Panna cotta með hvítu súkkulaði og Pippi með bananabragði


IMG_5541

Núna erum við hjónin komin til New York og ég ætla sannarlega að gera eitthvað annað skemmtilegra en að sitja í tölvunni! 🙂 Við erum búin að panta okkur borð á hinum og þessum veitingarstöðum á meðan dvöl okkar stendur hér í borg. Að auki ætlum við á Broadway sýningu og erum líka búin að bóka borð á klassískum jazzklúbbi – þetta verður eitthvað!

Ég var búin að setja inn hér uppskrift sem ég átti bara eftir að birta. Eins og ég minntist á um daginn þá var matarklúbburinn okkar nýlega hjá okkur þar sem mennirnir sjá um matargerðina að vanda. Elfar bjó til gómsætan panna cotta eftirrétt og ég lofaði hópnum að setja inn uppskriftina á bloggið. Ég viðurkenni að ég kom smá að þessu rétti, ég útfærði uppskriftina en Elfar hins vegar bjó réttinn til. Ég held að þar með hafi engar matarklúbbsreglur verið brotnar! 🙂 Ef þið hafið aldrei búið til panna cotta þá hvet ég ykkur til að prófa strax í kvöld! Gómsætari og fallegri eftirrétti er vart hægt að finna og það tekur örfáar mínútur að búa til panna cotta (fyrir utan tímann sem það þarf í ísskápnum). Ekki vera hrædd við að nota matarlím, það er afar einfalt. Plöturnar eru bara mýktar í vatni í smá stund og svo settar í heitan vökva þar sem þær leysast upp, ekkert mál!

IMG_5551

Uppskrift f. 4:

Panna cotta með banana-Pippi: 

  • 3 dl rjómi Unknown
  • 1/3 dl sykur
  • 100 g Pipp súkkulaði með bananabragði
  • 1 vanillustöng
  • 2 plötur matarlím

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Rjómi, sykur og vanillustöng sett í pott og látið ná suðu. Þá er potturinn tekinn af hellunni, súkkulaðið brotið í litla bita og þeim bætt út í pottinn. Hrært þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa bráðnað saman við blönduna. Hellt í skálar í gegnum sigti og kælt í ísskáp í minnst 2 klukkutíma. Vanillustöngin geymd. Þá er panna cotta með hvítu súkkulaði útbúin.

Panna cotta með hvítu súkkulaði:

  •  3 dl rjómi
  • 1/2 msk hunang
  • 1 msk vanillusykur
  • 1 vanillustöng, vanillukornin skafin innan úr stönginni (skolið vanillustöngina sem notuð var við Pipp-panna cotta og nýtið hana)
  • 100 gr. hvítir súkkulaðidropar frá Nóa & Siríus
  • 2 plötur matarlím

Matarlímsplötur settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Vanillustöng klofin í tvennt, kornin innan úr báðum helmingunum skafinn úr með beittum hníf. Rjómi, hunang, vanillusykur ásamt vanillukornunum sett í pott, hitað að suðu og hrært í á meðan. Þegar blandan er komin að því að sjóða er potturinn tekinn af hellunni. Þá er hvítu súkkulaðidropunum bætt út í og hrært þar til þeir bráðna. Því næst er mestur vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum og þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau eru leyst upp. Blandan er látin kólna lítillega og svo hellt varlega yfir Pipp panna cotta. Sett inn í ísskáp og kælt í minnst 3 tíma. Borið fram með ferskum berjum og jafnvel grófsöxuðum sykurbrúnuðum hnetum (eins og sést hér á myndunum).

IMG_5544 IMG_5542

Hvítt súkkulaðifrauð með hindberjasósu


Hvitt súkklaðifrauð með hindberjasósu

Mikið væri gaman ef þið ykkar sem eruð á Instagram mynduð „hashtagga“ myndir af útkomunni á Instagram þegar þið prófið uppskriftir héðan af Eldhússögum! Þá sem sagt takið þið mynd af réttinum, setjið hana á Instagram og merkið undir myndina #eldhussogur. Þannig safnast saman allar myndirnar undir því „hashtaggi“ og með því að slá inn „eldhussogur“ í leit á Instagram er hægt að sjá allar myndirnar með þessari merkingu. Ég heyri frá svo mörgum og af svo mörgum sem nota uppskriftirnar á Eldhússögum. Mér finnst það eiginlega dálítið óraunverulegt að svona margir séu að búa til þessa rétti sem ég dunda mér við að gera í eldhúsinu mínu. Þess vegna væri voðalega gaman að sjá útkomuna hjá ykkur hinum – nú bíð ég spennt! 🙂

IMG_1926

Ég uppgötvaði að ég hef ekki enn sett inn hér á síðuna uppskrift af miklum uppáhalds eftirrétti, hvítu súkkulaðifrauði með hindberjasósu. Í réttinum er hvítt súkkulaði sem mér finnst afar gott en það þarf að vera í afar passlegu magni finnst mér, það má alls ekki vera yfirgnæfandi. Í þessum rétti er það einmitt þannig, hvíta súkkulaðið er í frábærri blöndu við hindberin og rjóma. Þetta er fljótlegur réttur að gera og ákaflega þægilegt að geta gert hann með góðum fyrirvara. Mér finnst alltaf svo gott að vera með þannig eftirrétti þegar ég held matarboð, eftirrétti sem hægt er að taka tilbúna úr ísskápnum og setja beint á borðið.

IMG_1915

Uppskrift, passar í 5 – 6 skálar:

  • 350 g frosin hindber, afþýdd
  • 2 msk sykur
  • 2 msk Grand Marnier
  • 5 dl rjómi
  • 200 g hvítt súkkulaði
  • 1-2 dropar rauður matarlitur

IMG_1909

4 og 1/2 dl rjómi þeyttur. Hindberin sett í blandara og þau maukuð vel. Því næst eru þau sett í sigti og berjahratið þannig síað frá. Til þess að hraða fyrir þessu þá hræri ég stöðugt og vel í sigtinu og hraða þannig ferlinu. Berjahratinu er hent, sykri og líkjöri er bætt við sléttu berjasósuna og hrært vel saman. Hvíta súkkulaðið er brætt í potti ásamt 1/2 dl af rjóma við vægan hita og hrært í á meðan, potturinn er tekinn strax af hellunni þegar blandan er tilbúin og ca 1 msk af berjablöndunni bætt út í ásamt matarlitnum. Þá er blandan kæld að stofuhita. Nú er súkkulaðiblöndunni blandað saman við þeytta rjómann. Best er að blanda súkkulaðiblöndunni smátt og smátt út í rjómann og hræra á milli. Því næst er berjablöndunni blandað út í en gott er að skilja smávegis eftir af berjablöndunni til þess að skreyta með. Að lokum er blöndunni skipt í 5- 6 glös eða skálar. Fallegt er að skreyta hvern skammt með smá berjablöndu og jafnvel hindberjum og ferskri myntu eins og ég gerði hér á myndunum. Kælt í ísskáp í minnst þrjá tíma.

10425Sævar vínþjónn mælir með ljúffenga eftirréttavíninu Concha Y Toro late harvest Sauvignon Blanc frá Chile með þessum rétti.

Lýsing: Sítrónugult. Múk fylling, sætt, fersk sýra. Sítrus, apríkósa, hunang.

IMG_1923