Í gær kveiktum við á fyrsta kertinu, spádómskertinu, í aðventukransinum sem ég bjó til auk þess sem við kveiktum á dagatalskertinu. Þó ég sé mikið jólabarn þá slær yngsta skottið (9 ára) mig út, hún er alveg að missa sig af jólaspenningi og hennar eina áhyggjuefni þessa dagana er að það verði ekki hvít jól. Ekki þarf hún að hafa áhyggjur af jólagjöfum, hún föndraði nefnilega jólagjafir fyrir alla stórfjölskylduna og pakkaði þeim inn í október!
Ég ætla að færa inn fiskuppskrift hingað á síðuna í dag sem er svo framúrskarandi góður. Sumarið 1992 skráði ég í gömlu uppskriftabókina mína uppskrift að karrífisk sem ég fékk hjá samstarfsfélaga mínum í Íslandsbanka þar sem ég var í sumarvinnu. Í uppskriftinni er meðal annars fiskur, karrí, bananar og rjómi. Ljúffengur réttur sem Elfar hefur sérstaklega haldið upp á í gegnum tíðina. Í dag, 21 ári seinna, hef ég breytt uppskriftinni svo mikið að í raun og veru er þetta alls ekki sama uppskrift lengur en í grunninn er enn fiskur, karrí og bananar.
Holl og góð hráefni
Mér finnst þessi fiskréttur einkar góður. Það finnst ekki öllum gott að nota banana í heita rétti en mér finnst sérlega gott að fá sæta bananabragðið á móti karríbragðinu. Ég þreytist ekki á að dásama brakandi fersku og ljúffengu Ecospírurnar en þær eru fullkomnar sem meðlæti með svona góðum fiskrétti.
Uppskrift:
- 1 kíló góður hvítur fiskur, hér notaði ég lönguhnakka
- salt og pipar
- 200 g sveppir, skornir í sneiðar
- 1 stór rauð paprika, skorin í bita
- 1 rauður chili, kjarnhreinsaður og saxaður smátt
- 1-2 tsk karrí
- 1 msk rifið ferskt engifer
- 1/2 límóna (lime) – safinn
- 4 msk mango chutney
- 1 dós kókosmjólk (ca. 400 ml)
- 1-2 bananar, skornir í sneiðar
- 125 kasjúhnetur
- rifinn ostur
Ofn hitaður í 200 gráður. Eldfast mót smurt, fiskurinn skorinn í hæfilega stóra bita, hann kryddaður með salti og pipar og raðað í mótið. Olía sett á pönnu og paprika, sveppir og chili steikt þar til það verður mjúkt og kryddað með karrí. Engifer, mango chutney, limesafi og kókosmjólk bætt við á pönnuna og látið malla í stutta stund, sósan smökkuð til og ef til vill bætt við meira af mango chutney, limesafa eða kryddum.
Bananasneiðum raðað ofan á fiskinn, fjöldinn fer eftir smekk hvers og eins. Karrísósunni hellt ofan á (varlega svo að bananarnir haldist ofan á fisknum). Að lokum er rifnum osti og kasjúhnetum dreift yfir.
Bakað í ofni í ca. 20 mínútur (fer eftir þykkt fisksins) eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.
Njótið!
Gerdi tetta i gaer– var ANSI gott Dröfn!!- einfalt lika
Frábært að heyra það Halla! 🙂
Eldaði þennan í gær, smakkaðist mjög vel. Skipti reyndar út hnetunum fyrir steikt beikon að ósk dótturinnar og það skemmdi ekki fyrir 🙂
Ég var með þennan ljúffenga fiskrétt í gærkvöldi öllum til mikillar ánægju. Bananarnir koma skemmtilega á óvart, ætla að hafa meira af þeim næst 😉
Frábært að heyra Rebekka! 🙂 Mér finnst líka gott að hafa mikið af banönum!