Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu


Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu

Í dag fengum við góða sænska gesti til okkar í mat. Ég veit ekki hvernig það er með ykkur en ég tek oft rispur þar sem ég býð upp á sama matréttinn í matarboðum í allmörg skipti – þar til að ég fæ nóg og sný mér að öðrum rétti! 🙂 Nú í sumar hafa þessir uppáhaldssréttir verið tveir fiskréttir héðan frá Eldhússögum. Annarsvegar er það ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu og hinsvegar sojamarineraður lax með mangó-avókadó salsa og smörsteiktu spínati. Þegar við fáum til okkar Svía í mat þá bjóðum við hér um bil alltaf upp á fisk. Almennt eru Svíar hrifnir af fiski en í Stokkhólmi er lítið um góðan fisk og Stokkhólmsbúar kunna því vel að meta góða fiskinn okkar. Að þessu sinni bauð ég upp á þorskinn en grillaði hann í stað þess að baka í ofninum.

IMG_6582

Ég bauð upp á eftirrétt sem ég gerði oft fyrir nokkrum árum en var búin að steingleyma þar til hann rifjaðist upp fyrir mér nýlega. Ég var að fletta uppskriftabók um daginn og sá þá mynd af svipuðum eftirrétti. Í framhaldinu rótaði ég í uppskriftablöðunum mínum og fann þá uppskriftina sem ég notaði alltaf – mikið var ég glöð því rétturinn er einn af mínum uppáhalds! Ég prófaði nýjung í dag. Ég útbjó smjördeigsböggul fyrir hvern og einn gest. Í upphaflegu uppskriftinni er smjördeiginu pússlað saman með því að leggja brúnirnar örlítið yfir hvor aðra og deigið flatt dálítið út, eldfast mót klætt að innan með smjördeiginu og fyllingunni hellt út í. En mér fannst mikið betra að útbúa svona böggla eins og ég gerði í dag, ég mæli með því. Ég notaði smjördeig sem ég keypti í Nettó (hafið þið kannski séð þessa tegund í annarri verslun?). Mér finnst þetta smjördeig eiginlega betra en Findus smjördeigið og það er talsvert ódýrara. Í pakkanum eru sex plötur (fimm hjá Findus) og þær eru bæði þynnri og stærri, það er mjög hentugt í þessari uppskrift. Ef þið notið plötur frá Findus í þessa uppskrift þá mæli ég með því að fletja þær örlítið út (muna að nota hveiti, annars klessast þær).

Uppskrift: TC bröd smjördeig

  • 1 pakki frosið smjördeig (ég notaði frá TC brød sem fæst í Nettó, það eru 6 plötur eða 450 g)
  • ca 700 g græn epli (ég notaði 4 stór epli)
  • 70 g smjör
  • 70 g hrásykur (má líka nota venjulegan sykur)
  • 70 g rjómakaramellur (ég notaði Werther’s Original)
  • 100 g pekan- eða valhnetur, saxaðar gróft
  • 1 lítið egg, slegið (má sleppa)

Smjördeigsplötunar látnar þiðna (þær þiðna á mjög skömmum tíma) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Ofninn hitaður i 210 gráður við undir- og yfirhita. Eplin eru afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í bita. Smjör, hrásykur og karamellur eru settar í pott og brætt við meðalhita, hrært í á meðan.

IMG_6579

Þegar karamellurnar eru bráðnaðar og sósan er orðin slétt er eplum og hnetum bætt út í. Á þessum tímapunkti hleypur sósan oft í kekki þar sem að eplin kæla sósuna. Látið ekki hugfallast heldur skerpið aðeins á hitanum og látið sósuna hitna aftur. Hrærið í blöndunni og smátt og smátt verður karamellusósan aftur mjúk. Þegar eplin og hneturnar eru öll þakin sósu er góður skammtur settur í miðjuna á hverri smjördeigsplötu.

