Sætar kartöflur með jurtasalti og blóðbergssírópi


IMG_4803*Í samstarfi við Urtu*

Í vor vann ég nokkrar uppskriftir fyrir fyrirtækið Urtu Islandica. Þau eru gera ákaflega spennandi hluti! Þau nota íslenskar jurtir og ber til að framleiða meðal annars salt, síróp og te. Ég hvet ykkur til að kíkja til þeirra í fallega húsið þeirra í Hafnarfirði, Gömlu matarbúðina við Austurgötu, og skoða þetta skemmtilega fjölskyldufyrirtæki og framleiðsluna þeirra. Vörurnar fást að auki í Hagkaup í Kringlunni.

IMG_4811

Ég hreinlega elska sætar kartöflur! Ég fæ ekki nóg af þeim en því miður eru börnin ekki eins hrifin, elsta dóttirin segist hafa borðað yfir sig af þeim og gefur þar með í skyn að móðirin hafi boðið aðeins of oft upp á sætar kartöflur sem meðlæti í gegnum tíðina .. sem ég bara skil ekki! 😉 Ég gæti nefnilega grínlaust borðað sætar kartöflur í hvert mál. Mér finnst mikilvægt að leyfa sætu kartöflunum að njóta sín í einfaldleika sínum þegar þær eru matreiddar og hér bjó ég til uppskrift þar sem mér finnst sætu kartöflurnar njóta sín fullkomlega. Ég notaði þær með ljúffengum fiskrétti (uppskrift kemur á bloggið innan skamms) og fannst þessi réttur algjört hnossgæti. Það væri örugglega dásamlega gott líka að nota þær með t.d. kjúklingi eða grillmat.

IMG_4775

Uppskrift:

  • 900 g sætar kartöflur, flysjaðar og skornar bita
  • 3 msk ólífuolía
  • svartur pipar
  • ca. 30 ml blóðbergssíróp
  • 100 g pekanhnetur
  • öræfa jurtasalt
  • fersk steinselja

Ofn hitaður í 210 gráður við undir- og yfirhita. Ólífuolíu, svörtum pipar og blóðbergssírópi blandað saman og dreift á ofnplötu klædda bökunarpappír. Bakað við 210 gráður í 25-30 mínútur. Þá eru sætu kartöflurnar teknar úr ofninum, pekan hnetunum blandað saman við þær ásamt öræfa jurtasalti og ferskri steinselju.

IMG_4791

Kartöflur á 10 vegu


Um daginn ákváðum við nokkrir matarbloggarar að hittast og fara út að borða saman. Auk mín var það Albert hjá Albert eldar, Berglind hjá Gulur, rauður, grænn og salt, Ragnar Freyr hjá Læknirinn í eldhúsinu, Svava hjá Ljúfmeti, Thelma hjá Freistingar Thelmu og Eva Laufey hjá EvaLaufeyKjaran. Þið getið rétt ímyndað ykkur valkvíðann þegar sjö matarbloggarar ætla að ákveða veitingastað, matur skiptir okkur nefnilega frekar miklu máli! 🙂 Fljótlega kom MAT BAR upp í umræðunni, nýr veitingastaður sem hefur bæst við nýkomnu veitingahúsaflóruna á Hverfisgötu. Albert hafði farið þangað áður, en hann er duglegur að taka út veitingahús bæjarins. Þegar hann sagði okkur að þessi veitingastaður hefði strax farið upp í topp þrjú sætin í hans bókum þá gátum við ekki beðið eftir að prófa! Það er skemmst frá því að segja að við áttum frábæra kvöldstund saman. Það er æðisleg stemmning á Matbar, staðurinn sérstaklega vel heppnaður í hönnun en það allra mikilvægasta, maturinn stórkostlegur! Hér er hægt að lesa nánari úttekt hjá Alberti um þennan frábæra stað. Það er svo skemmtilegt hvernig Hverfisgatan er að verða ein mest spennandi og besta veitingahúsagata borgarinnar, ekki hefði mann grunað það fyrir nokkrum árum! 🙂 Næst á dagskrá hjá hópnum er að hittast seinna í vor í eldhúsi læknisins, honum Ragnari Frey, og elda saman. Það verður eitthvað! 🙂

Desktop

Recently Updated

Frábær matur í yndislegum félagsskap!

Hér að neðan hef ég tekið saman 10 góðar kartöfluuppskriftir. Ég elska kartöflur og finnst alltaf gaman að breyta til í matreiðslunni á þeim. Manni hættir oft til að festast í sama meðlætinu og matreiða það á sama hátt. Hér eru tíu tillögur að gómsætum kartöflum sem gætu  sæmt sér vel með hátíðarmatnum um páskana sem færast óðfluga nær! 🙂

Krumpaðar kartöflur

krumpaðar 

 Uppskrift:

  • 60 gr. smjör
  • 1 kg kartöflur
  • maldon salt
  • nýmalaður svartur pipar.

Þvoið kartöflurnar vel með hýðinu á. Hitið smjörið í potti. Látið kartöflurnar út í og steikið í nokkrar mínútur, gætið þess að hafa hitann ekki of háan. Kryddið með salti og pipar. Lækkið hitann og látið steikjast áfram í um það bil 40 mín undir loki (fer eftir stærð og fjölda), hristið pottinn vel öðru hverju.

Kartöflur í kryddi

 kryddaðar

 Uppskrift:

  • 1 kg kartöflur
  • 40 g furuhnetur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 búnt basilika
  • 1 búnt steinselja
  • 1 tsk. salt
  • 2 msk ólífuolía

Sjóðið kartöflurnar í saltvatni í 20 mín og sigtið síðan. Setjið hnetur, krydd og olíu í matvinnsluvél og maukið. Blandið svo saman heitar kartöflurnar. Einnig má blanda saman við brytjaðar kartöflur og baka í ofni í 45 mín.

  

Parmesanristaðar kartöflur

 parmesan

 Uppskrift:

  • 700 g kartöflur
  • 3 msk ólífuolía
  • 60 g ferskur parmesan, rifinn fínt
  • ca 1 1/2 tsk maldon salt
  • grófmalaður svartur pipar
  • 1 tsk paprikukrydd

Ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflurnar þvegnar vel og skornar í bita á þennan hátt (mér finnst best að hafa hýðið með). Parmesan osti og kryddi blandað saman. Kartöflunum er velt upp úr olíunni og svo blandað vel saman við parmesanblönduna. Kartöflunum er síðan raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír, dreift vel úr þeim. Bakað í ofni í 30-40 mínútur, mikilvægt er að snúa við kartöflunum 2-3svar á meðan þær eru í ofninum. 

Hasselback kartöflur

hasselback

 Uppskrift:

  • 8 stórar kartöflur
  • 50 gr. smjör + 25 gr. bætt við þegar kartöflurnar eru í ofninum
  • 2 msk. ólífuolía
  • Maldon salt.

