Bananapæ með Dumle go nuts karamellusósu


IMG_8127IMG_8118Eitt af því besta sem ég veit er þegar banönum, karamellu og rjóma er fléttað saman í gómsætan eftirrétt. Þegar ég tók að mér að gera Dumle uppskriftirnar um daginn þá langaði mig ægilega mikið að búa til eftirrétt með einmitt þessum hráefnum. IMG_8135 Dumle go nuts molarnir eru vandræðalega góðir, mjúk karamellan, hnetur og súkkulaði sem kemur allt saman í einum mola. Ég sá það fyrir mér að það væri auðvelt og gott að gera karamellusósu úr þessari dásemd og þannig varð þetta bananapæ til á örskömmum tíma. Þetta er eftirréttur sem hægt er að útbúa á bara nokkrum mínútum, það finnst mér alltaf vera mikill kostur, en fyrst og fremst er þetta svo óskaplega gott! 🙂 IMG_8133 Uppskrift f. 4

  • 150 g Digestive kex
  • 2 meðalstórir bananar, vel þroskaðir
  • 1 poki Dumle go nuts (175 g)
  • 2 ½  dl rjómi
  • 4 msk rjómi

IMG_8116 Kexið er mulið fremur smátt. Bananar skornir í sneiðar og 2 ½ dl af rjóma þeyttur. Dumle go nuts molarnir (3 molar skildir eftir til skrauts) eru settir í pott ásamt 4 msk af  rjóma og brætt við vægan hita. Því næst er skipt á milli 4 skála: kexmylsna í botninn, þá Dumle go nuts sósa, bananabitar, þeyttur rjómi, kexmylsna, Dumle go nuts sósa, þeyttur rjómi og loks restinni af bananabitunum stungið ofan í rjómann. Dumle go nuts molarnir þrír eru saxaðir smátt og dreift yfir til skrauts. IMG_8131 IMG_8121IMG_8122

Ostakökudesert með hindberjasósu


Ostakökudesert með hindberjasósuÉg er búin að setja inn þónokkuð af uppskriftum að ostakökum undanfarið enda finnst mér þær hnossgæti! 🙂 Eini ókosturinn við ostakökur er að þær þarf að búa til með smá fyrirvara. Þegar við komum heim frá Bandaríkjunum í ágúst ákvað ég að hafa matarboð strax daginn eftir lendingu. Við vorum búin að vera í heilan mánuð erlendis og farin að sakna vina okkar. Elfar byrjar yfirleitt á því að fara beint á vakt þegar við komum heim úr fríi en aldrei þessu vant fékk hann helgarfrí áður en hann þurfti að mæta til vinnu. Ég ýtti því bara ferðatöskunum út í horn og blés til matarboðs. Mig langaði helst að hafa ostaköku í eftirrétt en hafi ekki tíma til þess að búa hana til. Það varð því úr að ég setti saman þennan eftirrétt á örstuttum tíma. Ótrúlega góður og ekki spillir fyrir hversu einfaldur og fljótlegur hann er.
IMG_7260
Uppskrift f. 6:
  • 2 dósir Philadelpia rjómaostur (400 g)
  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml)
  • 1 dl rjómi
  • 1 vanillustöng, klofin og fræin skafin úr
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/2 dl flórsykur
  • 300 g Digestive kex
  • 300 g frosin hindber, afþýdd
  • 1.5 msk sykur
  • ber til skreytingar (t.d. hindber og bláber)
  • fersk myntublöð (má sleppa)

IMG_7257

Rjómaostur, grísk jógúrt og rjómi er þeytt saman ásamt fræjunum úr vanillustönginni, vanillusykri, flórsykri og 100 grömmum af hindberjunum þar til blandan verður kremkennd. Digestive kexið er mulið smátt. Afgangnum af hindberjunum (200 grömm) eru maukuð vel með gaffli og sykrinum bætt út í. Ef sósan verður mjög þykk er hægt að þynna hana með örlitlu vatni. Því næst er öllum hráefnunum blandað í sex skálar – einnig er hægt að setja allt í eina stóra skál. Best er að byrja á því að dreifa hluta af mulda kexinu í botinn, þá rjómaostablöndunni og loks hindberjasósunni. Þetta er endurtekið um það bil tvisvar eða þar til hráefnin eru búin. Að lokum er skeytt með berjum og jafnvel ferskum myntublöðum.
IMG_7265

