Brownie-terta með ástaraldinfrauði


Brownie-terta með ástaraldinfrauði

Þegar bróðir minn kvæntist fyrir 10 árum buðu nýgiftu hjónin upp á dásamlega góða brúðartertu (frá Sandholt bakaríi að mig minnir) í brúðkaupsveislunni sinni. Mér hefur oft verið hugsað til þessarar köku síðan þá. Já, ég veit, það er smá klikkun en svona er ég með mat og kökur stöðugt á heilanum! 🙂 Ég var veislustjóri í veislunni þeirra og hafði lítinn tíma til að spá í tertuna en í henni var einhverskonar ástaraldinfrauð, súkkulaðibotn og fleira. Mér finnst ástaraldin ákaflega góð og nýti þau gjarnan í tertur og ýmisskonar eftirrétti. Ég man ekki eftir að hafa séð þau í Krónunni né í Bónus en yfirleitt eru þau til í Hagkaup og Nettó meðal annars. Þegar velja á ástaraldin þá á að velja þau aldin sem eru orðin dálítið krumpuð og dökkfjólublá. Ef ástaraldinið er slétt og ljóst þá er það ekki nægilega þroskað enn. 

ÁstaraldinÞegar ég sá uppskriftina af þessari tertu þá minnti hún mig á brúðartertuna forðum og ég bara varð að prófa. Botninn er browniekaka, því næst kemur frauð sem minnir mikið á ostaköku. Efsta lagið er ljúffengt hlaup gert úr ástaraldini. Þessi samsetning er gómsæt og ekki skemmir fyrir hvað tertan er litrík og falleg. Næst ætla ég að prófa að setja líka ferskt ástaraldin í sjálft frauðið, ég held að það sé afar gott.

IMG_1669

Brownie botn:

  • 110 g smjör
  • 2 1/4 dl sykur
  • 1 msk síróp
  • 2 egg
  • 1 1/2 dl hveiti
  • 0,5 tsk salt
  • 1 1/2 tsk vanillusykur
  • 1 dl kakó

Frauð:

  • 6 matarlímsblöð
  • 1 1/4 dl sykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 eggjarauður
  • 250 g mascarpone ostur
  • 4 dl rjómi
  • 1/2 dl hreinn suðrænn safi (Brazzi)
  • 1 stórt eða 2 lítil ástaraldin

Ástaraldinhlaup:

  • 3 stór eða 4 lítil ástaraldin
  • 2 dl hreinn suðrænn safi (Brazzi)
  • 3 matarlím

IMG_1679

Botn:

Ofn hitaður í 175 gráður. Smjör, sykur og síróp er þeytt þar til það verður létt og ljóst. Eggjum bætt við einu í einu. Þá er hveiti, salti, vanillusykri og kakó bætt út og blandað vel saman við deigið. Smelluform (ca. 24 cm) er smurt að innan og deiginu helt í formið. Bakað í 20 mínútur og kakan látin kólna.

Frauð:

Sex matarlímsblöð eru lögð í kalt vatn í fimm mínútur. Á meðan er rjóminn þeyttur og geymdur í ísskáp. Því næst er eggjarauðum, sykri og vanillusykri þeytt saman og svo er mascarpone ostinum bætt út og öllu vel blandað saman. Ávaxtasafinn er hitaður á vægum hita í potti. Matarlímsblöðin eru tekin upp úr vatninu, mesti vökvinn kreystur úr þeim og þeim bætt út í pottinn, einu og einu í senn. Þegar matarlímsblöðin eru uppleyst er vökvanum bætt út í eggjablönduna. Að lokum er aldininu innan úr ástaraldininu ásamt rjómanum bætt út í og öllu hrært saman. Blöndunni er því næst dreift yfir kaldan brownie botninn. Mikilvægt er að ná yfirborðinu jöfnu með spaða. Kakan er sett í kæli þar til frauðið hefur stífnað.

Ástaraldinhlaup:

Þrjú matarlímsblöð eru lögð í kalt vatn í fimm mínútur. 1/2 dl af safanum er settur í pott og hitaður við vægan hita. Matarlímsblöðin eru tekin upp úr vatninu, mesti vökvinn kreystur úr þeim og þeim bætt út í pottinn, einu og einu í senn. Þegar matarlímsblöðin eru uppleyst er afgangnum af safanum hellt út í pottinn. Ástaraldin ávextirnir eru skornir í tvennt, aldinið skafið innan úr með skeið og sett í skál. Vökvanum úr pottinum er því næst hellt í skálina og hrært saman. Hlaupið er látið kólna (tekur ca. 20-30 mínútur) áður en því er hellt yfir stífnað frauðið. Tertan er geymd í kæli í minnst fjóra tíma áður en hún er borin fram.