Hitið bakarofn í 220 gráður. Kartöflur þvegnar eða skrældar (ég mæli með að hafa hýðið á, mikið betra!) Raufar skornar í kartöflurnar með nokkra millimetra millibili. Skera skal djúpt niður en þó ekki þannig að kartaflan detti í sundur. Smjör og olía brædd saman í potti. Kartöflum raðað í ofnskúffu og smjörinu og olíunni hellt yfir kartöflurnar. Snúið kartöflunum nokkrum sinnum og veltið þeim þannig vel upp úr smjörinu. Stráið Maldon salti yfir kartöflurnar. Setjið í ofn og bakið í ca. 50 – 60 mínútur, fer eftir stærð kartaflanna, eða þar til þær eru gullinbrúnar. Þegar bökunartímin er rúmlega hálfnaður hafa kartöflurnar opnað sig aðeins og þá er gott að bæta við smá smjörklípu ofan á hverja kartöflu.

Chili kartöflur með papriku

 papriku

 Uppskrift:

  • 2 rauðar paprikur sneiddar gróft
  • 600 gr. kartöflur
  • 2 hvítlauksgeirar, hakkaðir fínt
  • 2-3 msk ólífuolía
  • 1 tsk. Sambal Oelek (chilimauk)
  • 1 tsk. paprikuduft
  • maldon salt og nýmalaður pipar

Bakarofn hitaður í 220 gráður. Kartöflur skrældar eða þvegnar og því næst skornar í helminga (eða báta ef þær eru mjög stórar) og lagðar í eldfast mót með paprikunni. Sambal oelek, ólífuolíu og hvítlauk hrært saman og dreift yfir. Kryddað með salti og pipar og smá skvettu af ólífuolíu helt helt yfir. Hitað í ofni í ca. 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru tilbúnar.

 

Brúnaðar kartöflur

 brúnaðar

Uppskrift:

  • 35 gr smjör
  • 100 gr sykur
  • 0,25 dl rjómi
  • 1 kíló kartöflur

Kartöflur soðnar og afhýddar. Smjör og sykur hitað á pönnu þar til blandan hefur bráðnað og dökknað þá er kartöflunum bætt út í. Rjómanum bætt við og kartöflunum vellt upp úr bráðinni á fremur háum hita þar til þær eru allar sykurhúðaðar jafnt. 

 

Kartöflugratín f. 8-10

gratíngratíngratín1

 Uppskrift:

  • ca 1,5 kíló kartöflur
  • 4 dl rjómi
  • 4 dl mjólk
  • hálfur rauðlaukur, skorin í strimla
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 grænmetisteningur
  • Töfrakrydd, salt og pipar
  • rifinn ostur

Kartöflurnar skolaðar vel (gott að hafa hýðið á) og svo skornar í skífur, sumir vilja hafa þær næfurþunnar, mér finnst best að hafa þær ca 1 cm á þykkt. Hvítlaukur og laukur skorinn niður. Mjólk og rjómi settur í stóran pott ásamt hvítlauk, lauk, grænmetisteningi og kryddi. Ég nota Töfrakrydd frá pottagöldrum, það er góð kryddjurtablanda með cheddar osti sem hentar vel en það er hægt að nota hvaða krydd sem hugurinn girnist. Sjóðið við vægan hita í 15-20 mínútur (fer svolítið eftir þykkt kartaflanna), eða þar til þær eru orðnar vel mjúkar. Hellið kartöflublöndunni í eldfast mót, dreifið rifnum osti yfir og hitið í ofni við 200 gráður í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og orðin gullinbrúnn.

 

Kartöflustappa með beikoni

stappa

Uppskrift:

  • 1 kg kartöflur
  • 200 g beikon
  • 3 dl matreiðslurjómi eða nýmjólk
  • 50 g smjör
  • salt og pipar

Kartöflurnar eru soðnar, flysjaðar, settar í pott og stappaðar vel. Beikonið er skorið í litla bita og steikt þar til það er stökkt.  Við vægan hita er smjöri, rjóma (eða mjólk) hrært saman við stöppuna ásamt 200 g af steiktum beikonbitum. Kryddað með salti og pipar.

 

Ofnbakaðar kryddjurtakartöflur

ofnbakaðarofnbakaðar1 

Uppskrift:

  • 1 kíló meðalstórar kartöflur (af svipaðri stærð)
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 msk smjör
  • 15 g fersk basilika
  • 15 g fersk flatblaða steinselja
  • maldon salt og nýmalaður pipar

Ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflurnar eru þvegnar, þerraðar og skornar í tvennt. Þá er þeim velt upp úr ólífuolíu, salti og pipar. Ofnplata smurð með smjöri og kartöflunum raðað á plötuna með skornu hliðina niður. Því næst eru þær hitaðar í ofni í 25-30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar í gegn og hafa tekið góðan lit. Á meðan er basilika og steinselja söxuð smátt og sett í skál ásamt 1 matskeið af smjöri. Þegar kartöflurnar koma úr ofninum eru þær strax settar í skálina og blandað vel saman við smjörið og kryddjurtirnar. Kryddað með salti og pipar eftir smekk.

  

Steiktar kartöfluskífur:

skífur 

Uppskrift:

  • kartöflur
  • smjör og ólífuolía
  • salt & pipar
  • annað krydd (t.d. rósmarín, timjan)

Kartöflurnar þvegnar vel (ekki afhýddar) og skornar í fremur þykkar skífur. Skífurnar eru forsoðnar í nokkrar mínútur og vatnið látið renna vel af skífunum. Smjörið og ólífuolían hituð á pönnu og kartöflurnar steiktar upp úr kryddinu og olíunni við meðalhita og þeim snúið oft þar til allar skífurnar eru steiktar í gegn.

Parmesanristaðar kartöflur


Parmesanristaðar kartöflur

Þetta er svo spennandi tími árs því nú er gósentíð í bókaútgáfu, þegar allar bækurnar koma út fyrir jólin. Þar sem ég starfa á skólabókasafni þá eiga barna- og unglingabækurnar hug minn allan. Ég nota hvert tækifæri til þess að koma við í bókabúð og skoða nýútkomnar bækur. Fyrir utan innihaldið þá skoða ég bækurnar kannski svolítið á annan hátt en aðrir. Til dæmis spái ég í leturgerðina sem er ákaflega mikilvæg í barnabókum. Ég skoða líka myndirnar, til dæmis eru forsíðumyndirnar á barnabókum ótrúlega mikilvægar. Krakkarnir „mínir“ sneiða til að mynda ítrekað framhjá ákveðnum bókaflokki sem er mjög skemmtilegur en með afar óspennandi myndum á forsíðunum. Að auki skoða ég uppsetningu, hvernig bækurnar eru innbundnar og margt annað. Ég horfi líka alltaf á höfundanafnið og út frá því raða ég í huganum viðkomandi bók í rétta hillu á bókasafninu mínu, svona til að átta mig á hvar hún muni eiga heima – pínu nördalegt, ég veit! 🙂 Þó svo að barnabækurnar eigi hug minn allan þá fylgja uppskriftabækurnar þar fast á eftir. Í ár virðist vera ár matarbloggara þegar kemur að útgáfu matreiðslubóka. Um daginn minntist ég einmitt á bókina hans Steingríms sem rekur matarvefinn Vínótek, vissulega ekki beint matreiðslubók en afar fróðleg og falleg bók um vín. Nanna Rögnvaldsdóttir, matarbloggari með meiru, var að gefa út matreiðslubók með kjúklingauppskriftum og von er á matreiðslubók eftir Evu Laufeyju Kjaran.