Dumle-súkkulaðifrauð með karamelliseruðum hnetum


Dumle-súkkulaðifrauð með karamelliseruðum hnetumUm daginn gaf ég nokkrar uppskriftir fyrir fermingarveislur í Fréttatímanum. Ein þeirra var af sjúklega góðu Dumle-súkkulaðifrauði. Á þessum myndum útbjó ég það í litlum skömmtum sem hentar vel á hlaðborð en það er ekkert því til fyrirstöðu að búa til hefðbundinn eftirrétt úr þessari uppskrift og þá passar uppskriftin fyrir um það bil fjóra. Það þarf ekkert endilega að gefa sér tvo daga til að útbúa réttinn en það getur verið afar hentugt þegar veisla er undirbúin. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að gera réttinn samdægurs. Það eina sem þarf að gæta að er að rjóminn sé orðin alveg kaldur áður en hann er þeyttur.

IMG_4444

Dumle-súkkulaðifrauð með karamelliseruðum hnetum (passar í ca. 10 lítil glös eða 4 venjulega skammta sem eftirréttur)

  • 1 poki Dumle karamellur (120 g)
  • 3 dl rjómi
  • 1 dl hnetur (t.d. heslihnetur og kasjúhnetur)
  • 2 msk sykur
  • ½ msk smjör
  • hindber til skreytingar

Dagur 1:

Hneturnar eru grófsaxaðar og settar á pönnu ásamt sykri og smöri við meðalhita, hrært stöðugt í blöndunni. Þegar sykurinn hefur brúnast og hneturnar karamelliseras er þeim hellt á bökunarpappír og leyft að kólna. Þegar hneturnar eru orðnar kaldar eru þær muldar niður og geymdar í góðu íláti.

Karamellurnar eru klipptar í smærri bita. Rjómi hitaður í potti og þegar hann er kominn nálægt suðu er karamellunum bætt út rjómann og hrært þar til þær hafa bráðnað. Rjómablöndunni er því næst hellt í skál og sett í kæli þar til blandan er orðin alveg köld, best er að geyma hana í kælinum yfir nóttu.

IMG_4416

Dagur 2:

Rjómablandan er þeytt í hrærivél þar til að hún hefur náð æskilegum stífleika. Þá er blandan sett í rjómasprautu og sprautað í um það bil tíu lítil glös eða skálar. Karamelliseruðu hnetunum dreift ofan í hvert glas og skreytt með hindberjum. Það er í lagi að setja plastfilmu yfir glösin og geyma þau í kæli fram á næsta dag.

IMG_4431

 

Panna cotta þrenna


IMG_2792 Þó nýtt ár sé hafið með háleitum markmiðum og áramótaheitum þá á ég eftir að deila með ykkur nokkrum ekki-megrunarréttum frá hátíðunum. Á gamlárskvöld vorum við hjá foreldrum mínum og fengum dásamlega góðan kalkún. Ég sá um forréttinn og eftirréttinn. Í eftirrétt var ég búin að lofa ömmu að hafa panna cotta og að sjálfsögðu sveik ég það ekki. Ég ákvað að prófa mig áfram með að hafa panna cotta í nokkrum lögum og það tókst mjög vel. Hins vegar mæli ég ekki með því að ferðast í bíl með fimmtán panna cotta í háum og völtum glösum! Sem betur fer gerði ég einn auka rétt þvi eitt glasið ákvað að leggjast í kjöltu mér á þessari stuttu bílferð frá heimili okkar heim til foreldra minna.

