Súkkulaðikaka með Pipp karamellukremi


Þessi kaka afar sniðug að mörgu leyti. Í fyrsta lagi þarf ekki að nota hrærivél, hún er bara gerð í potti. Þess vegna er hægt að gera hana hvar sem er, t.d. í sumarbústað. Í öðru lagi er hér um bil ekkert hveiti í henni og það er hægt að skipta því út fyrir maísenamjöl ef maður vill hafa hana hveitilausa. Í þriðja lagi þá er hún svakalega góð! 🙂 Kremið er afsakaplega ljúffengt, gert úr Pipp súkkulaði með karamellu, það er líka hægt að nota Pipp með piparmyntukremi ef maður er hrifnari af piparmyntu. Í kökunni er kaffi en mér finnst kaffi afskaplega bragðvont og forðast yfirleitt allt kaffi í kökum, tertum og eftirréttum. Ég hef hins vegar ekkert fundið fyrir kaffibragðinu í þessari köku hingað til. En svo bar við í þetta sinn að mér fannst of mikið kaffibragð af henni. Það var ekki fyrr en núna í þessum skrifuðu orðum að ég uppgötvaði að ég hafði notað tvær matskeiðar af kaffinu í stað tveggja teskeiða, mæli ekki með því! Hins vegar fannst engum öðrum en mér of mikið kaffibragð af kökunni þannig það virtist ekki koma að sök!

Uppskrift:

 •  250 gr suðusúkkulaði
 • 180 gr smjör
 •  2 tsk instant Nescafe, kaffiduft mulið, t.d. í morteli (má sleppa)
 •  2 dl sykur
 •  4 egg
 •  2 tsk vanillusykur
 •  1/2 tsk lyftiduft
 •  1/2 dl hveiti (má nota maísenamjöl fyrir glútenfría köku)

Krem:

 •  25 gr smjör
 •  1/2 dl rjómi
 •  200 gr Pipp með karamellukremi (selt í 100 gr. plötum) eða með piparmyntu

Aðferð:

Ofninn hitaður í 175 gráður. Smelluform (24 cm) smurt að innan. Súkkulaði brotið niður í pott ásamt smjöri, brætt við vægan hita og hrært í á meðan. Potturinn tekinn af hellunni og blandan látin kólna dálítið. Neskaffi mulið mjög smátt (ég gerði það í morteli) og því bætt út í ásamt sykri og eggjum, hrært vel með písk þar til að blandan er slétt. Hveiti, vanillusykri og lyftidufti blandað saman og sigtað ofan í pottinn. Hrært þar til að blandan er slétt. Deiginu er helt í smurt bökunarform og bakað í ca. 45 – 50 mínútur neðarlega í ofninum. Fylgist vel með kökunni, hún má vera blaut í miðjunni.

Krem:

Hráefnið í kreminu sett saman í pott og brætt við vægan hita, hrært þar til að Pipp súkkulaðið er bráðnað og kremið er slétt og glansandi. Potturinn tekinn af hellunni.

Þegar kakan hefur kólnað og kremið þykknað dálítið er því smurt yfir kökuna. Kakan skreytt með t.d. jarðaberjum og borin fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.

76 hugrenningar um “Súkkulaðikaka með Pipp karamellukremi

 1. Fékk sænska gesti í heimsókn síðustu helgi (bý í Svíþjóð) og kakan sló alveg í gegn allir vildu fá uppskriftina, svo nú er bara að setjast niður og þýða yfir á sænsku 😄
  Fer oft inn á síðuna þína og er búin að prufa margar uppskriftir. Hef ekki orðið fyrir vonbrigðum hingaðtil!
  Takk fyrir frábæra síðu

 2. Þetta er svo skuggalega góð og einföld kaka. Geri hana oft. Hef bæði prófað banana pippið og karamellu og finnst banana standa upp úr. Það er hins vegar orðið frekar erfitt að fá það núna. Vonandi er ekki hætt að framleiða það. En eiginlega uppáhalds útgáfan mín af þessari köku er með einum poka af góukúlum í staðin fyrir pipp súkkulaðið. Það er sjúklega gott. Skora á ykkur á prófa 🙂

 3. Hæ var að spá hvort það sé hægt að nota kókosolíu í staðin fyrir smjör, ef svo er hversu mikið magn þá? Er að fá gest annað kvöld sem er vegan, og þess vegna er ég að spá í þetta. Svo kannski borðar hún alveg kökur með smjöri. Btw þessi kaka klikkar aldrei 😊

 4. sæl, ég er búin að lenda í því tvisvar að þegar ég tek kökuna út þá brotnar toppurinn eins og þunn skel og hún er mjög blaut í miðjunni, hafði hana samt alveg í 50 mín. spurning hvort ég er að hræra hana nóg?

  • Ég hef líka stundum sjálf lent í svona með franskar súkkulaðikökur og hef enn ekki komist að því hvað veldur. Ég held að þetta sé meira bökunin heldur en meðferðin á deginu sjálfu. Ég hef reynt að bregðast við með því að hafa kökuna neðar i ofninum. Svo á meðan bökun stendur þá hef ég stungið í hana með gaffli til að koma í veg fyrir að „skelin“ myndist og til að kakan bakist betur. Ef mér finnst nauðsyn þá bæti ég við bökunartíma.
   En þó svo að þetta gerist þá hefur kakan í raun ekki misheppnast finnst mér. Þegar hún er alveg orðin köld þá er hún yfirleitt búin að þétta sig og „skelin“ hefur engin áhrif á útkomuna.

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.