Snickerskaka


IMG_8101Í gær buðum við foreldrum mínum í hægeldað lambalæri. Við fórum í barnaafmæli seinnipartinn og komum ekki heim fyrr en rétt fyrir kvöldmat. En þegar maður er með svona læri og meðlæti í ofninum sem sér um sig sjálft þá er lítið mál að bjóða í mat þó lítill tími sé til eldamennsku. Ég bakaði köku í eftirrétt sem var algjört hnossgæti. Í raun er þetta sænsk „kladdkaka“ með hnetu- og súkkulaðikremi. Sænsku klessukökurnar eru ákaflega góðar, til dæmis er þessi sænska klessukaka ein sú vinsælasta á blogginu mínu. Öllum fannst okkur Snickerskakan jafngóð þeirri köku og sumum fannst hún meira að segja enn betri! Eins og með margar kökur þá var hún enn betri daginn eftir. Í gærkvöldi náði ég ekki að kæla hana alveg í tvo tíma með kreminu á þannig að kremið var enn mjúkt. En núna var ég að smakka þessa sneið sem myndin er af hér að neðan, kremið var þá orðið stökkt og kakan búin að brjóta sig …. namm, þvílíkt sælgæti! Eitt er allavega víst að það verður ekki hafin megrun hér á bæ á þessum mánudegi! 🙂 Þessa köku þurfa allir sælkerar að prófa!

IMG_8135

Uppskrift:

  • 4 egg
  • 4,5 dl sykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 8 msk kakó
  • 3 dl hveiti
  • 200 g smjör, brætt
  • 100 g Pipp súkkulaði með karamellu (má sleppa)

Krem:

  • 2 dl salthnetur
  • 200 g rjómasúkkulaði

IMG_8080

Ofninn hitaður í 175 gráður, undir- og yfirhita, og ca 26 cm smelluform smurt að innan. Smjörið brætt og látið kólna dálítið. Egg og sykur þeytt saman. Því næst er vanillusykri, kakói, bræddu smjöri og hveiti hrært út í. Deiginu er hellt í bökunarformið og pippmolunum þrýst ofan í deigið hér og þar. Því næst er kakan bökuð í miðjum ofni við 175 gráður (undir- og yfirhita) í 30 til 40 mínútur, kakan á að vera blaut í miðjunni.

(Í mínum ofni dugði 30 mínútna bökunartími en hjá sumum hefur kakan verið of blaut eftir 30 mínútur – það þarf að finna út rétta tímann fyrir hvern og einn ofn og fylgjast vel með kökunni. Athugið að hitinn er gefinn upp fyrir undir- og yfirhita, sami hiti á blæstri er í raun hærri hiti.)

Á meðan er rjómasúkkulaðið brætt yfir vatnsbaði og hnetunum bætt út í þegar súkkulaðið hefur bráðnað. Þegar kakan er komin úr ofninum og hefur kólnað dálítið er kreminu hellt yfir kökuna og hún kæld í minnst tvo tíma áður en hún er borin fram með þeyttum rjóma.

IMG_8091IMG_8105

Kladdkaka með karamellukremi


IMG_7460Ég hef sett inn áður uppskrift af sænskri klessuköku (kladdkaka), þessari hérna. Kladdkökurnar eru í ætt við brownies, blautar og bragðgóðar. Þessi kladdkaka fer í hæstu hæðir með einstaklega ljúffengu karamellukremi. Ég ætla ekki einu sinni að segja frá því hversu fljótt hún kláraðist hér heima! Þetta er afskaplega hentug kaka til að bjóða í eftirrétt og þá er ofsalega gott að bera fram með henni ís og/eða þeyttan rjóma auk ferskra berja og ávaxta. Þetta er ákaflega einföld kaka að baka og það er hægt að búa hana til með góðum fyrirvara. Það er heldur ekkert mál að frysta hana með karamellukreminu á. Þessi fær toppeinkunn frá öllum fjölskyldumeðlimunum, þið verðið að prófa! 🙂

Uppskrift:

  • 100 g smjör
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • 1 1/2 dl hveiti
  • 5 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • hnífsoddur salt

Bakarofn hitaður í 175 gráður, undir- og yfirhita. Smjörið brætt. Restin af hráefninu sett í skál og brædda smjörinu bætt út, hrært þar til að deigið hefur blandast vel saman. Bakað í smurðu lausbotna formi (ca.22 – 24 cm) eða sílikonformi við 175 gráður í 20 mínútur. Kökunni leyft að kólna í ca 10 mínútur.

IMG_7423

Karamellukrem:

  • 2 dl rjómi
  • 1 dl sykur
  • 1 dl síróp
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 100 g smjör

IMG_7439

IMG_7434

Öll hráefnin, fyrir utan smjörið, sett í pott. Hrært í blöndunni og suðan látin koma upp. Blandan látin malla þar til að hún þykknar, tekur ca. 10 mínútur, gott að hræra í svolítið á meðan. Þá er potturinn tekin af hellunni og smjörinu bætt út í. Hrært þar til allt hefur blandast vel saman. Ég lét kremið standa um stund til þess að það yrði aðeins þykkara. Þá er kreminu hellt yfir kökuna og hún látin kólna í ísskáp í ca. 2-3 tíma. Borin fram með þeyttum rjóma og/eða ís, og jafnvel góðri blöndu af berjum.

img_7456