Eplabaka með Pipp karamellusúkkulaði


Eplabaka með Pipp karamellusúkkulaðiNú er maí handan við hornið en mér finnst sá mánuður einhvern veginn alltaf laumast aftan að manni. Veturinn hefur varla hvatt þegar maí skyndilega skellur á en það er einn af mínum uppáhaldsmánuðum, hann líður bara yfirleitt alltof hratt. Það er margt spennandi að gerast í maí. Við hjónin förum saman í utanlandsferð og Óskin okkar útskrifast sem stúdent. Ég þarf því fljótlega að fara að huga að annarri veislu en mér finnst það sem betur fer ekkert leiðinlegt verkefni! 🙂

Um síðustu helgi nutum við góða veðursins og ég bjó til gott meðlæti með kaffinu á sunnudeginum. Eins og svo oft áður þegar við Jóhanna mín fáum að ráða þá bjó ég til eplaböku, við mæðgur fáum ekki nóg ef eplaréttum! Það er fátt sem slær út rjúkandi heitri og ljúffengri eplaböku með þeyttum rjóma eða vanilluís. Að þessu sinni ákvað ég að sameina tvennt sem mér finnst gott, það er eplabaka og súkkulaði. Ég átti Pipp súkkulaði með karamellufyllingu og ég gat ekki ímyndað mér annað en að þessi blanda yrði góð, sem hún var! 🙂 Við fengum okkur bökuna með kaffinu og kláruðum hana svo á sunnudagskvöldinu yfir skemmtilegum þáttum sem við fjölskyldan (þ.e við ásamt eldri börnunum) erum farin að fylgjast spennt með. Þetta eru þættirnir Äkta människor, sænskir þættir sem við höfum ákaflega gaman að. Mér sýnist að það sé nýfarið að sýna þessa þætti á RUV, „Alvöru manneskjur„, ég mæli með að þið kíkið á þá! 🙂

IMG_5495

Uppskrift:

  • 4-5 meðalstór græn epli, afhýdd og skorin í fremur þunna báta
  • 2 tsk kanill  chocolate-caramel-pipp-karamellu
  • 1 msk sykur
  • 100 g Pipp súkkulaði með karamellu
  • 2.5 dl Kornax hveiti
  • 1.5 dl haframjöl
  • 1 dl sykur
  • 150 g smjör, kalt

IMG_5484

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Bökuform (ca. 22-24 cm) smurt að innan. Eplunum er velt upp úr kanil og sykri (1 msk) og því næst raðað ofan í bökuformið. Pippsúkkulaðið er saxað smátt og dreift yfir eplin.

IMG_5485 Hveiti, haframjöli, sykri og smjöri er blandað saman í höndunum þar til úr verður massi og honum deift yfir eplin. Bakað í ofni við 200 gráður í um það bil 30 mínútur eða þar til deigið er orðið gullinbrúnt. Borið fram heitt með þeyttum rjóma eða vanilluís.

IMG_5506

 

Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu


Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu

Í dag fengum við góða sænska gesti til okkar í mat. Ég veit ekki hvernig það er með ykkur en ég tek oft rispur þar sem ég býð upp á sama matréttinn í matarboðum í allmörg skipti – þar til að ég fæ nóg og sný mér að öðrum rétti! 🙂 Nú í sumar hafa þessir uppáhaldssréttir verið tveir fiskréttir héðan frá Eldhússögum. Annarsvegar er það ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu og hinsvegar sojamarineraður lax með mangó-avókadó salsa og smörsteiktu spínati. Þegar við fáum til okkar Svía í mat þá bjóðum við hér um bil alltaf upp á fisk. Almennt eru Svíar hrifnir af fiski en í Stokkhólmi er lítið um góðan fisk og Stokkhólmsbúar kunna því vel að meta góða fiskinn okkar. Að þessu sinni bauð ég upp á þorskinn en grillaði hann í stað þess að baka í ofninum.

IMG_6582

Ég bauð upp á eftirrétt sem ég gerði oft fyrir nokkrum árum en var búin að steingleyma þar til hann rifjaðist upp fyrir mér nýlega. Ég var að fletta uppskriftabók um daginn og sá þá mynd af svipuðum eftirrétti. Í framhaldinu rótaði ég í uppskriftablöðunum mínum og fann þá uppskriftina sem ég notaði alltaf – mikið var ég glöð því rétturinn er einn af mínum uppáhalds! Ég prófaði nýjung í dag. Ég útbjó smjördeigsböggul fyrir hvern og einn gest. Í upphaflegu uppskriftinni er smjördeiginu pússlað saman með því að leggja brúnirnar örlítið yfir hvor aðra og deigið flatt dálítið út, eldfast mót klætt að innan með smjördeiginu og fyllingunni hellt út í. En mér fannst mikið betra að útbúa svona böggla eins og ég gerði í dag, ég mæli með því. Ég notaði smjördeig sem ég keypti í Nettó (hafið þið kannski séð þessa tegund í annarri verslun?). Mér finnst þetta smjördeig eiginlega betra en Findus smjördeigið og það er talsvert ódýrara. Í pakkanum eru sex plötur (fimm hjá Findus) og þær eru bæði þynnri og stærri, það er mjög hentugt í þessari uppskrift. Ef þið notið plötur frá Findus í þessa uppskrift þá mæli ég með því að fletja þær örlítið út (muna að nota hveiti, annars klessast þær).

