Súkkulaðikaka með „fudge“ kremi


Súkkulaðikaka með "fudge" kremi

Eldhússögur óska lesendum sínum gleðilegs sumars með algjörri bombu! Það verður sannarlega hægt að njóta þessarar köku oft í sumar eftir góðar grillmáltíðir! 🙂 Langvinsælustu kökurnar á blogginum mínu eru Snickerskakan, kladdkakan með karamellukremi og súkkulaðikaka með Pippkaramellukremi. Þessi kaka gott fólk, mun kláralega komast léttilega í þá vinsældarklíku! Hún er dálítil blanda af öllum ofangreindum kökum. Hún er gerð í potti eins og Pippkakan og er því afskaplega einfalt að baka hana. Síðan er kremið er karamellukennt eins og kremið í kladdkökunni. Þetta er auðvitað blanda sem getur ekki klikkað!

IMG_9260

Það eru bara tveir ókostir og þá er ég ekki beinlínis að vísa í sjálfa kökuna. Annað er að nafnið „fudge“ er bara ekki til í íslensku, hvað er málið með það?! Fudge er einhverskonar mjúk súkkulaðikaramella en mér finnst sú skýring ekki jafn lýsandi og orðið „fudge“. Ég skrifaði einmitt um þetta karamelluvandamál í íslenskunni í þessari færslu um banana-karamellubökuna (ef þið hafið ekki prófað hana enn þá eruð þið að missa af miklu! 🙂 ). Hitt vandamálið fer nú samt meira í taugarnar á mér! Í gær var ég með matarboð og um daginn var ég að laga til og undirbúa boðið. Ég tók rafhlöðuna úr myndavélinni minni og ætlaði að setja það í hleðslu. Samtímis var ég að gera hundrað aðra hluti eins og okkur konum er einum lagið. Þegar ég ætlaði að smella rafhlöðunni í hleðslutækið var ég skyndilega ekki lengur með það í hendinni. Til að gera langa sögu stutta þá finn ég ekki rafhlöðuna! Ég er búin að leita út um allt, líka í ruslinu, en rafhlaðan finnst hvergi! Ég þurfti því að taka myndir á litlu myndavélina mína. Ég var alveg viss um að þær myndir myndu ekki gera kökunni nógu góð skil. En ég tók nokkrar myndir í dag (átti smá afgang af kökunni) í dagsbirtunni og ég verð að segja að Canon Powershot vélin er nú alveg ótrúlega góð miðað við að þetta sé bara lítil sjálfvirk vél. Ég læt allavega þessar myndir alveg flakka og held áfram að leita að þessari blessuðu rafhlöðu! Í gærkvöldi þegar ég bauð kökuna var hún bara búin að bíða í ísskáp í um það bil þrjá tíma. Þá var kremið ekki alveg harðnað og hún leit svona út.

IMG_9234Vissulega djúsí og hrikalega góð. En í dag var kremið alveg stífnað og hver kökubiti eins og fullkomin blanda af seigri súkkulaðimjúkri karamellu (þ.e. fugde! ). Ég mæli því eindregið með að þið gerið þessa köku deginum áður en þið berið hana fram! Dásamlega stellið mitt frá Cup Company heldur áfram að lyfta matnum og kökunum sem ég elda og baka á hærra plan! 🙂

IMG_9261

Uppskrift:

  • 150 g smjör
  • 3 dl sykur
  • 1 dl kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 egg
  • 2 dl hveiti

Fudge-krem

  • 1,5 dl rjómi
  • 2 msk smjör
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 100 g mjólkursúkkulaði

Ofninn stilltur á 175 gráður undir- og yfirhita. Smjörið brætt í potti og potturinn tekinn af hellunni. Þá er sykri, kakói og vanillusykri bætt út í og hrært vel. Eggjum bætt út í, einu í senn og hrært. Að lokum er hveitinu bætt út í pottinn og hrært saman við deigið. 24 cm smelluform smurt og deiginu hellt í formið. Bakað í ca. 18-20 mínútur við 175 gráður (ekki blástur). Kakan á að vera vel blaut. Á meðan kakan kólnar er kremið útbúið en smelluformið er ekki tekið af kökunni.

Rjóma hellt í pott og suðan látin koma upp. Þá er potturinn tekinn af hellunni og súkkulaðinu bætt út , hrært þar til það er bráðnað. Að síðustu er smjörinu bætt út í. Kreminu er hellt yfir kökuna þegar hún hefur kólnað dálítið. Athugið að kremið er það þunnt að kakan þarf að vera í kökuforminu þar til kremið hefur stífnað. Kakan er látin inn í ísskáp í minnst þrjá tíma, helst yfir nóttu, þar til kremið hefur stífnað.

IMG_9255