„Kladdkaka“ með appelsínukaramellu Pippi og Rice krispies


Kladdkaka með appelsínukaramellu Pipp og Rice KrispiesÍ dag eiga Eldhússögur tveggja ára afmæli! Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég opnaði þetta blogg fyrir tveimur árum. Ég hef sett hingað á síðuna tæplega 400 uppskriftir og á heimsóknirnar farið vel yfir 20 þúsund á dag þegar mest lætur. Á eins árs afmælinu í fyrra setti ég inn uppskrift að algjörri kökubombu, Súkkulaðitertu með söltu karamellukremi. Tveggja ára afmælisuppskriftin getur ekki verið eftirbátur þeirrar köku og er það sannarlega ekki. Enda getur það ekki orðið annað en veisla fyrir bragðlaukana þegar sænsku kladdkökunni er blandað saman við nýjasta Pipp súkkulaðið og Rice krispies! Eins og ég hef talað um áður þá verð ég alltaf yfir mig spennt þegar það kemur nýtt súkkulaði á markaðinn og ég get ekki hamið mig fyrr en ég hef komið því á einhvern hátt inn í uppskrift að köku eða eftirrétti! 🙂 Að þessu sinni settu Nói og félagar nýtt Pipp súkkulaði á markaðinn, Pipp með appelsínukaramellukremi. Ég linnti auðvitað ekki látum fyrr en það var komið í köku hjá mér sem ég bauð stelpunum í saumó upp á nýverið.

IMG_6055

Uppskrift:

  • 3 egg
  • 2 1/2 dl sykur
  • 4 msk kakó
  • 2 dl Kornax hveiti
  • 1 tsk vanillusykur
  • 150 g smjör, brætt og kælt lítillega
  • 100 g Pipp með appelsínukaramellu

Ofan á kökuna:

  • ca. 6-7 dl Rice Krispies
  • ca. 2 dl mini marshmallow – litlir sykurpúðar  (fást í Søstrene Grene – má sleppa)
  • 100 g Siríus mjólkursúkkulaði
  • 100 g Siríus suðusúkkulaði
 Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita og 24. cm smelluform smurt að innan. Ég nota kökuform úr Kokku eins og sést hér, frábærlega þægileg og þá þarf ekki að ná kökunni úr forminu. Egg og sykur hrært saman (ekki þeytt) þar til blandan verður létt og ljós. Þá er þurrefnunum bætt út og að lokum brædda smjörinu. Hrært saman í stutta stund þar til allt hefur blandast vel saman, gætið þess þó að hræra ekki deigið of mikið. Deiginu er hellt í bökunarformið og Pipp súkkulaðið er brotið niður í bita og þeim raðað hér og þar ofan á deigið, bitunum er þrýst lítillega ofan í deigið. Bakað við 175 gráður í um það bil 25 mínútur. Athugið að kakan á að vera blaut og þó svo að hún virðist vera mjög blaut þegar hún kemur úr ofninum þá mun hún stífna þegar hún kólnar. Kakan er látin kólna í bökunarforminu áður en Rice krispies er sett ofan á.
IMG_6056

Mjólkursúkkulaði og suðusúkkulaði brætt saman yfir vatnsbaði. Rice krispies og sykurpúðum (má sleppa) bætt út í smátt og smátt og magnið af því metið miðað við súkkulaðið. Blöndunni er því næst hellt yfir kökuna (sem er enn í bökunarforminu) og dreift vel úr því. IMG_6062 Kakan látin kólna í ísskáp í minnst tvo tíma eða þar til Rice krispies blandan hefur stífnað. Það er gott að láta kökuna standa í smá stund við stofuhita áður en hún er borin fram með þeyttum rjóma.

IMG_6072IMG_6108

 

Klessukaka með Daimrjóma


Klessukaka með daimrjómaÉg er loksins komin út úr ákveðinni matargerðarlægð sem ég hef verið í undanfarið. Ég hef prófað mig áfram með hina og þessa matrétti án þess að ég hafi verið nægilega sátt við útkomuna. Ég set ekkert hingað inn á bloggið nema það sem ég er mjög ánægð með og get hugsað mér að elda/baka aftur. Venjulega hef ég haft um margt að velja til að setja inn á bloggið en upp í síðkastið hef ég sem sagt verið að lenda í því að hafa bara ekkert fram að færa á blogginu. En sem betur fer þá held ég að þetta tímabil sé yfirstaðið og núna er ég með nokkrar spennandi uppskriftir sem bíða birtingar! 🙂

Sænsku klessukökurnar halda áfram að fara sigurför á heimilinu! Þessa bakaði ég um helgina og hún er auðvitað löngu búin! Grunndeigið er afskaplega gott. Í því er suðusúkkulaði en oftast nær er bara kakó í sænskum klessukökum (kladdköku). Fyrir þá sem vilja ekki daimrjómann er hægt að baka bara kökuna og skreyta hana með berjum eða sáldra bara yfir hana flórsykri og bera fram með hindberjasósu og vanilluís. Sjálf kakan er algjört gúmmelaði og Daimrjóminn er punkturinn yfir i-ið!IMG_8594

Uppskrift:

  • 200 g smjör
  • 200 g suðusúkkulaði
  • 4 egg
  • 2 dl sykur
  • 2 dl hveiti

Daimrjómi:

  • 3 dl rjómi
  • 1/2 – 1 msk kakó
  • 1 1/2 msk flórsykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2 tvöfaldar pakkningar af Daim (56 g stk), samtals ca. 110 g

