Eitt af því besta sem ég veit er þegar banönum, karamellu og rjóma er fléttað saman í gómsætan eftirrétt. Þegar ég tók að mér að gera Dumle uppskriftirnar um daginn þá langaði mig ægilega mikið að búa til eftirrétt með einmitt þessum hráefnum.
Dumle go nuts molarnir eru vandræðalega góðir, mjúk karamellan, hnetur og súkkulaði sem kemur allt saman í einum mola. Ég sá það fyrir mér að það væri auðvelt og gott að gera karamellusósu úr þessari dásemd og þannig varð þetta bananapæ til á örskömmum tíma. Þetta er eftirréttur sem hægt er að útbúa á bara nokkrum mínútum, það finnst mér alltaf vera mikill kostur, en fyrst og fremst er þetta svo óskaplega gott! 🙂
Uppskrift f. 4
- 150 g Digestive kex
- 2 meðalstórir bananar, vel þroskaðir
- 1 poki Dumle go nuts (175 g)
- 2 ½ dl rjómi
- 4 msk rjómi
Kexið er mulið fremur smátt. Bananar skornir í sneiðar og 2 ½ dl af rjóma þeyttur. Dumle go nuts molarnir (3 molar skildir eftir til skrauts) eru settir í pott ásamt 4 msk af rjóma og brætt við vægan hita. Því næst er skipt á milli 4 skála: kexmylsna í botninn, þá Dumle go nuts sósa, bananabitar, þeyttur rjómi, kexmylsna, Dumle go nuts sósa, þeyttur rjómi og loks restinni af bananabitunum stungið ofan í rjómann. Dumle go nuts molarnir þrír eru saxaðir smátt og dreift yfir til skrauts.