Súkkulaðikaka með Pipp bananakremi


IMG_1101

Nú erum við hjónin komin heim úr yndislegri Stokkhólmsferð, eini gallinn var hversu hratt helgin leið! Í gær borðuðum við á veitingastað sem heitir Nybrogatan 38 – sem er líka heimilisfangið – frumlegt! 🙂 Við mælum sannarlega með þeim stað. Við fengum frábærlega góða steik og ljúffengt vín fyrir afar gott verð. Það borgar sig greinilega fyrir mig að fylgjast með bloggum hinna ýmsu Svía!. Ég les alltaf bloggið hjá Pernillu Wahlgren sem er þekkt sænsk söngkona, hún borðar oft þarna og er afar hrifin af staðnum, þannig vissi ég af honum. Ef þið eruð í Stokkhólmi og ætlið að heimsækja þennan stað, eða einhvern annan veitingastað ef því er að skipta, um helgi þá þarf að bóka með dálitlum fyrirvara. Það þýðir lítið að ætla að detta inn á góðan veitingastað í Stokkhólmi um helgar.

StokkhólmurEldhússögur á Instagram – Stokkhólmur og Nybrogatan 38

Við byrjuðum daginn í gær á að ljúka dásamlegu brúðkaupsveislunni með brúðhjónunum og veislugestum heima hjá föður brúðarinnar í kampavínsmorgunverði. Frábær leið til þess að ljúka brúðkaupi. Það var svo gaman að geta hitt alla aftur daginn eftir veisluna. Ekki skemmdi fyrir að veðrið var auðvitað frábært og því var hægt að eiga góða stund saman í garðinum.

kampavínsmorgunverður

Það var samt ósköp gott að koma heim til barnanna. Ég hlakkaði líka til að koma heim og baka þessa köku sem ég gef uppskrift að í dag. Ég er nefnilega búin að vera með Pipp með bananabragði á heilanum í dálítinn tíma! Ef þið hafið mögulega ekki tekið eftir því þá er sem sagt komið nýtt Pipp í verslanir, með bananabragði. Ég smakkaði einn bita um daginn og vissi strax að úr þessu súkkulaði yrði ég að gera köku! Ég er búin að hugsa um þetta í dálítinn tíma og í flugvélinni í gærkvöldi ákvað ég að gera þessa köku en með banana Pippinu. Ég breytti uppskriftinni þó nokkuð, til dæmis minnkaði ég sykurinn um helming og tók út kaffið. Þessi Pippkaka hefur verið afar vinsæl hér á blogginu, ekki síst fyrir það hversu fljótleg og einföld hún er en þó aðallega fyrir hvað hún er ofsalega góð. Ef það er hægt þá varð þessi kaka enn betri með banana Pippinu og breyttri uppskrift – þið verðið bara að prófa!

pipp-003

IMG_1088

Uppskrift:

  •  250 gr suðusúkkulaði
  • 150 gr smjör
  •  1 dl sykur
  •  4 egg
  •  2 tsk vanillusykur
  •  1/2 tsk lyftiduft
  •  1/2 dl hveiti (má nota maísenamjöl fyrir glútenfría köku)

IMG_1096

Krem:

  •  25 g smjör
  •  1/2 dl rjómi
  •  200 gr Pipp með bananabragði (selt í 100 gramma plötum)

IMG_1086

Aðferð:

Ofninn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Smelluform (24 cm) smurt að innan. Suðusúkkulaði brotið niður í pott ásamt smjöri, brætt við vægan hita og hrært í á meðan. Potturinn tekinn af hellunni og blandan látin kólna dálítið. Sykri og eggjum bætt út í, hrært vel með písk þar til að blandan er slétt. Hveiti, vanillusykri og lyftidufti blandað saman og sigtað ofan í pottinn. Hrært þar til að blandan er slétt. Deiginu er helt í smurt bökunarform og bakað í ca. 40-50 mínútur neðarlega í ofninum. Fylgist vel með kökunni, hún á að vera blaut í miðjunni.

IMG_1114

Krem:

Hráefnið í kreminu sett saman í pott og brætt við vægan hita, hrært þar til að Pipp súkkulaðið er bráðnað og kremið er slétt og glansandi. Potturinn tekinn af hellunni.

Þegar kakan hefur kólnað og kremið þykknað dálítið er því smurt yfir kökuna. Kakan skreytt með t.d. blæjuberjum og borin fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.

IMG_1106

IMG_1111

IMG_1081

 

 

Súkkulaðikaka með Pipp karamellukremi


Þessi kaka afar sniðug að mörgu leyti. Í fyrsta lagi þarf ekki að nota hrærivél, hún er bara gerð í potti. Þess vegna er hægt að gera hana hvar sem er, t.d. í sumarbústað. Í öðru lagi er hér um bil ekkert hveiti í henni og það er hægt að skipta því út fyrir maísenamjöl ef maður vill hafa hana hveitilausa. Í þriðja lagi þá er hún svakalega góð! 🙂 Kremið er afsakaplega ljúffengt, gert úr Pipp súkkulaði með karamellu, það er líka hægt að nota Pipp með piparmyntukremi ef maður er hrifnari af piparmyntu. Í kökunni er kaffi en mér finnst kaffi afskaplega bragðvont og forðast yfirleitt allt kaffi í kökum, tertum og eftirréttum. Ég hef hins vegar ekkert fundið fyrir kaffibragðinu í þessari köku hingað til. En svo bar við í þetta sinn að mér fannst of mikið kaffibragð af henni. Það var ekki fyrr en núna í þessum skrifuðu orðum að ég uppgötvaði að ég hafði notað tvær matskeiðar af kaffinu í stað tveggja teskeiða, mæli ekki með því! Hins vegar fannst engum öðrum en mér of mikið kaffibragð af kökunni þannig það virtist ekki koma að sök!

Uppskrift:

  •  250 gr suðusúkkulaði
  • 180 gr smjör
  •  2 tsk instant Nescafe, kaffiduft mulið, t.d. í morteli (má sleppa)
  •  2 dl sykur
  •  4 egg
  •  2 tsk vanillusykur
  •  1/2 tsk lyftiduft
  •  1/2 dl hveiti (má nota maísenamjöl fyrir glútenfría köku)

Krem:

  •  25 gr smjör
  •  1/2 dl rjómi
  •  200 gr Pipp með karamellukremi (selt í 100 gr. plötum) eða með piparmyntu

Aðferð:

Ofninn hitaður í 175 gráður. Smelluform (24 cm) smurt að innan. Súkkulaði brotið niður í pott ásamt smjöri, brætt við vægan hita og hrært í á meðan. Potturinn tekinn af hellunni og blandan látin kólna dálítið. Neskaffi mulið mjög smátt (ég gerði það í morteli) og því bætt út í ásamt sykri og eggjum, hrært vel með písk þar til að blandan er slétt. Hveiti, vanillusykri og lyftidufti blandað saman og sigtað ofan í pottinn. Hrært þar til að blandan er slétt. Deiginu er helt í smurt bökunarform og bakað í ca. 45 – 50 mínútur neðarlega í ofninum. Fylgist vel með kökunni, hún má vera blaut í miðjunni.

Krem:

Hráefnið í kreminu sett saman í pott og brætt við vægan hita, hrært þar til að Pipp súkkulaðið er bráðnað og kremið er slétt og glansandi. Potturinn tekinn af hellunni.

Þegar kakan hefur kólnað og kremið þykknað dálítið er því smurt yfir kökuna. Kakan skreytt með t.d. jarðaberjum og borin fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.