Panna cotta með hvítu súkkulaði og Pippi með bananabragði


IMG_5541

Núna erum við hjónin komin til New York og ég ætla sannarlega að gera eitthvað annað skemmtilegra en að sitja í tölvunni! 🙂 Við erum búin að panta okkur borð á hinum og þessum veitingarstöðum á meðan dvöl okkar stendur hér í borg. Að auki ætlum við á Broadway sýningu og erum líka búin að bóka borð á klassískum jazzklúbbi – þetta verður eitthvað!

Ég var búin að setja inn hér uppskrift sem ég átti bara eftir að birta. Eins og ég minntist á um daginn þá var matarklúbburinn okkar nýlega hjá okkur þar sem mennirnir sjá um matargerðina að vanda. Elfar bjó til gómsætan panna cotta eftirrétt og ég lofaði hópnum að setja inn uppskriftina á bloggið. Ég viðurkenni að ég kom smá að þessu rétti, ég útfærði uppskriftina en Elfar hins vegar bjó réttinn til. Ég held að þar með hafi engar matarklúbbsreglur verið brotnar! 🙂 Ef þið hafið aldrei búið til panna cotta þá hvet ég ykkur til að prófa strax í kvöld! Gómsætari og fallegri eftirrétti er vart hægt að finna og það tekur örfáar mínútur að búa til panna cotta (fyrir utan tímann sem það þarf í ísskápnum). Ekki vera hrædd við að nota matarlím, það er afar einfalt. Plöturnar eru bara mýktar í vatni í smá stund og svo settar í heitan vökva þar sem þær leysast upp, ekkert mál!

IMG_5551

Uppskrift f. 4:

Panna cotta með banana-Pippi: 

  • 3 dl rjómi Unknown
  • 1/3 dl sykur
  • 100 g Pipp súkkulaði með bananabragði
  • 1 vanillustöng
  • 2 plötur matarlím

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Rjómi, sykur og vanillustöng sett í pott og látið ná suðu. Þá er potturinn tekinn af hellunni, súkkulaðið brotið í litla bita og þeim bætt út í pottinn. Hrært þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa bráðnað saman við blönduna. Hellt í skálar í gegnum sigti og kælt í ísskáp í minnst 2 klukkutíma. Vanillustöngin geymd. Þá er panna cotta með hvítu súkkulaði útbúin.

Panna cotta með hvítu súkkulaði:

  •  3 dl rjómi
  • 1/2 msk hunang
  • 1 msk vanillusykur
  • 1 vanillustöng, vanillukornin skafin innan úr stönginni (skolið vanillustöngina sem notuð var við Pipp-panna cotta og nýtið hana)
  • 100 gr. hvítir súkkulaðidropar frá Nóa & Siríus
  • 2 plötur matarlím

Matarlímsplötur settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Vanillustöng klofin í tvennt, kornin innan úr báðum helmingunum skafinn úr með beittum hníf. Rjómi, hunang, vanillusykur ásamt vanillukornunum sett í pott, hitað að suðu og hrært í á meðan. Þegar blandan er komin að því að sjóða er potturinn tekinn af hellunni. Þá er hvítu súkkulaðidropunum bætt út í og hrært þar til þeir bráðna. Því næst er mestur vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum og þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau eru leyst upp. Blandan er látin kólna lítillega og svo hellt varlega yfir Pipp panna cotta. Sett inn í ísskáp og kælt í minnst 3 tíma. Borið fram með ferskum berjum og jafnvel grófsöxuðum sykurbrúnuðum hnetum (eins og sést hér á myndunum).

IMG_5544 IMG_5542