Þegar bróðir minn kvæntist fyrir 10 árum buðu nýgiftu hjónin upp á dásamlega góða brúðartertu (frá Sandholt bakaríi að mig minnir) í brúðkaupsveislunni sinni. Mér hefur oft verið hugsað til þessarar köku síðan þá. Já, ég veit, það er smá klikkun en svona er ég með mat og kökur stöðugt á heilanum! 🙂 Ég var veislustjóri í veislunni þeirra og hafði lítinn tíma til að spá í tertuna en í henni var einhverskonar ástaraldinfrauð, súkkulaðibotn og fleira. Mér finnst ástaraldin ákaflega góð og nýti þau gjarnan í tertur og ýmisskonar eftirrétti. Ég man ekki eftir að hafa séð þau í Krónunni né í Bónus en yfirleitt eru þau til í Hagkaup og Nettó meðal annars. Þegar velja á ástaraldin þá á að velja þau aldin sem eru orðin dálítið krumpuð og dökkfjólublá. Ef ástaraldinið er slétt og ljóst þá er það ekki nægilega þroskað enn.
Þegar ég sá uppskriftina af þessari tertu þá minnti hún mig á brúðartertuna forðum og ég bara varð að prófa. Botninn er browniekaka, því næst kemur frauð sem minnir mikið á ostaköku. Efsta lagið er ljúffengt hlaup gert úr ástaraldini. Þessi samsetning er gómsæt og ekki skemmir fyrir hvað tertan er litrík og falleg. Næst ætla ég að prófa að setja líka ferskt ástaraldin í sjálft frauðið, ég held að það sé afar gott.
Brownie botn:
- 110 g smjör
- 2 1/4 dl sykur
- 1 msk síróp
- 2 egg
- 1 1/2 dl hveiti
- 0,5 tsk salt
- 1 1/2 tsk vanillusykur
- 1 dl kakó
Frauð:
- 6 matarlímsblöð
- 1 1/4 dl sykur
- 2 tsk vanillusykur
- 2 eggjarauður
- 250 g mascarpone ostur
- 4 dl rjómi
- 1/2 dl hreinn suðrænn safi (Brazzi)
- 1 stórt eða 2 lítil ástaraldin
Ástaraldinhlaup:
- 3 stór eða 4 lítil ástaraldin
- 2 dl hreinn suðrænn safi (Brazzi)
- 3 matarlím
Botn:
Ofn hitaður í 175 gráður. Smjör, sykur og síróp er þeytt þar til það verður létt og ljóst. Eggjum bætt við einu í einu. Þá er hveiti, salti, vanillusykri og kakó bætt út og blandað vel saman við deigið. Smelluform (ca. 24 cm) er smurt að innan og deiginu helt í formið. Bakað í 20 mínútur og kakan látin kólna.
Frauð:
Sex matarlímsblöð eru lögð í kalt vatn í fimm mínútur. Á meðan er rjóminn þeyttur og geymdur í ísskáp. Því næst er eggjarauðum, sykri og vanillusykri þeytt saman og svo er mascarpone ostinum bætt út og öllu vel blandað saman. Ávaxtasafinn er hitaður á vægum hita í potti. Matarlímsblöðin eru tekin upp úr vatninu, mesti vökvinn kreystur úr þeim og þeim bætt út í pottinn, einu og einu í senn. Þegar matarlímsblöðin eru uppleyst er vökvanum bætt út í eggjablönduna. Að lokum er aldininu innan úr ástaraldininu ásamt rjómanum bætt út í og öllu hrært saman. Blöndunni er því næst dreift yfir kaldan brownie botninn. Mikilvægt er að ná yfirborðinu jöfnu með spaða. Kakan er sett í kæli þar til frauðið hefur stífnað.
Ástaraldinhlaup:
Þrjú matarlímsblöð eru lögð í kalt vatn í fimm mínútur. 1/2 dl af safanum er settur í pott og hitaður við vægan hita. Matarlímsblöðin eru tekin upp úr vatninu, mesti vökvinn kreystur úr þeim og þeim bætt út í pottinn, einu og einu í senn. Þegar matarlímsblöðin eru uppleyst er afgangnum af safanum hellt út í pottinn. Ástaraldin ávextirnir eru skornir í tvennt, aldinið skafið innan úr með skeið og sett í skál. Vökvanum úr pottinum er því næst hellt í skálina og hrært saman. Hlaupið er látið kólna (tekur ca. 20-30 mínútur) áður en því er hellt yfir stífnað frauðið. Tertan er geymd í kæli í minnst fjóra tíma áður en hún er borin fram.