Það er ákaflega auðvelt að búa til panna cotta og það sama á við þó svo að rétturinn sé í þremur lögum. Það eina sem er tímafrekt er að hvert lag þarf að fá tíma til þess að þykkna og það tekur 2-3 tíma en það tekur bara nokkrar mínútur að útbúa hverja blöndu. Ég gerði fyrsta lagið kvöldið áður og hin tvö daginn eftir. Ég ákvað að gera eina blöndu með vanillu og hvítu súkkulaði, þá næstu með hindberjum og þá síðustu með Toblerone súkkulaði. Það er einmitt svo skemmtilegt við panna cotta að það eru endalausir möguleikar á því að bragðbæta búðinginn og einnig hægt að bera hann fram með ótal tegundum af sósum, berjum eða öðru gúmmelaði.IMG_2786

Uppskrift f. ca. 8-10:

Panna cotta með vanillu og hvítu súkkulaði

  •  5 dl rjómi
  • 1 msk hunang
  • 2 msk vanillusykur (má nota venjulegan sykur)
  • 1 vanillustöng
  • 80 gr. hvítt súkkulaði, saxað
  • 3 matarlímsblöð

Matarlímsplötur settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Vanillustöng klofin í tvennt, kornin innan úr báðum helmingunum skafin úr með beittum hníf. Rjómi, hunang, vanillusykur og hvítt súkkulaði ásamt vanillukornunum sett í pott, hitað að suðu og hrært í á meðan. Þegar blandan er komin að því að sjóða er potturinn tekinn af hellunni. Mestur vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum og þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau eru bráðin saman við blönduna. Hellt í glærar skálar eða falleg glös og kælt í ísskáp í minnst 2-3 klukkutíma

Panna cotta með hindberjum:

  • 5 dl rjómi
  • 1 dl sykur
  • 300 g frosin hindber sem hafa verið afþýdd
  • 3 matarlímsblöð

Matarlímsplötur settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Hindberin eru maukuð vel í matvinnsluvél eða með töfrasprota (líka hægt að mauka þau með gaffli). Rjómi, sykur og maukuð hindber sett í pott, hitað að suðu og hrært í á meðan. Þegar blandan er komin að því að sjóða er potturinn tekinn af hellunni. Mestur vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum og þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau eru bráðin saman við blönduna. Hellt varlega yfir vanillu/hvítt súkkulaðipanna cotta og kælt áfram í ísskáp í minnst 2-3 klukkutíma.

Panna cotta með Toblerone:

  • 5 dl rjómi
  • 1/2 dl sykur
  • 150 g Toblerone
  • 3 matarlímsblöð
  • fersk ber og þeyttur rjómi

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn. Rjómi og sykur sett í pott og látið ná suðu. Þá er potturinn tekinn af hellunni, súkkulaðið brotið í litla bita og þeim bætt út í pottinn. Hrært þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa bráðnað saman við blönduna. Því næst er blöndunni hellt varlega yfir hindberja panna cotta og sett inn í ísskáp í minnst 3 tíma áður en rétturinn er borinn fram. Borið fram með ferskum berjum (og þeyttum rjóma fyrir þá sem vilja).

IMG_2806

Pannacotta með súkkulaði-hnetumulningi


Pannacotta með súkkulaði-hnetumulningi

Þó svo að það hafi verið ákaflega kalt undanfarna daga þá verð ég að viðurkenna að snjórinn og kuldinn gerir allt svo mikið jólalegra en ella. Ég tók þessar myndir í vikunni fyrir utan húsið mitt eftir snjókomuna. Þó svo að ég hafi sett „dash“ af gervisnjó og glimmer á kransinn minn þá er enn fallegra þegar á hann snjóar ekta snjó.

IMG_1753Mikið vona ég að það snjói svona fallega á jólunum líka.

IMG_1769

Við fjölskyldan áttum saman ljúfan laugardag í dag sem byrjaði með jólatónleikum barnanna á vegum tónlistarskólans þeirra. Vilhjálmur spilaði flókið verk á píanó og Jóhanna var að spila á rafmagnsgítar á sínum fyrstu tónleikum. Þau stóðu sig ofsalega vel og við foreldrarnir vorum að vonum afar stolt. Því næst var jólatréð valið af kostgæfni en við þurftum að fara á nokkra staði áður en nægilega fallegt jólatré fannst. Þá tók við dálítið búðarráp sem endaði með notalegri stund á veitingastað og loks endað á ísbúð Vesturbæjar eftir góðan dag.

