Kladdkaka er ein vinsælasta kakan í Svíþjóð. ,,Kladd“ þýðir ,,klístrug“ og lýsir því hversu blaut og þétt kakan er. Hún er án lyftidufts/matarsóda, það gefur henni þessa ljúffengu áferð og hún er í raun ekkert ólík brownies kökum. Klassíska kladdkakan er súkkulaðikaka og er oftast nær borin fram með þeyttum rjóma eða ís. Hér er aðeins öðruvísi útgáfa af kladdkökunni. Í hana er búið að bæta banana og sykurpúðum. Ótrúlega góð og djúsí kaka!Ég vissi ekki alveg hvað ég vildi hafa mikið af sykurpúðum og klippti því þá niður í frekar litla bita. Ég held að ég hafi þá stærri og fleiri næst, þeir gefa svo ofsalega gott bragð og áferð.
Uppskrift:
- 2 egg
- 3 dl sykur
- 100 gr smjör, brætt og kælt dálítið
- 1/4 tsk salt
- 1,5 dl hveiti
- 5 msk kakó
- 1 banani, maukaður
- sykurpúðar eftir smekk
Ofn hitaður í 175 gráður (undir og yfirhiti). Egg og sykur hrært saman (ekki þeytt). Hveiti og kakó sigtað út í og ásamt restinni af hráefninu, fyrir utan sykurpúðana. Hrært vel. Smelluform (ca 24 cm) smurt vel og deiginu hellt í formið. Sykurpúðunum stungið ofan í deigið að vild. Bakað við 175 gráður í 30 mínútur. Kakan borin fram volg með þeyttum rjóma eða ís. Líka góð köld!
Mun prófa þessa mjög fljótlega – lítur rosalega vel út!
Mér líst vel á það Áslaug! 🙂
Bakvísun: Kladdkaka með karamellukremi | Eldhússögur
Bakvísun: Súkkulaði-bananavöfflur | Eldhússögur
Vorum að klára þessa, mjög góð en þrýsti kannski ekki nógu vel sykurpúðunum ofan í deigið. Mun gera það næst 😉