Mexíkóskur kjúklingaréttur


Mexíkóskur kjúklingaréttur

Fyrir stuttu skrifaði ég langa bloggfærslu um fermingarveisluna sem við vorum með um páskana. Anna vinkona minnti mig á fleiri punkta sem ég hafði gleymt að skrifa um þannig að áður löng bloggfærsla er nú orðin enn lengri … hér er slóðin ef einhvern langar að lesa.

Um daginn eldaði ég þennan mexíkóska kjúklingarétt og mallaði eitthvað úr þeim hráefnum sem ég átti í ísskápnum. Ég hef ekki enn lært af reynslunni og tel mig alltaf muna hvað ég set í réttina án þess að skrifa það niður sem er auðvitað algjör vitleysa. Ég er varla staðinn upp frá matarborðinu þegar ég hef þegar steingleymt því öllu. Sem betur fer tók ég margar myndir af ferlinu að þessu sinni og gat því rifjað upp uppskriftina. Sem var eins gott! Þessi réttur sló nefnilega í gegn hér heima og við borðuðum öll óhóflega mikið af þessum rétti. Galdrahráefnið var ostur held ég, mikill ostur gerir þennan rétt ómótstæðilegan! 🙂 Þessi réttur verður sannarlega eldaður fljótt aftur hér á heimilinu.

Uppskrift:

  • 900 g kjúklingabringur frá Rose Poultry, skornar í bita
  • 1 stór rauðlaukur, saxaður smátt
  • ólífuolía til steikingar
  • 1 bréf burritokrydd
  • salt & pipar
  • hvítlaukskrydd
  • 1 tsk kjúklingakraftur
  • 1 dós niðursoðnir tómatar (gott að hafa þá bragðbætta með t.d. chili)
  • 200 g Philadelphia rjómaostur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • ca. 200 g salsa sósa
  • 6 stórar tortillur
  • 2 pokar rifinn ostur
  • borið fram með guacamole, sýrðum rjóma og salati

IMG_5464

Ofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingur og laukur er steiktur á pönnu þar til kjúklingurinn hefur tekið lit, þá er kryddað með hvítlaukskryddi, burritokryddi og salti og pipar ásamt kjúklingakrafti. Því næst er tómötum í dós bætt út á pönnuna og leyft að malla í nokkrar mínútur. Á meðan er philadelphia rjómaostur og sýrður rjómi settur í pott og brætt við vægan hita og sett svo til hliðar. Nú er kjúklingurinn veiddur af pönnunni og skipt á milli tortillanna (gott að nota gataspaða og skilja eftir mesta vökvann á pönnunni). Því næst er rifna ostinum úr öðrum pokanum dreift yfir kjúklinginn. Þá er tortillunum rúllað upp og þeim raðað í eldfast mót. Salsa sósunni er nú bætt út á pönnuna og leyft að malla í stutta stund og þannig blandað saman við sósuna sem var skilin eftir á pönnunni. Kryddað eftir smekk ef með þarf. Að lokum er rjómaostasósunni dreift yfir tortillurnar, þá salsa sósunni og að síðustu er rifna ostinum úr seinni pokanum dreift yfir. Bakað í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur eða þar til osturinn hefur tekið góðan lit. Borið fram með fersku salati, sýrðum rjóma og guacamole.
IMG_5473

Ofnbakað nachos með cheddarosti


Ofnbakað nachos

Nú er að baki stutt vinnuvika sem bauð upp á einstaka veðurblíðu. Besta vinkona Óskar frá Svþjóð er búin að vera hjá okkur í heimsókn síðastliðna viku. Þær vinkonurnar hafa notið þess að fara í Bláa lónið, skoðað Gullfoss og Geysi og gengið um borgina í sól og veðurblíðu.

Ég hef verið spennt að nota allt góða kjötið mitt frá Mýranauti. Það er svo gaman að nota svona gott hráefni og geta verið þess fullviss að maður sé að bjóða upp á eins vandaðan mat og völ er á. Ég líka farin að kaupa egg beint af býli. Þessi egg eru ofsalega góð og allt önnur en þau sem fást út í búð. Bæði eru þau einstaklega bragðgóð en líka extra stór, eitt slíkt egg samsvarar einu og hálfu hefðbundu eggi. Í uppskriftinni sem ég gef upp í dag gat ég notað góða nautahakkið frá Mýranauti. Þetta er alveg upplögð föstudagsuppskrift, það er alltaf svolítið notalegt að gera sér dagamun á föstudagskvöldum, borða eitthvað extra gott og jafnvel hafa matinn þannig að hægt sé að narta í hann yfir skemmtilegri bíómynd. Ég gef ekki upp neinar nákvæmar mælieiningar því magnið af hverju hráefni fer eftir smekk hvers og eins.

