Hakkhleifur fylltur með beikoni, döðlum og fetaosti


img_4167

Síðastliðið sumar fór ég í fyrsta sinn í 17 sortir og smakkaði allskonar gúmmelaði bollakökur. Þar sem ég sat og naut hvers bita renndi ég augunum yfir afgreiðsluborðið og fannst hver kakan þar annarri girnilegri. Ég ákvað að leggja fljótt leið mína aftur í 17 sortir og prófa einhverja góða köku. Þegar við vorum með sænska gesti hjá okkur um daginn var aldeilis gott tilefni að bjóða upp á ljúffenga köku því svo vildi til að þau áttu brúðkaupsafmæli og fengu sama dag þær fréttir að þau væru orðin íbúðareigendur. Við skáluðum fyrst yfir góðum kvöldverði.

img_3825

Því næst reiddi ég fram þessa glæsilegu köku úr 17 sortum, súkklaðiköku með saltkaramellu og poprocks.

img_3829img_3831img_3859

Hrikalega góð kaka og sænsku gestirnir okkar áttu ekki orð yfir þessari dásemdarköku! 🙂

img_3836img_3844

Ég mæli með því að þið smakkið á þessum gómsætu hnallþórum hjá 17 sortum!

En ef ég vík þá að uppskrift dagsins. Mér finnst afar gaman að gera tilraunir með nautahakk og búa til eitthvað gott úr því. Mér finnst sömuleiðis voðalega gott að blanda saman fetaosti, döðlum og beikoni og nota það óspart tilraunum mínum. Hérna gerði ég tilraun með að blanda slíku gúmmelaði saman við nautahakk og útkoman kom skemmtilega á óvart. Öll fjölskyldan var sammála um að þessi tilraun hefði heppnast feykivel og ég mæli með því að þið prófið! 🙂

img_4188

Uppskrift:

  • 600-700 g nautahakk
  • ½ lítill laukur, fínhakkaður
  • 1 egg
  • ½ dl brauðmylsna
  • ½ dl mjólk
  • salt og pipar
  • annað krydd eftir smekk
  • 180 g beikon, skorið í bita
  • 1 meðalstór rauðlaukur, saxaður smátt
  • 120 g döðlur, saxaðar fremur smátt
  • 180 g fetaostur (fetaostakubbur)
  • salt & pipar
  • chiliflögur
  • 1 dós tómatar í dós (ca. 411 g)
  • 1 1/2 msk tómatmauk
  • 1 1/2 tsk paprikukrydd
  • chili krydd eða annað gott krydd

Ofn hitaður í 200 gráður. Laukurinn steiktur á pönnu þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er hann veiddur af pönnunni og bætt saman við hakkið, eggið, brauðmylsnuna, mjólk og krydd, allt blandað vel saman. Helmingurinn af kjötblöndunni er settur ofan í smurt eldfast mót og mótað í hleif. Rauf gerð eftir endilöngum hleifnum. Beikonið er því næst steikt á pönnu. Þegar það nálgast að verða stökkt er rauðlauk og döðlum bætt út á pönnuna og allt steikt í ca. 3 mínútur. Að lokum er fetaosturinn mulinn út á pönnuna og öllu blandað saman. Ca. 1/2-1/3 af blöndunni er tekinn af pönnunni og hleifurinn fylltur með henni. Restinni af kjötblöndunni er lögð ofan á og hleifurinn mótaður og gerður vel þéttur svo blandan leki ekki út. Gott er að smyrja kjöthleifinn með bræddu smjöri. Því næst er tómötum í dós bætt á pönnuna út í restina af döðlu- og beikonblönduna. Þá er tómatmauki, paprikukryddi og chilikryddi bætt út í og leyft að malla í 3-4 mínutur. Að lokum er tómatmaukblöndunni yfir og í kringum kjöthleifinn. Hitað í ofni við 200 gráður í um það bil 25-30 mínútur eða þar til hleifurinn hefur eldast í gegn. Borið fram með t.d. sætkartöflumús eða hrísgrjónum og aioli sósu.

Einföld aioli sósa:

  • 1 dl majónes
  • 3 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 msk sítrónusafi
  • salt og pipar

Öllu blandað vel saman og kælt vel áður en borið fram.

img_4219

 

Pestóhakkhleifur með mozzarella og sólþurrkuðum tómötum.