IMG_1671Njótið! 🙂

IMG_1684

Dásamleg kirsuberjaterta


Þessa mynd tók ég fyrir um það bil ári síðan þegar ég gerði þessa dásamlegu kirsuberjatertu í fyrsta sinn og tók hana með til góðra vina í Grjótaþorpinu. Ég hafði séð upppskriftina á ýmsum sænskum matarbloggum og gat ekki annað en prófað. Síðan þá hef ég gert þessa tertu nokkrum sinnum, breytt og aðlagað uppskriftina og núna er þetta ein af mínum uppáhaldstertum.  Það er mikilvægt að gera tertuna deginum áður og leyfa henni að brjóta sig í kæli yfir nóttu áður en hún er borin fram. Botnarnir verða þá blautir, eiginlega eins og súkkulaðifrauð eða búðingur sem er einstaklega ljúffengt í bland við gómsæta kirsuberjakremið! Í uppskriftinni er mascarpone ostur en ég hef líka notað rjómaost og mér finnst það alveg jafn gott. Kirsuber fást yfirleitt aldrei á veturnar og þá er hægt að skreyta tertuna með öðrum berjum. En núna eru kirsuber til í mörgum verslunum þannig að það er ákkurat rétti tíminn til að prófa þessa dásemd! Það tekur dálítin tíma að gera tertuna þar sem að það þarf að baka þrjá botna og búa til tvenns konar krem. En ég get lofað að það er þess virði! 🙂

IMG_8361

Hér bakaði ég tertuna við annað tækifæri og skeytti hana með jarðaberjum í stað kirsuberja

Uppskrift

Kökubotnar

  • 2 egg
  • 2 dl sterkt kaffi
  • 2½ dl súrmjólk
  • 1,25 dl matarolía
  • 200 g hveiti
  • 420 g sykur
  • 85 g kakó
  • 1 tsk lyftiduft
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk vanillusykur

IMG_7174Ofninn hitaður í 160 gráður á blæstri. Þrjú bökunarform, 20 cm í þvermál, smurð að innan. Gott er að klæða formin að innan með bökunarpappír til að auðveldara sé að losa botnana.

Eggjum, kaffi, matarolíu og súrmjólk er hrært saman í stutta stund, því næst er þurrefnunum bætt út í og hrært þar til deigið er jafnt og kekkjalaust.

Deiginu er svo skipt í formin þrjú og bakað í ca. 35 mínútur. Athugið að botnarnir munu líta út fyrir að vera blautir. Botnarnir eru látnir kólna. Það er hægt að setja botnana í frysti í ca. 30 mínútur áður en kremið er sett á til þess að auðvelda fyrir ásetningu kremsins.

Kirsuberjakrem

  • 500 g mascarpone ostur
  • 3 dl rjómi
  • 2½ dl kirsuberjasósa (t.d. frá Den gamle fabrik)
  • 120 g sykur
  • ½ tsk vanilusykur

Rjóminn er þeyttur og geymdur í ísskáp. Því næst er mascarpone ostur, sykur og vanillusykur þeytt saman þar til blandan er kekkjalaus. Þá er þeytta rjómanum bætt varlega út í mascarpone blönduna með sleikju ásamt kirsuberjasósunni.

Einn kökubotn er settur á kökudisk og hann smurður kirsuberjakremi, þetta er er endurtekið með hina tvo kökubotnana. Kirsuberjakreminu er svo smurt ofan á kökuna og á hliðarnar. Tertan kæld í ísskáp á meðan súkkulaðikremið er búið til.

Súkkulaðikrem

  • 175 g suðusúkkulaði
  • ½ dl rjómi
  • 1 msk smjör
  • 1msk síróp

Súkkulaði, rjómi, smjör og síróp er hitað saman í potti við vægan hita. Gott er að hræra blöndunni öðru hvoru þar til hún er orðin slétt og samfelld. Þá er súkkulaðiblöndunni leyft að kólna þar til hún hefur þykknað passlega mikið. Að lokum er súkkulaðikreminu hellt yfir tertuna og það látið leka dálítið niður með köntunum. Þá er kirsuberjunum dreift yfir tertuna með stilknum á, ef kirsuber eru ekki fáanlega er hægt að nota jarðaber. Þetta er terta sem bragðast best daginn eftir!