Ég hef sett inn nokkuð margar uppskriftir að eftirréttum hér á síðuna að undanförnu og nú bætist enn ein uppskriftin við. Mér finnst bara svo dæmalaust skemmtilegt að útbúa eftirrétti og ennþá skemmtilegra að borða þá! Pannacotta er einn einfaldasti og ljúffengasti eftirrétturinn sem hægt er að gera, afar fljótlegur og hægt að útbúa hann með fyrirvara sem er góður kostur fyrir matarboð. Um daginn þegar ég var með matarboð fyrir fjölskylduna bjó ég til súkkulaðipannacotta með karamellu sem ömmu fannst vera besti eftirréttur sem hún hafði bragðað. Í síðustu viku komu amma og afi aftur til okkar í mat og ég ákvað að gera aðra útfærslu af pannacotta – ekki vildi ég valda ömmu vonbrigðum! Það er einmitt svo sniðugt hversu margar útfærslur er hægt að gera af þessum rétti. Að þessu sinni notaði ég niðursoðna sætmjólk í stað sykurs hún gerði pannacottað dásamlega karamellukennt og bragðgott. Ofan á dreifði ég heimatilbúnum hnetumulningi með hnetum og kornflexi sem velt var upp úr bræddu súkkulaði, dæmalaust gott! Mér skilst að það sé ekki hægt að fá niðursoðna sætmjólk lengur í Kosti en hún ætti að fást í asískum matvöruverslunum og í Kolaportinu. Mögulega á fleiri stöðum – einhver sem veit?

IMG_1713

Uppskrift f. 6:

  • 5 dl rjómi
  • 1 dós niðursoðin sætmjólk (sweetened condensed milk- ca. 350 g)
  • 50 g suðusúkkulaði
  • 2 blöð matarlím (3 blöð fyrir þá sem vilja stífari búðing)
  • skreytt með þeyttum rjóma, berjum og súkkulaði-hnetumulningi

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn í allavega fimm mínútur. Rjómi og sætmjólk sett í pott og látið ná suðu. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa bráðnað saman við blönduna. Þá er potturinn tekinn af hellunni, súkkulaðið brotið í litla bita og því bætt út í pottinn. Hrært þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Hellt í skálar eða bolla og kælt í ísskáp í minnst 2 klukkutíma. Áður en rétturinn er borinn fram er hann skreyttur með þeyttum rjóma, berjum og súkkulaði-hnetumulningi.

IMG_1738

Súkkulaði-hnetumulningur:

  • 1/2 dl heslihnetur (eða önnur tegund af hnetum)
  • 1/2 dl macadamia hnetur (eða önnur tegund af hnetum)
  • 1/2 dl kornflex
  • 50 g suðusúkkulaði

IMG_1726

Hnetur saxaðar og kornflex mulið. Súkkulaði brætt yfir vatnsbaði og hnetum og kornflexi bætt út í. Blöndunni er dreift á bökunarpappír og sett í frysti í minnst hálftíma. Rétt áður en pannacotta er borið fram er súkkulaði-hnetumulningurinn tekinn úr frystinum og saxað niður í smærri bita. Dreift yfir pannacotta.

IMG_1728

Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði


Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði

Nú er ég komin heim úr frábærri Bostonferð. Ekki nóg með að borgin sjálf sé dásamlega falleg og bauð okkur upp á frábært veður, mat, drykk og verslanir heldur var félagsskapurinn ekki af verri endanum. Við vorum saman átta æskuvinkonur, nokkrar okkar hafa meira að segja verið saman í bekk alla tíð síðan í 1. bekk í grunnskóla. Þessi hópur var ávísun upp á viðburðaríka daga og fjörug kvöld. Við gerðum vel við okkur í mat og drykk auk þess sem við versluðum svolítið. Einhverjum fannst það kannski meira en „svolítið“ því það var gengið upp að okkur í verslunarmiðstöðinni og okkur þakkað fyrir að bjarga ekónómíu Bandaríkjanna – grínlaust! Mér tókst að versla hér um bil allar jólagjafirnar og einnig keypti ég allskonar spennandi eldhúsvörur sem ég hlakka til að taka í notkun. Jamm, ég lagði mitt að mörkum fyrir Obama! 😉

