Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði


Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði

Nú er ég komin heim úr frábærri Bostonferð. Ekki nóg með að borgin sjálf sé dásamlega falleg og bauð okkur upp á frábært veður, mat, drykk og verslanir heldur var félagsskapurinn ekki af verri endanum. Við vorum saman átta æskuvinkonur, nokkrar okkar hafa meira að segja verið saman í bekk alla tíð síðan í 1. bekk í grunnskóla. Þessi hópur var ávísun upp á viðburðaríka daga og fjörug kvöld. Við gerðum vel við okkur í mat og drykk auk þess sem við versluðum svolítið. Einhverjum fannst það kannski meira en „svolítið“ því það var gengið upp að okkur í verslunarmiðstöðinni og okkur þakkað fyrir að bjarga ekónómíu Bandaríkjanna – grínlaust! Mér tókst að versla hér um bil allar jólagjafirnar og einnig keypti ég allskonar spennandi eldhúsvörur sem ég hlakka til að taka í notkun. Jamm, ég lagði mitt að mörkum fyrir Obama! 😉

Ég er nú enn að jafna mig eftir ferðina tímalega séð. Ég fór í vinnuna beint eftir svefnlaust næturflug og hef verið að berjast við að snúa sólarhringnum við. Helgin var að auki þéttskipuð hjá okkur og lítill tími gefist til að slaka á eða jafnvel taka upp úr töskunum. Ég hafði dregið það lengi að halda upp á afmæli Jóhönnu Ingu fyrir bekkinn hennar. Hún vildi bjóða öllum 23 stelpunum í bekknum og ég vissi ekki alveg hvernig ég ætti að leysa það. Að lokum ákvað ég að leigja sal hjá fimleikafélagi Bjarkar sem var frábær hugmynd. Þar gátu stelpurnar leikið sér í skemmtilegum sal með til dæmis svampi í gryfju sem var afar vinsælt. Svo buðum við upp á pizzur og köku. Jóhanna Inga vildi köku með „Aulanum ég“ þema og ég bjó því til eina slíka. Eins og ég hef skrifað áður þá hef ég mjög gaman af því að baka en er enginn snillingur í skreytingum, eiginlega er ég með þumla á öllum þegar kemur að föndri! Að auki hafði ég varla nokkurn tíma til að útbúa kökuna og varð því að finna fljótlega lausn. Mér fannst þessi útfærsla af sundlaugarköku bæði sniðug og einföld. Ekkert meistaraverk en Jóhanna var afskaplega ánægð með kökuna sína og þá var takmarkinu náð.

IMG_0790

Auk þess sem við héldum upp á afmælið núna um helgina fórum við í veislu, á tónleika, í leikhús og út að borða, það hefur því verið nóg að gera.

Mig langaði í dag að setja inn uppskrift að óskaplega einföldum eftirrétti en frábærlega góðum. Þessi réttur er dálítið í takti við annríki helgarinnar sem var að líða því þetta er réttur sem ég gríp oft til ef ég þarf að útbúa eftirrétt með engum fyrirvara. Það er best að bera fram vanilluís með þessum rétti en toppurinn finnst mér að senda eiginmanninn út í ísbúð á meðan ég útbý réttinn og bera svo fram með honum ljúffengan rjómaís beint úr vél í íssbúðinni!

Uppskrift f. ca. 5-6

  • 500 g jarðaber
  • 2 stórir  bananar
  • 4 kiwi
  • 2 perur (vel mjúkar)
  • 100 – 150 g hvítt súkkulaði
  • grófur eða fínn kókos (má sleppa)

Ofn hitaður í 200 gráður. Grænu laufin skorin af jarðaberjunum og þau skorin í tvennt eða fernt, fer eftir stærð. Bananar skornir í sneiðar. Kíwi afhýdd og skorin í bita. Perurnar eru afhýddar, kjarnhreinsaðar og skornar í bita. Ávöxtum og berjum blandað saman í passlega stórt eldfast mót (líka hægt að setja hæfilegan skammt í lítil form og bera fram fyrir hvern og einn). Hvíta súkkulaðið er saxað niður (eða notaðir hvítir súkkulaðidropar) og dreift yfir ávextina og berin. Ef maður vill er að auki hægt að strá smá kókos yfir í lokin. Hitað í ofni í um það bil 10 – 15 mínútur við 200 gráður eða þar til súkklaðið er bráðnað og hefur fengið smá lit. Borið fram strax heitt með góðum vanilluís.

Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði

Brownie-kaka með hindberjarjóma í Kökublaði Vikunnar


Kökublað Vikunnar var að koma út, spennandi blað eins og venjulega með allskonar köku uppskriftum, þið sjáið ekki eftir því að fjárfesta í eintaki! 🙂 Ég var beðin um að gefa uppskrift af einni köku sem ég gerði auðvitað með glöðu geði. Ég bakaði Brownieköku með hindberjarjóma. Ástæðan fyrir því var einföld, þessi kaka er himnesk! Súkkulaði og hindber er tvenna sem er ómótstæðileg í mínum huga. Ég get sjaldan horft framhjá uppskriftum sem í er hvort tveggja og ég varð því að prófa þessa köku þegar ég sá hana á sænskri netsíðu. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, þetta varð strax ein af mínum uppáhaldskökum. Þetta er fullkomin blanda af sætu og seigu súkkulaði á móti léttum og frískum hindberjarjóma. Að auki er afar auðvelt að búa kökuna til sem er alltaf kostur. Ég hef gert aðra útfærslu af henni fyrir eftirrétt. Þá baka ég botninn, skipti honum í eftirréttaskálar og set svo hindberjarjómann yfir ásamt þeyttum rjóma og ferskum hindberjum. Þá er komin ljúffengur og fallegur eftirréttur. Myndirnar í blaðinu eru teknar af ljósmyndara Vikunnar, sem sést að störfum hér fyrir neðan, en ég tók myndirnar í þessari færslu.

Ég breytti uppskriftinni (get aldrei hamið mig!) en upphaflega var í hindberjarjómanum pektín sultusykur en þá fannst mér hindberjarjóminn ekki hlaupa nógu vel, hann varð ekki nógu fallegur. Ég breytti því yfir í venjulegan sykur og matarlím, þannig varð kakan miklu fallegri.

Uppskrift

Brownie-botn

  • 120 gr suðusúkkulaði
  • 100 gr smjör
  • 2 1/2 dl sykur
  • 2 egg
  • 1 ½ msk vanillusykur
  • ¼ tsk salt
  • 1 ½ dl hveiti

Hindberjarjómi

  • 300 gr. frosin hindber, afþýdd
  • 1 dl sykur
  • 4 blöð matarlím
  • 2 tsk vanillusykur
  • 3 dl rjómi
  • þeyttur rjómi til skreytingar
  • fersk hindber til skreytingar

Brownie-botn: Bakarofn hitaður í 175°C. Smelluform (ca. 22 cm.) smurt að innan, bökunarpappír sniðinn og klipptur eftir botninum á forminu og lagður ofan á botninn. Súkkulaði og smjör sett í skál og brætt yfir vatnsbaði. Þegar blandan er bráðnuð er hún tekin af hitanum og sykri bætt út í. Hrært þar til blandan er slétt. Eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er vanillusykri og salti hrært út í. Að lokum er hveitið sigtað út í, blandað varlega saman með sleikju og deiginu hellt í formið. Kakan er bökuð við 175°C í um það bil 30 mínútur (athugið að kakan á að vera blaut). Kakan látin kólna. Því næst er smelluforminu smellt af og kökunni hvolft á kökudisk. Þá er auðvelt að fjarlægja bæði botninn á kökuforminu og bökunarpappírinn. Því næst er smelluforminu smellt aftur utan um kökuna á kökusdisknum til þess að halda við hindberjarjómann sem kemur ofan á.

Hindberjarjómi: Hindber maukuð í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Maukinu er síðan hellt í fínt sigti og fræin þannig síuð frá og þeim hent. Matarlímsblöð lögð eitt í einu í skál með vel köldu vatni og látin liggja þar í 5-7 mínútur. Hindberjamauk, sem nú er laust við fræ, er sett í pott ásamt sykrinum og suðan látin koma upp.  Þegar matarlímsblöðin eru orðin mjúk og þykk eru þau tekin upp úr skálinni, vatnið kreist úr þeim og þeim svo bætt út í hindberjamaukið í pottinum og hrært þar til blöðin eru uppleyst. Potturinn er tekinn af hitanum og vanillusykri þá bætt við (vanillusykri má aldrei blanda við sjóðandi vökva, þá verður hann beiskur) , blandan svo látin bíða þar til hún kólnar. Rjóminn þeyttur. Þegar hindberjablandan hefur kólnað er henni blandað saman við þeytta rjómann. Hindberjarjómanum er því næst dreift yfir kaldan brownie-botninn (formið látið sitja áfram utan um kökuna). Kakan kæld í minnst þrjá klukkutíma, gjarnan yfir nóttu. Skreytt með þeyttum rjóma og ferskum hindberjum.

