Nautahakksrúlla með beikoni, eplum og sveppum


Nautahakksrúlla með beikoni og eplum

Vinsælasta nautahakksuppskriftin hér á Eldhússögum er nautahakksrúlla með brokkolí og osti. Það er skemmtileg útfærsla á nautahakki og tilbreyting frá hefðbundum nautahakksuppskriftum, en ekki síst, afar góður réttur. Ég hef lengi hugsað mér að gera þessa rúllu í annarri útfærslu og lét verða af því í vikunni. Ég var ekki alveg viss um hvað ég ætlaði að gera en ég byrjaði á því að steikja beikon, lauk og sveppi. Á þeim tímapunkti fékk ég þá hugljómun að nota epli líka. Eplin voru búin þannig að Elfar var sendur út í búð eftir eplum eins og svo oft áður þegar mig vantar skyndilega hráefni í einhvern rétt sem ég er að útbúa. Nautahakksrúllan var rosalega góð, jafnvel betri en sú fyrri. Þessa rúllu er auðvelt að aðlaga að LKL matarræðinu, þá þarf bara að sleppa eplinu og skipta út kartöflumjöli fyrir husk. Sósan er svakalega góð, það má bara ekki sleppa henni! Margir halda að það sé mikið mál að rúlla upp svona nautahakksrúllu en það er ekkert mál og auðvelt að færa hana svo í eldfast mót. Það er allt í lagi þó svo að rúllan opnist aðeins á meðan eldun stendur, hún verður ekkert verri fyrir vikið.

Uppskrift fyrir 3-4:

Hakk:

  • 500 g nautahakk
  • 1 msk kartöflumjöl (2 tsk husk fyrir LKL)
  • 1 egg
  • salt & pipar
  • 1/2 – 1 tsk chili krydd
  • 30 g smjör
  • 2-3 msk soja
  • 1-2 dl rjómi
  • sósujafnari (fyrir LKL er ekki hægt að nota sósujafnara. Til þess að fá þykkari sósu þarf að nota aðeins meiri rjóma og leyfa sósunni að sjóða aðeins niður, þar með þykkist hún. Það er líka hægt að bæta við 2 msk af rjómaosti, það hjálpar til við þykkingu).

Fylling:

  • 180 g beikon, skorið eða klippt í litla bita
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 150 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 lítið grænt epli eða 1/2 stórt, afhýtt og skorið í litla bita (sleppa fyrir LKL)
  • salt & pipar
  • 1 tsk timjan
  • 2 dl rifinn ostur

Ofninn er hitaður í 200 gráður. Nautahakki, kartöflumjöli, salt, pipar og eggi hrært saman í skál. Hakkið flatt út í ferning á smjörpappír. Gott er að leggja smjörpappír ofan á hakkið og fletja það svo út með kökukefli.

IMG_9693

Beikon steikt á pönnu þar til það er að verða stökkt, þá er lauknum bætt á pönnuna og steikt í smástund til viðbótar, svo er sveppunum bætt út í. Þetta er steikt í smá stund og í lokin er eplunum bætt við og kryddað. Blöndunni er svo dreift yfir nautahakkið.

IMG_9695

Rifna ostinum er svo dreift yfir beikonblönduna.

IMG_9697

Með hjálp smjörpappírsins er hakkinu rúllað upp eins og rúllutertu. Rúllan er færð yfir í eldfast mót.  Smjör brætt í potti og sojasósu blandað saman við smjörið, blöndunni er hellt yfir rúlluna.

IMG_9701

Hitað í ofni í ca. 35 mínútur við 200 gráður, kannski lengur, fer allt eftir þykkt rúllunnar. Þegar rúllan er elduð í gegn er hún tekin úr eldfasta mótinu og sett undir álpappír. 2-3 dl af vatni er hellt út í eldfasta mótið sem er sett aftur inn í ofninn og hann stilltur á grill. Þegar vökvinn fer að sjóða eftir nokkrar mínútur er honum hellt yfir í pott (ég sigtaði vökvann ofan í pottinn) og 1-2 dl af rjóma hellt út í. Sósan er svo þykkt með sósujafnara. Fyrir LKL er ekki hægt að nota sósujafnara. Til þess að fá þykkari sósu þarf að nota aðeins meiri rjóma og leyfa sósunni að sjóða aðeins niður þar til hún þykkist. Það er líka hægt að bæta við 2 msk af rjómaosti út í sósuna, það hjálpar til við þykkingu. Sósan er svo smökkuð til með salti og pipar. Borið fram með hrísgrjónum eða kartöflumús og salati.

IMG_9705

18 hugrenningar um “Nautahakksrúlla með beikoni, eplum og sveppum

  1. Þessa þarf ég að prófa, ég hef eldað rúlluna með brokkólí og osti og hún er mjög góð.

  2. Bakvísun: Nautahakksrúlla með osti og brokkolí | Eldhússögur

  3. Bakvísun: Nautahakksrúlla með mozzarella, tómötum og basilku | Eldhússögur

  4. Ég prófaði að setja döðlur í staðin fyrir sveppi, því þeir eru ekki vinsælir á mínu heimili. Bragðaðist svakalega vel

  5. Bakvísun: Mexíkósk nautahakksrúlla | Eldhússögur

  6. HÆ. ég er að velta fyrir mér hvort það sé hægt að skoða uppskriftirnar á prentvænu formi? mér finnst svo gott að prenta út og hafa hjá mér þegar ég bý til matinn 🙂

    • Sæl Fanney, neðst undir uppskriftunum eru nokkrir hnappar. Þar getur þú valið hnappinn „print“. Þá prentast eingöngu viðkomandi uppskrift út. Oftast nægir að velja bara tvær eða þrjár fyrstu síðuna í prentun því kommentin við uppskriftina koma líka og ef þau eru mörg þá geta þau tekið nokkrar síður.

  7. Eldaði þetta fyrir foreldra mína og fjölskyldu hér um daginn. Ég klikkaði alveg á því að passa að skilin á rúllunni myndu enda undir henni og rúllan opnaðist við eldun. Það eyðilagði samt ekki neitt. Við lokuðum henni bara þegar hún kom út úr ofninum og þvílíkt dýrindis lostæti sem þessi réttur er. Sló algerlega í gegn 🙂

  8. Mjög girnilegt en það truflar mig svolítið Soya í uppskriftinni. ég má ekki borða soya og ekki hveiti er ekki til önnur góð lausn fyrir sósuna. Soya sósa var eitt af mínu uppáhalds sósum en þegar mér var bannað að nota hana. kunni ég varla að elda. 🙂

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.