Brownie-terta með ástaraldinfrauði

Brownie-terta með ástaraldinfrauði

Þegar bróðir minn kvæntist fyrir 10 árum buðu nýgiftu hjónin upp á dásamlega góða brúðartertu (frá Sandholt bakaríi að mig minnir) í brúðkaupsveislunni sinni. Mér hefur oft verið hugsað til þessarar köku síðan þá. Já, ég veit, það er smá klikkun en svona er ég með mat og kökur stöðugt á heilanum! 🙂 Ég var veislustjóri í veislunni þeirra og hafði lítinn tíma til að spá í tertuna en í henni var einhverskonar ástaraldinfrauð, súkkulaðibotn og fleira. Mér finnst ástaraldin ákaflega góð og nýti þau gjarnan í tertur og ýmisskonar eftirrétti. Ég man ekki eftir að hafa séð þau í Krónunni né í Bónus en yfirleitt eru þau til í Hagkaup og Nettó meðal annars. Þegar velja á ástaraldin þá á að velja þau aldin sem eru orðin dálítið krumpuð og dökkfjólublá. Ef ástaraldinið er slétt og ljóst þá er það ekki nægilega þroskað enn. 

ÁstaraldinÞegar ég sá uppskriftina af þessari tertu þá minnti hún mig á brúðartertuna forðum og ég bara varð að prófa. Botninn er browniekaka, því næst kemur frauð sem minnir mikið á ostaköku. Efsta lagið er ljúffengt hlaup gert úr ástaraldini. Þessi samsetning er gómsæt og ekki skemmir fyrir hvað tertan er litrík og falleg. Næst ætla ég að prófa að setja líka ferskt ástaraldin í sjálft frauðið, ég held að það sé afar gott.

IMG_1669

Brownie botn:

 • 110 g smjör
 • 2 1/4 dl sykur
 • 1 msk síróp
 • 2 egg
 • 1 1/2 dl hveiti
 • 0,5 tsk salt
 • 1 1/2 tsk vanillusykur
 • 1 dl kakó

Frauð:

 • 6 matarlímsblöð
 • 1 1/4 dl sykur
 • 2 tsk vanillusykur
 • 2 eggjarauður
 • 250 g mascarpone ostur
 • 4 dl rjómi
 • 1/2 dl hreinn suðrænn safi (Brazzi)
 • 1 stórt eða 2 lítil ástaraldin

Ástaraldinhlaup:

 • 3 stór eða 4 lítil ástaraldin
 • 2 dl hreinn suðrænn safi (Brazzi)
 • 3 matarlím

IMG_1679

Botn:

Ofn hitaður í 175 gráður. Smjör, sykur og síróp er þeytt þar til það verður létt og ljóst. Eggjum bætt við einu í einu. Þá er hveiti, salti, vanillusykri og kakó bætt út og blandað vel saman við deigið. Smelluform (ca. 24 cm) er smurt að innan og deiginu helt í formið. Bakað í 20 mínútur og kakan látin kólna.

Frauð:

Sex matarlímsblöð eru lögð í kalt vatn í fimm mínútur. Á meðan er rjóminn þeyttur og geymdur í ísskáp. Því næst er eggjarauðum, sykri og vanillusykri þeytt saman og svo er mascarpone ostinum bætt út og öllu vel blandað saman. Ávaxtasafinn er hitaður á vægum hita í potti. Matarlímsblöðin eru tekin upp úr vatninu, mesti vökvinn kreystur úr þeim og þeim bætt út í pottinn, einu og einu í senn. Þegar matarlímsblöðin eru uppleyst er vökvanum bætt út í eggjablönduna. Að lokum er aldininu innan úr ástaraldininu ásamt rjómanum bætt út í og öllu hrært saman. Blöndunni er því næst dreift yfir kaldan brownie botninn. Mikilvægt er að ná yfirborðinu jöfnu með spaða. Kakan er sett í kæli þar til frauðið hefur stífnað.