Mascarpone þeytingur með berjum og Toffypops


Í gærkvöldi hittist matarklúbburinn okkar sem er alltaf tilhlökkunarefni. Eitt af því dásamlega við þennan klúbb, fyrir utan frábæra félagsskapinn, er að strákarnir elda og skipuleggja allt, við konurnar mætum bara og látum dekstra við okkur með mat og víni! 🙂 Þeir koma alltaf jafnmikið á óvart og galdra fram hvern gómsæta réttinn á fætur annars í hverju boði. Í gær kom það í hlut Elfars að gera eftirréttinn. Hann kom heim frá Stokkhólmi seinni partinn í gær og réðst strax í eftirréttagerð. Þessi eftirréttur heppnaðist svo rosalega vel hjá honum að rétturinn fær klárlega sína eigin færslu hér á blogginu!

Uppskrift f. 8-10:

  • 750 g mascarpone ostur
  • 6 dl rjómi, þeyttur
  • 300 g flórsykur
  • 2 msk vanillusykur
  • 1 vanillustöng, klofin á lengdina og kornin skafin úr
  • 3 pakkar Toffypops kex
  • ber til skreytingar t.d. jarðaber, hindber, bláber, blæjuber og ástaraldin.

Rjóminn þeyttur og geymdur í ísskáp. Toffypops kexið er saxað niður og það sett í botninn á eldföstu móti. Örlítið af kexinu tekið til hliðar til að dreifa yfir réttinn í blálokin. Mascarpone ostinum, flórsykri, vanillusykri og vanillukornum blandað saman og þeytt þar til blandan verður létt. Þeytta rjómanum bætt varlega út í með sleikju. Rjómaostakremið smurt yfir Toffytops kexið. Skreytt með berjum og restinni af kexinu stráð yfir.

Súkkulaði – tvenna með hindberjum


Súkkulaði og hindber, tvenna sem ég mun aldrei fá nóg af! Ég prófaði þennan eftirrétt í fyrsta sinn í gærkvöldi og hann skaust strax á top 10 listann yfir uppáhalds eftirrétti og trónir þar mjög ofarlega! Ekki nóg með að hann sé dásamlega bragðgóður heldur er hann afar auðveldur að búa til. Fersk hindber kosta yfirleitt hönd, fót og frumburð manns að auki! Ekki nóg með það heldur eru oftast talsvert af berjunum ónýt í boxinu. Svona spari á ég því alltaf þessi hindber sem fást í Kosti, til að nota í góða eftirrétti. Þau kosta reyndar heilmikið en ekki jafn mikið og fersk. En þá fær maður stór og ljúffeng hindber sem eru næstum því eins og nýtínd þegar þau eru afþýdd, öll heil og alltaf til reiðu í frystinum. Ladys fingers eru fingurkökur sem eru þekktastar fyrir að vera notaðar í Tiramisu (einn af fáum eftirréttum sem ég borða ekki, mér finnst kaffi svo vont!), þær eru meðal annars til í Bónus. Það er líka Ribena saft í uppskriftinni eða Creme de Cassi líkjör en ég átti hvorugt til og setti í staðinn örlítið af sérrý.