Í dag var svo útgáfufagnaður fyrir matreiðslubók Ragnars Freys, læknisins í eldhúsinu. Ég held að það sé hægt að fullyrða að hann sé einn af fyrstu íslensku matarbloggurunum (ásamt Nönnu Rögnvalds) en hann byrjaði að blogga fyrir sjö árum. Mér áskotnaðist nýútkomna bókin hans, Læknirinn í eldhúsinu – tími til að njóta.

IMG_1023

Hún er tæplega 500 síður og ákaflega fallega innbundin, augnayndi fyrir uppskriftabókahilluna og happdrættisvinningur fyrir bragðlaukana! 😉 Þetta er svo mikill doðrantur að ég hef ekki enn lesið í gegnum hana alla en vá hvað mér líst vel á þessa bók! Ótrúlega girnilegar og spennandi uppskriftir. Ragnar segir sjálfur í formálanum að honum hafi verið legið á hálsi að vera stundum með of flóknar uppskriftir á blogginu. Matreiðslubókin hins vegar er með afar aðgengilegum og einföldum uppskriftum. Að hverri uppskrift er stuttur inngangur, líkt og á blogginu, sem er gaman að lesa. Oft og tíðum finnst mér galli á uppskriftabókum að í þeim eru bara örfáar uppskriftir sem mann langar til að prófa. Eftir að hafa flett í gegnum lungann af bókinni hans Ragnars þá verð ég að segja að þetta vandamál á ekki við um hans bók, mig langar að prófa hverju einustu uppskrift! 🙂 Ég get sannarlega mælt með þessari bók í jólapakkann og óskar Ragnari Frey innilega til hamingju með þetta stórvirki!

IMG_1030

Uppskriftin sem ég skrái hins vegar hérna á bloggið mitt í dag er að dásamlega góðum parmesan kartöflum sem passa sem meðlæti með flestu. Ég var búin að sjá þessa uppskrift í nokkrum útgáfum á mörgum erlendum bloggum og varð að prófa. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum, þetta er frábær uppskrift.

Uppskrift:

  • 700 g kartöflur
  • 3 msk ólífuolía
  • 60 g ferskur parmesan, rifinn fínt (eða keyptur rifinn í pokum)
  • ca 1 1/2 tsk maldon salt
  • grófmalaður svartur pipar
  • 1 tsk paprikukrydd

Ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflurnar þvegnar vel og skornar í bita á þennan hátt (mér finnst best að hafa hýðið með).

IMG_0597

Parmesan osti og kryddi blandað saman. Kartöflunum er velt upp úr olíunni og svo blandað vel saman við parmesanblönduna. Kartöflunum er síðan raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír, dreift vel úr þeim. Bakað í ofni í 30-40 mínútur, mikilvægt er að snúa við kartöflunum 2-3svar á meðan þær eru í ofninum.

IMG_0650

Sætar kartöfluskífur með karamellíseruðu kryddmauki


Sætar kartöfluskífur með karamellíseruðu kryddmaukiUm helgina bjó ég til súpergott meðlæti með sunnudagssteikinni. Mér finnst sætar kartöflur svo góðar og mig langaði að búa til eitthvað nýtt úr þeim. Úr varð að ég gerði sætar kartöfluskífur með karamellíseruðu kryddmauki. Mér fannst það koma svo vel út að ég hefði alveg getað haft þær í aðalrrétt! 🙂

IMG_0632

Uppskrift

  • 700 g sætar kartöflur (gott að reyna að velja fremur ílangar til að sneiðirnar verði fleiri og minni)
  • 2 msk púðursykur
  • 1 tsk sjávarsalt (t.d. frá Saltverk)
  • 1/2 tsk cumin
  • 1/2 tsk paprika
  • 1 tsk chili flögur eða duft (ég notaði chili explosion)
  • 1/2 tsk hvítlauksduft
  • ca 1/2 tsk grófmalaður svartur pipar
  • 3 msk smjör, brætt
  • 3 msk olía

 Sætu kartöflurnar eru skrældar og skornar í sneiðar, ca 1 og 1/2 cm á þykkt. Vatn er sett í pott, saltað og suðan látin koma upp. Þá eru sætu kartöflusneiðarnar settar út í og látnar sjóða þar til þær fara að mýkjast, í ca. 10-12 mínútur. Ofn er hitaður í 200 gráður. Kryddunum ásamt púðursykrinum er blandað saman í litla skál. Brædda mjörinu og olíunni er blandað saman. Þegar kartöflusneiðarnar eru farnar að mýkjast eru þær veiddar upp úr pottinum, gott að raða þeim á grind, þeim leyft að kólna aðeins og þerraðar með eldhúspappír (þær þurfa að vera þurrar til að karamellíserast í ofninum).

IMG_0600

Kartöfluskífunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír, hliðin sem snýr upp á skífunum er smurð vel með helmingnum af smjör-olíublöndunni. Því næst er helmingnum af kryddblöndunni dreift yfir kartöfluskífurnar og þrýst dálítið ofan í smjörblönuna. Þá er skífunum snúið við og þetta endurtekið á þeirri hlið með afgangnum af smjör- og kryddblöndunni.

IMG_0611

Sett inn í ofn í 10-15 mínútur þar til kryddblandan hefur tekið góðum lit og er farin að karamellíseras. Þá er platan tekin út, kartöfluskífunum snúið við og sett aftur inn í ofn í 10-15 mínútur þar til kryddblandan þeim megin hefur einnig tekið lit og bráðnað vel. Borið fram sem meðlæti með til dæmis grilluðu lambakjöti, kjúklingi eða hverju því sem hugurinn girnist.

IMG_0624Ekki verra að bera þær fram með grilluðum lambalundum með bearnaise sósu.

IMG_0642

Töfrar indverskrar matargerðarlistar hjá Salti eldhúsi


IMG_0431

Þá er enn ein annasöm en skemmtileg vika þotin hjá. Reyndar var kannski aðeins of mikið að gera hjá mér, ég þurfti að vera í aukavinnunni minni á kvöldin og náði því til dæmis ekkert að blogga eins og mig langaði til. En síðastliðið fimmtudagskvöld fór ég á frábært matreiðslunámskeið hjá Salti eldhúsi. Ég valdi að fara á námskeið í indverskri matargerð og sé ekki eftir því. Kennarinn á námskeiðinu var Shabana Zaman sem á ættir sínar að rekja til Indlands. Hún er ekki bara snillingur í eldhúsinu heldur er hún líka Waldorf-kennari, sjáandi, söngkona, heilari og fleira. Til að gera langa sögu stutta átti ég frábæra kvöldstund við matargerð í góðum félagsskap.