 

IMG_3212Flestir kannast við að grípa hvað oftast í kjúkling og nautahakk þegar kemur að innkaupum og eldamennsku. Hvort tveggja er jú á góðu verði og svo eru líka ótal leiðir sem hægt er að nota til þess að gera skemmtilegar uppskriftir úr þessum hráefnum.
Um daginn prófaði ég mig áfram með ljúffengt Jamie Oliver pestó og sólþurrkaða tómata ásamt nautahakki og útkoman var réttur sem okkur öllum í fjölskyldunni fannst hrikalega góður.  Tilvalinn og gómsætur helgarréttur að mínu mati! 🙂

Uppskrift:

  • 900 g nautahakk
  • 2 egg
  • ¾ dl brauðmylsna
  • ½  krukka (ca. 100 g) Jamie Oliver rautt pestó
  • salt & pipar
  • sojasósa

Fylling:

  • 5-8 st Jamie Oliver sólþurrkaðir tómatar
  • 120 g mozzarella ostakúla
  • 1 tsk oregano krydd
  • 1 tsk basiliku krydd
  • salt & pipar

Sósa:

  • ½ krukka Jamie Oliver rautt pestó
  • 2.5 dl rjómi eða matreiðslurjómi 

IMG_3211

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Eldfast mót smurt að innan. Hakki blandað vel saman við egg, brauðmylsnu og pestó, kryddað með salti og pipar. Hakkið er mótað í aflangan ferning. Mozzarella osturinn er skorin í litla bita og sólþurrkaðir tómatar saxaðir smátt. Þessu er blandað saman í skál með oregano kryddi og basiliku kryddi ásamt salti og pipar. Fyllingunni er dreift í miðjuna á hakkið og hleifnum lokað þétt. Gott er að smyrja hann með sojasósu. Hleifurinn er settur í ofn í eldföstu móti við 180 gráður í 30-40 mínútur (það er í lagi þó svo að hleifurinn opnist á meðan eldun stendur). Borið fram með t.d. hrísgrjónum, grænmeti og pestórjómasósu.

Sósan: rjómi og pestó hrært saman í pott og hitað. 

IMG_3230IMG_3237

Nautahakksrúlla með beikoni, eplum og sveppum


Nautahakksrúlla með beikoni og eplum

Vinsælasta nautahakksuppskriftin hér á Eldhússögum er nautahakksrúlla með brokkolí og osti. Það er skemmtileg útfærsla á nautahakki og tilbreyting frá hefðbundum nautahakksuppskriftum, en ekki síst, afar góður réttur. Ég hef lengi hugsað mér að gera þessa rúllu í annarri útfærslu og lét verða af því í vikunni. Ég var ekki alveg viss um hvað ég ætlaði að gera en ég byrjaði á því að steikja beikon, lauk og sveppi. Á þeim tímapunkti fékk ég þá hugljómun að nota epli líka. Eplin voru búin þannig að Elfar var sendur út í búð eftir eplum eins og svo oft áður þegar mig vantar skyndilega hráefni í einhvern rétt sem ég er að útbúa. Nautahakksrúllan var rosalega góð, jafnvel betri en sú fyrri. Þessa rúllu er auðvelt að aðlaga að LKL matarræðinu, þá þarf bara að sleppa eplinu og skipta út kartöflumjöli fyrir husk. Sósan er svakalega góð, það má bara ekki sleppa henni! Margir halda að það sé mikið mál að rúlla upp svona nautahakksrúllu en það er ekkert mál og auðvelt að færa hana svo í eldfast mót. Það er allt í lagi þó svo að rúllan opnist aðeins á meðan eldun stendur, hún verður ekkert verri fyrir vikið.

Uppskrift fyrir 3-4:

Hakk:

  • 500 g nautahakk
  • 1 msk kartöflumjöl (2 tsk husk fyrir LKL)
  • 1 egg
  • salt & pipar
  • 1/2 – 1 tsk chili krydd
  • 30 g smjör
  • 2-3 msk soja
  • 1-2 dl rjómi
  • sósujafnari (fyrir LKL er ekki hægt að nota sósujafnara. Til þess að fá þykkari sósu þarf að nota aðeins meiri rjóma og leyfa sósunni að sjóða aðeins niður, þar með þykkist hún. Það er líka hægt að bæta við 2 msk af rjómaosti, það hjálpar til við þykkingu).

