Marengsbomba með rjóma, súkkulaði og berjum


Marengsbomba með rjóma, súkkulaði og berjum

Við höfum átt afar notalega fjögurra daga helgi þar sem að yngstu börnin voru í vetrarfríi ásamt okkur foreldrunum. Við erum þó enn ekki orðin frísk eftir flensuna þannig að við tókum því afar rólega í fríinu. Síðastliðinn fimmtudag vorum við með smá matarboð og buðum þá einmitt upp á þennan eftirrétt sem ég set hér inn á bloggið í þessari færslu. Á föstudaginn fórum við í keilu, því næst í bíó og enduðum kvöldið á sushiveislu. Í gær fórum við í afmæli um daginn en um kvöldið var okkur hjónunum boðið í matarboð þar sem við fengum meðal þennan annars dýrindis fiskrétt.

vG+DBhSNTnSEuK0REuAUKAÉg er að vinna í því að fá gestgjafana til þess að vera gestabloggarar með þessa frábæru uppskrift. Ekki væri verra að geta deilt með ykkur uppskriftinni að þessari dásemdarköku sem var í eftirrétt! Collages9 Í dag fór ég loksins í það verk sem hefur hangið yfir mér lengi, ég byrjaði að taka til í bílskúrnum! Það er með ólíkindum hversu hratt draslið safnast upp í bílskúrnum þrátt fyrir að ég sé ákaflega dugleg að henda öllu … stundum of dugleg! Ég er nefnilega með það markmið að hafa sem allra minnst af óþarfa dóti og hlutum í kringum mig og losa mig við slíkt fljótt og vel. Stundum hefur eiginmaðurinn klórað sér í kollinum yfir því hvar hinir og þessir hlutir eru … óaðvitandi að mestar líkur eru á því að viðkomandi hlutir hafa með minni hjálp eignast nýtt heimili í Sorpu! 🙂

Svo ég víki að matarboðinu síðasta fimmtudag. Í aðallrétt grilluðum við lambafille með tilheyrandi meðlæti en í eftirrétt var ég með þessa bombu sem er ákaflega einfalt að útbúa og ægilega góð!

Uppskrift:

  • 1 púðursykurs marengsbotn
  • 150 g suðusúkkulaði
  • 7 dl rjómi
  • 2 eggjarauður
  • 3 msk flórsykur
  • 3 stykki Villiköttur (súkkulaðistykki) eða annað gott súkkulaði (t.d. Nóa kropp)
  • ber og ávextir, t.d. jarðarber, bláber, vínber, rifsber, blæjuber, brómber og kíwí.

IMG_3964

Marengsbotninn er mulinn og dreift jafnt yfir botninn á eldföstu móti. Suðusúkkulaðið og 2 dl af rjóma er sett í pott og hitað við vægan hita þar til súkkulaðið er bráðnað. Súkkulaðiblöndunni er svo dreift yfir marengsinn.

IMG_3962 Því næst er restinni af rjómanum (5 dl) þeyttur. Eggjarauður og flórsykur er þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós. Þessari blöndu er þá blandað saman við þeytta rjómann. Villiköttur, súkkulaðið, er saxað smátt og blandað út í rjómann.

IMG_3976 Rjómablöndunni er því næst dreift yfir marengsinn.

IMG_3978Skreytt með berjum og ávöxtum að vild og geymt í ísskáp í 2-3 tíma áður en rétturinn er borinn fram. IMG_3991IMG_4013

Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði


Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði

Nú er ég komin heim úr frábærri Bostonferð. Ekki nóg með að borgin sjálf sé dásamlega falleg og bauð okkur upp á frábært veður, mat, drykk og verslanir heldur var félagsskapurinn ekki af verri endanum. Við vorum saman átta æskuvinkonur, nokkrar okkar hafa meira að segja verið saman í bekk alla tíð síðan í 1. bekk í grunnskóla. Þessi hópur var ávísun upp á viðburðaríka daga og fjörug kvöld. Við gerðum vel við okkur í mat og drykk auk þess sem við versluðum svolítið. Einhverjum fannst það kannski meira en „svolítið“ því það var gengið upp að okkur í verslunarmiðstöðinni og okkur þakkað fyrir að bjarga ekónómíu Bandaríkjanna – grínlaust! Mér tókst að versla hér um bil allar jólagjafirnar og einnig keypti ég allskonar spennandi eldhúsvörur sem ég hlakka til að taka í notkun. Jamm, ég lagði mitt að mörkum fyrir Obama! 😉

Ég er nú enn að jafna mig eftir ferðina tímalega séð. Ég fór í vinnuna beint eftir svefnlaust næturflug og hef verið að berjast við að snúa sólarhringnum við. Helgin var að auki þéttskipuð hjá okkur og lítill tími gefist til að slaka á eða jafnvel taka upp úr töskunum. Ég hafði dregið það lengi að halda upp á afmæli Jóhönnu Ingu fyrir bekkinn hennar. Hún vildi bjóða öllum 23 stelpunum í bekknum og ég vissi ekki alveg hvernig ég ætti að leysa það. Að lokum ákvað ég að leigja sal hjá fimleikafélagi Bjarkar sem var frábær hugmynd. Þar gátu stelpurnar leikið sér í skemmtilegum sal með til dæmis svampi í gryfju sem var afar vinsælt. Svo buðum við upp á pizzur og köku. Jóhanna Inga vildi köku með „Aulanum ég“ þema og ég bjó því til eina slíka. Eins og ég hef skrifað áður þá hef ég mjög gaman af því að baka en er enginn snillingur í skreytingum, eiginlega er ég með þumla á öllum þegar kemur að föndri! Að auki hafði ég varla nokkurn tíma til að útbúa kökuna og varð því að finna fljótlega lausn. Mér fannst þessi útfærsla af sundlaugarköku bæði sniðug og einföld. Ekkert meistaraverk en Jóhanna var afskaplega ánægð með kökuna sína og þá var takmarkinu náð.

