Panna cotta þrenna


IMG_2792 Þó nýtt ár sé hafið með háleitum markmiðum og áramótaheitum þá á ég eftir að deila með ykkur nokkrum ekki-megrunarréttum frá hátíðunum. Á gamlárskvöld vorum við hjá foreldrum mínum og fengum dásamlega góðan kalkún. Ég sá um forréttinn og eftirréttinn. Í eftirrétt var ég búin að lofa ömmu að hafa panna cotta og að sjálfsögðu sveik ég það ekki. Ég ákvað að prófa mig áfram með að hafa panna cotta í nokkrum lögum og það tókst mjög vel. Hins vegar mæli ég ekki með því að ferðast í bíl með fimmtán panna cotta í háum og völtum glösum! Sem betur fer gerði ég einn auka rétt þvi eitt glasið ákvað að leggjast í kjöltu mér á þessari stuttu bílferð frá heimili okkar heim til foreldra minna.

Það er ákaflega auðvelt að búa til panna cotta og það sama á við þó svo að rétturinn sé í þremur lögum. Það eina sem er tímafrekt er að hvert lag þarf að fá tíma til þess að þykkna og það tekur 2-3 tíma en það tekur bara nokkrar mínútur að útbúa hverja blöndu. Ég gerði fyrsta lagið kvöldið áður og hin tvö daginn eftir. Ég ákvað að gera eina blöndu með vanillu og hvítu súkkulaði, þá næstu með hindberjum og þá síðustu með Toblerone súkkulaði. Það er einmitt svo skemmtilegt við panna cotta að það eru endalausir möguleikar á því að bragðbæta búðinginn og einnig hægt að bera hann fram með ótal tegundum af sósum, berjum eða öðru gúmmelaði.IMG_2786

Uppskrift f. ca. 8-10:

Panna cotta með vanillu og hvítu súkkulaði

  •  5 dl rjómi
  • 1 msk hunang
  • 2 msk vanillusykur (má nota venjulegan sykur)
  • 1 vanillustöng
  • 80 gr. hvítt súkkulaði, saxað
  • 3 matarlímsblöð

Matarlímsplötur settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Vanillustöng klofin í tvennt, kornin innan úr báðum helmingunum skafin úr með beittum hníf. Rjómi, hunang, vanillusykur og hvítt súkkulaði ásamt vanillukornunum sett í pott, hitað að suðu og hrært í á meðan. Þegar blandan er komin að því að sjóða er potturinn tekinn af hellunni. Mestur vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum og þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau eru bráðin saman við blönduna. Hellt í glærar skálar eða falleg glös og kælt í ísskáp í minnst 2-3 klukkutíma

Panna cotta með hindberjum:

  • 5 dl rjómi
  • 1 dl sykur
  • 300 g frosin hindber sem hafa verið afþýdd
  • 3 matarlímsblöð

Matarlímsplötur settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Hindberin eru maukuð vel í matvinnsluvél eða með töfrasprota (líka hægt að mauka þau með gaffli). Rjómi, sykur og maukuð hindber sett í pott, hitað að suðu og hrært í á meðan. Þegar blandan er komin að því að sjóða er potturinn tekinn af hellunni. Mestur vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum og þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau eru bráðin saman við blönduna. Hellt varlega yfir vanillu/hvítt súkkulaðipanna cotta og kælt áfram í ísskáp í minnst 2-3 klukkutíma.

Panna cotta með Toblerone:

  • 5 dl rjómi
  • 1/2 dl sykur
  • 150 g Toblerone
  • 3 matarlímsblöð
  • fersk ber og þeyttur rjómi

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn. Rjómi og sykur sett í pott og látið ná suðu. Þá er potturinn tekinn af hellunni, súkkulaðið brotið í litla bita og þeim bætt út í pottinn. Hrært þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa bráðnað saman við blönduna. Því næst er blöndunni hellt varlega yfir hindberja panna cotta og sett inn í ísskáp í minnst 3 tíma áður en rétturinn er borinn fram. Borið fram með ferskum berjum (og þeyttum rjóma fyrir þá sem vilja).

IMG_2806