Fylling:

  • 180 g beikon, skorið eða klippt í litla bita
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 150 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 lítið grænt epli eða 1/2 stórt, afhýtt og skorið í litla bita (sleppa fyrir LKL)
  • salt & pipar
  • 1 tsk timjan
  • 2 dl rifinn ostur

Ofninn er hitaður í 200 gráður. Nautahakki, kartöflumjöli, salt, pipar og eggi hrært saman í skál. Hakkið flatt út í ferning á smjörpappír. Gott er að leggja smjörpappír ofan á hakkið og fletja það svo út með kökukefli.

IMG_9693

Beikon steikt á pönnu þar til það er að verða stökkt, þá er lauknum bætt á pönnuna og steikt í smástund til viðbótar, svo er sveppunum bætt út í. Þetta er steikt í smá stund og í lokin er eplunum bætt við og kryddað. Blöndunni er svo dreift yfir nautahakkið.

IMG_9695

Rifna ostinum er svo dreift yfir beikonblönduna.

IMG_9697

Með hjálp smjörpappírsins er hakkinu rúllað upp eins og rúllutertu. Rúllan er færð yfir í eldfast mót.  Smjör brætt í potti og sojasósu blandað saman við smjörið, blöndunni er hellt yfir rúlluna.

IMG_9701

Hitað í ofni í ca. 35 mínútur við 200 gráður, kannski lengur, fer allt eftir þykkt rúllunnar. Þegar rúllan er elduð í gegn er hún tekin úr eldfasta mótinu og sett undir álpappír. 2-3 dl af vatni er hellt út í eldfasta mótið sem er sett aftur inn í ofninn og hann stilltur á grill. Þegar vökvinn fer að sjóða eftir nokkrar mínútur er honum hellt yfir í pott (ég sigtaði vökvann ofan í pottinn) og 1-2 dl af rjóma hellt út í. Sósan er svo þykkt með sósujafnara. Fyrir LKL er ekki hægt að nota sósujafnara. Til þess að fá þykkari sósu þarf að nota aðeins meiri rjóma og leyfa sósunni að sjóða aðeins niður þar til hún þykkist. Það er líka hægt að bæta við 2 msk af rjómaosti út í sósuna, það hjálpar til við þykkingu. Sósan er svo smökkuð til með salti og pipar. Borið fram með hrísgrjónum eða kartöflumús og salati.

IMG_9705

Spaghettípizza með pepperóní


Ég kom heim aðfaranótt gærdagsins frá Stokkhólmi eftir hafa dvalið þar langa helgi með Önnu Sif vinkonu. Ferðin var löngu plönuð í tilefni stórafmæla okkar en ég hafði þó ráðgert að vera búin með ritgerðina mína áður en ég færi. Bjartsýnin í hámarki hjá mér! Ég er auðvitað langt frá því að vera búin og endaði á því að vinna í ritgerðinni bæði nætur og daga fyrir ferðina. Nóttina áður en við fórum skrifaði ég til kl. 4.30 og átti þá eftir að pakka! Lagði svo af stað út á flugvöll hálftíma seinna. Ég náði þó að klára að skrifa það sem ég hafði ætlað mér og við Anna Sif áttum góða helgi í Stokkhólmi. VIð bjuggum á hóteli í Solna Centrum sem er stór verslunarmiðstöð í hverfinu sem ég bjó í þau 15 ár sem við fjölskyldan bjuggum í borginni. Það var svolítið skrítið að búa í verslunarmiðstöð sem maður þekkti svona vel, svipað eins og ef maður byggi heila helgi í Kringlunni! 🙂 En alveg frábær staðsetning, lobbýið okkar var fjórum skrefum frá H&M!

Svo var neðanjarðarlestarstöð í kjallaranum og það tekur bara 8 mínútur að fara í miðbæinn. Við hittum íslensku vinkonur mínar, sem búa enn í Stokkhólmi, eina kvöldstund og var boðið í gómsætan forrétt, sushi, hvítvín og sænska prinsessutertu! Annars þræddum við búðirnar og afrekuðum að komast út úr mollinu tvo heila daga en þeim eyddum við í miðbænum. Á laugardagskvöldinu fóru við út að borða ,,afmælis“máltíðina á Grill sem er frábær veitingastaður. Ljúffengur matur og ótrúlega skemmtilega innréttaður staður. Honum er skipt upp í nokkra mismunandi þemahluta og óhætt að segja að þeman séu tekin alla leið! Þarna er sirkus hluti, hluti sem er í rococo stíl, annar í frönskum kaffihúsastíl og svo framvegis.