IMG_0485Hápunktur kvöldsins var svo að snæða dásamlega indverska rétti, sem hópurinn bjó til undir handleiðslu Shabana, með góðu hvítvíni og hlusta á Shabana fræða okkur um Indland, indversk krydd og matargerð auk annars fróðleiks. Shabana hefur í mörg ár boðið upp á þá þjónustu að fara á heimili fólks og elda indverskan mat fyrir matargesti. Það er þó ekki það eina sem Shabana gerir því með heillandi persónuleika sínum færir hún matargerðina upp á annað stig með fróðleik, söng og skemmtilega nálgun á heilandi og andleg málefni, hvort sem um er að ræða lækningamátt krydda eða annað.

IMG_0457Hér er Shabana að sýna okkur ákaflega einfalt og gott indverskt brauð sem gott er að dýfa í gómsætu sósurnar.

IMG_0467

Allir að reyna að feta í fótspor Shabana!

IMG_0474 IMG_0476Gott að bera smjör á heitt brauðið

Ég hef aldrei áður farið á námskeið hjá Salti eldhúsi, bara heyrt ótrúlega góðar sögur sem fara af námskeiðunum þar. Núna er ég komin í hópinn með „frelsaða“ fólkinu og get ekki beðið eftir því að komast þangað á annað námskeið! 🙂 Eftir þessa kvöldstund þá veit ég vel hvað það er sem heillar alla sem farið hafa á Salt námskeiðin. Það er í raun ofureinföld jafna sem er samt ekki á færi allra að framkvæma, hún er eftirfarandi; Húsið sem hýsir eldhúsið er sjarmerandi og fallegt. Þar er lögð áhersla á smáatriði, hlýlegt og fallegt umhverfi en ekki síst fullkomna aðstöðu til matargerðar og allt er spikk og span!

IMG_0448Skemmtilegt matarstell sem kemur héðan og þaðan.

Auður Ögn, sem rekur eldhúsið, vakir og sefur greinilega með námskeiðunum sínum, til dæmis eru öll hráefnin sem hún kaupir inn þau bestu og þar er augljóslega hvergi til sparað.

IMG_0424

Ferskt og gott hráefni

Eitt dæmi er að þegar allra dásamlega góðu réttanna, sem matreiddir eru á námskeiðinu, er neytt þá er ekki boðið upp á eitt lítið hvítvínsglas með matnum úr ódýrustu „beljunni“ úr Ríkinu. Nei, Auður sendir inn uppskriftirnar til „sommelier“ (vínþjóns) sem finnur út hvaða vín hæfir matnum best. Á meðan námskeiðinu stendur er boðið upp á bjór og með matnum er svo boðið upp á besta vínið sem hæfir matnum hverju sinni og fyllt á glösin að vild! Vatnið er borið fram í fallegum flöskum með hindberjum og myntu. Þegar mætt er á námskeiðið er boði upp á girnilegar veitingar –  þetta eru svona smáatriði sem skipta svo miklu máli.

IMG_0488

Á meðan námskeiðinu stendur þá er Auður sjálf á staðnum, auk kennarans, og sér til þess að allt gangi vel og stjanar í kringum alla og auk þess er stúlka sem sér um allt uppvask. Ég skoðaði að gamni umsagnir útlendinga (Salt eldhús er með námskeið í íslenskri matargerð fyrir erlent ferðafólk) um Salt eldhús á Trip advisor og það kom ekki á óvart að þar gefa allir námskeiðunum fullt hús stiga og segja gjarnan að þessi kvöldstund hafi verið hápunktur Íslandsferðarinnar. Mér finnst alltaf svo magnað þegar maður hittir fyrir fólk sem tekur sér eitthvað fyrir hendur og gerir það svona 100% eins og Auður hjá Salti eldhúsi! 🙂

IMG_0497

Auður Ögn, Shabana og ég

Allir réttirnir þetta kvöld voru dásamlega góðir. Nokkrir heilluðu mig þó aðeins meira en aðrir. Það var meðal annars Korma kjúklingurinn, blómkáls- og kartöflurétturinn auk dásamlegs banana- og gúrkusalats. Ég hef einmitt oft boðið upp á niðursneidda banana og ristað kókos með indverskum mat en ekki búið til salat úr því áður en það er dásamlega gott meðlæti með svona indverskum mat. Shabana var svo góð að leyfa mér að deila þessum frábæru uppskriftum með ykkur.

IMG_0483

Nokkur atriði sem Shabana lagði áherslu á var meðal annars að þegar ferskur chili pipar er í uppskriftum þá þarf að smakka aðeins á honum til að vita styrkleikann, hann getur verið mjög misjafn (minnkar því eldri sem chili piparinn verður). Einnig er mikilvægt að nota góð krydd, til dæmis sagði hún að hægt væri að treysta gæði kryddana frá Pottagöldrum. Í þriðja lagi er mikilvægt að prófa sig áfram með magn kryddana, þó gefið sé upp ákveðið magn af kryddi er best að byrja með fremur lítið en mikið og bæta frekar við, þetta á sérstaklega við um sterk krydd eins og chili og cayanne pipar.

Korma kjúklingur:

  • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri eða kjúklingalundir, skornir í bita
  • olía til steikingar
  • 1 dós niðursoðnir tómatar
  • 1 dós kókosmjólk
  • 4-5 cm bútur engifer
  • 8 stórir hvítlauksgeirar
  • 2 laukar, saxaðir smátt
  • 1/2 bolli AB-mjólk
  • 4 msk kasjú-hnetur, malaðar í duft í matvinnsluvél eða í morteli
  • salt eftir smekk

Kryddblanda:

  • 2 msk kóríander duft
  • 1 tsk cummin
  • 1 tsk turmerik (gætið þess að liturinn í turmerik smitast og festist auðveldlega)
  • 1 tsk Garam Masala
  • 1 tsk chiliflögur eða duft
  • 1 tsk svartur pipar

Kryddunum er blandað vel saman. Sett í matvinnsluvél ásamt engifer, hvítlauk og 1 dl vatni og maukað.

Olía er hituð á pönnu og laukurinn mýktur á pönnunni við meðalhita þar til hann hefur tekið lit (ca. 10 mín). Þá er kryddblöndunni hellt út á pönnuna og henni velt saman við laukinn í ca. 5 mínútur. Gott er að bæta við góðri slettu af olíu þannig að kryddblandan brenni ekki við pönnuna. Þá er kjúklingabitunum bætt út á pönnuna og þeir brúnaðir í nokkrar mínútur. Því næst er tómötunum og AB-mjólk bætt við, öllu blandað vel saman og látið malla í ca. 20 mínútur. Þá er kókosmjólkinni og kasjú-hnetudufti bætt út í og látið malla í 20-30 mínútur þar til sósan er orðin þykk og góð, því lengri tíma sem henni er gefið því betri verður hún. Saltað eftir smekk.

Borið fram með hrísgrjónum, naanbrauðiraita sósu og banana og gúrkusalati.