IMG_6580

Ég reyndi að hafa ekki mikinn vökva með, til þess að deigið héldist stökkt, en gott er að geyma vökvann sem verður afgangs til að nota í lokin. Því næst eru hornin á hverri plötu tekin upp og lögð að miðjunni. Það er allt í lagi þó þau leggist ekki alveg að fyllingunni, það er bara fallegra að hafa bögglana aðeins opna. Smjördegið er þá smurt með eggi. Bakað í ofni við 210 gráður í um það 20-25 mínútur eða þar til smjördeigið er orðið fallega brúnt. Borið fram heitt með vanilluís eða rjóma. Karamelluvökvann, sem varð afgangs, er frábærlega gott að hita upp aftur og hella yfir eplin í hverjum böggli. Njótið!

IMG_6585

Súkkulaðikaka með „fudge“ kremi


Súkkulaðikaka með "fudge" kremi

Eldhússögur óska lesendum sínum gleðilegs sumars með algjörri bombu! Það verður sannarlega hægt að njóta þessarar köku oft í sumar eftir góðar grillmáltíðir! 🙂 Langvinsælustu kökurnar á blogginum mínu eru Snickerskakan, kladdkakan með karamellukremi og súkkulaðikaka með Pippkaramellukremi. Þessi kaka gott fólk, mun kláralega komast léttilega í þá vinsældarklíku! Hún er dálítil blanda af öllum ofangreindum kökum. Hún er gerð í potti eins og Pippkakan og er því afskaplega einfalt að baka hana. Síðan er kremið er karamellukennt eins og kremið í kladdkökunni. Þetta er auðvitað blanda sem getur ekki klikkað!

IMG_9260

Það eru bara tveir ókostir og þá er ég ekki beinlínis að vísa í sjálfa kökuna. Annað er að nafnið „fudge“ er bara ekki til í íslensku, hvað er málið með það?! Fudge er einhverskonar mjúk súkkulaðikaramella en mér finnst sú skýring ekki jafn lýsandi og orðið „fudge“. Ég skrifaði einmitt um þetta karamelluvandamál í íslenskunni í þessari færslu um banana-karamellubökuna (ef þið hafið ekki prófað hana enn þá eruð þið að missa af miklu! 🙂 ). Hitt vandamálið fer nú samt meira í taugarnar á mér! Í gær var ég með matarboð og um daginn var ég að laga til og undirbúa boðið. Ég tók rafhlöðuna úr myndavélinni minni og ætlaði að setja það í hleðslu. Samtímis var ég að gera hundrað aðra hluti eins og okkur konum er einum lagið. Þegar ég ætlaði að smella rafhlöðunni í hleðslutækið var ég skyndilega ekki lengur með það í hendinni. Til að gera langa sögu stutta þá finn ég ekki rafhlöðuna! Ég er búin að leita út um allt, líka í ruslinu, en rafhlaðan finnst hvergi! Ég þurfti því að taka myndir á litlu myndavélina mína. Ég var alveg viss um að þær myndir myndu ekki gera kökunni nógu góð skil. En ég tók nokkrar myndir í dag (átti smá afgang af kökunni) í dagsbirtunni og ég verð að segja að Canon Powershot vélin er nú alveg ótrúlega góð miðað við að þetta sé bara lítil sjálfvirk vél. Ég læt allavega þessar myndir alveg flakka og held áfram að leita að þessari blessuðu rafhlöðu! Í gærkvöldi þegar ég bauð kökuna var hún bara búin að bíða í ísskáp í um það bil þrjá tíma. Þá var kremið ekki alveg harðnað og hún leit svona út.

IMG_9234Vissulega djúsí og hrikalega góð. En í dag var kremið alveg stífnað og hver kökubiti eins og fullkomin blanda af seigri súkkulaðimjúkri karamellu (þ.e. fugde! ). Ég mæli því eindregið með að þið gerið þessa köku deginum áður en þið berið hana fram! Dásamlega stellið mitt frá Cup Company heldur áfram að lyfta matnum og kökunum sem ég elda og baka á hærra plan! 🙂

IMG_9261

Uppskrift:

  • 150 g smjör
  • 3 dl sykur
  • 1 dl kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 egg
  • 2 dl hveiti

Fudge-krem

  • 1,5 dl rjómi
  • 2 msk smjör
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 100 g mjólkursúkkulaði

Ofninn stilltur á 175 gráður undir- og yfirhita. Smjörið brætt í potti og potturinn tekinn af hellunni. Þá er sykri, kakói og vanillusykri bætt út í og hrært vel. Eggjum bætt út í, einu í senn og hrært. Að lokum er hveitinu bætt út í pottinn og hrært saman við deigið. 24 cm smelluform smurt og deiginu hellt í formið. Bakað í ca. 18-20 mínútur við 175 gráður (ekki blástur). Kakan á að vera vel blaut. Á meðan kakan kólnar er kremið útbúið en smelluformið er ekki tekið af kökunni.