Við náðum að kaupa fullt af jólagjöfum sem hentaði mér afar vel þar sem ég er sokkin aftur niður í ritgerðarskrif. Ég mun örugglega ekki komast í búðir aftur næstu vikurnar! En hér heima hafði heimilisfaðirinn allt undir stjórn en mér skilst að það hafi lítið verið eldað. Krakkarnir voru samt ekkert ósátt við að fá pizzur, Nings og Subway nokkra daga í röð! 🙂 Í gærkvöldi voru hins vegar bara ég og yngstu krakkarnir heima, Elfar og elstu krakkarnir voru að vinna. Ég ákvað því að leyfa þeim að velja matinn. Þau skoðuðu þetta blogg og langaði mest í hakkrétt með pizzuívafi. En þá mundi Jóhanna eftir svipuðum rétti sem ég gerði síðasta vetur og þeim fannst svo góður, hún vildi endilega að ég myndi gera hann aftur. Ég mundi líka eftir honum en það var fyrir tíma bloggsins og ég mundi ómögulega hvar ég hafði náð í uppskriftina. En þá kom sér vel að ég sendi oft sjálfri mér tölvupóst með linkum á uppskriftir sem ég dett niður á og eftir smá leit fann ég uppskriftina. Ég breytti henni aðeins, í upphaflegu uppskriftinni var spaghettí blandað saman við parmesan ost en ég notaði rifinn piparost í staðinn og fannst það koma enn betur út. Krökkunum fannst þessi réttur æði og ég verð að viðurkenna að mér fannst hann afskaplega góður líka! Ég mun örugglega búa hann til reglulega.

Uppskrift:
  • 400 gr spaghettí, soðið
  • 30 gr smjör
  • 1 askja rifinn piparostur (85 gr)
  • 2 egg
  • 900 gr nautahakk
  • salt og pipar
  • gott kjötkrydd
  • 1 tsk nautakraftur
  • 1/2 laukur, saxaður smátt
  • 1 krukka tómatsósa með basiliku frá Rinaldi (680 gr)
  • rifinn ostur
  • 1 bréf pepperóní
Bakarofn hitaður í 200 gráður. Spaghettí soðið eftir leiðbeiningum og blandað heitu vel saman við smjör, egg og rifinn piparost. Lagt í botninn á stóru eldföstu móti. Laukurinn steiktur á pönnu og nautahakkinu bætt út á pönnuna, kryddað. Hakkið steikt þar til það er eldað í gegn. Þá er því dreift yfir spaghettíið. Því næst er tómatsósunni hellt yfir hakkið. Rifnum osti dreift yfir og pepperóni raðað ofan á. Bakað í ofni í 25 mínútur.

Ostafylltur kjöthleifur


Um daginn gerði ég þessa nautahakksrúllu sem sló í gegn hér heima og ég sé að þetta er vinsæl uppskrift hér á blogginu. Ég er búin að horfa á nýjan ost frá Philadelphia úti í búð í nokkurn tíma. Þetta er Philadelphia með sweet chili, hljómar mjög girnilega. Ég hef verið að hugsa um hvernig ég geti nýtt hann í einhvern góðan matrétt. Í kvöld ákvað ég að gera útfærslu af nautahakksrúllunni og nota þennan ost. Þó það sé chili í honum þá er hann ekki sterkur, enda er þetta sweet chili, og hann er afar bragðgóður. En það er líka hægt að nota ost með til dæmis hvítlauksbragði, það er örugglega mjög gott líka. Þessi kjöthleifur sló í gegn, sérstaklega hjá elstu krökkunum sem stóðu í hörðum samningaviðræðum yfir því hvernig afgangnum yrði skipt í matarboxin þeirra og þá ekki síst sósunni! 🙂

