Frönsk hvít súkkulaðikaka


Ég var búin að spá lengi í þessa köku áður en ég lét verða af því að baka hana. Mér finnst hvítt súkkulaði í desertum mjög gott en bara í hófi. Mér var því hugleikið hvernig frönsk súkkulaðikaka kæmi út eingöngu með hvítu súkkulaði. Hefðbundið brúnt súkkulaði er samsett úr þremur megin hráefnum, kakómassa (fínmaldar kakóbaunir), kakósmjöri og sykri auk bragðefna. Í hvítu súkkulaði er aðeins kakósmjörið frá kakóbauninni notað, ekki sjálfur kakómassinn, auk mjólkurdufts og sykurs. Hvítt súkkulaði er oft bragðbætt með vanillu þar sem að kakósmjörið er næstum því bragð- og lyktarlaust. Til þess að hvítt súkkulaði sé stimplað sem gæðasúkkulaði þarf að vera í því 20% eða hærra innihald af kakósmjöri en stundum er notuð jurtafeiti í stað kakósmjörs. Hvítt súkkulaði er mun viðkvæmara en dökkt þegar það er brætt, jafnvel þó kakósmjörið sé ekta. Það þarf að passa að hafa vatnið vel fyrir neðan suðu og láta það ekki snerta skálarbotninn með súkkulaðinu. Í þessari uppskrift er hvíta súkkulaðið sett út í heitt smjör en mér fannst blandan vilja skilja sig og gerði meira að segja tvær tilraunir við að hræra þessum hráefnum saman, ég hafði smjörið ekki eins heitt í seinna skiptið. En sú tilraun kom alveg eins út, ég notaði því blönduna eins og hún var og það virtist ekki koma að neinni sök.

Pabba fannst þessi kaka ofboðslega góð, alveg í uppáhaldi hjá honum. Mér fannst hún líka mjög góð en ég hefði ekki viljað mjög stóra sneið af henni, meira svona eins og konfektmola með kaffinu enda er hún mjög sæt. Ég fann þessa uppskrift á sænskri vefsíðu og þar fékk kakan mjög góða dóma af þeim fjölmörgu sem höfðu prófað að baka hana. Ég hvet því alla sem eru hrifnir af hvítu súkkulaði að prófa!  Þegar ég baka þessa köku næst þá mun ég gera eina breytingu. Ég myndi prófa að sleppa glassúrinu og í staðinn bera fram með henni hindberjasósu. Hér er uppskrift af slíkri sósu. Ég held að það væri ákaflega gott að fá svolítið súra berjasósu á móti sætu kökunni.

Uppskrift:

  • 250 gr hvítt gott súkkulaði
  • 200 gr smjör
  • 3 egg
  • 2 1/2 dl sykur
  • 2 msk koníak (fyrir þá sem ekki vilja koníak sem bragðefni er hægt að nota 2 tsk vanillusykur í staðinn)
  • 2 dl hveiti

Glassúr:

150 gr hvítt súkkulaði
1/2 dl rjómi

Aðferð:

Stillið ofninn á 175 gráður. Bræðið smjörið í potti á meðalhita. Takið pottinn af hellunni og bætið súkkulaðinu út í, hrærið saman þar til súkkulaðið er bráðnað. Þeytið egg og sykur þar til blandan er létt og ljós. Hrærið út í súkkulaði, koníaki og blandið svo sigtuðu hveiti varlega út í blönduna í lokin. Hellið deiginu í smurt form með lausum botni (ca. 24 cm) og bakið neðarlega í ofni í ca. 30-35 mínútur. Látið kökuna kólna og setjið hana svo í ísskáp. Glassúr: Saxið súkkulaðið, hellið rjóma í pott og látið suðuna koma upp. Takið pottinn af hellunni, bætið súkkulaðinu út í og hrærið þar til það er bráðnað. Látið glassúr stífna aðeins í ísskáp, í ca. 5 mínútur. Smyrjið glassúr yfir kökuna og setjið í kæli, kakan er best borin fram daginn eftir. Berið fram með þeyttum rjóma (og hindberjasósu, ég er viss um að það sé súper gott!)

4 hugrenningar um “Frönsk hvít súkkulaðikaka

  1. „Haltu á ketti“ hvað þetta er girnilegt – komin á „todo“ listann

  2. Vá hvað þetta er girnilegt! Svo spennt að smakka þetta þegar ég kem heim! Eins gott að það sé eitthvað eftir (:

  3. Bakvísun: Uppskriftir – Running Dinner Iceland

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.