Uppskrift: TC bröd smjördeig

  • 1 pakki frosið smjördeig (ég notaði frá TC brød sem fæst í Nettó, það eru 6 plötur eða 450 g)
  • ca 700 g græn epli (ég notaði 4 stór epli)
  • 70 g smjör
  • 70 g hrásykur (má líka nota venjulegan sykur)
  • 70 g rjómakaramellur (ég notaði Werther’s Original)
  • 100 g pekan- eða valhnetur, saxaðar gróft
  • 1 lítið egg, slegið (má sleppa)

Smjördeigsplötunar látnar þiðna (þær þiðna á mjög skömmum tíma) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Ofninn hitaður i 210 gráður við undir- og yfirhita. Eplin eru afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í bita. Smjör, hrásykur og karamellur eru settar í pott og brætt við meðalhita, hrært í á meðan.

IMG_6579

Þegar karamellurnar eru bráðnaðar og sósan er orðin slétt er eplum og hnetum bætt út í. Á þessum tímapunkti hleypur sósan oft í kekki þar sem að eplin kæla sósuna. Látið ekki hugfallast heldur skerpið aðeins á hitanum og látið sósuna hitna aftur. Hrærið í blöndunni og smátt og smátt verður karamellusósan aftur mjúk. Þegar eplin og hneturnar eru öll þakin sósu er góður skammtur settur í miðjuna á hverri smjördeigsplötu.

IMG_6580

Ég reyndi að hafa ekki mikinn vökva með, til þess að deigið héldist stökkt, en gott er að geyma vökvann sem verður afgangs til að nota í lokin. Því næst eru hornin á hverri plötu tekin upp og lögð að miðjunni. Það er allt í lagi þó þau leggist ekki alveg að fyllingunni, það er bara fallegra að hafa bögglana aðeins opna. Smjördegið er þá smurt með eggi. Bakað í ofni við 210 gráður í um það 20-25 mínútur eða þar til smjördeigið er orðið fallega brúnt. Borið fram heitt með vanilluís eða rjóma. Karamelluvökvann, sem varð afgangs, er frábærlega gott að hita upp aftur og hella yfir eplin í hverjum böggli. Njótið!

IMG_6585

Krydduð eplabaka


Mér finnst eiginlega allt gott sem er með eplum eða eplabragði. Samt er ég ekkert sérstaklega hrifin af eintómum eplum, mér finnst ég nefnilega alltaf fá svengdartilfinningu eftir að hafa borðað epli! En ég slepp alveg við svoleiðis vandamál eftir að hafa borðað þessa eplaböku! 😉 Það sem er sérlega ljúffengt við hana er að hún er með bragðgóðum kryddum eins og kanel og engifer. Svo eru í henni heslihnetur sem gera bökuna enn betri. Ég tók þessa með mér í saumaklúbb og stelpunum fannst hún voða góð. Annars eru þær nú svo sætar í sér að þær myndu auðvitað aldrei segja neitt annað! Jóhanna Inga deilir ást minni á eplabakelsi og lá á bæn að ég myndi koma heim með afgang. Það var það fyrsta sem hún spurði um þegar hún vaknaði daginn eftir og var ekkert lítið glöð að heyra að ég hefði geymt smá skammt fyrir hana. Þetta er afar fljótleg baka og auðvelt að búa hana til á meðan kvöldmaturinn er eldaður og bera hana fram heita og ljúffenga með ís eða þeyttum rjóma í eftirrétt!

Uppskrift

  • 4 epli
  • 1/2 dl sykur
  • 1 tsk kanill
  • 1 tsk engifer
  • 1/2 tsk múskat

Deig:

  • 150 gr kalt smjör
  • 1 dl heslihnetur, grófsaxaðar
  • 3 dl hveiti
  • 1/2 dl sykur
  • Þeyttur rjómi eða ís

Aðferð:

Ofninn stilltur á 225 gráður. Smjörið skorið niður í litla bita og blandað við hveiti, sykur og heslihnetur. Best að nota hendurnar til að mylja þetta saman, þannig úr verður eins konar mulningur. Epli afhýdd og rifinn gróft. Sykri og kryddum blandað við rifnu eplin. Eplablandan sett í eldfast smurt mót (ég notaði bökuform sem er ca. 23 cm) og deiginu dreift yfir. Bakað við 225 gráður í ca. 20 mínútur. Borið fram heitt með þeyttum rjóma eða ís.