IMG_8823

Uppskrift:

  • nautahakk
  • tacos krydd
  • nachos flögur
  • cheddar ostur
  • Iceberg salat
  • gúrka
  • tómatur
  • sýrður rjómi
  • salsasósa

IMG_8827

Ofninn er hitaður í 200 gráður. Hakkið er steikt á pönnu og kryddað með tacos kryddi.  Nachos flögum er dreift í eldfast mót, eða á ofnplötu, þannig að þær fari ekki ofan á hvor aðra. Cheddar-ostsneið er lögð ofan á hverja flögu. Flögurnar eru hitaðar í ofni við 200 gráður í ca. 5 mínútur eða þar til osturinn er farinn að bráðna. Gúrka og tómatur er skorið í litla bita og salatið rifið niður. Um leið og flögurnar koma út úr ofninum er hakkinu dreift yfir þær, þá grænmetinu og í lokin er sýrða rjómanum og salsa sósunni dreift yfir grænmetið. Ekki er verra að dreifa yfir réttinn, eða bera fram með honum, guacamole, uppskriftin af því er hér. Best er að borða réttinn bara með fingrunum (munið bara að vopnbúast með nóg af servíettum! 🙂 )

IMG_8841

Mexíkóskur hamborgari með tómatsalsa og guacamole


IMG_1226Fyrsta aðventuhelgin að renna upp, dásamlegt! Það verður margt um að vera hjá okkur um helgina, meðal annars piparkökumálun og kransagerð. En það er ekki úr vegi að byrja helgina á gómsætum hamborgurum sem passa vel við föstudagskvöld. Ég datt niður á skemmtilegt blogg Svía sem bloggar bara um hamborgara! Hann býr bæði til sína eigin hamborgara í allskonar útfærslum en tekur líka út hamborgara á veitingastöðum. Til dæmis fór hann til New York í viku og borðaði mismunandi hamborgara í öll mál alla vikuna! Þegar ég renndi í gegnum bloggið hans sá ég allskonar spennandi uppskriftir af hamborgurum sem mig langar að prófa en þessi mexíkóski var svo girnilegur að ég varð að prófa hann samdægurs! Að sjálfsögðu grilluðum við hamborgarana, þeir verða svo miklu betri og mér finnst hægt að grilla allt árið um kring, nema kannski ef það er mikið frost eða ofankoma. Ég bjó til eigið guacamole og tómatsalsa en svo notuðum við líka tilbúið salsa sem var gott að nota til að bleyta aðeins upp í hamborgarabrauðinu þar sem að tilbúið salsa er með meiri tómatsósu en heimatilbúið. Þessir hamborgarar voru svo gómsætir eða eins og Ósk sagði eftir fyrsta bitann, ,,ég er í hamborgarahimni!“ 🙂 Næst ætla ég að prófa að búa sjálf til hamborgara, blanda nautahakki og mexókóskum kryddum saman, það er örugglega enn betra.

Tómatsalsa:

  • 2-3 stórir tómatar
  • 1 lítill rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1-2 tsk fínsaxað rautt chili (eða eftir smekk)
  • 1/2 lime
  • 1-2 tsk ólífuolía
  • 2 tsk tómatpúrra
  • örlítill sykur
  • salt og pipar
  • ferskt kóríander eftir smekk

IMG_1206

Tómatar skornir mjög smátt. Laukur og hvítlaukur saxað mjög smátt. Blandað saman í skál. Fínsöxuðu chili, safa úr límónuni, ólífuolía, tómatpúrra og sykur sett út í ásamt kóríander. Blandað vel. Smakkað til með pipar, salti og jafnvel meira af öðru hráefni, t.d. chili, limesafa, lauk eða öðru slíku ef með þarf. Gott að setja plast yfir skálina og geyma í dálitla stund í ísskáp áður en salsað er borið fram.

Guacamole uppskrift

  • 2 vel þroskuð avókadó, skorin í litla bita
  • 2 stórir tómatar, skornir mjög smátt
  • 1-2 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt (má sleppa)
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1-2 fersk rauð chili, kjarnhreinsuð og söxuð smátt
  • safi úr einni límónu (lime)
  • 1-2 búnt ferskt kóríander, saxað smátt
  • 1/2 tsk salt

IMG_7254

Öllum hráefnunum blandað í skál, henni lokað þétt með plastfilmu og geymd í ísskáp í minnst korter áður en hún er borin fram. Ef útbúa á guacamole með lengri fyrirvara getur verið leiðinlegt hvað maukið verður brúnt. Tvennt er hægt að gera til að koma í veg fyrir það. Það er að dreifa lime-safa vel yfir maukið og geyma avókadó steinana í maukinu.

  • Hamborgarar (ég notaði 120 gramma)
  • burrito kryddmix
  • Hamborgarabrauð
  • ostur (ég notaði Maribó ost)
  • kál
  • nachos
  • Thick ‘n Chunky salsa

Hamborgarar kryddaðir með burrito kryddmixi, því næst eru þeir grillaðir með osti. Thick ‘n Chunky salsa borið á báða helminga hamborgarbrauðsins. Þá er sett vel af káli, því næst fullt af guacamole, svo er það nachos, hamborgarinn kemur ofan á og loks nóg af tómatsalsa.

