„Kladdkaka“ með appelsínukaramellu Pippi og Rice krispies


Kladdkaka með appelsínukaramellu Pipp og Rice KrispiesÍ dag eiga Eldhússögur tveggja ára afmæli! Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég opnaði þetta blogg fyrir tveimur árum. Ég hef sett hingað á síðuna tæplega 400 uppskriftir og á heimsóknirnar farið vel yfir 20 þúsund á dag þegar mest lætur. Á eins árs afmælinu í fyrra setti ég inn uppskrift að algjörri kökubombu, Súkkulaðitertu með söltu karamellukremi. Tveggja ára afmælisuppskriftin getur ekki verið eftirbátur þeirrar köku og er það sannarlega ekki. Enda getur það ekki orðið annað en veisla fyrir bragðlaukana þegar sænsku kladdkökunni er blandað saman við nýjasta Pipp súkkulaðið og Rice krispies! Eins og ég hef talað um áður þá verð ég alltaf yfir mig spennt þegar það kemur nýtt súkkulaði á markaðinn og ég get ekki hamið mig fyrr en ég hef komið því á einhvern hátt inn í uppskrift að köku eða eftirrétti! 🙂 Að þessu sinni settu Nói og félagar nýtt Pipp súkkulaði á markaðinn, Pipp með appelsínukaramellukremi. Ég linnti auðvitað ekki látum fyrr en það var komið í köku hjá mér sem ég bauð stelpunum í saumó upp á nýverið.

IMG_6055

Uppskrift:

  • 3 egg
  • 2 1/2 dl sykur
  • 4 msk kakó
  • 2 dl Kornax hveiti
  • 1 tsk vanillusykur
  • 150 g smjör, brætt og kælt lítillega
  • 100 g Pipp með appelsínukaramellu

Ofan á kökuna:

  • ca. 6-7 dl Rice Krispies
  • ca. 2 dl mini marshmallow – litlir sykurpúðar  (fást í Søstrene Grene – má sleppa)
  • 100 g Siríus mjólkursúkkulaði
  • 100 g Siríus suðusúkkulaði
 Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita og 24. cm smelluform smurt að innan. Ég nota kökuform úr Kokku eins og sést hér, frábærlega þægileg og þá þarf ekki að ná kökunni úr forminu. Egg og sykur hrært saman (ekki þeytt) þar til blandan verður létt og ljós. Þá er þurrefnunum bætt út og að lokum brædda smjörinu. Hrært saman í stutta stund þar til allt hefur blandast vel saman, gætið þess þó að hræra ekki deigið of mikið. Deiginu er hellt í bökunarformið og Pipp súkkulaðið er brotið niður í bita og þeim raðað hér og þar ofan á deigið, bitunum er þrýst lítillega ofan í deigið. Bakað við 175 gráður í um það bil 25 mínútur. Athugið að kakan á að vera blaut og þó svo að hún virðist vera mjög blaut þegar hún kemur úr ofninum þá mun hún stífna þegar hún kólnar. Kakan er látin kólna í bökunarforminu áður en Rice krispies er sett ofan á.
IMG_6056

Mjólkursúkkulaði og suðusúkkulaði brætt saman yfir vatnsbaði. Rice krispies og sykurpúðum (má sleppa) bætt út í smátt og smátt og magnið af því metið miðað við súkkulaðið. Blöndunni er því næst hellt yfir kökuna (sem er enn í bökunarforminu) og dreift vel úr því. IMG_6062 Kakan látin kólna í ísskáp í minnst tvo tíma eða þar til Rice krispies blandan hefur stífnað. Það er gott að láta kökuna standa í smá stund við stofuhita áður en hún er borin fram með þeyttum rjóma.

IMG_6072IMG_6108

 

Stökkir Marsmolar


IMG_6182

Þá er fallega jólatréð okkar í garðinum loksins farið að skína! Elsku maðurinn minn sýndi aðdáunarverða stillingu þegar hann fór með seríuna þrisvar í viðgerð, fór þrjár ferðir til að kaupa fleiri og fleiri perur og setti seríuna einu sinni í tréð en þurfti að taka hana niður aftur þegar hún virkaði ekki! Eftir þriggja vikna basl fram og tilbaka fékk hann loks nýja seríu sem er komin í tréð og verður líklega ekki tekin niður á milli jóla héðan í frá! 😉

IMG_6217

Elfar, sem er nýbúinn að eignast Iphone, skjalfesti ferlið vel og vandlega! Þeir sem fylgjast með honum á Instagram fengu þetta beint í æð allan daginn! 🙂

Tré

Ég hef eytt öllum mínum tíma í ritgerðina undanfarið og hef engan tíma haft til að njóta aðventunnar almennilega finnst mér. Mér tókst núna um helgina að senda frá mér tæplega 27 þúsund orð til leiðbeinandans sem þýðir að ef að hún er sátt þá á ég ekki langt í land! 🙂 Ég leyfði mér af því tilefni að búa til dálítið jólanammi. Þetta er klárlega stysta uppskriftin sem ég hef sett hér inn! Þá meina ég bæði að í uppskriftinni eru fá hráefni og hún er afar fljótleg að útbúa. En þetta er mögulega líka ein bragðbesta uppskriftin á blogginu! Enda getur það varla klikkað þegar maður tekur súkkulaðistykki og bætir við það meira gúmmelaði! 🙂 Næst ætla ég að prófa að nota Snickers, það er örugglega hrikalega gott! Þetta eru sjúklega góðir bitar, þið verðið bara að prófa.

IMG_6189

Uppskrift:

  • 4 mars
  • 90 gr smjör
  • 60 gr Rice Krispies

Smjör og Mars brætt saman í potti við vægan hita þar til það er bráðnað saman. Þá er potturinn tekinn af hellunni og Rice Krispies bætt út í. Því næst eru mótaði litlir molar með skeið (ég lagði þá í skeiðina og mótaði þá aðeins til með fingrunum líka) og þeir lagðir á bökunarpappír. Molarnir látnir kólna. Molana þarf ekki að setja í kæli, þeir harðna og verða stökkir og góðir við stofuhita.

IMG_6179