IMG_0499

Banana- og gúrkusalat (Khera kachumber)

  • 3 meðalstórir vel þroskaðir bananar, skornir í tenginga
  • 1/2 stór agúrka, skorin í tenginga
  • 1/2 grænn chili pipar (eða eftir smekk), saxað smátt
  • 25 g gróft malaðar hnetur
  • 1-2 tsk kókos
  • 1/2 – 1 tsk sykur
  • 1-2 tsk sítrónusafi
  • salt eftir smekk

Banönum og gúrku blandað ásamt restinni af hráefnunum. Borið fram kalt og fallegt er að strá yfir salatið kókos áður en það er borið fram.

Ef margir eru í mat er ekki verra að hafa þennan blómkáls- og kartöflurétt með ofantöldum réttum með á borðum.

IMG_0436

Blómkáls- og kartöfluréttur: 

  • 1 lítill blómkálshaus (líka hægt að nota 1 stórt eggaldin
  • 300 g kartöflur
  • olía til steikingar
  • 1 tsk cummin
  • 1 tsk ristuð og mulin cummin-fræ
  • 1 msk heil cummin fræ
  • 1 tsk kóríander krydd
  • 1 tsk turmerik
  • 1/2 tsk cayennepipar (gott að byrja á minna magni og auka eftir smekk)
  • 1 grænt chilialdin, fræhreinsað og saxað fínt (hægt að nota minna magn)
  • salt og pipar eftir smekk
  • ferskt kóríander

Kartöflurnar eru soðnar (gæta þess að ofsjóða þær ekki) látnar kólna, skrældar ef þarf og svo skornar í bita. Blómkálshausinn er skorinn í meðalstóra bita.

Kryddin eru tekin til í lítinn bolla eða skál að heilu cummin fræjunum undanskildum. Ristuðu og muldu cummin fræin eru útbúin. Cummin fræin eru ristuð á þurri pönnu þar til þau byrja að dekkjast,  því næst eru þau mulin í morteli eða með hnífsskafti.

Olía er hituð á pönnu og heilu cummin fræin eru sett á pönnuna. Því næst er blómkálinu strax bætt við og steikt í nokkrar mínútur, gætið þess að hafa næga olíu þannig að blómkálið brenni ekki. Þá er öllum kryddunum bætt út í ásamt chili piparnum, saltað og piprað. Kartöflunum er bætt við, hitinn lækkaður og allt steikt saman í nokkrar mínútur til viðbótar, hrært í reglulega. Borið fram með fersku kóríander.

IMG_0482

Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati


Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati

Nú er maí runninn upp og grilltímabilið hafið. Reyndar grillum við allt árið en auðvitað sérstaklega mikið á sumrin. Við bjuggum í blokk öll þau fimmtán ár sem við bjuggum í Stokkhólmi. Svíar eru með þær reglur að það megi ekki grilla á svölum í blokkum. Svíar eru ekki bara regluglaðir heldur framfylgja þeir alltaf reglunum líka! Einu skiptin sem við grilluðum á Svíþjóðarárunum var í heimsóknum á Íslandi eða kannski í lautarferðum í Stokkhólmi á einnota grillum. Okkur datt ekki í hug að brjóta reglurnar, svoleiðis gera Svíar bara ekki! Ég finn að ég er mjög vel uppalin þegar kemur að öllum reglum, hvort sem þær eru skráðar eða óskráðar, eftir að hafa búið lungann úr fullorðinslífi mínu í Svíþjóð. Ég myndi aldrei leggja ólöglega, ganga á grasi sem ekki mætti ganga á, standa vinstra meginn í rúllustiga eða neitt þvíumlíkt! 🙂 Það er svo mikill samfélagslegur agi í Svíþjóð. Til dæmis hendir enginn rusli á gólfið í bíóum í Svíþjóð og ef einhver myndi taka upp á slíku þá myndi sá hinn sami uppskera reiðileg augnaráð og skammir annarra bíógesta. Stundum finnst mér nóg um agaleysið hér á Íslandi en oft finnst mér líka léttir að vera laus við agann … ég hendi samt aldrei rusli á gólfið í bíó! 😉

Fyrsta verk okkar þegar við fluttum til Íslands, eftir fimmtán ára sænskt grillbann, var að kaupa stórt Weber grill. Það gerðum við meira að segja áður en við fluttum inn í húsið okkar! Við grillum bæði fisk og kjöt og notum líka mikið grillgrind til þess að grilla grænmeti í. Stundum grillum við sætar kartöflur, þær eru svo ofsalega góðar! Ókosturinn við sætar kartöflur eru að þær eru svo stórar og þykkar, það tekur langan tíma að grilla þær og þá vilja þær brenna. Þetta leysi ég með því að forsjóða kartöflurnar. Þá þarf bara að grilla þær örstutt en samt kemur góða grillbragðið.

Uppskrift:

  • 2 sætar kartöflur
  • ca. 1 tsk Saltverk salt eða maldon salt
  • hýðið af einni límónu (lime) rifið fínt
  • góð olía
  • grófmalaður svartur pipar
  • klettasalat

Sætu kartöflurnar eru þvegnar og skrúbbaðar mjög vel. Því næst eru þær skornar í ca. 1.5 cm þykkar sneiðar (með hýðinu á). Vatn er sett í stóran pott og suðan látin koma upp og kartöflusneiðarnar soðnar þar til þær eru hér um bil tilbúnar, í ca. 7-10 mínútur. Það þarf að gæta þess að sjóða kartöflurnar frekar minna en meira þannig að þær verði ekki lausar í sér. Því næst eru þær snöggkældar undir köldu vatni.
Karöflurnar eru þá penslaðar með olíu og kryddaðar með salti og pipar. Svo eru þær grillaðar á meðalheitu grilli í ca. 2 mínútur á hvorri hlið eða þar til það eru komnar góðar grillrenndur á sneiðarnar. Í lokin er limehýðinu og salti dreift yfir kartöflurnar. Hluti af klettasalatinu er lagt á disk, sætu kartöflusneiðunum raðað ofan á og að lokum er restinni af klettasalatinu dreift yfir.

Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati

Roastbeef með bearnaise sósu, kartöflugratíni og spínatsalati með jarðarberjum


IMG_9146Ég var búin að vera með yfirlýsingar um að páskamaturinn hjá okkur yrði kalkúnn eða mögulega lambakjöt. Þessar fyrirætlanir breyttust allar þegar ég fékk allt girnilega nautakjötið frá Mýranauti. Ég glímdi við dálítinn valkvíða þar sem um svo marga girnilega nautakjötsbita var að ræða en á endanum ákvað ég að hafa roastbeef. Með því bar ég fram heimagerða bearnaise sósu (og brúna fyrir gikkina!), kartöflugratín og spínatsalat með jarðaberjum, fetaosti og ristuðum valhnetum. Jimundur minn hvað þetta var gott! Kjötið var dásamlega meyrt og safaríkt og meðlætið fullkomið með kjötinu. Kartöflugratínið er algjör snilld því það er svo fljótlegt og hrikalega bragðgott. Með því að sjóða kartöfluskífurnar fyrst í rjómaleginum þá þurfa þær bara örstutta stund í ofninum. Þannig gat ég ofnbakað kartöflugratínið á meðan kjötið jafnaði sig eftir ofnsteikinguna. Ég geri ekki kartöflugratín á annan hátt eftir að ég uppgötvaði þessa aðferð.