Uppskrift (fyrir 4-6 glös)

  • 250 gr hreint mjólkursúkkulaði
  • 100 gr suðusúkkulaði
  • 1/4 dl mjólk
  • 1 peli rjómi
  • 150 gr frosin hindber, afþýdd
  • 200 gr fersk hindber (ég notaði frosin sem ég afþýddi)
  • 1-2 msk sítrónusafi
  • 2 msk flórsykur eða eftir smekk
  • 8-10 fingurkökur (Lady fingers)
  • 3 msk vatn
  • 1 msk Creme de Cassis-líkjör eða 1 msk Ribena-safi

Saxið allt súkkulaðið og setjið í skál. Hitið mjólkina og 3 msk af rjómanum við meðalhita og hellið yfir súkkulaðið. Hrærið þar til súkkulaðið er alveg bráðnað. Ef súkkulaðið bráðnar ekki alveg má setja það yfir vatnsbað í augnablik. Látið súkkulaðið kólna svolítið og þeytið restina af rjómanum á meðan. Bætið þeytta rjómanum varlega saman við súkkulaðið og kælið í ísskáp. Setjið nú frosnu hindberin (afþýdd) í matvinnsluvél ásamt sítrónusafa og flórsykri og maukið vel. Sigtið hratið frá maukinu og setjið 4-5 msk af hindberjasósunni í djúpan disk ásamt vatninu og líkjörnum. Dýfið fingurkökunum (brjótið þær ef það þarf til að þær passi í glösin) ofan í vökvann og þekjið botninn á glösunum með þeim. Setjið nokkur hindber ofan á kökurnar og hellið svo súkkulaðiblöndunni yfir. Gott getur verið að setja súkkulaðið í einnota sprautupoka og sprauta ofan í glösin. Setjið afganginn af hindberjunum ofan á súkkulaðimúsina. Látið plastfilmu yfir glösin og geymið í ísskáp í minnst tvær klukkustundir. Setjið afganginn af hindberjasósunni ofan á hindberin áður en glösin eru borin fram.

Hindberjabaka með Dulce de leche karamellusósu


Fyrr í sumar var ég að kaupa kjöt í versluninni ,,Til sjávar og sveita“ þegar ég sá þar krukku af Dulce de leche. Ég vissi ekki hvers konar sósa þetta var en keypti eina krukku fyrir forvitnissakir (Sósan fæst líka í Þinni verslun). Núna lét ég loksins verða af því að skoða þessa sósu betur. Þá kom berlega í ljós að ég er jú bara leikmaður á matargerðarsviðinu því þessi sósa er vel þekkt. Dulce de leche er karmellusósa búin til úr niðursoðinni sætri mjólk. Hún er upprunnin frá Suður Ameríku og var fyrst framleitt þar fyrir yfir 100 árum til að varðveita mjólk yfir sumarmánuðina.  Sósuna er hægt að nota á marga mismunandi vegu, gott er að nota hana á pönnukökur t.d. með ís og svo fer hún líka sérlega vel með marengsbotni eða í bökur með rjóma og ferskum ávöxtum.  Það er sem sagt hægt að kaupa karmellusósuna tilbúna, eins og ég gerði að þessu sinni, eða búa hana til með því að setja niðursoðna sætmjólk í dós í pott með vatni og sjóða.

Niðursoðnu sætmjólkina er hægt að fá í Kosti og í verslunum með asíska matvöru. Miðinn er tekinn af dósinni og hún er sett í pott og hann fylltur vatni, það þarf að vera vatn yfir dósinni.  Látið suðuna koma upp og lækkið svo niður um helming þannig að vatnið rétt bárast. Látið sjóða í þrjár klukkustundir, því lengur sem mjólkin er soðin þess mun þykkari verður karamellan. Það þarf að sjá til þess að það sé alltaf vatn yfir dósinni á meðan suðu stendur gott er að snúa dósinni einstaka sinnum. Dósin er svo tekin úr pottinum og hún látin standa á borði í svona 20 mínútur áður en hún er opnuð. Það er líka hægt að geyma hana í ísskáp yfir nótt ef ekki á að nota hana strax.  Ef karamellan er of stíf er hægt að velgja aðeins í henni í potti eða örbylgjuofni.

Í Englandi var farið að gera ,,Banoffee pie“ fyrir um það bil 40 árum. Það er baka með kexbotni, Dulce de leche karamellusósu, banönum og rjóma. ,,Banoffee“ er orð sem hefur meira að segja fest sig í sessi í ensku yfir allt sem bragðast eða lyktar eins og blanda af banönum og karamellu! Hér er ég með uppskrift af sambærilegri böku og það er vel hægt að skipta út karamellusósunni í þessari böku fyrir Dulce de leche karamellusósuna. Mig langaði að gera böku úr þessari Dulce de leche karamellusósu sem ég hafði keypt en langaði ekki að gera ,,Banoffee“ böku þar sem ég gerði sambærilega slíka böku nýlega. Ég ákvað því að nota hindber í stað banana. Karamellan er sæt en hindberin eru súrsæt og með mildum rjómanum þá getur þessi blanda varla klikkað! Uppskrift:

  • 200 gr Digestive
  • 100 gr smjör
  • 500 gr hindber (má nota frosin hindber sem hafa verið afþýdd)
  • 400 gr Dulce de leche karamellusósa (eða ein dós niðursoðin sætmjólk soðin eftir leiðbeiningunum hér að ofan)
  • 300 ml rjómi
  • súkkulaðispænir til skreytingar

Aðferð: Bræðið smjörið og myljið kexið í matvinnsluvél eða mixer, blandið saman. Blöndunni þrýst í botninn á forminu. Kælið í 30 mínútur í ísskáp eða frysti og bakið svo í ofni við 175°C í 10 mínútur. Leyfið botninum að kólna áður en karamellusósan er sett á botninn. Þegar karamellusósunni hefur verið hellt yfir botninn er hindberjunum raðað yfir og að lokum þeyttum rjóma. Skreytt með súkkulaðispæni. Leyfið bökunni gjarnan að brjóta sig í ísskáp í nokkrar klukkustundir áður en hún er borin fram.

Boozt


Hér á heimilinu er búið til boozt á hverjum degi en flest okkar drekka skyrboozt í morgunmat. Á milli mála geri ég oft spínatboozt, okkur stelpunum finnst það sérstaklega gott, strákarnir eru meira í skyrbooztinu. Það er þvílíkur munur á boozt gerðinni eftir að við fengum okkur almennilegan blender en fram af því höfðum við brætt úr nokkrum slíkum gripum! Blenderinn okkar ræður við hér um bil allt en fyrir þessa hefðbundnu blendera þá er mikilvægt að setja vökva fyrst, setja blenderinn af stað og leyfa klökum og frystum berjum eða ávöxtum að detta niður á hnífinn á meðan blenderinn er í gangi. Það má ekki setja frosið hráefni á botninn og setja svo blenderinn af stað, það er svona eins og að keyra bíl af stað í fjórða gír! 

Það er sérstaklega gaman að gera spínatboozt á sumrin þegar grænmetisræktunin er farin að gefa af sér. Núna þarf ég ekki að kaupa spínat heldur get náð mér í það úr garðinu daglega.

Uppskrift:

  • handfylli spínat
  • frosið mangó
  • vænn bútur af engifer
  • ávaxtasafi, ég nota Heilsusafa
  • banani


Elfar er sá sem drekkur mest af skyrboozti, hann byrjar alltaf daginn eldsnemma með boozti og tvöföldum espresso. Hann býr til stóran skammt af booztinu og gerir auka ,,to go“ glas fyrir mig. Ég er engin morgunmanneskja og þess síður morgunverðamanneskja! Þess vegna hentar mér mjög vel að taka glasið með mér í ræktina á morgnana, drekka helminginn á leiðinni á æfingu og restina eftir æfingu. Við notum ávallt og eingöngu hreint skyr en mismunandi frosin ber og ávexti. Til að þynna skyrbooztið notum við ávaxtasafa. Elfar hefur hins vegar verið að prófa sig áfram með annað, t.d. vatn eða mjólk til að minnka kolvetnin í drykknum.

Uppskrift: 

  • hreint skyr
  • frosin ber eða ávexti, t.d. jarðarber, bláber, hindber, mangó eða brómber.
  • banani
  • ávaxtasafi

Pavlova


Ég bakaði Pavlovu í vikunni þegar Vilhjálmur hélt upp á 12 ára afmælið sitt. Á myndinni er ég einmitt að horfa inn um stofugluggann á forviða afmælisgesti sem skildu ekkert í af hverju ég skaust út í garð með tertuna áður en hún var borin á borð! 🙂 Ég nota Pavlovu uppskrift frá Jóa Fel sem mér finnst mjög góð, ég hef þó aukið við magnið af rjómanum í uppskriftinni. Tertan er stór þannig að það þarf að gera ráð fyrir stórum kökudisk. Þá kom sér vel nýi flotti kökudiskurinn frá Brynju!

