Kjúklingalasagna með spínati og fetaosti


Í dag birtist þessi uppskrift í helgarblaði Fréttablaðsins, Lífið. Það var ekki pláss til að setja inn myndir af þessum gómsæta rétti í blaðið þannig að ég ætla að setja inn uppskriftina og myndir hér á bloggið. Ég prófaði þetta lasagna í fyrsta sinn fyrir tveimur vikum en er búin að elda það allavega þrisvar síðan! Krakkarnir eru sólgnir í þetta lasagna og okkur Elfari finnst það líka æðislegt. Ég eldaði það um daginn fyrir stórfjölskylduna, 16 manns, og öllum fannst það frábærlega gott. Meira að segja Bára Margrét litla frænka sem er þriggja ára borðaði skammt á við fullorðinn! 🙂 Það er einmitt svo skemmtileg hvað yngstu krökkunum finnst þetta gott en þau þykjast samt ekki borða spínat og fetaost! Ef ég á ferskt kóríander og/eða steinselju set ég dálítið af því líka út í tómatsósuna ásamt basilikunni, hún verður bara enn betri þannig. En ef maður á ekki matvinnsluvél eða töfrasprota er vel hægt að nota maukaða tómatsósu („passerade tomater“) í staðinn og fínsaxa bara basiliku út í. Uppskrift f. 5-6 

  •  900 gr kjúklingabringur, skornar í litla bita
  •  ólífuolía til steikingar
  •  salt og pipar
  •  1 rauðlaukur, saxaður smátt
  •  2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  •  2 dósir niðursoðnir tómatar
  •  1 box fersk basilika (miðað við boxin frá Náttúru sem eru 30 gr.)
  •  2 tsk þurrkuð basilika (krydd)
  • chili krydd (ég nota Chili explosion frá Santa Maria)
  •  150-200 gr ferskt spínat
  •  150-200 gr fetaostskubbur
  •  lasagnaplötur
  •  rifinn ostur

Ostasósa:

  • 40 gr smjör
  •  4 msk hveiti
  •  ca 5-6 dl mjólk
  •  2 dl rifinn ostur (líka mjög gott að nota rifinn piparost)
  •  múskat
  •  pipar

Bakarofn stilltur á 220 gráður. Tómötum í dós og ferskri basiliku blandað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota þar til tómatsósan verður slétt og kekklaus. Kjúklingur steiktur upp úr olíu á pönnu og kryddaður með pipar og salti (athugið að fetaosturinn í uppskriftinni er fremur saltur). Rauðlauk og hvítlauk bætt út á pönnuna og steikt með kjúklingnum í nokkrar mínútur til viðbótar. Tómatsósunni er því næst hellt út á pönnuna og kryddað með basiliku kryddinu og chili kryddinu og smakkað til.

Ostasósa: smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Síðan er mjólkinni hellt rólega saman við þar til sósan er hæfilega þykk, hrært án afláts á meðan. Rifnum osti bætt út í, hrært saman á vægum hita þar til að osturinn er bráðnaður. Kryddað með múskati, salti og pipar. Fyrst er ostasósa sett á botninn á smurðu eldföstu móti og því næst er lasagna plötum raðað yfir ostasósuna. Þá er kjúklingasósa sett yfir lasagnaplöturnar og ofan á hana er dreift spínati og að auki er muldum fetaosti stráð yfir. Þetta er gert í tvær eða þrjár umferðir, endað á ostasósu og loks er rifnum osti dreift yfir. Bakað við 220 gráður í ca. 20-25 mínútur. Borið fram með góðu brauði og salati.

11 hugrenningar um “Kjúklingalasagna með spínati og fetaosti

  1. Ég prófaði Kjúklingalasanga með spínati og fetaosti. Tvöfaldaði uppskriftina. Fór eftir uppskrift, en það vantaði algerlega salt og krydd, reyndar stendur ekki hve mikinn pipar en ég bara giskaði. Þegar saumaklúbburinn hafði fengið pipar og salt að vopni þá var hann góður !

    • Sæl Erna, ég nota einmitt vel af grófmöluðum svörtum pipar. Hins vegar fannst mér rétturinn vera nægilega saltur þar sem að fetaosturinn er mjög saltur. En auðvitað er misjafn smekkurinn og mikilvægt að smakka sig áfram! 🙂

  2. Þetta er æði, týmdi ekki að kaupa basil en það skipti engu-er samt ábyggilega ennþá betri þannig. Og múskat átti ég ekki en eins og ég segi þetta sló samt í gegn!!
    Takk fyrir þessa og allar hinar uppskriftirnar..

    • Frábært að heyra Ólína! 🙂 Þú getur líka notað bara basiliku krydd í staðinn fyrir ferska basilku og/eða tómata í dós bragðbætta með basiliku.

  3. Takk fyrir að deila þessari með okkur. Sló svona líka í gegn, það var bara ekkert eftir í fatinu. Algert æði og lyktinn þegar þetta var inn í ofni var eins og á ítalíu!

  4. Ertu með eitthva sem hægt væri að skipta út fyrir kjúkling? Pabbi borðar alls ekki kjúkling og mig langar svo að elda þetta.

    • Sæl Sigríður. Þetta er dálítið erfið spurning …. Ef hann borðar kalkún þá yrði það fyrsta val mitt. Annars held ég að ég myndi nota einhverskonar svínakjöt, jafnvel reykt svínakjöt eins og London lamb í bitum eða einhverskonar skinku. Það gæti líka verið gott að nota nautahakk.

  5. algjört æði þessi réttur. Ég gleymdi að kaupa lasangaplötur, notaði bara pastaskrúfur á milli laga í staðinn:) átti ekki múskat, en held að það hafi ekki breytt miklu, notaði piparost í sósuna ásamt rifnum osti, og held bara hann sé nauðsynlegur:) saltaði ekkert, enda fetinn nóg. Missti mig svolítið í Basilikunni, notaði tómat með basil, ferskt basil og kryddið, dasamlegt bara 🙂 Takk fyrir mig:)

  6. hæ ertu að nota ferskar lasagniaplötur eða í pakka? ef í pakka ertu þá búin að sjóða þær áður?

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.