Ofn hitaður í 200 gráður undir/yfirhita. Smelluform (ca 24 cm) smurt að innan. Smjörið og súkkulaðið brætt varlega saman í potti. Egg og sykur þeytt þar til létt og ljóst. Þá er súkkulaðiblöndunni bætt út í. Að lokum er hveitinu bætt út í. Deiginu hellt í kökuformið og kakan bökuð við 200 gráður í ca 18-20 mínútur.  Kakan er þá kæld og gott er að láta hana svo standa í kæli í nokkra tíma áður en rjóminn er settur á og kakan borin fram.IMG_8603

Daimrjómi: Rjóminn er þeyttur ásamt kakói, vanillusykri og flórsykri sem hefur verið sigtað út í. Þá er Daimsúkkulaðið saxað og bætt út í þeytta rjómann með sleikju (það er gott að skilja smá eftir til að skreyta með) og Daimrjómanum því næst dreift yfir kökuna.IMG_8619

Snickerskaka


IMG_8101Í gær buðum við foreldrum mínum í hægeldað lambalæri. Við fórum í barnaafmæli seinnipartinn og komum ekki heim fyrr en rétt fyrir kvöldmat. En þegar maður er með svona læri og meðlæti í ofninum sem sér um sig sjálft þá er lítið mál að bjóða í mat þó lítill tími sé til eldamennsku. Ég bakaði köku í eftirrétt sem var algjört hnossgæti. Í raun er þetta sænsk „kladdkaka“ með hnetu- og súkkulaðikremi. Sænsku klessukökurnar eru ákaflega góðar, til dæmis er þessi sænska klessukaka ein sú vinsælasta á blogginu mínu. Öllum fannst okkur Snickerskakan jafngóð þeirri köku og sumum fannst hún meira að segja enn betri! Eins og með margar kökur þá var hún enn betri daginn eftir. Í gærkvöldi náði ég ekki að kæla hana alveg í tvo tíma með kreminu á þannig að kremið var enn mjúkt. En núna var ég að smakka þessa sneið sem myndin er af hér að neðan, kremið var þá orðið stökkt og kakan búin að brjóta sig …. namm, þvílíkt sælgæti! Eitt er allavega víst að það verður ekki hafin megrun hér á bæ á þessum mánudegi! 🙂 Þessa köku þurfa allir sælkerar að prófa!

IMG_8135

Uppskrift:

  • 4 egg
  • 4,5 dl sykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 8 msk kakó
  • 3 dl hveiti
  • 200 g smjör, brætt
  • 100 g Pipp súkkulaði með karamellu (má sleppa)

Krem:

  • 2 dl salthnetur
  • 200 g rjómasúkkulaði

IMG_8080

Ofninn hitaður í 175 gráður, undir- og yfirhita, og ca 26 cm smelluform smurt að innan. Smjörið brætt og látið kólna dálítið. Egg og sykur þeytt saman. Því næst er vanillusykri, kakói, bræddu smjöri og hveiti hrært út í. Deiginu er hellt í bökunarformið og pippmolunum þrýst ofan í deigið hér og þar. Því næst er kakan bökuð í miðjum ofni við 175 gráður (undir- og yfirhita) í 30 til 40 mínútur, kakan á að vera blaut í miðjunni.

(Í mínum ofni dugði 30 mínútna bökunartími en hjá sumum hefur kakan verið of blaut eftir 30 mínútur – það þarf að finna út rétta tímann fyrir hvern og einn ofn og fylgjast vel með kökunni. Athugið að hitinn er gefinn upp fyrir undir- og yfirhita, sami hiti á blæstri er í raun hærri hiti.)

Á meðan er rjómasúkkulaðið brætt yfir vatnsbaði og hnetunum bætt út í þegar súkkulaðið hefur bráðnað. Þegar kakan er komin úr ofninum og hefur kólnað dálítið er kreminu hellt yfir kökuna og hún kæld í minnst tvo tíma áður en hún er borin fram með þeyttum rjóma.

IMG_8091IMG_8105

Kladdkaka með banana og sykurpúðum


Kladdkaka er ein vinsælasta kakan í Svíþjóð. ,,Kladd“ þýðir ,,klístrug“ og lýsir því hversu blaut og þétt kakan er. Hún er án lyftidufts/matarsóda, það gefur henni þessa ljúffengu áferð og hún er í raun ekkert ólík brownies kökum. Klassíska kladdkakan er súkkulaðikaka og er oftast nær borin fram með þeyttum rjóma eða ís. Hér er aðeins öðruvísi útgáfa af kladdkökunni. Í hana er búið að bæta banana og sykurpúðum. Ótrúlega góð og djúsí kaka!Ég vissi ekki alveg hvað ég vildi hafa mikið af sykurpúðum og klippti því þá niður í frekar litla bita. Ég held að ég hafi þá stærri og fleiri næst, þeir gefa svo ofsalega gott bragð og áferð.

Uppskrift:
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • 100 gr smjör, brætt og kælt dálítið
  • 1/4 tsk salt
  • 1,5 dl hveiti
  • 5 msk kakó
  • 1 banani, maukaður
  • sykurpúðar eftir smekk

Ofn hitaður í 175 gráður (undir og yfirhiti). Egg og sykur hrært saman (ekki þeytt). Hveiti og kakó sigtað út í og ásamt restinni af hráefninu, fyrir utan sykurpúðana. Hrært vel. Smelluform (ca 24 cm) smurt vel og deiginu hellt í formið. Sykurpúðunum stungið ofan í deigið að vild. Bakað við 175 gráður í 30 mínútur. Kakan borin fram volg með þeyttum rjóma eða ís. Líka góð köld!