
Um daginn gerði ég þessa nautahakksrúllu sem sló í gegn hér heima og ég sé að þetta er vinsæl uppskrift hér á blogginu. Ég er búin að horfa á nýjan ost frá Philadelphia úti í búð í nokkurn tíma. Þetta er Philadelphia með sweet chili, hljómar mjög girnilega. Ég hef verið að hugsa um hvernig ég geti nýtt hann í einhvern góðan matrétt. Í kvöld ákvað ég að gera útfærslu af nautahakksrúllunni og nota þennan ost. Þó það sé chili í honum þá er hann ekki sterkur, enda er þetta sweet chili, og hann er afar bragðgóður. En það er líka hægt að nota ost með til dæmis hvítlauksbragði, það er örugglega mjög gott líka. Þessi kjöthleifur sló í gegn, sérstaklega hjá elstu krökkunum sem stóðu í hörðum samningaviðræðum yfir því hvernig afgangnum yrði skipt í matarboxin þeirra og þá ekki síst sósunni! 🙂
- 600-700 g nautahakk

- ½ lítill laukur, fínhakkaður
- 1 egg
- ½ dl brauðmylsna
- ½ dl mjólk
- salt og pipar
- annað krydd eftir smekk
- ca. 150 gr Philadelphia ostur með Sweet Chili (eða með öðru bragði)
- 2-3 msk sojasósa

- 30 gr smjör, brætt
- 1-2 dl rjómi eða mjólk
- 1 tsk nautakraftur
- 1 msk hveiti eða sósujafnari
- 2 tsk rifsberjahlaup
Ofn stilltur á 200 gráður. Laukurinn steiktur á pönnu þar til hann er orðinn mjúkur. Hakki, lauk, eggi, brauðmylsnu, mjólk og kryddi

blandað vel saman. Helmingnum af kjötblöndunni sett ofan í eldfast mót og hún mótuð í hleif. Rauf gerð eftir endilöngum hleifnum og hún fyllt með Philadelphia osti. Raufinni lokað vel, afgangnum af kjötblöndunni lagður ofan á og haldið áfram að móta hleifinn. Hann er gerður vel þéttur svo osturinn leki ekki út. Smjör brætt í potti og sojasósu bætt út í. Sósunni er því næst hellt yfir kjöthleifinn og hann bakaður í ofni í 40-50 mínútur, fer eftir þykktinni. Þegar kjöthleifurinn er eldaður í gegn er hann tekinn úr eldfasta mótinu og settur undir álpappír. 2-3 dl af vatni er hellt út í eldfasta mótið sem er sett aftur inn í ofninn og hann stilltur á grill. Þegar vökvinn fer að sjóða eftir nokkrar mínútur er honum hellt yfir í pott og 1-2 dl af rjóma eða mjólk hellt út í. Sósan er svo þykkt með hveitijafningi (smá vatn og hveiti hrist eða hrært saman) eða sósujafnara. Rifsberjahlaupi er að lokum bætt út í sósuna og hún smökkuð til með salti og pipar. Borið fram með til dæmis hrísgrjónum og soðnu grænmeti.

Líkar við:
Líka við Hleð...
Tengt efni
Hvaða sojasósu notarðu?
Ég nota núna sojasósu frá La Choy, fæst í Bónus. Ég hef líka verið að nota Kikoman en hún er frekar sölt.
Þú ert bara orðin uppfletti matreiðslubókin mín, þegar mig langar að prófa eitthvað nýtt.. gerði þennan í gær, hann var ofsalega góður!
Frábært Anna Sigga! 🙂 Vonandi getur þú haldið áfram að nýta þér uppskriftirnar héðan.
Frábær réttur, ég fer á þessa síðu þegar ég er alveg andlaus, og þeir eru margir réttir hjá þér sem eru að verða uppáhalds hjá fjölskyldunni, takk kærlega fyrir þessa síðu.
Skemmtilegt að heyra þetta Sigurlaug! 🙂 Takk fyrir kveðjuna!
Bauð upp á þennan frábæra rétt í kvöld og var vel tekið á því og sósan er ,,,,,OMG hvað hún var góð 😉 Takk fyrir mig .
Kveðja
Bjarney
Takk Bjarney! 🙂
Sæl Dröfn er að fá fólk í mat í kvöld hvað myndiru segja að þessi uppskrift dugi fyrir marga 🙂
Sæl Erna! Ég sá ekki spurninguna fyrr enn núna þannig að svarið er líklega of seint á ferð! En ég myndi reikna með allavega 250 grömmum á mann. samkvæmt því er uppskriftin, miðað við rúmlega 700 grömm, fyrir þrjá fullorðna.
Gerði þennan í kvöld og minn 6 ára sem er ekki sá duglegasti að borða fékk sér tvisvar á diskinn, þessi réttur verður klárlega gerður aftur á þessu heimili og prufaðar mismunandi útfærslur 🙂 takk fyrir frábæra síðu
Dásamlegt að heyra þetta! Fátt sem gleður mig jafn mikið eins og þegar börn taka hraustlega til matar síns! 🙂 Takk fyrir kveðjuna Steinunn!
Og enn og aftur er ég alveg pakksödd og rúmlega það!! TAKK fyrir þessa síðu….allt sem ég hef gert frá henni kemur mér svo yndislega og frábærlega á óvart 🙂 Bætti við sveppum í sósuna því ég er sveppafíkill og hún var æði!! Og bjó til sweet chilli ost með sósu og rjómaosti þar sem ég bý í Svíþjóð og fæ ekki íslenska osta! 🙂
Þú ert æði!! Keep up the good work!! Við erum ekki fyrir vonbrigðum!
Vá en frábær kveðja Bryndís, kærar þakkir! 🙂 Hljómar vel að bæta við sveppum, ég prófa það næst. En varðandi ostinn þá er Philadelphia ekki íslenskur og hann er til í hér um bil öllum sænskum matvöruverslunum. Kíktu eftir honum næst þegar þú ferð út í búð! 🙂 http://www.philadelphia.se/philadelphia3/page?siteid=philadelphia3-prd&locale=sesv1&PagecRef=1
las of fljótt, er oft að flýta mér 🙂 hélt að þú værir að tala um ms ost 😉 Hann fæst þá pottþétt hérna! Kaupi hann næst, sparar mér hræringinn í ostinum 😉
Takk aftur fyrir þessa síðu!! 🙂
Njóttu helgarinnar!!
snilldar uppskriftir nú verður smakkgírinn settur á on og smakkaðað og smakkað og sm…………
Já snilld, en er hægt að prenta án þess að fá allar athugasemdir með???
Ýttu á hnappinn „prenta“ þarna neðst fyrir neðan uppskriftina. Þá færðu upp prentviðmótið og þá er hægt að setja inn að maður vilji bara láta prenta út bls 1-3 með því að slá inn: 1-3 í reitinn undir „pages“. Þá prentast bara fyrstu þrjár síðurnar út og engar athugasemdir.
Maðurinn minn gerði þennan rétt í kvöld fyrir fjölskylduna og var þvílíkt góður og allir mjög sáttir. Rosalega gott að hafa ostinn inní og hann bætti við beikonkurli sem var mjög gott.
Frábært að heyra! Sniðug hugmynd að setja beikonkurl í. 🙂
Bakvísun: Fetaostabuff í rjómasósu með karamelluseruðum lauki | Eldhússögur
Þegar það er talað um brauðrasp, er það þá eitthvað sem fæst tilbúið í pökkum, eða búið þið það til sjálf.