Bananapæ með Dumle go nuts karamellusósu


IMG_8127IMG_8118Eitt af því besta sem ég veit er þegar banönum, karamellu og rjóma er fléttað saman í gómsætan eftirrétt. Þegar ég tók að mér að gera Dumle uppskriftirnar um daginn þá langaði mig ægilega mikið að búa til eftirrétt með einmitt þessum hráefnum. IMG_8135 Dumle go nuts molarnir eru vandræðalega góðir, mjúk karamellan, hnetur og súkkulaði sem kemur allt saman í einum mola. Ég sá það fyrir mér að það væri auðvelt og gott að gera karamellusósu úr þessari dásemd og þannig varð þetta bananapæ til á örskömmum tíma. Þetta er eftirréttur sem hægt er að útbúa á bara nokkrum mínútum, það finnst mér alltaf vera mikill kostur, en fyrst og fremst er þetta svo óskaplega gott! 🙂 IMG_8133 Uppskrift f. 4

  • 150 g Digestive kex
  • 2 meðalstórir bananar, vel þroskaðir
  • 1 poki Dumle go nuts (175 g)
  • 2 ½  dl rjómi
  • 4 msk rjómi

IMG_8116 Kexið er mulið fremur smátt. Bananar skornir í sneiðar og 2 ½ dl af rjóma þeyttur. Dumle go nuts molarnir (3 molar skildir eftir til skrauts) eru settir í pott ásamt 4 msk af  rjóma og brætt við vægan hita. Því næst er skipt á milli 4 skála: kexmylsna í botninn, þá Dumle go nuts sósa, bananabitar, þeyttur rjómi, kexmylsna, Dumle go nuts sósa, þeyttur rjómi og loks restinni af bananabitunum stungið ofan í rjómann. Dumle go nuts molarnir þrír eru saxaðir smátt og dreift yfir til skrauts. IMG_8131 IMG_8121IMG_8122

Banana-karamellubaka


Þessi himneska baka kemur úr smiðju Davids Lebovitz sem er snillingur þegar kemur að eftirréttagerð. Uppskriftina er að finna í bókinni hans Ready for Dessert: My Best Recipies. Á ensku heitir þessi baka Butterscotch Banana Cream Pie. Ég er búin að spá aðeins í þetta ,,butterscotch“. Á íslensku notum við orðið karamella yfir allar gerðir karamellu. En á ensku er til:

Butterscotch = púðursykur, rjómi og smjör hitað í ca. 115°C – 125°C.
Toffee = púðursykur, rjómi og smjör hitað upp í 150°C – 160°C þar til það verður stökkt.
Caramel = hvítur sykur ásamt smjöri og rjóma hitað þar til sykurinn brúnast, gerist við 150-170°C

Ég fæ ekki séð að við eigum mismunandi orð yfir þessar karamellur en ég er búin að fletta upp í eldhúsbiblíunni minni, Matarást eftir Nönnu Rögnvaldar, hún notar ensku orðin til aðgreiningar.

Eins og kemur fram hér að ofan þá er oftast rjómi í butterscotch-karamellunni en David notar mjólk í þessari uppskrift sem er auðvitað snilld, þá getur maður fengið sér fleiri sneiðar af bökunni án samviskubits! 🙂

Það kannski lítur út fyrir að það sé flókið að gera karamelluna en svo er alls ekki. Fylgið bara leiðbeiningunum nákvæmlega. Snilld við þessa böku er að það er hægt að útbúa hana deginum áður, en þá er bara rjómanum bætt við rétt áður en bakan er borið fram. Ég mæli með að þið prófið þessa dásemdarböku sem allra fyrst! 🙂

 Uppskrift

Botn:
180 gr súkkulaðikex (td. Maryland, rautt) eða Digestive kex ef maður vill minna sætan botn.
3 msk sykur
4 msk bráðið smjör

Aðferð:
Smyrjið bökuform. Bræðið smjörið og myljið kexið í matvinnsluvél eða mixer, blandið saman. Sett í botninn á forminu og blöndunni þrýst i í botninn og upp í hliðar á bökuforminu. Kælið í 30 mínútur í ísskáp eða frysti og bakið svo í ofni við 175°C í 10 mínútur. Leyfið botninum að kólna á meðan karamellan er er útbúin.

Karamella: 

215 gr. púðursykur
30 gr. smjör
3 msk. maizenamjöl
375 ml. nýmjólk
1/2 tsk. salt
3 eggjarauður
1/2 tsk vanilluextract (ég notaði fræin úr ferskri vanillustöng í staðinn en það er líka hægt að nota vanilludropa)
3 þroskaðir bananar

Aðferð:

  1. Bræðið smjör og púðursykur saman á meðalhita í potti, hellið yfir í meðalstóra skál, setjið sigti yfir skálina og setjið til hliðar
  2. Hrærið maizenamjölið út í 75 gr. af mjólkinni í lítilli skál. Hitið restina af mjólkinni með saltinu í potti þangað til að blandan er við suðu og hellið þá maizenamjölsblöndunni út í og hrærið þar til blandan þykknar (álíka mikið og majónes).
  3. Þeytið eggjarauðurnar saman í skál. Hellið smá af heitri mjólkurblöndunni útí eggin og þeytið meira. Hellið nú eggjablöndunni út í pottinn með heitu mjólkinni, sjóðið á meðalhita til að blandan þykkni.
  4. Hellið nú heitri blöndunni í gegnum sigtið ofan í púðursykurblönduna. Bætið vanilluextract við og hrærið vel saman. Núna er karamellan tilbúin.
  5. Skerið bananana niður í 6 mm sneiðar og dreifið yfir kexbotninn. Hellið karmellublöndunni yfir bananana, setjið plastfilmu yfir bökuna og geymið í kæli í minnst 2 klukkutíma áður en rjóminn er settur ofan á og bakan borin á borð.

IMG_3190

Rjómi:

250 ml rjómi
1 msk sykur
1/2 tsk vanilluextract
súkkulaðispænir til skreytingar

Þeytið rjómann þar til hann fer að þykkna, bætið þá sykri og vanilluextract út í og þeytið rjómann til fulls. Dreifið yfir bökuna og skreytið með súkkulaðispæni.