Rjóma hellt í pott og suðan látin koma upp. Þá er potturinn tekinn af hellunni og súkkulaðinu bætt út , hrært þar til það er bráðnað. Að síðustu er smjörinu bætt út í. Kreminu er hellt yfir kökuna þegar hún hefur kólnað dálítið. Athugið að kremið er það þunnt að kakan þarf að vera í kökuforminu þar til kremið hefur stífnað. Kakan er látin inn í ísskáp í minnst þrjá tíma, helst yfir nóttu, þar til kremið hefur stífnað.

IMG_9255

Pecanböku-ostakaka


IMG_7826Vinur okkar hjóna kom í mat til okkar í vikunni. Hann er mikill matgæðingur og góður kokkur, ég gat því ekki boðið honum upp á neitt slor! 😉 Ég hafði í aðalrétt ofnbakaða þorskinn með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu. Þetta er orðinn svona „my go to“ réttur þegar mig langar að bjóða upp á gómsætan aðalrétt í matarboðum. Ég er búin að skoða svo margar góðar uppskriftir af eftirréttum undanfarið að ég var í dálitlum vandræðum með hvað ég ætti að velja. Og þó – ég var langspenntust fyrir þessari köku! Þeir sem hafa smakkað pecanpæ og bakaða ostaköku þurfa ekki að spyrja hvers vegna! Það er greinilega eitthvað þema hjá mér að blanda saman ostakökum við aðrar kökur samanber brownie-ostakökuna sem ég er með uppskrift af hér. En að þessu sinni er  pekanböku blandað saman við ostaköku sem er þvílíka snilldin! Þetta er algjört sælgæti sem er skemmtilegt að baka og enn skemmtilegra að borða!

IMG_7771

Uppskrift:

Botn:

  • 300 g Digestive kex
  • 150 g smjör
Pecanböku-fylling:
    • 200 g sykur
    • 200 g síróp
    • 80 g smjör, brætt
    • 2 egg
    • 150 g pecan-hnetur, saxaðar gróft
    • 1 tsk vanillusykur
Ostakaka:
  •  600 g rjómaostur
  • 130 g púðursykur
  • 2 msk hveiti
  • 4 egg
  • 150 ml rjómi
  • 1 tsk vanillusykur

Ofninn stilltur á 180 gráður undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna á meðan pecanböku-fyllingin er búin til.

Öllum hráefnunum fyrir pecanböku-fyllinguna blandað saman í pott og látið ná suðu. Látið blönduna malla á meðalhita þar til hún hefur þykknað. Hrært í stöðugt á meðan, þetta tekur 8-10 mínútur. Blöndunni er hellt yfir kexbotninn. Þá er ostaköku blandan útbúin.

IMG_7781

Rjómaostur hrærður í hrærivél eða með rafmagnsþeytara á meðalhraða þar til hann er orðin mjúkur. Þá er púðursykri og hveiti bætt út í þar til blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við einu og einu í senn og þeytt vel, en þó ekki of lengi. Að síðustu er rjómanum og vanillusykrunum bætt út í og hrært á meðan. Þá er ostakökublöndunni hellt yfir pecanbökuna. Bakað í miðjum ofni við 180 gráður í klukkustund. Þá er slökkt á ofninum og kökunni leyft að bíða í ofninum í klukkustund í viðbót. Þá er kakan kæld í minnst 4 tíma áður en hún er borin fram.

