slétta jafnt úr bæði browniedeiginu og ostakökublöndunni til þess að útkoman verði sem best.

Kakan er bökuð í miðjum ofni við 170 gráður í 30-40 mínútur eða þar til ostakakan er orðin ljós í miðjunni, kantarnir orðnir ljósgylltir og hafa losnað aðeins frá brúnunum. Kælið kökuna alveg. Setjið svo plastfilmu yfir kökuna og setjið í kæli í minnst tvo tíma (gjarnan yfir nóttu). Þá er komið að hindberjakreminu.

Hindberjakrem: 
  • 300 gr. frosin hindber sem búið er að afþýða
  • 1 dl sultusykur með pektíni
  • 2 tsk vanillusykur
  • 3 dl rjómi

Hindber maukuð í matvinnsluvél eða með töfrasprota og sett í pott ásamt sultusykrinum, suðan látin koma upp. Blandan tekin af hitanum og vanillusykri bætt við, blandan látin bíða. Rjóminn þeyttur. Þegar hindberjablandan er orðin köld og farin að stífna, en rennur þó lítilsháttar enn til er henni blandað saman við þeytta rjómann. Hindberjakreminu er svo dreift yfir ostabrowniekökuna. Kakan skorin í ferkantaða bita sem eru gjarnan skreytir með ferskum hindberjum og myntublöðum.

Það kemur fram að vel sé hægt að geyma kökuna í ísskáp í allavega tvo daga en það mun ekki reyna á það hjá okkur ….

IMG_7136

Súkkulaðimús


Það eru til nokkrar útfærslur af súkkulaðifrauði. Mér finnst eiginlega hægt að flokka þær gróflega í fjórar útgáfur. Ein útgáfan er súkkulaði, sykur og bara eggjahvítur. Í annarri útgáfu er eggjarauðunum bætt út í súkkulaðið, sem sagt eggjarauðurnar notaðar auk eggjahvítanna. Í þriðju útgáfunni bætist rjómi við grunnhráefnið. Í þeirri fjórðu er enginn rjómi notaður en í stað hans kemur smjör. Í bókinni hennar Juliu Child notar hún einmitt síðastnefndu aðferðina (mæli með kvikmyndinni Julie & Julia ef þið hafið ekki séð hana enn!). Ég er enn að prufa mig áfram. Núna notaði ég uppskrift með hvorki smjöri né rjóma sem telst líklega mest hefðbundin og upprunaleg uppskrift af súkkulaðifrauði og það kom afar vel út. Ég notaði 70% súkkulaði en það er með 70% kakóinnihaldi og 30% sykri. Það er talað um að það þurfi aðeins að venjast svona kröftugu og lítið sætu súkkulaði og mörgum finnst það fullrammt við fyrstu kynni. Fyrir þá sem finnst þetta of rammt súkkulaði geta notað 56% súkklaði í uppskriftina hér að neðan. Næst ætla ég að prófa uppskriftina frá Juliu Child sem er með smjöri og mun auðvitað uppfæra hér á blogginu hvers konar súkkulaðifrauð hafi vinninginn!

Uppskrift f. 6-8 (fer eftir skammtastærð)

200 gr gott dökkt súkkulaði (56-70%)

8 eggjahvítur

75 gr sykur

3 eggjarauður

Súkkulaði brætt í vatnsbaði og kælt dálítið. Eggjarauður ásamt helmingnum af sykrinum þeytt þar til blandan verður ljós. Brædda súkkulaðinu hellt varlega saman við eggjarauðurnar og hrært vel í á meðan. Eggjahvíturnar hálfþeyttar og afganginum af sykrinum bætt út í smátt og smátt meðan þær eru stífþeyttar. Blandið þriðjungi af þeyttu eggjahvítunum rösklega saman við súkkulaðiblönduna með písk eða sleif. Að því búnu er afganginum af eggjahvítunum blandað varlega saman saman við með sleikju. Hér sést rétt tækni hvernig blanda á þeyttum eggjahvítum við annað hráefni án þess að þær missi ,,loftið“.

Setjið súkkulaðifrauðið í skálar eða glös og geymið í ísskáp í að minnsta kosti 2-3 klukkutíma áður en það er borið fram. Það er falleg og gott að skreyta með þeyttum rjóma og berjum, t.d. hindberjum eða jarðaberjum