Spaghettípizza með pepperóní


Ég kom heim aðfaranótt gærdagsins frá Stokkhólmi eftir hafa dvalið þar langa helgi með Önnu Sif vinkonu. Ferðin var löngu plönuð í tilefni stórafmæla okkar en ég hafði þó ráðgert að vera búin með ritgerðina mína áður en ég færi. Bjartsýnin í hámarki hjá mér! Ég er auðvitað langt frá því að vera búin og endaði á því að vinna í ritgerðinni bæði nætur og daga fyrir ferðina. Nóttina áður en við fórum skrifaði ég til kl. 4.30 og átti þá eftir að pakka! Lagði svo af stað út á flugvöll hálftíma seinna. Ég náði þó að klára að skrifa það sem ég hafði ætlað mér og við Anna Sif áttum góða helgi í Stokkhólmi. VIð bjuggum á hóteli í Solna Centrum sem er stór verslunarmiðstöð í hverfinu sem ég bjó í þau 15 ár sem við fjölskyldan bjuggum í borginni. Það var svolítið skrítið að búa í verslunarmiðstöð sem maður þekkti svona vel, svipað eins og ef maður byggi heila helgi í Kringlunni! 🙂 En alveg frábær staðsetning, lobbýið okkar var fjórum skrefum frá H&M!

Svo var neðanjarðarlestarstöð í kjallaranum og það tekur bara 8 mínútur að fara í miðbæinn. Við hittum íslensku vinkonur mínar, sem búa enn í Stokkhólmi, eina kvöldstund og var boðið í gómsætan forrétt, sushi, hvítvín og sænska prinsessutertu! Annars þræddum við búðirnar og afrekuðum að komast út úr mollinu tvo heila daga en þeim eyddum við í miðbænum. Á laugardagskvöldinu fóru við út að borða ,,afmælis“máltíðina á Grill sem er frábær veitingastaður. Ljúffengur matur og ótrúlega skemmtilega innréttaður staður. Honum er skipt upp í nokkra mismunandi þemahluta og óhætt að segja að þeman séu tekin alla leið! Þarna er sirkus hluti, hluti sem er í rococo stíl, annar í frönskum kaffihúsastíl og svo framvegis.

Við náðum að kaupa fullt af jólagjöfum sem hentaði mér afar vel þar sem ég er sokkin aftur niður í ritgerðarskrif. Ég mun örugglega ekki komast í búðir aftur næstu vikurnar! En hér heima hafði heimilisfaðirinn allt undir stjórn en mér skilst að það hafi lítið verið eldað. Krakkarnir voru samt ekkert ósátt við að fá pizzur, Nings og Subway nokkra daga í röð! 🙂 Í gærkvöldi voru hins vegar bara ég og yngstu krakkarnir heima, Elfar og elstu krakkarnir voru að vinna. Ég ákvað því að leyfa þeim að velja matinn. Þau skoðuðu þetta blogg og langaði mest í hakkrétt með pizzuívafi. En þá mundi Jóhanna eftir svipuðum rétti sem ég gerði síðasta vetur og þeim fannst svo góður, hún vildi endilega að ég myndi gera hann aftur. Ég mundi líka eftir honum en það var fyrir tíma bloggsins og ég mundi ómögulega hvar ég hafði náð í uppskriftina. En þá kom sér vel að ég sendi oft sjálfri mér tölvupóst með linkum á uppskriftir sem ég dett niður á og eftir smá leit fann ég uppskriftina. Ég breytti henni aðeins, í upphaflegu uppskriftinni var spaghettí blandað saman við parmesan ost en ég notaði rifinn piparost í staðinn og fannst það koma enn betur út. Krökkunum fannst þessi réttur æði og ég verð að viðurkenna að mér fannst hann afskaplega góður líka! Ég mun örugglega búa hann til reglulega.

Uppskrift:
  • 400 gr spaghettí, soðið
  • 30 gr smjör
  • 1 askja rifinn piparostur (85 gr)
  • 2 egg
  • 900 gr nautahakk
  • salt og pipar
  • gott kjötkrydd
  • 1 tsk nautakraftur
  • 1/2 laukur, saxaður smátt
  • 1 krukka tómatsósa með basiliku frá Rinaldi (680 gr)
  • rifinn ostur
  • 1 bréf pepperóní
Bakarofn hitaður í 200 gráður. Spaghettí soðið eftir leiðbeiningum og blandað heitu vel saman við smjör, egg og rifinn piparost. Lagt í botninn á stóru eldföstu móti. Laukurinn steiktur á pönnu og nautahakkinu bætt út á pönnuna, kryddað. Hakkið steikt þar til það er eldað í gegn. Þá er því dreift yfir spaghettíið. Því næst er tómatsósunni hellt yfir hakkið. Rifnum osti dreift yfir og pepperóni raðað ofan á. Bakað í ofni í 25 mínútur.

3 hugrenningar um “Spaghettípizza með pepperóní

  1. Í kaffitímanum voru pönnukökurnar þínar sem voru æðislegar og svo þessi flotti réttur í kvöldmat. Eins og maðurinn minn sagði þegar ég sýndi honum uppskriftina “ það var einhver að nota höfuðið þegar hann bjó til þessa, allt sem mér finnst gott sett saman í einn rétt “
    Og allir borðuðu að sjálfsögðu með mestu list 😉

  2. Gerði þennann rétt ! Nýtti afganga af taco veislu gærdagsins. Allur súper ánægðir, aldursbilið var 7 – 61 árs. Á pottþétt eftir að gera þennan aftur og aftur og aftur…kær kveðja Kristín

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.