Nú er að baki stutt vinnuvika sem bauð upp á einstaka veðurblíðu. Besta vinkona Óskar frá Svþjóð er búin að vera hjá okkur í heimsókn síðastliðna viku. Þær vinkonurnar hafa notið þess að fara í Bláa lónið, skoðað Gullfoss og Geysi og gengið um borgina í sól og veðurblíðu.
Ég hef verið spennt að nota allt góða kjötið mitt frá Mýranauti. Það er svo gaman að nota svona gott hráefni og geta verið þess fullviss að maður sé að bjóða upp á eins vandaðan mat og völ er á. Ég líka farin að kaupa egg beint af býli. Þessi egg eru ofsalega góð og allt önnur en þau sem fást út í búð. Bæði eru þau einstaklega bragðgóð en líka extra stór, eitt slíkt egg samsvarar einu og hálfu hefðbundu eggi. Í uppskriftinni sem ég gef upp í dag gat ég notað góða nautahakkið frá Mýranauti. Þetta er alveg upplögð föstudagsuppskrift, það er alltaf svolítið notalegt að gera sér dagamun á föstudagskvöldum, borða eitthvað extra gott og jafnvel hafa matinn þannig að hægt sé að narta í hann yfir skemmtilegri bíómynd. Ég gef ekki upp neinar nákvæmar mælieiningar því magnið af hverju hráefni fer eftir smekk hvers og eins.
Uppskrift:
- nautahakk
- tacos krydd
- nachos flögur
- cheddar ostur
- Iceberg salat
- gúrka
- tómatur
- sýrður rjómi
- salsasósa
Ofninn er hitaður í 200 gráður. Hakkið er steikt á pönnu og kryddað með tacos kryddi. Nachos flögum er dreift í eldfast mót, eða á ofnplötu, þannig að þær fari ekki ofan á hvor aðra. Cheddar-ostsneið er lögð ofan á hverja flögu. Flögurnar eru hitaðar í ofni við 200 gráður í ca. 5 mínútur eða þar til osturinn er farinn að bráðna. Gúrka og tómatur er skorið í litla bita og salatið rifið niður. Um leið og flögurnar koma út úr ofninum er hakkinu dreift yfir þær, þá grænmetinu og í lokin er sýrða rjómanum og salsa sósunni dreift yfir grænmetið. Ekki er verra að dreifa yfir réttinn, eða bera fram með honum, guacamole, uppskriftin af því er hér. Best er að borða réttinn bara með fingrunum (munið bara að vopnbúast með nóg af servíettum! 🙂 )