Mexíkóskur kjúklingaréttur


Mexíkóskur kjúklingaréttur

Fyrir stuttu skrifaði ég langa bloggfærslu um fermingarveisluna sem við vorum með um páskana. Anna vinkona minnti mig á fleiri punkta sem ég hafði gleymt að skrifa um þannig að áður löng bloggfærsla er nú orðin enn lengri … hér er slóðin ef einhvern langar að lesa.

Um daginn eldaði ég þennan mexíkóska kjúklingarétt og mallaði eitthvað úr þeim hráefnum sem ég átti í ísskápnum. Ég hef ekki enn lært af reynslunni og tel mig alltaf muna hvað ég set í réttina án þess að skrifa það niður sem er auðvitað algjör vitleysa. Ég er varla staðinn upp frá matarborðinu þegar ég hef þegar steingleymt því öllu. Sem betur fer tók ég margar myndir af ferlinu að þessu sinni og gat því rifjað upp uppskriftina. Sem var eins gott! Þessi réttur sló nefnilega í gegn hér heima og við borðuðum öll óhóflega mikið af þessum rétti. Galdrahráefnið var ostur held ég, mikill ostur gerir þennan rétt ómótstæðilegan! 🙂 Þessi réttur verður sannarlega eldaður fljótt aftur hér á heimilinu.

Uppskrift:

  • 900 g kjúklingabringur frá Rose Poultry, skornar í bita
  • 1 stór rauðlaukur, saxaður smátt
  • ólífuolía til steikingar
  • 1 bréf burritokrydd
  • salt & pipar
  • hvítlaukskrydd
  • 1 tsk kjúklingakraftur
  • 1 dós niðursoðnir tómatar (gott að hafa þá bragðbætta með t.d. chili)
  • 200 g Philadelphia rjómaostur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • ca. 200 g salsa sósa
  • 6 stórar tortillur
  • 2 pokar rifinn ostur
  • borið fram með guacamole, sýrðum rjóma og salati

IMG_5464

Ofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingur og laukur er steiktur á pönnu þar til kjúklingurinn hefur tekið lit, þá er kryddað með hvítlaukskryddi, burritokryddi og salti og pipar ásamt kjúklingakrafti. Því næst er tómötum í dós bætt út á pönnuna og leyft að malla í nokkrar mínútur. Á meðan er philadelphia rjómaostur og sýrður rjómi settur í pott og brætt við vægan hita og sett svo til hliðar. Nú er kjúklingurinn veiddur af pönnunni og skipt á milli tortillanna (gott að nota gataspaða og skilja eftir mesta vökvann á pönnunni). Því næst er rifna ostinum úr öðrum pokanum dreift yfir kjúklinginn. Þá er tortillunum rúllað upp og þeim raðað í eldfast mót. Salsa sósunni er nú bætt út á pönnuna og leyft að malla í stutta stund og þannig blandað saman við sósuna sem var skilin eftir á pönnunni. Kryddað eftir smekk ef með þarf. Að lokum er rjómaostasósunni dreift yfir tortillurnar, þá salsa sósunni og að síðustu er rifna ostinum úr seinni pokanum dreift yfir. Bakað í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur eða þar til osturinn hefur tekið góðan lit. Borið fram með fersku salati, sýrðum rjóma og guacamole.
IMG_5473

Mexíkósk tortilluterta


Þessi uppskrift kemur frá sænsku matarbloggi en ég hef aðeins breytt henni. Krakkarnir eru afar hrifnir af þessum rétti og rukka mig reglulega um hann. Vinkona Jóhönnu heyrði að það yrði tortilluterta í matinn hjá okkur og fannst það hljóma voða vel að það yrði terta í kvöldmatinn hjá okkur! 🙂 Ég nota extra stórar tortillukökur en þær fást hjá Tyrkneskum bazar Síðumúla og líka í Kosti. En það er hægt að nota allar stærðir af tortillum í þessa uppskrift, þegar ég er með minnstu gerðina geri ég tvær tertur en ef ég er með millistærð geri ég eina tertu en þá verður hún bara hærri. Ég ber fram með tortillutertunni ferskt salat, en ég er orðin sjálfbær núna í salatinu, allt þetta græna á myndinni kemur úr garðinum! Venjulega hef ég líka með þessu sýrðan rjóma, ferskt guacamole og salsa. En á meðan ég eldaði þessa stóru tertu týndist út úr húsi hver fjölskyldumeðlimurinn á fætur öðrum, alltaf svo magt skemmtilegt að gera hjá öllum í góða veðrinu! Á endanum sat ég því ein eftir þegar tertan var tilbúin og ég lét mér því bara nægja salatið að sinni sem meðlæti.

Uppskrift f. 4:

  • 5-6 st meðalstórar tortillakökur
  • 800 gr. kjúklingabringur
  • 1/2-1 bréf burrito kjúklingakrydd
  • 1 gulur laukur
  • 1 púrrlaukur
  • 250 gr. sveppir
  • 1 rauð paprika
  • smjör til steikingar
  • 1 krukka Thick´n Chunky Salsa
  • 200 rjómaostur
  • svartar ólífur, saxaðar
  • rifinn ostur
  • salt og pipar

Stillið ofninn á 225 gráður. Skerið kjúklingabringurnar í litla teninga, saxið laukinn, skerið púrrlaukinn í strimla, sneiðið sveppina og skerið paprikuna í bita. Steikið kjúklinginn í smjörinu og kryddið með burrito kryddinu, bætið sveppum, papriku, lauk og púrrlauk við og steikið í nokkrar mínútur. Bætið út í salsaósunni og rjómaosti og látið malla þar til að rjómaosturinn hefur bráðnað. Smakkið til með salti og pipar.

Setjið smjörpappír á ofnplötu og eina tortillaköku á plötuna. Breiðið kjúklingasósu yfir kökuna, þá rifnum osti, leggið yfir aðra tortilluköku yfir og þannig koll af kolli. Endið á kjúklingasósu, stráið ólífum yfir og að lokum rifnum osti.  Hitið í ofninum í ca. 15 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og gullinbrúnn.

Berið fram með salati, sýrðum rjóma, fersku guacamole og salsasósu.