IMG_0790

Auk þess sem við héldum upp á afmælið núna um helgina fórum við í veislu, á tónleika, í leikhús og út að borða, það hefur því verið nóg að gera.

Mig langaði í dag að setja inn uppskrift að óskaplega einföldum eftirrétti en frábærlega góðum. Þessi réttur er dálítið í takti við annríki helgarinnar sem var að líða því þetta er réttur sem ég gríp oft til ef ég þarf að útbúa eftirrétt með engum fyrirvara. Það er best að bera fram vanilluís með þessum rétti en toppurinn finnst mér að senda eiginmanninn út í ísbúð á meðan ég útbý réttinn og bera svo fram með honum ljúffengan rjómaís beint úr vél í íssbúðinni!

Uppskrift f. ca. 5-6

  • 500 g jarðaber
  • 2 stórir  bananar
  • 4 kiwi
  • 2 perur (vel mjúkar)
  • 100 – 150 g hvítt súkkulaði
  • grófur eða fínn kókos (má sleppa)

Ofn hitaður í 200 gráður. Grænu laufin skorin af jarðaberjunum og þau skorin í tvennt eða fernt, fer eftir stærð. Bananar skornir í sneiðar. Kíwi afhýdd og skorin í bita. Perurnar eru afhýddar, kjarnhreinsaðar og skornar í bita. Ávöxtum og berjum blandað saman í passlega stórt eldfast mót (líka hægt að setja hæfilegan skammt í lítil form og bera fram fyrir hvern og einn). Hvíta súkkulaðið er saxað niður (eða notaðir hvítir súkkulaðidropar) og dreift yfir ávextina og berin. Ef maður vill er að auki hægt að strá smá kókos yfir í lokin. Hitað í ofni í um það bil 10 – 15 mínútur við 200 gráður eða þar til súkklaðið er bráðnað og hefur fengið smá lit. Borið fram strax heitt með góðum vanilluís.

Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði

Súkkulaði – tvenna með hindberjum


Súkkulaði og hindber, tvenna sem ég mun aldrei fá nóg af! Ég prófaði þennan eftirrétt í fyrsta sinn í gærkvöldi og hann skaust strax á top 10 listann yfir uppáhalds eftirrétti og trónir þar mjög ofarlega! Ekki nóg með að hann sé dásamlega bragðgóður heldur er hann afar auðveldur að búa til. Fersk hindber kosta yfirleitt hönd, fót og frumburð manns að auki! Ekki nóg með það heldur eru oftast talsvert af berjunum ónýt í boxinu. Svona spari á ég því alltaf þessi hindber sem fást í Kosti, til að nota í góða eftirrétti. Þau kosta reyndar heilmikið en ekki jafn mikið og fersk. En þá fær maður stór og ljúffeng hindber sem eru næstum því eins og nýtínd þegar þau eru afþýdd, öll heil og alltaf til reiðu í frystinum. Ladys fingers eru fingurkökur sem eru þekktastar fyrir að vera notaðar í Tiramisu (einn af fáum eftirréttum sem ég borða ekki, mér finnst kaffi svo vont!), þær eru meðal annars til í Bónus. Það er líka Ribena saft í uppskriftinni eða Creme de Cassi líkjör en ég átti hvorugt til og setti í staðinn örlítið af sérrý.

Uppskrift (fyrir 4-6 glös)

  • 250 gr hreint mjólkursúkkulaði
  • 100 gr suðusúkkulaði
  • 1/4 dl mjólk
  • 1 peli rjómi
  • 150 gr frosin hindber, afþýdd
  • 200 gr fersk hindber (ég notaði frosin sem ég afþýddi)
  • 1-2 msk sítrónusafi
  • 2 msk flórsykur eða eftir smekk
  • 8-10 fingurkökur (Lady fingers)
  • 3 msk vatn
  • 1 msk Creme de Cassis-líkjör eða 1 msk Ribena-safi

Saxið allt súkkulaðið og setjið í skál. Hitið mjólkina og 3 msk af rjómanum við meðalhita og hellið yfir súkkulaðið. Hrærið þar til súkkulaðið er alveg bráðnað. Ef súkkulaðið bráðnar ekki alveg má setja það yfir vatnsbað í augnablik. Látið súkkulaðið kólna svolítið og þeytið restina af rjómanum á meðan. Bætið þeytta rjómanum varlega saman við súkkulaðið og kælið í ísskáp. Setjið nú frosnu hindberin (afþýdd) í matvinnsluvél ásamt sítrónusafa og flórsykri og maukið vel. Sigtið hratið frá maukinu og setjið 4-5 msk af hindberjasósunni í djúpan disk ásamt vatninu og líkjörnum. Dýfið fingurkökunum (brjótið þær ef það þarf til að þær passi í glösin) ofan í vökvann og þekjið botninn á glösunum með þeim. Setjið nokkur hindber ofan á kökurnar og hellið svo súkkulaðiblöndunni yfir. Gott getur verið að setja súkkulaðið í einnota sprautupoka og sprauta ofan í glösin. Setjið afganginn af hindberjunum ofan á súkkulaðimúsina. Látið plastfilmu yfir glösin og geymið í ísskáp í minnst tvær klukkustundir. Setjið afganginn af hindberjasósunni ofan á hindberin áður en glösin eru borin fram.