Ég er nú enn að jafna mig eftir ferðina tímalega séð. Ég fór í vinnuna beint eftir svefnlaust næturflug og hef verið að berjast við að snúa sólarhringnum við. Helgin var að auki þéttskipuð hjá okkur og lítill tími gefist til að slaka á eða jafnvel taka upp úr töskunum. Ég hafði dregið það lengi að halda upp á afmæli Jóhönnu Ingu fyrir bekkinn hennar. Hún vildi bjóða öllum 23 stelpunum í bekknum og ég vissi ekki alveg hvernig ég ætti að leysa það. Að lokum ákvað ég að leigja sal hjá fimleikafélagi Bjarkar sem var frábær hugmynd. Þar gátu stelpurnar leikið sér í skemmtilegum sal með til dæmis svampi í gryfju sem var afar vinsælt. Svo buðum við upp á pizzur og köku. Jóhanna Inga vildi köku með „Aulanum ég“ þema og ég bjó því til eina slíka. Eins og ég hef skrifað áður þá hef ég mjög gaman af því að baka en er enginn snillingur í skreytingum, eiginlega er ég með þumla á öllum þegar kemur að föndri! Að auki hafði ég varla nokkurn tíma til að útbúa kökuna og varð því að finna fljótlega lausn. Mér fannst þessi útfærsla af sundlaugarköku bæði sniðug og einföld. Ekkert meistaraverk en Jóhanna var afskaplega ánægð með kökuna sína og þá var takmarkinu náð.

IMG_0790

Auk þess sem við héldum upp á afmælið núna um helgina fórum við í veislu, á tónleika, í leikhús og út að borða, það hefur því verið nóg að gera.

Mig langaði í dag að setja inn uppskrift að óskaplega einföldum eftirrétti en frábærlega góðum. Þessi réttur er dálítið í takti við annríki helgarinnar sem var að líða því þetta er réttur sem ég gríp oft til ef ég þarf að útbúa eftirrétt með engum fyrirvara. Það er best að bera fram vanilluís með þessum rétti en toppurinn finnst mér að senda eiginmanninn út í ísbúð á meðan ég útbý réttinn og bera svo fram með honum ljúffengan rjómaís beint úr vél í íssbúðinni!

Uppskrift f. ca. 5-6

  • 500 g jarðaber
  • 2 stórir  bananar
  • 4 kiwi
  • 2 perur (vel mjúkar)
  • 100 – 150 g hvítt súkkulaði
  • grófur eða fínn kókos (má sleppa)

Ofn hitaður í 200 gráður. Grænu laufin skorin af jarðaberjunum og þau skorin í tvennt eða fernt, fer eftir stærð. Bananar skornir í sneiðar. Kíwi afhýdd og skorin í bita. Perurnar eru afhýddar, kjarnhreinsaðar og skornar í bita. Ávöxtum og berjum blandað saman í passlega stórt eldfast mót (líka hægt að setja hæfilegan skammt í lítil form og bera fram fyrir hvern og einn). Hvíta súkkulaðið er saxað niður (eða notaðir hvítir súkkulaðidropar) og dreift yfir ávextina og berin. Ef maður vill er að auki hægt að strá smá kókos yfir í lokin. Hitað í ofni í um það bil 10 – 15 mínútur við 200 gráður eða þar til súkklaðið er bráðnað og hefur fengið smá lit. Borið fram strax heitt með góðum vanilluís.

Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði

Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu


Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu

Í dag fengum við góða sænska gesti til okkar í mat. Ég veit ekki hvernig það er með ykkur en ég tek oft rispur þar sem ég býð upp á sama matréttinn í matarboðum í allmörg skipti – þar til að ég fæ nóg og sný mér að öðrum rétti! 🙂 Nú í sumar hafa þessir uppáhaldssréttir verið tveir fiskréttir héðan frá Eldhússögum. Annarsvegar er það ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu og hinsvegar sojamarineraður lax með mangó-avókadó salsa og smörsteiktu spínati. Þegar við fáum til okkar Svía í mat þá bjóðum við hér um bil alltaf upp á fisk. Almennt eru Svíar hrifnir af fiski en í Stokkhólmi er lítið um góðan fisk og Stokkhólmsbúar kunna því vel að meta góða fiskinn okkar. Að þessu sinni bauð ég upp á þorskinn en grillaði hann í stað þess að baka í ofninum.

