Ostakaka með mangó og ástaraldin


Ég setti inn um daginn uppskrift af bakaðri ostaköku. Þá talaði ég um að mér þætti þær eiginlega betri en óbakaðar ostakökur en ég veit ekki lengur, ég get bara ekki gert upp á milli þeirra! Ég prófaði nefnilega óbakaða ostaköku með mangó og ástaraldin og hún var afar ljúffeng! Ég sló saman tveimur uppskriftum af ostakökum. Annars vegar úr sænsku kökubókinni Lomelinos Tårtor, sú ostakaka er borin fram frosin og þess vegna ekki með matarlími. Mér finnst hins vegar frekar snúið að bera fram frosnar tertur í veislum, oft eru þær of frosnar og harðar í byrjun veislunnar en orðnar of linar í lokin. Mér fannst hins vegar mjög spennandi í þessari uppskrift hvernig mangói var blandað við sjálfa ostakökuna (já, ég elska mangó!). Hins vegar notaði ég uppskrift af óbakaðri ostaköku (með matarlími) sem borin er fram með ástaraldin (sem mér finnst næstum því jafn gott og mangó!). Þó ég segi sjálf frá þá var ég nú bara býsna ánægð með útkomuna af þessum samankurli úr tveimur uppskriftum!

Stundum, þegar þeyttur rjómi er í uppskrift, finnst fólki óljóst hvaða mælieiningu er um að ræða. Ef í uppskriftinni er einn desilíter rjómi, þeyttur, er það þá óþeyttur desilíter eða þeyttur? Það magn sem gefið er upp í uppskriftum er alltaf óþeyttur rjómi (nema annað sé tekið fram). Í þessari uppskrift er einn peli rjómi og þá er sem sagt verið að tala um einn pela af óþeyttum rjóma sem verður svo auðvitað meira magn að umfangi þegar búið er að þeyta hann.

Uppskrift:

Botn:

 • 250 gr Digestive kex
 • 100 gr smjör
 • 1 msk sykur

Fylling

 • 300 gr Philadelphia rjómaostur
 • 250 gr. ricotta ostur (má nota rjómaost)
 • 1 peli rjómi
 • 50 gr sykur
 • 3 msk appelsínusafi (eða annar safi)
 • 4 stk matarlím
 • 250 gr mangó (ferskt eða frosið)
 • 6 stk ástaraldin (passion fruit)

Aðferð:

 1. Ofn stilltur á 175 gráður. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið og sykur. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna.
 2. Þeytið rjóma og geymið í ísskáp.
 3. Vinnið Philadelphia ost, ricotta ost og sykur þar til osturinn er orðinn mjúkur.
 4. Leggið matarlímsblöðin eitt í einu í skál með vel köldu vatni og látið liggja í 5-10 mínútur. Þegar tíminn er liðinn eru blöðin orðin mjúk og þykk. Takið þau úr vökvanum og kreistið vatnið úr þeim. Hitið ávaxtasafann í potti eða örbylgjuofni, setjið matarlímið út  í heitan vökvann. Hrærið þar til matarlímið hefur bráðnað saman við og hellið matarlímsblöndunni út í ostablönduna. Því næst er þeytta rjómanum bætt út í.
 5. Ef notað er frosið mangó þá er það afþýtt. Mangó er maukað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Blandið mangómaukinu saman við ostablönduna, en bara lauslega þannig að það myndist marmaraáferð í ostablöndunni.
 6. Hellið ostablöndunni yfir kexbotninn og kælið vel í 4-6 tíma, en best er kakan daginn eftir.
 7. Ástaraldin skorin í tvennt, aldinið skafið innan úr þeim og því dreift yfir kökuna áður en hún er borin fram.

6 hugrenningar um “Ostakaka með mangó og ástaraldin

 1. Hæ gamla skolasystir! Eg var ad enda vid ad gera mangoostakökuna 😉 hvad geri eg vid passion frugtid? Bkv.

  • Hæ Gulla, gaman ad „heyra“ í þér! 🙂 Ástaraldinið fer ofan á kökuna, þú skerð þá í tvennt, skefur innan úr þeim og dreifir yfir kökuna!

   • Audvitad 😉 frábær og flott sídan tín. Eg nota hana heilmikid 😉 takk!

 2. Bakvísun: Eftirréttir fyrir gamlárskvöld | Eldhússögur

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.