IMG_1219

Mexíkóskt burritogratín


Mexíkóskur matur er alltaf jafn vinsæll heima hjá okkur. Ég gerði þetta burritogratín í nýrri útgáfu. Ástæðan var einföld, ég uppgötvaði að hrísgrjónin voru búin en hins vegar átti ég perlukúskús. Það er eins og kúskús en kúlulaga, stærra og þykkara, með eins og pastaáferð. Afskaplega gott og í miklu uppáhaldi hjá okkur öllum, sérstaklega krökkunum. Það kom afar vel út að nota perlukúskús í þennan rétt, ég held að ég taki það fram yfir hrísgrjónin. Perlukúskús er til í Hagkaup, Þinni verslun, hjá Tyrkneskum bazar og örugglega í fleiri verslunum en ég hef hvorki séð það í Krónunni eða Bónus enn.

Uppskrift:

  • 8 burrito eða tortilla pönnukökur
  • 1 krukka fajitasósa eða önnur salsasósa
  • 2-3 rauðar paprikur, skornar í bita
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 500 gr kjúklingabringur, eða kjöt af heilsteiktum kjúkling
  • 2 dl hrísgrjón, ósoðin (ég notaði perlukúskús)
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 2-3 dl rifinn ostur
  • 1 lítil dós gular maísbaunir
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 1-2 tsk sambal oelek
  • salt og pipar
  • paprikukrydd

Hrísgrjónin soðin. Bakarofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingabringur skornar í litla bita. Kjúklingur, rauðlaukur og paprika steikt á stórri pönnu. Því næst eru soðnu hrísgrjónunum, maísbaunum, sambal oelek og salsasósunni bætt út í og látið malla í smá stund.

Pressuðum hvítlauk bætt við sýrða rjómann og hann bragðbættur með salti, pipar og parprikukryddi. Sýrðum rjóma smurt á hverja tortillu eða burrito pönnuköku fyrir sig. Því næst er ríflega helmingnum af kjúklingasósunni skipt á milli pönnukakanna, þeim rúllað upp og raðað í eldfast mót. Afgangnum af kjúklingasósunni er dreift yfir og ef afgangur er af sýrða rjómanum er honum dreift yfir kjúklinginn. Að lokum er rifnum osti dreift yfir réttinn og hann bakaður í ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og tekið lit. Borið fram með góðu salati. Einnig hægt að bjóða með réttinum meiri salsasósu, sýrðan rjóma og/eða guacamole.

Ofnbakaður tacoréttur


Eins og hjá flestum barnafjölskyldum er taco afar vinsæll matur á okkar heimili. Hins vegar er alltaf dálítið vesen að borða tacoskeljar! Ég geri stundum því stundum vinsælan tacorétt í staðinn sem er einfaldur og góður. Mér finnst samt eiginlega eins og ég sé að brjóta einhver foreldralög að nota snakk í kvöldmatinn! Það er einhvern veginn prentað í mann að snakk sé svo óhollt og ég forðast að kaupa það svona almennt. En í upphaflegu uppskriftinni er gert ráð fyrir því að nota mjög stóran tortillupoka, sem er yfir 400 gr (þetta er reyndar fremur stór uppskrift). Ég átti bágt með að nota svona mikið og minnkaði snakkið aðeins en setti á móti taco skeljar sem ég braut gróft. En reyndar er nú föstudagskvöld og þá má leyfa sér svolítið! 🙂

Uppskrift f. ca. 6

  • 1 poki Tortilla eða Nachos flögur, ca. 3-400 gr.
  • 1 kg nautahakk
  • 2 bréf tacokrydd
  • 1 msk nautakraftur
  • 3 dl vatn
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 1 askja Philadelphia ostur
  • 4-5 tómatar, sneiddir
  • 1 ½ paprika, skorin í bita
  • 1 dós gular maísbaunir
  • 1 púrrlaukur, sneiddur
  • rifinn ostur
Bakarofn stilltur á 225 gráður. Flögunum dreift á botninn á ofnskúffu. Nautahakk steikt og tacokryddinu bætt út í. Því næst er vatni bætt við ásamt nautakrafti. Hakkið látið malla þar til vökvinn er soðinn niður. Þá er hakkinu dreift yfir flögurnar. Rjómaosti og sýrðum rjóma (báðum dósunum) hrært saman og dreift yfir hakkið. Því næst er grænmetinu dreift yfir og að lokum rifna ostinum. Bakað í ofni í ca. 12 mínútur. Ég stillti á grill síðustu mínúturnar til að osturinn tæki betri lit frekar er en að lengja bökunartímann því þá myndu tortilla flögurnar ekki haldast eins stökkar. Borið fram með salati, guacamole, sýrðum rjóma og salsasósu.