IMG_7815

Banana-karamellubaka


Þessi himneska baka kemur úr smiðju Davids Lebovitz sem er snillingur þegar kemur að eftirréttagerð. Uppskriftina er að finna í bókinni hans Ready for Dessert: My Best Recipies. Á ensku heitir þessi baka Butterscotch Banana Cream Pie. Ég er búin að spá aðeins í þetta ,,butterscotch“. Á íslensku notum við orðið karamella yfir allar gerðir karamellu. En á ensku er til:

Butterscotch = púðursykur, rjómi og smjör hitað í ca. 115°C – 125°C.
Toffee = púðursykur, rjómi og smjör hitað upp í 150°C – 160°C þar til það verður stökkt.
Caramel = hvítur sykur ásamt smjöri og rjóma hitað þar til sykurinn brúnast, gerist við 150-170°C

Ég fæ ekki séð að við eigum mismunandi orð yfir þessar karamellur en ég er búin að fletta upp í eldhúsbiblíunni minni, Matarást eftir Nönnu Rögnvaldar, hún notar ensku orðin til aðgreiningar.

Eins og kemur fram hér að ofan þá er oftast rjómi í butterscotch-karamellunni en David notar mjólk í þessari uppskrift sem er auðvitað snilld, þá getur maður fengið sér fleiri sneiðar af bökunni án samviskubits! 🙂

Það kannski lítur út fyrir að það sé flókið að gera karamelluna en svo er alls ekki. Fylgið bara leiðbeiningunum nákvæmlega. Snilld við þessa böku er að það er hægt að útbúa hana deginum áður, en þá er bara rjómanum bætt við rétt áður en bakan er borið fram. Ég mæli með að þið prófið þessa dásemdarböku sem allra fyrst! 🙂

 Uppskrift

Botn:
180 gr súkkulaðikex (td. Maryland, rautt) eða Digestive kex ef maður vill minna sætan botn.
3 msk sykur
4 msk bráðið smjör

Aðferð:
Smyrjið bökuform. Bræðið smjörið og myljið kexið í matvinnsluvél eða mixer, blandið saman. Sett í botninn á forminu og blöndunni þrýst i í botninn og upp í hliðar á bökuforminu. Kælið í 30 mínútur í ísskáp eða frysti og bakið svo í ofni við 175°C í 10 mínútur. Leyfið botninum að kólna á meðan karamellan er er útbúin.

Karamella: 

215 gr. púðursykur
30 gr. smjör
3 msk. maizenamjöl
375 ml. nýmjólk
1/2 tsk. salt
3 eggjarauður
1/2 tsk vanilluextract (ég notaði fræin úr ferskri vanillustöng í staðinn en það er líka hægt að nota vanilludropa)
3 þroskaðir bananar

Aðferð:

  1. Bræðið smjör og púðursykur saman á meðalhita í potti, hellið yfir í meðalstóra skál, setjið sigti yfir skálina og setjið til hliðar
  2. Hrærið maizenamjölið út í 75 gr. af mjólkinni í lítilli skál. Hitið restina af mjólkinni með saltinu í potti þangað til að blandan er við suðu og hellið þá maizenamjölsblöndunni út í og hrærið þar til blandan þykknar (álíka mikið og majónes).
  3. Þeytið eggjarauðurnar saman í skál. Hellið smá af heitri mjólkurblöndunni útí eggin og þeytið meira. Hellið nú eggjablöndunni út í pottinn með heitu mjólkinni, sjóðið á meðalhita til að blandan þykkni.
  4. Hellið nú heitri blöndunni í gegnum sigtið ofan í púðursykurblönduna. Bætið vanilluextract við og hrærið vel saman. Núna er karamellan tilbúin.
  5. Skerið bananana niður í 6 mm sneiðar og dreifið yfir kexbotninn. Hellið karmellublöndunni yfir bananana, setjið plastfilmu yfir bökuna og geymið í kæli í minnst 2 klukkutíma áður en rjóminn er settur ofan á og bakan borin á borð.

IMG_3190

Rjómi:

250 ml rjómi
1 msk sykur
1/2 tsk vanilluextract
súkkulaðispænir til skreytingar

Þeytið rjómann þar til hann fer að þykkna, bætið þá sykri og vanilluextract út í og þeytið rjómann til fulls. Dreifið yfir bökuna og skreytið með súkkulaðispæni.