  • 600-700 g nautahakk 
  • ½ lítill laukur, fínhakkaður
  • 1 egg
  •  ½ dl brauðmylsna
  • ½ dl mjólk
  • salt og pipar
  • annað krydd eftir smekk
  • ca. 150 gr Philadelphia ostur með Sweet Chili (eða með öðru bragði)
  • 2-3 msk sojasósa
  • 30 gr smjör, brætt
  • 1-2 dl rjómi eða mjólk
  • 1 tsk nautakraftur
  • 1 msk hveiti eða sósujafnari
  • 2 tsk rifsberjahlaup
Ofn stilltur á 200 gráður. Laukurinn steiktur á pönnu þar til hann er orðinn mjúkur. Hakki, lauk, eggi, brauðmylsnu, mjólk og kryddi blandað vel saman. Helmingnum af kjötblöndunni sett ofan í eldfast mót og hún mótuð í hleif. Rauf gerð eftir endilöngum hleifnum og hún fyllt með Philadelphia osti. Raufinni lokað vel, afgangnum af kjötblöndunni lagður ofan á og haldið áfram að móta hleifinn. Hann er gerður vel þéttur svo osturinn leki ekki út. Smjör brætt í potti og sojasósu bætt út í. Sósunni er því næst hellt yfir kjöthleifinn og hann bakaður í ofni í 40-50 mínútur, fer eftir þykktinni. Þegar kjöthleifurinn er eldaður í gegn er hann tekinn úr eldfasta mótinu og settur undir álpappír. 2-3 dl af vatni er hellt út í eldfasta mótið sem er sett aftur inn í ofninn og hann stilltur á grill. Þegar vökvinn fer að sjóða eftir nokkrar mínútur er honum hellt yfir í pott og 1-2 dl af rjóma eða mjólk hellt út í. Sósan er svo þykkt með hveitijafningi (smá vatn og hveiti hrist eða hrært saman) eða sósujafnara. Rifsberjahlaupi er að lokum bætt út í sósuna og hún smökkuð til með salti og pipar. Borið fram með til dæmis hrísgrjónum og soðnu grænmeti.

Nautahakksrúlla með osti og brokkolí


Ég gerði þennan ljúffenga og sniðuga hakkrétt fyrr í vikunni. Rúllan er skemmtileg tilbreyting frá því sem maður gerir venjulega úr nautahakki og öllum fjölskyldumeðlimum fannst hún ofboðslega góð.  Það er fljótlegt að búa til þessa nautahakksrúllu og svo er henni bara skellt inn í ofn. Mér finnst svoleiðis matur alltaf svo þægilegur, þá getur maður gengið frá í eldhúsinu eða gert eitthvað annað á meðan maturinn eldast. Sósan er frábærlega góð, það má alls ekki sleppa henni. Svo er hægt að leika sér með innihaldið í rúllunni, nota til dæmis rifinn piparost, fetaost eða gráðost í stað venjulegs ostar. Það er líka hægt að nota annað grænmeti líkt og papriku, lauk og/eða sveppi og ekki er verra að bæta við beikoni.

Hér hef ég gert aðrar góðar útfærslur af nautahakksrúllunni:

Nautahakksrúlla með mozzarella, tómötum og basilku

IMG_0576

 

Nautahakksrúlla með beikoni, eplum og sveppum

IMG_9706

 

 

 

 

 

Mexíkósk nautahakksrúlla

IMG_1104

 

 

 

 

 

 

Það er ákaflega einfalt að aðlaga nautahakksrúlluna með osti og brokkolí að LKL – lágkolvetna mataræðinu – og ég setti leiðbeiningar hvernig fara á að því inn í uppskriftina. Fyrir LKL fólk væri sniðugt að bera fram með rúllunni til dæmis blómkálshrísgrjón. Þau eru gerð með því að rífa niður blómkál (ekki stilkana, bara blómin) á grófu rifjárni. Það er svo sett út í sjóðandi vatn sem er saltað (vatnið á rétt að fljóta yfir þau) í 3 mínútur. Það þarf svo að láta leka vel af blómkálshrísgrjónunum, þau eiga að verða alveg vatnslaus, áður en þau eru borin fram. Það er hægt að gera stóran skammt og geyma í ísskáp í nokkra daga.

