Hvítt súkkulaðifrauð með hindberjasósu


Hvitt súkklaðifrauð með hindberjasósu

Mikið væri gaman ef þið ykkar sem eruð á Instagram mynduð „hashtagga“ myndir af útkomunni á Instagram þegar þið prófið uppskriftir héðan af Eldhússögum! Þá sem sagt takið þið mynd af réttinum, setjið hana á Instagram og merkið undir myndina #eldhussogur. Þannig safnast saman allar myndirnar undir því „hashtaggi“ og með því að slá inn „eldhussogur“ í leit á Instagram er hægt að sjá allar myndirnar með þessari merkingu. Ég heyri frá svo mörgum og af svo mörgum sem nota uppskriftirnar á Eldhússögum. Mér finnst það eiginlega dálítið óraunverulegt að svona margir séu að búa til þessa rétti sem ég dunda mér við að gera í eldhúsinu mínu. Þess vegna væri voðalega gaman að sjá útkomuna hjá ykkur hinum – nú bíð ég spennt! 🙂

IMG_1926

Ég uppgötvaði að ég hef ekki enn sett inn hér á síðuna uppskrift af miklum uppáhalds eftirrétti, hvítu súkkulaðifrauði með hindberjasósu. Í réttinum er hvítt súkkulaði sem mér finnst afar gott en það þarf að vera í afar passlegu magni finnst mér, það má alls ekki vera yfirgnæfandi. Í þessum rétti er það einmitt þannig, hvíta súkkulaðið er í frábærri blöndu við hindberin og rjóma. Þetta er fljótlegur réttur að gera og ákaflega þægilegt að geta gert hann með góðum fyrirvara. Mér finnst alltaf svo gott að vera með þannig eftirrétti þegar ég held matarboð, eftirrétti sem hægt er að taka tilbúna úr ísskápnum og setja beint á borðið.

IMG_1915

Uppskrift, passar í 5 – 6 skálar:

 • 350 g frosin hindber, afþýdd
 • 2 msk sykur
 • 2 msk Grand Marnier
 • 5 dl rjómi
 • 200 g hvítt súkkulaði
 • 1-2 dropar rauður matarlitur

IMG_1909

4 og 1/2 dl rjómi þeyttur. Hindberin sett í blandara og þau maukuð vel. Því næst eru þau sett í sigti og berjahratið þannig síað frá. Til þess að hraða fyrir þessu þá hræri ég stöðugt og vel í sigtinu og hraða þannig ferlinu. Berjahratinu er hent, sykri og líkjöri er bætt við sléttu berjasósuna og hrært vel saman. Hvíta súkkulaðið er brætt í potti ásamt 1/2 dl af rjóma við vægan hita og hrært í á meðan, potturinn er tekinn strax af hellunni þegar blandan er tilbúin og ca 1 msk af berjablöndunni bætt út í ásamt matarlitnum. Þá er blandan kæld að stofuhita. Nú er súkkulaðiblöndunni blandað saman við þeytta rjómann. Best er að blanda súkkulaðiblöndunni smátt og smátt út í rjómann og hræra á milli. Því næst er berjablöndunni blandað út í en gott er að skilja smávegis eftir af berjablöndunni til þess að skreyta með. Að lokum er blöndunni skipt í 5- 6 glös eða skálar. Fallegt er að skreyta hvern skammt með smá berjablöndu og jafnvel hindberjum og ferskri myntu eins og ég gerði hér á myndunum. Kælt í ísskáp í minnst þrjá tíma.

10425Sævar vínþjónn mælir með ljúffenga eftirréttavíninu Concha Y Toro late harvest Sauvignon Blanc frá Chile með þessum rétti.

Lýsing: Sítrónugult. Múk fylling, sætt, fersk sýra. Sítrus, apríkósa, hunang.