IMG_6582

Ég bauð upp á eftirrétt sem ég gerði oft fyrir nokkrum árum en var búin að steingleyma þar til hann rifjaðist upp fyrir mér nýlega. Ég var að fletta uppskriftabók um daginn og sá þá mynd af svipuðum eftirrétti. Í framhaldinu rótaði ég í uppskriftablöðunum mínum og fann þá uppskriftina sem ég notaði alltaf – mikið var ég glöð því rétturinn er einn af mínum uppáhalds! Ég prófaði nýjung í dag. Ég útbjó smjördeigsböggul fyrir hvern og einn gest. Í upphaflegu uppskriftinni er smjördeiginu pússlað saman með því að leggja brúnirnar örlítið yfir hvor aðra og deigið flatt dálítið út, eldfast mót klætt að innan með smjördeiginu og fyllingunni hellt út í. En mér fannst mikið betra að útbúa svona böggla eins og ég gerði í dag, ég mæli með því. Ég notaði smjördeig sem ég keypti í Nettó (hafið þið kannski séð þessa tegund í annarri verslun?). Mér finnst þetta smjördeig eiginlega betra en Findus smjördeigið og það er talsvert ódýrara. Í pakkanum eru sex plötur (fimm hjá Findus) og þær eru bæði þynnri og stærri, það er mjög hentugt í þessari uppskrift. Ef þið notið plötur frá Findus í þessa uppskrift þá mæli ég með því að fletja þær örlítið út (muna að nota hveiti, annars klessast þær).

Uppskrift: TC bröd smjördeig

  • 1 pakki frosið smjördeig (ég notaði frá TC brød sem fæst í Nettó, það eru 6 plötur eða 450 g)
  • ca 700 g græn epli (ég notaði 4 stór epli)
  • 70 g smjör
  • 70 g hrásykur (má líka nota venjulegan sykur)
  • 70 g rjómakaramellur (ég notaði Werther’s Original)
  • 100 g pekan- eða valhnetur, saxaðar gróft
  • 1 lítið egg, slegið (má sleppa)

Smjördeigsplötunar látnar þiðna (þær þiðna á mjög skömmum tíma) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Ofninn hitaður i 210 gráður við undir- og yfirhita. Eplin eru afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í bita. Smjör, hrásykur og karamellur eru settar í pott og brætt við meðalhita, hrært í á meðan.

IMG_6579

Þegar karamellurnar eru bráðnaðar og sósan er orðin slétt er eplum og hnetum bætt út í. Á þessum tímapunkti hleypur sósan oft í kekki þar sem að eplin kæla sósuna. Látið ekki hugfallast heldur skerpið aðeins á hitanum og látið sósuna hitna aftur. Hrærið í blöndunni og smátt og smátt verður karamellusósan aftur mjúk. Þegar eplin og hneturnar eru öll þakin sósu er góður skammtur settur í miðjuna á hverri smjördeigsplötu.

IMG_6580

Ég reyndi að hafa ekki mikinn vökva með, til þess að deigið héldist stökkt, en gott er að geyma vökvann sem verður afgangs til að nota í lokin. Því næst eru hornin á hverri plötu tekin upp og lögð að miðjunni. Það er allt í lagi þó þau leggist ekki alveg að fyllingunni, það er bara fallegra að hafa bögglana aðeins opna. Smjördegið er þá smurt með eggi. Bakað í ofni við 210 gráður í um það 20-25 mínútur eða þar til smjördeigið er orðið fallega brúnt. Borið fram heitt með vanilluís eða rjóma. Karamelluvökvann, sem varð afgangs, er frábærlega gott að hita upp aftur og hella yfir eplin í hverjum böggli. Njótið!

IMG_6585

Hvítt súkkulaðifrauð með hindberjasósu


Hvitt súkklaðifrauð með hindberjasósu

Mikið væri gaman ef þið ykkar sem eruð á Instagram mynduð „hashtagga“ myndir af útkomunni á Instagram þegar þið prófið uppskriftir héðan af Eldhússögum! Þá sem sagt takið þið mynd af réttinum, setjið hana á Instagram og merkið undir myndina #eldhussogur. Þannig safnast saman allar myndirnar undir því „hashtaggi“ og með því að slá inn „eldhussogur“ í leit á Instagram er hægt að sjá allar myndirnar með þessari merkingu. Ég heyri frá svo mörgum og af svo mörgum sem nota uppskriftirnar á Eldhússögum. Mér finnst það eiginlega dálítið óraunverulegt að svona margir séu að búa til þessa rétti sem ég dunda mér við að gera í eldhúsinu mínu. Þess vegna væri voðalega gaman að sjá útkomuna hjá ykkur hinum – nú bíð ég spennt! 🙂

