Ofnbakað nachos með cheddarosti


Ofnbakað nachos

Nú er að baki stutt vinnuvika sem bauð upp á einstaka veðurblíðu. Besta vinkona Óskar frá Svþjóð er búin að vera hjá okkur í heimsókn síðastliðna viku. Þær vinkonurnar hafa notið þess að fara í Bláa lónið, skoðað Gullfoss og Geysi og gengið um borgina í sól og veðurblíðu.

Ég hef verið spennt að nota allt góða kjötið mitt frá Mýranauti. Það er svo gaman að nota svona gott hráefni og geta verið þess fullviss að maður sé að bjóða upp á eins vandaðan mat og völ er á. Ég líka farin að kaupa egg beint af býli. Þessi egg eru ofsalega góð og allt önnur en þau sem fást út í búð. Bæði eru þau einstaklega bragðgóð en líka extra stór, eitt slíkt egg samsvarar einu og hálfu hefðbundu eggi. Í uppskriftinni sem ég gef upp í dag gat ég notað góða nautahakkið frá Mýranauti. Þetta er alveg upplögð föstudagsuppskrift, það er alltaf svolítið notalegt að gera sér dagamun á föstudagskvöldum, borða eitthvað extra gott og jafnvel hafa matinn þannig að hægt sé að narta í hann yfir skemmtilegri bíómynd. Ég gef ekki upp neinar nákvæmar mælieiningar því magnið af hverju hráefni fer eftir smekk hvers og eins.

IMG_8823

Uppskrift:

  • nautahakk
  • tacos krydd
  • nachos flögur
  • cheddar ostur
  • Iceberg salat
  • gúrka
  • tómatur
  • sýrður rjómi
  • salsasósa

IMG_8827

Ofninn er hitaður í 200 gráður. Hakkið er steikt á pönnu og kryddað með tacos kryddi.  Nachos flögum er dreift í eldfast mót, eða á ofnplötu, þannig að þær fari ekki ofan á hvor aðra. Cheddar-ostsneið er lögð ofan á hverja flögu. Flögurnar eru hitaðar í ofni við 200 gráður í ca. 5 mínútur eða þar til osturinn er farinn að bráðna. Gúrka og tómatur er skorið í litla bita og salatið rifið niður. Um leið og flögurnar koma út úr ofninum er hakkinu dreift yfir þær, þá grænmetinu og í lokin er sýrða rjómanum og salsa sósunni dreift yfir grænmetið. Ekki er verra að dreifa yfir réttinn, eða bera fram með honum, guacamole, uppskriftin af því er hér. Best er að borða réttinn bara með fingrunum (munið bara að vopnbúast með nóg af servíettum! 🙂 )

IMG_8841

Tacobaka


Ég er alltaf á höttunum eftir góðum nautahakksuppskriftum. Nautahakk er fremur ódýrt hráefni, það er fljótlegt í matreiðslu og það er hægt að gera úr því margskonar ólíka matrétti. Í gærkvöldi bjó ég til tacoböku sem var býsna góð. Uppskriftina fann ég á sænskri uppskriftasíðu. Ég reyndar breytti henni töluvert, bætti meðal annars við maís, papriku, kotasælu og lauk ásamt því að gera fleiri breytingar. Í uppskriftinni er jalapeños sem er sterkt en mér finnst það afar gott í þennan rétt. En það þarf að kannski að minnka magnið talsvert ef börn borða réttinn, þeim líkar sjaldan sterkur matur. Það er líka sniðugt að setja ekki jalapeños í hakkið heldur raða því ofan á réttinn ásamt tómötum, þá er hægt að skilja eftir horn fyrir börnin án jalapeños.

Uppskrift f. 4

Deig:

  • 2 ½ dl hveiti
  • 125 gr smjör, kalt
  • 2-3 msk kalt vatn

Smjöri og hveiti blandað saman, gott að gera það í matvinnsluvél eða með tveimur göfflum, þar til það er orðið eins og gróft mjöl. Bætið þá vatninu saman við deigið og hnoðið. Fletjið út deigið milli smjörpappírs og setjið það svo í bökuform (eða eldfast mót). Kælið deigið í ísskáp í 30 mínútur (til þess að það dragist ekki saman við baksturinn). Bakið svo við 225 gráður í 10 mínútur.

Tacofylling:

  • 700 gr nautahakk
  • 1 bréf tacokrydd
  • 200 gr kotasæla
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 2 dl maísbaunir
  • 1 dós sýrður rjómi með hvítlauk
  • 2 niðurskornir tómatar
  • jalapeños eftir smekk
  • rifinn ostur

Steikið lauk og papriku á pönnu. Bætið við hakki og þegar það er gegnumsteikt er tacokryddi bætt við ásamt maísbaunum, kotasælu og jalapeños. Látið malla á lágum hita, hrærið í blöndunni öðru hverju. Hellið nautahakkinu í bökuformið. Breiðið ofan á hakkið sýrða rjómanum, leggið tómatsneiðar yfir sýrða rjómann (og jalapeños ef maður kýs þar frekar að dreifa því yfir réttinn fremur en að setja það í hakkið). Að lokum er rifnum osti dreift yfir réttinn. Bakið í ofni við 225 gráður í 10-15 mínútur eða þar til osturinn hefur fengið fallegan lit.

Berið fram með guacamole, sýrðum rjóma, tómatsalsa og salati.