Uppskrift f. 4

  • 600 gr nautahakk
  • 1 msk nautakraftur
  • 1 msk kartöflumjöl (2 msk husk fyrir LKL-vænan rétt)
  • 1 tsk salt
  • pipar
  • 1 egg
  • 200-300 gr ferskt brokkolí, skorið smátt
  • ½ dl steinselja, söxuð smátt
  • 3-4 dl rifinn ostur
  • 2-3 msk sojasósa
  • 30 gr smjör, brætt
  • 1-2 dl rjómi eða mjólk (fyrir LKL er rjómi bestur)
  • 1 msk hveiti eða sósujafnari (sleppa fyrir LKL)
  • 2 tsk rifsberjahlaup (sleppa fyrir LKL)

Ofninn er hitaður í 180 gráður. Nautahakki, nautakrafti, kartöflumjöli, salt, pipar og eggi hrært saman í skál. Hakkið flatt út í ferning á smjörpappír. Gott er að leggja smjörpappír ofan á hakkið og fletja það svo út með kökukefli.

IMG_9693

Brokkolí, steinselju og rifnum osti dreift yfir. Með hjálp smjörpappírsins undir hakkkinu er því rúllað upp eins og rúllutertu. Rúllan er færð yfir í eldfast mót.  Bræddu smjöri og sojasósu blandað saman og helt yfir rúlluna. Hitað í ofni í ca. 40-50 mínútur, fer allt eftir þykkt rúllunnar. Þegar rúllan er elduð í gegn er hún tekin úr eldfasta mótinu og sett undir álpappír. 2-3 dl af vatni er hellt út í eldfasta mótið sem er sett aftur inn í ofninn og hann stilltur á grill. Þegar vökvinn fer að sjóða eftir nokkrar mínútur er honum hellt yfir í pott og 1-2 dl af rjóma eða mjólk hellt út í. Sósan er svo þykkt með hveitijafningi (smá vatn og hveiti hrist eða hrært saman) eða sósujafnara. Fyrir LKL- væna sósu er best að nota rjóma og leyfa sósunni að malla dálítið, við það þykkist hún og þá þarf ekki sósujafnara. Það er líka hægt að bæta ca. 2 msk af rjómaosti út í sósuna til að hjálpa til við þykkingu. Rifsberjahlaupi er að lokum bætt út í sósuna (ekki fyrir LKL) og hún smökkuð til með salti og pipar. Borið fram með til dæmis kartöflumús (blómkálshrísgrjón fyrir LKL, sjá efst), salati og rifsberjahlaupi.

Tacobaka


Ég er alltaf á höttunum eftir góðum nautahakksuppskriftum. Nautahakk er fremur ódýrt hráefni, það er fljótlegt í matreiðslu og það er hægt að gera úr því margskonar ólíka matrétti. Í gærkvöldi bjó ég til tacoböku sem var býsna góð. Uppskriftina fann ég á sænskri uppskriftasíðu. Ég reyndar breytti henni töluvert, bætti meðal annars við maís, papriku, kotasælu og lauk ásamt því að gera fleiri breytingar. Í uppskriftinni er jalapeños sem er sterkt en mér finnst það afar gott í þennan rétt. En það þarf að kannski að minnka magnið talsvert ef börn borða réttinn, þeim líkar sjaldan sterkur matur. Það er líka sniðugt að setja ekki jalapeños í hakkið heldur raða því ofan á réttinn ásamt tómötum, þá er hægt að skilja eftir horn fyrir börnin án jalapeños.

Uppskrift f. 4

Deig:

  • 2 ½ dl hveiti
  • 125 gr smjör, kalt
  • 2-3 msk kalt vatn

Smjöri og hveiti blandað saman, gott að gera það í matvinnsluvél eða með tveimur göfflum, þar til það er orðið eins og gróft mjöl. Bætið þá vatninu saman við deigið og hnoðið. Fletjið út deigið milli smjörpappírs og setjið það svo í bökuform (eða eldfast mót). Kælið deigið í ísskáp í 30 mínútur (til þess að það dragist ekki saman við baksturinn). Bakið svo við 225 gráður í 10 mínútur.