IMG_1923

Frönsk hvít súkkulaðikaka


Ég var búin að spá lengi í þessa köku áður en ég lét verða af því að baka hana. Mér finnst hvítt súkkulaði í desertum mjög gott en bara í hófi. Mér var því hugleikið hvernig frönsk súkkulaðikaka kæmi út eingöngu með hvítu súkkulaði. Hefðbundið brúnt súkkulaði er samsett úr þremur megin hráefnum, kakómassa (fínmaldar kakóbaunir), kakósmjöri og sykri auk bragðefna. Í hvítu súkkulaði er aðeins kakósmjörið frá kakóbauninni notað, ekki sjálfur kakómassinn, auk mjólkurdufts og sykurs. Hvítt súkkulaði er oft bragðbætt með vanillu þar sem að kakósmjörið er næstum því bragð- og lyktarlaust. Til þess að hvítt súkkulaði sé stimplað sem gæðasúkkulaði þarf að vera í því 20% eða hærra innihald af kakósmjöri en stundum er notuð jurtafeiti í stað kakósmjörs. Hvítt súkkulaði er mun viðkvæmara en dökkt þegar það er brætt, jafnvel þó kakósmjörið sé ekta. Það þarf að passa að hafa vatnið vel fyrir neðan suðu og láta það ekki snerta skálarbotninn með súkkulaðinu. Í þessari uppskrift er hvíta súkkulaðið sett út í heitt smjör en mér fannst blandan vilja skilja sig og gerði meira að segja tvær tilraunir við að hræra þessum hráefnum saman, ég hafði smjörið ekki eins heitt í seinna skiptið. En sú tilraun kom alveg eins út, ég notaði því blönduna eins og hún var og það virtist ekki koma að neinni sök.

Pabba fannst þessi kaka ofboðslega góð, alveg í uppáhaldi hjá honum. Mér fannst hún líka mjög góð en ég hefði ekki viljað mjög stóra sneið af henni, meira svona eins og konfektmola með kaffinu enda er hún mjög sæt. Ég fann þessa uppskrift á sænskri vefsíðu og þar fékk kakan mjög góða dóma af þeim fjölmörgu sem höfðu prófað að baka hana. Ég hvet því alla sem eru hrifnir af hvítu súkkulaði að prófa!  Þegar ég baka þessa köku næst þá mun ég gera eina breytingu. Ég myndi prófa að sleppa glassúrinu og í staðinn bera fram með henni hindberjasósu. Hér er uppskrift af slíkri sósu. Ég held að það væri ákaflega gott að fá svolítið súra berjasósu á móti sætu kökunni.

Uppskrift:

 • 250 gr hvítt gott súkkulaði
 • 200 gr smjör
 • 3 egg
 • 2 1/2 dl sykur
 • 2 msk koníak (fyrir þá sem ekki vilja koníak sem bragðefni er hægt að nota 2 tsk vanillusykur í staðinn)
 • 2 dl hveiti

Glassúr:

150 gr hvítt súkkulaði
1/2 dl rjómi

Aðferð:

Stillið ofninn á 175 gráður. Bræðið smjörið í potti á meðalhita. Takið pottinn af hellunni og bætið súkkulaðinu út í, hrærið saman þar til súkkulaðið er bráðnað. Þeytið egg og sykur þar til blandan er létt og ljós. Hrærið út í súkkulaði, koníaki og blandið svo sigtuðu hveiti varlega út í blönduna í lokin. Hellið deiginu í smurt form með lausum botni (ca. 24 cm) og bakið neðarlega í ofni í ca. 30-35 mínútur. Látið kökuna kólna og setjið hana svo í ísskáp. Glassúr: Saxið súkkulaðið, hellið rjóma í pott og látið suðuna koma upp. Takið pottinn af hellunni, bætið súkkulaðinu út í og hrærið þar til það er bráðnað. Látið glassúr stífna aðeins í ísskáp, í ca. 5 mínútur. Smyrjið glassúr yfir kökuna og setjið í kæli, kakan er best borin fram daginn eftir. Berið fram með þeyttum rjóma (og hindberjasósu, ég er viss um að það sé súper gott!)