IMG_9137

Ég steikti fyrst kjötið á pönnu við háan hita og eldaði það svo við lágan hita inni í ofni. Ég sá að meistari Nanna Rögnvaldar skrifaði um daginn að það væri mýta að hægt væri að loka kjöti með því að steikja það á pönnu, nokkuð sem mér fannst mjög áhugavert að lesa. Þetta sagði hún:

,,Þetta kalla mjög margir að ,,loka” kjötinu og telja að með því að byrja á að snöggbrúna það sé verið á einhvern hátt að þétta yfirborðið svo safinn leki síður úr kjötinu. Eins og við þetta myndist einhvers konar vatnsheld hella eða hjúpur kringum kjötið …

Sem er náttúrlega alrangt.

Maður lokar ekki nokkrum sköpuðum hlut með því að brúna yfirborðið. Safinn lekur alveg jafnört úr kjötinu út á pönnuna eftir sem áður. Ef ekki örar. Þetta hefur verið margsannað með tilraunum þar sem tvö nákvæmlega eins kjötstykki eru matreidd, annað brúnað fyrst, hitt ekki, og þau síðan elduð á sama hátt þar til sama kjarnhita er náð. Síðan eru þau vigtuð til að kanna hvort hefur tapað meiri safa. Í hverri tilrauninni af annarri hefur það komið á daginn að stykkið sem var ,,lokað” tapaði jafnmiklum eða meiri safa en hitt.

Samt tekst ekki að kveða þessa mýtu niður (ég er búin að vera að tuða um þetta í fimmtán ár að minnsta kosti) og flestir, jafnt húsmæður sem frægir kokkar, halda áfram að tala um að ,,loka kjötinu”.

En á maður þá nokkuð að vera að brúna? Jú reyndar. Því að þótt brúnunin loki ekki nokkrum sköpuðum hlut, þá gerir hún annað: hún bætir bragðið. Sykrurnar og amínósýrurnar á yfirborði kjötsins bráðna saman í hitanum (sem þarf að vera yfir 150°C) og yfirborðið brúnast eða ,,karamelliserast” og við það myndast þetta unaðslega bragð sem fæstir vildu missa af. Og kjötið verður líka fallegra og girnilegra fyrir vikið.“

Þar hafið þið það, meistarinn hefur talað! 🙂 Hér með leggja Eldhússögur sitt af mörkum við að kveða niður mýtuna um að hægt sé að „loka kjöti“!

04146Með þessu gómsæta kjöti mælir vínþjónninn Sævar Már Sveinsson með  ítalska rauðvíninu Tommasi Le Pruneé Merlot. 

Lýsing: Kirsuberjarautt. Meðalfylling, þurrt, fersk sýra, miðlungstannín. Skógarber, bláber, jörð, lyng, hýði.

IMG_9126

Uppskrift:

  • ca 2 kíló nauta innra læri
  • olía
  • smjör og olía til steikingar
  • maldonsalt
  • ferskmalaður svartur pipar

Kjötið er tekið úr kæli og látið ná stofuhita. Ofninn er hitaður í 120 gráður, undir- og yfirhita. Þá er það nuddað með olíu og kryddað mjög vel með maldonsalti og ferskmöluðum svörtum pipar. Kjötið er steikt á pönnu upp úr blöndu af smjöri og olíu við háan hita á öllum hliðum í stutta stund. Þá er kjötið lagt í eldfast mót og kjöthitamæli stungið í þykkasta hluta kjötsins. Kjötið er steikt í ofni við 120 gráður þar til kjarnhiti kjötsins hefur náð um það bil 55 gráðum. Kjötið hjá mér var 2 kíló og það tók 2 klukkutíma á 120 gráðum að ná þessum kjarnhita. Þá er kjötið tekið út og látið jafna sig í 15-20 mínútur undir álpappír. Mjög mikilvægt er að leyfa kjötinu að jafna sig eftir ofnsteikinguna, ef það er skorið of snemma þá missir það safann.

IMG_9134

Bernaise sósa:

  • 4 eggjarauður
  • 250 gr. smjör
  • 1 msk.  Bernaise Essence
  • Fáfnisgras (franskt estragon –kryddjurt), söxuð smátt
  • salt og pipar

Eggjarauðurnar eru þeyttar ásamt Bernaise essence. Sumir þeyta þær yfir heitu vatnsbaði. Smjör brætt, þegar hitastigið er þannig að maður rétt nær að dýfa fingrinum í það er því hellt varlega í mjórri bunu út í eggjarauðurnar og þeytt í stöðugt á meðan (mikilvægt! – helst að fá einhvern annan til að hella) með písk. Að lokum er estragoni bætt við. Sósan smökkuð til og krydduð með smá salti og pipar ef þarf. Það má ekki hita upp sósuna aftur eftir að eggjarauðum og smjöri hefur verið blandað saman, þá skilur hún sig. Bearnaise sósan er því ekki heit þegar hún er borin fram, bara volg og má jafnvel vera köld. En fyrir þá sem vilja heita sósu er hægt að hita hana upp varlega yfir vatnsbaði.

IMG_9148

Spínatsalat með jarðaberjum:

  • spínat
  • jarðarber, skorin í bita
  • fetaostur í olíu
  • ristaðar valhnetur

Spínatið er lagt á disk. Jarðarberjunum er svo dreift ofan á spínatið ásamt fetaostinum (smá olía með). Því næst eru valhneturnar saxaðar gróft og þær þurrristaðar á pönnu á eftirfarandi hátt. Panna hituð og valhneturnar ristaðar á pönnunni við fremur háan hita í nokkrar mínútur þar til þær hafa náð góðri ristun, hrært í þeim stöðugt á meðan til þess að þær brenni ekki. Þegar hneturnar hafa kólnað dálítið er þeim að lokum dreift yfir salatið.

IMG_8856

Kartöflugratín f. 8-10

  • ca 1,5 kíló kartöflur
  • 4 dl rjómi
  • 4 dl mjólk
  • hálfur rauðlaukur, skorin í strimla
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 grænmetisteningur
  • Töfrakrydd, salt og pipar
  • rifinn ostur

Kartöflurnar skolaðar vel (ég hef þær oftast með hýðinu á) og svo skornar í skífur, sumir vilja hafa þær næfurþunnar, mér finnst best að hafa þær ca 1 cm á þykkt. Hvítlaukur og laukur skorinn niður. Mjólk og rjómi hellt í stóran pott ásamt hvítlauk, lauk, grænmetisteningi og kryddi. Ég nota Töfrakrydd frá pottagöldrum, það er góð kryddjurtablanda með cheddar osti sem hentar vel en það er hægt að nota hvaða krydd sem hugurinn girnist. Sjóðið við vægan hita í 10-15 mínútur (fer svolítið eftir þykkt kartaflanna), eða þar til þær eru orðnar vel mjúkar. Hellið þá kartöflublöndunni í eldfast mót, dreifið rifnum osti yfir og hitið í ofni við 200 gráður ca. 20 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og orðin gullinbrúnn.