Tacofylling:

  • 700 gr nautahakk
  • 1 bréf tacokrydd
  • 200 gr kotasæla
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 2 dl maísbaunir
  • 1 dós sýrður rjómi með hvítlauk
  • 2 niðurskornir tómatar
  • jalapeños eftir smekk
  • rifinn ostur

Steikið lauk og papriku á pönnu. Bætið við hakki og þegar það er gegnumsteikt er tacokryddi bætt við ásamt maísbaunum, kotasælu og jalapeños. Látið malla á lágum hita, hrærið í blöndunni öðru hverju. Hellið nautahakkinu í bökuformið. Breiðið ofan á hakkið sýrða rjómanum, leggið tómatsneiðar yfir sýrða rjómann (og jalapeños ef maður kýs þar frekar að dreifa því yfir réttinn fremur en að setja það í hakkið). Að lokum er rifnum osti dreift yfir réttinn. Bakið í ofni við 225 gráður í 10-15 mínútur eða þar til osturinn hefur fengið fallegan lit.

Berið fram með guacamole, sýrðum rjóma, tómatsalsa og salati.

Brauðhleifur með ítalskri fyllingu


Ég sá þessa uppskrift á sænsku matarbloggi sem ég fylgist reglulega með. Þegar ég prófaði þennan rétt í fyrsta sinn var ég svolítið vantrúuð á að hann væri góður. En annað kom á daginn, rétturinn var voða góður og það sem enn betra var, meira að segja krökkunum fannst þetta góður matur! Það er alltaf jafn ánægjulegt þegar maður dettur niður á kvöldmat sem yngstu krakkarnir fúlsa ekki við! Ég hef prófað að nota allskonar brauðhleifa fyrir þennan rétt, aðallega reyni ég að hafa brauðið frekar stórt og að skorpan sé föst í sér. Ef ég sé stóran og girnilegan brauðhleif úti í búð þá enda ég oft á að hafa þennan rétt um kvöldið. Nettó og Hagkaup eru til dæmis matvöruverslanir sem selja brauð sem ekki er niðursneitt og passa vel fyrir þessa uppskrift. Ef krakkarnir myndu borða sveppi þá myndi ég klárlega bæta þeim við þessa uppskrift. Það myndi passa best að steikja þá með lauknum í upphafi. Innvolsið úr brauðinu er fjarlægt en mér er illa við sóun á mat. Ég legg því stundum innvolsið í lítið eldfast mót, bræði smjör með hvítlauk í og helli yfir, strái svo dálitum osti yfir brauðið að lokum. Þetta hita ég í ofninum þar til osturinn tekur lit og krakkarnir borða af bestu lyst.

Uppskrift f. 4

  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 tsk (eða teningur) kjötkraftur
  • 10 sólþurrkaðir tómatar
  • 6-700 gr nautahakk
  • smjör til steikingar
  • 1 dós niðursoðnir tómatar, gjarnan með basiliku eða hvítlauk
  • vænn skammtur af ferskri basiliku, söxuð (má nota 2 msk af þurrkaðri basiliku)
  • salt og pipar
  • góð kryddblanda með ítölskum kryddum, t.d. Best á allt
  • 1 tsk sykur
  • 1 dl steinlausar ólífur, svartar eða grænar
  • 125 g mozzarella ostur
  • 150 g rifinn ostur, gjarnan bragðsterkur
  • 1 brauðhleifur

Aðferð:

Saxið laukinn smátt, hakkið hvítlaukinn og skerið sólþurrkuðu tómatana í litla bita. Steikið lauk og hvítlauk á pönnu og bætið svo hakkinu og kjötkrafti út í Bætið síðan við niðursoðnum tómötum, sólþurrkuðum tómötum og basilku Látið malla í 10 mínútur og kryddið með ítalskri kryddblöndu, salti, pipar og sykri.

Skerið brauðhleifinn á lengdina þannig að neðri hlutinn sé töluvert hærri en lokið. Takið innvolsið innan úr brauðinu, skiljið eftir ca tveggja cm kant. Yfirleitt tek ég líka aðeins innan úr lokinu. Þegar kjötsósan hefur mallað í 10 mínútur er pannan tekin af hellunni. Mozzarella skorinn í bita og ólífurnar saxaðar gróft. Hvort tveggja er bætt út á pönnuna ásamt rifnum osti. Hrærið ostinum og ólífunum saman við kjötsósuna og hellið svo blöndunni í brauðið. Brauðinu er svo vafið inn í álpappír og bakað inní ofni við 175 gráður í 25-30 mínútur eða þangað til brauðið er vel heitt í gegn. Berið fram með salati.