Við höfum átt afar notalega fjögurra daga helgi þar sem að yngstu börnin voru í vetrarfríi ásamt okkur foreldrunum. Við erum þó enn ekki orðin frísk eftir flensuna þannig að við tókum því afar rólega í fríinu. Síðastliðinn fimmtudag vorum við með smá matarboð og buðum þá einmitt upp á þennan eftirrétt sem ég set hér inn á bloggið í þessari færslu. Á föstudaginn fórum við í keilu, því næst í bíó og enduðum kvöldið á sushiveislu. Í gær fórum við í afmæli um daginn en um kvöldið var okkur hjónunum boðið í matarboð þar sem við fengum meðal þennan annars dýrindis fiskrétt.
Ég er að vinna í því að fá gestgjafana til þess að vera gestabloggarar með þessa frábæru uppskrift. Ekki væri verra að geta deilt með ykkur uppskriftinni að þessari dásemdarköku sem var í eftirrétt!
Í dag fór ég loksins í það verk sem hefur hangið yfir mér lengi, ég byrjaði að taka til í bílskúrnum! Það er með ólíkindum hversu hratt draslið safnast upp í bílskúrnum þrátt fyrir að ég sé ákaflega dugleg að henda öllu … stundum of dugleg! Ég er nefnilega með það markmið að hafa sem allra minnst af óþarfa dóti og hlutum í kringum mig og losa mig við slíkt fljótt og vel. Stundum hefur eiginmaðurinn klórað sér í kollinum yfir því hvar hinir og þessir hlutir eru … óaðvitandi að mestar líkur eru á því að viðkomandi hlutir hafa með minni hjálp eignast nýtt heimili í Sorpu! 🙂
Svo ég víki að matarboðinu síðasta fimmtudag. Í aðallrétt grilluðum við lambafille með tilheyrandi meðlæti en í eftirrétt var ég með þessa bombu sem er ákaflega einfalt að útbúa og ægilega góð!
Uppskrift:
- 1 púðursykurs marengsbotn
- 150 g suðusúkkulaði
- 7 dl rjómi
- 2 eggjarauður
- 3 msk flórsykur
- 3 stykki Villiköttur (súkkulaðistykki) eða annað gott súkkulaði (t.d. Nóa kropp)
- ber og ávextir, t.d. jarðarber, bláber, vínber, rifsber, blæjuber, brómber og kíwí.
Marengsbotninn er mulinn og dreift jafnt yfir botninn á eldföstu móti. Suðusúkkulaðið og 2 dl af rjóma er sett í pott og hitað við vægan hita þar til súkkulaðið er bráðnað. Súkkulaðiblöndunni er svo dreift yfir marengsinn.
Því næst er restinni af rjómanum (5 dl) þeyttur. Eggjarauður og flórsykur er þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós. Þessari blöndu er þá blandað saman við þeytta rjómann. Villiköttur, súkkulaðið, er saxað smátt og blandað út í rjómann.
Rjómablöndunni er því næst dreift yfir marengsinn.
Skreytt með berjum og ávöxtum að vild og geymt í ísskáp í 2-3 tíma áður en rétturinn er borinn fram.