Ástaraldinhlaup:

Þrjú matarlímsblöð eru lögð í kalt vatn í fimm mínútur. 1/2 dl af safanum er settur í pott og hitaður við vægan hita. Matarlímsblöðin eru tekin upp úr vatninu, mesti vökvinn kreystur úr þeim og þeim bætt út í pottinn, einu og einu í senn. Þegar matarlímsblöðin eru uppleyst er afgangnum af safanum hellt út í pottinn. Ástaraldin ávextirnir eru skornir í tvennt, aldinið skafið innan úr með skeið og sett í skál. Vökvanum úr pottinum er því næst hellt í skálina og hrært saman. Hlaupið er látið kólna (tekur ca. 20-30 mínútur) áður en því er hellt yfir stífnað frauðið. Tertan er geymd í kæli í minnst fjóra tíma áður en hún er borin fram.

IMG_1671Njótið! 🙂

IMG_1684

Ostakaka með mangó og ástaraldin

Ég setti inn um daginn uppskrift af bakaðri ostaköku. Þá talaði ég um að mér þætti þær eiginlega betri en óbakaðar ostakökur en ég veit ekki lengur, ég get bara ekki gert upp á milli þeirra! Ég prófaði nefnilega óbakaða ostaköku með mangó og ástaraldin og hún var afar ljúffeng! Ég sló saman tveimur uppskriftum af ostakökum. Annars vegar úr sænsku kökubókinni Lomelinos Tårtor, sú ostakaka er borin fram frosin og þess vegna ekki með matarlími. Mér finnst hins vegar frekar snúið að bera fram frosnar tertur í veislum, oft eru þær of frosnar og harðar í byrjun veislunnar en orðnar of linar í lokin. Mér fannst hins vegar mjög spennandi í þessari uppskrift hvernig mangói var blandað við sjálfa ostakökuna (já, ég elska mangó!). Hins vegar notaði ég uppskrift af óbakaðri ostaköku (með matarlími) sem borin er fram með ástaraldin (sem mér finnst næstum því jafn gott og mangó!). Þó ég segi sjálf frá þá var ég nú bara býsna ánægð með útkomuna af þessum samankurli úr tveimur uppskriftum!

Stundum, þegar þeyttur rjómi er í uppskrift, finnst fólki óljóst hvaða mælieiningu er um að ræða. Ef í uppskriftinni er einn desilíter rjómi, þeyttur, er það þá óþeyttur desilíter eða þeyttur? Það magn sem gefið er upp í uppskriftum er alltaf óþeyttur rjómi (nema annað sé tekið fram). Í þessari uppskrift er einn peli rjómi og þá er sem sagt verið að tala um einn pela af óþeyttum rjóma sem verður svo auðvitað meira magn að umfangi þegar búið er að þeyta hann.

Uppskrift:

Botn:

 • 250 gr Digestive kex
 • 100 gr smjör
 • 1 msk sykur

Fylling

 • 300 gr Philadelphia rjómaostur
 • 250 gr. ricotta ostur (má nota rjómaost)
 • 1 peli rjómi
 • 50 gr sykur
 • 3 msk appelsínusafi (eða annar safi)
 • 4 stk matarlím
 • 250 gr mangó (ferskt eða frosið)
 • 6 stk ástaraldin (passion fruit)

Aðferð:

 1. Ofn stilltur á 175 gráður. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið og sykur. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna.
 2. Þeytið rjóma og geymið í ísskáp.
 3. Vinnið Philadelphia ost, ricotta ost og sykur þar til osturinn er orðinn mjúkur.
 4. Leggið matarlímsblöðin eitt í einu í skál með vel köldu vatni og látið liggja í 5-10 mínútur. Þegar tíminn er liðinn eru blöðin orðin mjúk og þykk. Takið þau úr vökvanum og kreistið vatnið úr þeim. Hitið ávaxtasafann í potti eða örbylgjuofni, setjið matarlímið út  í heitan vökvann. Hrærið þar til matarlímið hefur bráðnað saman við og hellið matarlímsblöndunni út í ostablönduna. Því næst er þeytta rjómanum bætt út í.
 5. Ef notað er frosið mangó þá er það afþýtt. Mangó er maukað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Blandið mangómaukinu saman við ostablönduna, en bara lauslega þannig að það myndist marmaraáferð í ostablöndunni.
 6. Hellið ostablöndunni yfir kexbotninn og kælið vel í 4-6 tíma, en best er kakan daginn eftir.
 7. Ástaraldin skorin í tvennt, aldinið skafið innan úr þeim og því dreift yfir kökuna áður en hún er borin fram.