Pavlova er ein af mínum uppáhaldstertum. Stökkur marengs sem er mjúkur í miðjunni og þakinn rjóma og berjum, gerist ekki betra!  Það er hægt að velja hvaða ber sem er á tertuna, mér finnst sérstaklega gott að nota ástaraldin og hindber. Ég var með að auki jarðarber á þessari tertu. Tertan er nefnd eftir Önnu Pavlovu, sem var þekkt rússnesk ballerína. Þegar hún heimsótti Ástralíu og Nýja Sjálandi á öðrum áratug síðustu aldar var þessi terta fundin upp þar henni til heiðurs (það var nú samt örugglega eins og að kasta perlum fyrir svín, ég get samt ekki ímyndað mér að ballerínur borði mikið af marengstertum! ). Það sem er frábrugðið við marengsinn í Pavlovunni er að í hann er sett edik. Hann gerir það að verkum að marengsinn helst mjúkur í miðjunni.

Uppskrift

Botn:
8 stk eggjahvítur
400 g sykur
1 1/2 tsk edik
1/2 tsk vanilludropar
1/2 tsk salt

Rjómakrem:
4-5 dl rjómi
4 msk flórsykur
1/2 tsk vanilludropar

Fersk ber eða ávextir eftir smekk

Þeytið eggjahvítur og bætið sykri, ediki, salti og vanilludropum við. Þeytið þar til sykur er vel uppleystur og marengsinn er orðinn stífur. Smyrjið marengsinn út á smjörpappír 26 cm hring (verið óhrædd, marengsinn á að vera svona stór og hár) setjið á plötu og bakið við 100° í 2 klukkustundir. Slökkvið á ofninum og látið kólna í honum.

Þeytið rjóma og blandið flórsykri og vanilludropum saman við. Setjið ofan á tertuna og skreytið með berjum og eða ávöxtum. Dæmi: jarðarber, hindber, ástaraldin, bláber, kíwi, blæjuber, brómber og mangó.

Berjabaka – Jóhanna Inga 7 ára gestabloggar!


Jóhanna Inga hefur nú lokið vikulöngu matreiðslunámskeiði. Hún gaf námskeiðinu hæstu einkunn en það er afar góður vitnisburður þar sem að þessi unga stúlka er kröfuhörð! 🙂 Þau fengu að gera alls 16 rétti, meðal annars pottrétt, pönnukökur, pæ, ís, salat, brauð, kökur, fiskrétt og súpu. Allt voru þetta mjög góðir og girnilegir réttir. Í lokin fengu þær vinkonurnar kokkahúfur! 🙂

Jóhanna Inga, Gyða Dröfn og Hrefna Rós:

Jóhanna Inga ætlar að gefa uppskrift af einum rétti sem hún útbjó. Þó svo að allir réttirnir hafi verið góðir var þetta eitthvað sem öllum í fjölskyldunni fannst afar ljúffengt. Hún segir að það sé mjög auðvelt að búa til þennan rétt! 🙂

Berjapæ

  • 2 dl. hveiti
  • 1 dl. púðursykur
  • 1 dl. sykur
  • 1/2 tsk. kanill
  • 1/4 tsk. salt
  • 2 dl. haframjöl
  • 100 gr. smjör
  • 4 dl. ber (hægt að nota frosna berjablöndu)
  • 1 epli, afhýdd og skorið í bita
  • 2 dl. sykur
  • 2 msk. maísmjöl

Aðferð:

  1. Blandaðu saman fyrstu 7 hráefnunum. Smjörið á að vera kalt.
  2. Myldu saman öll hráefnin þar til blandan minnir á haframjöl. Gættu þess að mylja ekki of mikið því þá bráðnar smjörið.
  3. Blandaðu eplunum, berjum, sykrinum og maísmjölinu saman.
  4. Settu berjablönduna í eldfast mót og stráðu svo hveitiblöndunni yfir.
  5. Settu í 180 gráðu heitan ofn í 35-40 mínútur eða þar til toppurinn er orðin gullinbrún og berjablandan bubblar upp um hliðarnar.
  6. Berið fram heitt með ís eða rjóma.
Hér er berjapæið hennar Jóhönnu ásamt heimatilbúna ísnum sem hún útbjó. Jóhanna vill koma því á framfæri að það hentar mjög vel líka að nota nýtínd bláber í þessa berjaböku! 🙂