Þó svo að það hafi verið ákaflega kalt undanfarna daga þá verð ég að viðurkenna að snjórinn og kuldinn gerir allt svo mikið jólalegra en ella. Ég tók þessar myndir í vikunni fyrir utan húsið mitt eftir snjókomuna. Þó svo að ég hafi sett „dash“ af gervisnjó og glimmer á kransinn minn þá er enn fallegra þegar á hann snjóar ekta snjó.
Mikið vona ég að það snjói svona fallega á jólunum líka.
Við fjölskyldan áttum saman ljúfan laugardag í dag sem byrjaði með jólatónleikum barnanna á vegum tónlistarskólans þeirra. Vilhjálmur spilaði flókið verk á píanó og Jóhanna var að spila á rafmagnsgítar á sínum fyrstu tónleikum. Þau stóðu sig ofsalega vel og við foreldrarnir vorum að vonum afar stolt. Því næst var jólatréð valið af kostgæfni en við þurftum að fara á nokkra staði áður en nægilega fallegt jólatré fannst. Þá tók við dálítið búðarráp sem endaði með notalegri stund á veitingastað og loks endað á ísbúð Vesturbæjar eftir góðan dag.
Ég hef sett inn nokkuð margar uppskriftir að eftirréttum hér á síðuna að undanförnu og nú bætist enn ein uppskriftin við. Mér finnst bara svo dæmalaust skemmtilegt að útbúa eftirrétti og ennþá skemmtilegra að borða þá! Pannacotta er einn einfaldasti og ljúffengasti eftirrétturinn sem hægt er að gera, afar fljótlegur og hægt að útbúa hann með fyrirvara sem er góður kostur fyrir matarboð. Um daginn þegar ég var með matarboð fyrir fjölskylduna bjó ég til súkkulaðipannacotta með karamellu sem ömmu fannst vera besti eftirréttur sem hún hafði bragðað. Í síðustu viku komu amma og afi aftur til okkar í mat og ég ákvað að gera aðra útfærslu af pannacotta – ekki vildi ég valda ömmu vonbrigðum! Það er einmitt svo sniðugt hversu margar útfærslur er hægt að gera af þessum rétti. Að þessu sinni notaði ég niðursoðna sætmjólk í stað sykurs hún gerði pannacottað dásamlega karamellukennt og bragðgott. Ofan á dreifði ég heimatilbúnum hnetumulningi með hnetum og kornflexi sem velt var upp úr bræddu súkkulaði, dæmalaust gott! Mér skilst að það sé ekki hægt að fá niðursoðna sætmjólk lengur í Kosti en hún ætti að fást í asískum matvöruverslunum og í Kolaportinu. Mögulega á fleiri stöðum – einhver sem veit?
Uppskrift f. 6:
- 5 dl rjómi
- 1 dós niðursoðin sætmjólk (sweetened condensed milk- ca. 350 g)
- 50 g suðusúkkulaði
- 2 blöð matarlím (3 blöð fyrir þá sem vilja stífari búðing)
- skreytt með þeyttum rjóma, berjum og súkkulaði-hnetumulningi
Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn í allavega fimm mínútur. Rjómi og sætmjólk sett í pott og látið ná suðu. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa bráðnað saman við blönduna. Þá er potturinn tekinn af hellunni, súkkulaðið brotið í litla bita og því bætt út í pottinn. Hrært þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Hellt í skálar eða bolla og kælt í ísskáp í minnst 2 klukkutíma. Áður en rétturinn er borinn fram er hann skreyttur með þeyttum rjóma, berjum og súkkulaði-hnetumulningi.
Súkkulaði-hnetumulningur:
- 1/2 dl heslihnetur (eða önnur tegund af hnetum)
- 1/2 dl macadamia hnetur (eða önnur tegund af hnetum)
- 1/2 dl kornflex
- 50 g suðusúkkulaði
Hnetur saxaðar og kornflex mulið. Súkkulaði brætt yfir vatnsbaði og hnetum og kornflexi bætt út í. Blöndunni er dreift á bökunarpappír og sett í frysti í minnst hálftíma. Rétt áður en pannacotta er borið fram er súkkulaði-hnetumulningurinn tekinn úr frystinum og saxað niður í smærri bita. Dreift yfir pannacotta.
Hlakka til að prófa þennan 🙂
Sætmjólkin fæst í Asíubúðunum, a.m.k. Mai Thai og Eir og einnig í Melabúðinni.
Gott að vita þetta Anna Sigga, takk fyrir kveðjuna! 🙂