IMG_9156

Sesamkjúklingur með ristuðum kartöflum


SesamkjúklingurÉg veit ekki hvort nokkur hefur áhuga á hversdagslegri kjúklingauppskrift eftir snickerskökuna ógurlegu! 🙂 Sú kaka var svo vinsæl að aðsóknarmet var slegið á Eldhússögur í gær, 13 þúsund manns komu í heimsókn á einum degi sem er óraunverulega margt fólk! Ekki nóg með það heldur hefur uppskriftinni verið deilt svo mikið á Facebook að það sjást engar deilingatölur lengur, bara „1K+“! Ég hef aldrei komist upp í 1K áður fyrir neina uppskrift en það eru meira en 1000 deilingar. Sem betur fer stendur kakan undir þessum væntingum því góð var hún! Þó svo að þetta matarblogg sé fyrst og fremst fyrir sjálfa mig þá verð ég að viðurkenna að það er ákaflega gaman að bloggið nái til svona margra. Ég eflist við hvert „like“, deilingu, komment og hrós og það hvetur mig áfram til að gera enn betur í eldhúsinu. Takk fyrir stuðninginn ykkar kæru lesendur! 🙂

En uppskrift dagsins er ákaflega góður og einfaldur sesamkjúklingur og kartöflur sem allir í fjölskyldunni borðuðu með bestu lyst. Ég notaði rósapiparsósu með réttinum en eftir á hyggja þá held ég að fersk köld sósa hefði verið enn betri. Næst ætla ég að hafa þennan kjúkling með tzatziki sósu eða jafnvel gulrótar-tzatziki sósu sem væri örugglega eðalgóð með kjúklingnum.

Uppskrift:

  • 800 gr kjúklingabringur
  • 
1 egg, hrært
  • 
1 1/2 dl brauðmylsna
  • ca 100 g sesamfræ
  • salt & svartur grófmalaður pipar
  • 
smjör og eða ólífuolía

Brauðmylsnu, sesamfræum, salti og pipar er blandað saman. kjúklingabringurnar eru skornar í þrjá bita á lengdina. Hverjum bita er velt upp úr eggi fyrst og svo blöndunni með sesamfræjum og brauðmylsnu. Kjúklingabitarnir eru steiktir upp úr smjöri og/eða ólífuolíu á pönnu við meðalhita þar til þeir eru eldaðir í gegn. Bitunum er snúið reglulega.

IMG_8114

Ristaðar kartöflur:

  • kartöflur
  • brauðmylsna
  • ólífuolía
  • maldon salt

Kartöflurnar eru þvegnar vel og skornar í tvennt. Þeim er svo raðað á ofnplötu, penslaðar vel með ólífuolíu, dálítið af brauðmylsnu er dreift yfir þær ásamt salti. Bakaðar í ofni við 225 gráður í ca. 20-25 mínútur eða þar til þær eru eldaðar í gegn.

IMG_8124

Rósapiparsósa

  • 1 laukur, saxaður smátt
  • 1 msk smjör
  • 1/2 msk rósapipar, mulinn
  • 400 ml kjúklingasoð
  • 2-3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • salt & pipar
  • sósujafnari

Smjörið brætt í potti og laukurinn steiktur þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er restinni af hráefnunum bætt út. Suðan látin koma upp, sósujafnara bætt út og sósunni leyft að malla í ca. 10 mínútur. Sósan er sigtuð áður en hún er borin fram.

IMG_8123

Ofnbakaður kúrbítur með tómötum og mozzarella


IMG_8015Mér finnst bæði grillað nautakjöt og lambakjöt afar gott. Mér finnst meðlætið með kjötinu ekki síður vera mikilvægt og er stöðugt á höttunum eftir góðum meðlætisuppskriftum. Við grillum allt árið, hér um bil í hvaða veðrum sem er. Þó það sé kalt í veðri þessa dagana þá er dásamleg stilla og sól, það er næstum því vor í lofti! Þá langar mann enn meira að grilla en ella. Við keyptum ungnautafille í Nóatúni en um þessar mundir eru þeir með tilboð á því kjöti – ég mæli með því fyrir helgina. Kjötið skárum við í hæfilega þykkar sneiðar, svo var það piprað og saltað áður en það fór á grillið. Með kjötinu gerði ég sveppasósu, steiktar kartöfluskífur, ferskt salat og ofnbakaðan kúrbít með tómötum og mozzarella. Þetta var afskaplega ljúffengt og þessa uppskrift af kúrbít mun ég nota aftur!

IMG_8026

Ofnbakaður kúrbítur:

  • 2 kúrbítar
  • ólífuolía
  • 1 -2 hvítlauksrif, pressuð
  • salt & pipar
  • ca. 1 dl brauðmylsna (ég bjó til eigin brauðmylsnu úr ristuðu brauði, muldu í matvinnsluvél)
  • kokteiltómatar
  • ca. 1/2 -1 mozzarella kúla, skorin í litla bita
  • parmesan (má sleppa)

IMG_8017

Ofn hitaður í 180 gráður. Kúrbíturinn skorinn á lengdina og aðeins tekið af botninum svo hann geti staðið stöðugur. Fræin skafin úr miðjunni með skeið. Bátarnir lagðir á ofnplötu klædda bökunarpappír. Ólífuolíu, hvítlauk, salti og pipar dreift yfir bátana. Kokteiltómatar skornir í tvennt og raðað ofan í bátana, brauðmylsnu stráð yfir. Bakað í ofni við 180 gráður í ca. 30 mínútur. Þá er platan tekin út, og mozzarella ostinum bætt á bátana á milli tómatanna. Sett aftur inn í ofn þar til osturinn hefur bráðnað. Þá eru bátarnir teknir úr ofninum og dálítið af ólífuolíu stráð yfir ásamt ferskri basiliku (og parmesan ef vill).

IMG_8020

Steiktar kartöfluskífur:

  • kartöflur
  • smjör og ólífuolía
  • salt & pipar
  • annað krydd (t.d. rósmarín, timjan)

Kartöflurnar þvegnar vel (ekki afhýddar) og skornar í fremur þykkar skífur. Smjörið og ólífuolían hituð á pönnu og kartöflurnar steiktar upp úr kryddinu og olíunni við meðalhita og þeim snúið oft þar til allar skífurnar eru steiktar í gegn.

IMG_8013

Sveppasósa

  • smjör
  • 200 gr sveppir
  • 2-3 tsk nautakraftur
  • 1 piparostur
  • 2 dl rjómi
  • 2 dl mjólk
  • 2 tsk rifsberjahlaup
  • 1 msk soyjasósa
  • sósujafnari
  • salt og pipar

Sveppir sneiddir og þeir steiktir í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti bætt út og hann látin bráðna. Rjóma og mjólk bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í ef maður vill fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.