IMG_1926

Ég uppgötvaði að ég hef ekki enn sett inn hér á síðuna uppskrift af miklum uppáhalds eftirrétti, hvítu súkkulaðifrauði með hindberjasósu. Í réttinum er hvítt súkkulaði sem mér finnst afar gott en það þarf að vera í afar passlegu magni finnst mér, það má alls ekki vera yfirgnæfandi. Í þessum rétti er það einmitt þannig, hvíta súkkulaðið er í frábærri blöndu við hindberin og rjóma. Þetta er fljótlegur réttur að gera og ákaflega þægilegt að geta gert hann með góðum fyrirvara. Mér finnst alltaf svo gott að vera með þannig eftirrétti þegar ég held matarboð, eftirrétti sem hægt er að taka tilbúna úr ísskápnum og setja beint á borðið.

IMG_1915

Uppskrift, passar í 5 – 6 skálar:

  • 350 g frosin hindber, afþýdd
  • 2 msk sykur
  • 2 msk Grand Marnier
  • 5 dl rjómi
  • 200 g hvítt súkkulaði
  • 1-2 dropar rauður matarlitur

IMG_1909

4 og 1/2 dl rjómi þeyttur. Hindberin sett í blandara og þau maukuð vel. Því næst eru þau sett í sigti og berjahratið þannig síað frá. Til þess að hraða fyrir þessu þá hræri ég stöðugt og vel í sigtinu og hraða þannig ferlinu. Berjahratinu er hent, sykri og líkjöri er bætt við sléttu berjasósuna og hrært vel saman. Hvíta súkkulaðið er brætt í potti ásamt 1/2 dl af rjóma við vægan hita og hrært í á meðan, potturinn er tekinn strax af hellunni þegar blandan er tilbúin og ca 1 msk af berjablöndunni bætt út í ásamt matarlitnum. Þá er blandan kæld að stofuhita. Nú er súkkulaðiblöndunni blandað saman við þeytta rjómann. Best er að blanda súkkulaðiblöndunni smátt og smátt út í rjómann og hræra á milli. Því næst er berjablöndunni blandað út í en gott er að skilja smávegis eftir af berjablöndunni til þess að skreyta með. Að lokum er blöndunni skipt í 5- 6 glös eða skálar. Fallegt er að skreyta hvern skammt með smá berjablöndu og jafnvel hindberjum og ferskri myntu eins og ég gerði hér á myndunum. Kælt í ísskáp í minnst þrjá tíma.

10425Sævar vínþjónn mælir með ljúffenga eftirréttavíninu Concha Y Toro late harvest Sauvignon Blanc frá Chile með þessum rétti.

Lýsing: Sítrónugult. Múk fylling, sætt, fersk sýra. Sítrus, apríkósa, hunang.

IMG_1923

Eftirréttir fyrir gamlárskvöld


Núna eru áramótin að bresta á og ég sé á heimsóknunum á síðuna mína að margir eru að leita að góðum eftirréttum fyrir gamlárskvöld. Á mínum 15-topplista eru eftirfarandi eftirrréttir. Ég gat ekki gert upp á milli þeirra þannig að þeir eru ekki í neinni sérstakri röð:

Browniekaka með hindberjarjóma

IMG_0594

Mascarponeþeytingur með berjum og Toffypops

IMG_9068

Súkkulaðikaka með Pipp karamellukremi

IMG_8701

Súkkulaðitvenna með hindberjum

IMG_8453

Pavlova í fínu formi

IMG_8322

Hindberjabaka með Dulce de leche karamellusósu

cropped-img_71572.jpg

Ostakaka með mangó og ástaraldin

IMG_7757

Ís með heimatilbúnu frönsku núggati og súkkulaðisoðnum perum

IMG_6042

Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldin

IMG_5967

Frönsk súkkulaðikaka

IMG_5368

Súkkulaðifrauð

IMG_3961

Pavlova

IMG_3270

Banana-karamellubaka

IMG_3193

Dásamleg kirsuberjaterta

IMG_7176

Bakaðar perur með mjúkum marengs og súkkulaði

IMG_4782