IMG_8022

Kalkúnaveisla


Um helgina héldum við árlega kalkúnaveislu fyrir kollega Elfars og eiginkonur. Við skiptumst á að halda veisluna og í ár var komið að okkur. Mér finnst kalkúnn afskaplega góður og skemmtilegur að elda. Að auki er meðlætið með kalkúni svo ofsalega gott. Ég hef alltaf kalkún á gamlárskvöld og á páskunum. Ég hef prófað ýmsar eldunaraðferðir og er komin niður á aðferð sem ég er býsna sátt við. Ég hef prófað að leggja kalkúinn í saltpækil í sólarhring, mér fannst það ekki virka sérstaklega vel en er mjög ánægð með þessa aðferð sem ég gef upp hér.

05996Með kalkúninum mælir Sævar Már Sveinsson vínþjónn með hvítvíni frá Chile: Casillero Del Diablo Chardonnay. Concha y Toro er eitt virtasta og stærsta víngerðarfyrirtæki veraldar og hefur undanfarin ár hlotið flest þau verðlaun sem vínfyrirtæki sækjast eftir.

Litur: Skærgulur. Eiginleikar: Meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Bragð: Ananas, sítrus, vanilla.

Kalkúnn:

  • 1 kalkúnn
  • 1 askja kryddsmjör
  • 500 gr smjör (til að smyrja kalkúninn með og til þess að ausa yfir hann á meðan hann er í ofninum)
  • Kalkúnakrydd frá Pottagöldrum

Kalkúninn er látinn þiðna í ísskáp í 2- 4 sólarhringa, fer eftir stærð. Ef þú lest þetta núna, horfir á gaddfreðna kalkúninn þinn sem þú ætlaðir að elda á morgun og færð smá panikk, þá er þetta allt í lagi! 🙂 Það er hægt að setja kalkúninn í stóra fötu (eða ílát sem rýmir kalkúninn vel) fylla hana með ísköldu vatni, láta það fljóta vel yfir kalkúninn og passa að vatnið sé alltaf kalt. Þannig þiðnar til dæmis 7 kílóa kalkúnn á um það bil 8-10 tímum.

Því næst er kalkúnninn skolaður vel og þerraður bæði að utan og innan. Þá er hann smurður vel með bræddu smjöri. Þá eru gerðar raufar í bringurnar með hníf  og þær fylltar með kryddsmjöri.  Ég sting sem sagt beittum hníf í bringurnar, ca. 5 holur í hvora bringu. Ég hef þær ekkert mjög djúpar, kannski ca. 3-4 cm, ekki alveg niður að beini. Í raun bara nógu djúpar til að koma ca. 1-2 teskeiðum af kryddsmjöri í holuna. Þar sem hnífurinn breikkar frá hnífsoddinum þá víkkar líka holan þegar ofar dregur og þar með kemst töluvert mikið af smjöri í holuna þó hún sér ekkert svo djúp. Svo er kalkúnninn kryddaður vel með kalkúnakryddi og því nuddað vel inn í allan kalkúninn. Ég notaði allt kryddglasið. Fyllingin sett inn í fuglinn, ég set alltaf smá fyllingu líka undir skinnið á hálsinum.

Stundum sleppi ég því að setja fyllinguna inn í fuglinn, í raun breytir hún engu fyrir sjálft kjötið en hún eykur eldunartímann. Þá set ég bara fyllinguna í eldfast mót og elda hana sér en fylli fuglinn af appelsínu- og sítrónubátum (gefa frá sér raka sem mýkir kjötið og gott bragð) og elda hann þannig – athugið samt að þannig verður eldunartíminn styttri (ég hendi appelsínu- og sítrónubátunum eftir eldun).

Nú er kalkúnninn lagður á ofngrind og ofnskúffa sett undir. Byrjað á því að steikja hann við 200 gráður í 15 mínútur. Þá er viskustykki dýft í brætt smjör, það breitt yfir kalkúninn og hitinn lækkaður í 120 gráður. Á meðan á eldunartíma stendur er bræddu smjöri ausið reglulega yfir kalkúninn (viskustykkið), þegar líður á eldunartímann er soðinu ausið yfir kalkúninn. Þegar 15 mínútur eru eftir af tímanum er viskustykkið tekið af og hitinn hækkaður í 200 gráður. Ég var með hitamæli í kalkúninum og tók hann út þegar hitinn var kominn í ca. 70-72 gráður (ég reyni að láta eldunina stoppa við 72 gráður en yfirleitt hækkar hitinn um 1-2 gráður eftir að fuglinn er tekinn úr ofninum). Þá er hann vafinn inn í álpappír og leyft að jafna sig í hálftíma. Eldunartíminn fer eftir stærð fuglsins, hvort hann er með fyllingu eða ekki og hver ofnhitinn er. Kalkúnninn var í 5 tíma í ofninum hjá mér en hann var 7 kíló og með fyllingu (hún eykur eldunartímann). Það gerir ca. 40 mínútur per kíló. Kalkúnninn varð ofsalega meyr og safaríkur við þessa eldunaraðferð. Ég mæli eindregið með því að nota kjöthitamæli, annars er erfitt að vita hvenær kalkúnninn er tilbúinn þar sem það fer eftir stærði fuglsins, bakarofninum, fyllingunni og fleira. Þessi kjöthitamælir sem ég nota á myndinni er hræódýr og virkar vel. Best er að stinga honum djúpt milli bringu og læris, þar eldast fuglinn seinast.

Kalkúnafylling:

Ég hef gert hefðbundnar fyllingar hingað til, með beikoni, brauði og fleira en hef ekki verið nógu hrifin af þeim. Mér hefur fundist fyllingin verða of mikið í anda við heitan brauðrétt. En núna prófaði ég hins vegar nýja fyllingu sem mér fannst frábærlega góð og fersk. Í henni eru meðal annars sætar og safaríkar perur, Dímon ostur og þurrkuð epli. Það er sniðugt að nota þurrkuð epli því þá verður fyllingin ekki of blaut.

  • 3 perur, skornar í litla bita
  • 1/2 poki þurrkuð epli, skorin í bita
  • 1 Dímon ostur, skorin í litla bita
  • 1 poki brauðteningar
  • 1 laukur, saxaður smátt
  • 1 engiferbútur, saxaður smátt
  • 4 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • kryddjurtir, t.d. kóríander, salvía og timjan, saxað gróft

Öllu blandað saman, gott að gera fyllinguna kvöldið áður. Fyllingin sett inn í fuglinn og líka inn í hálsinn. Ef það er afgangsfylling er hægt að setja hana í eldfast mót og baka sér.

Kalkúnasósa:

Sósan með kalkúninum er afar mikilvæg og ég legg mikið upp úr henni. Ég byrja á henni upp úr hádegi og læt soðið malla allan daginn til að fá kraftmikla og bragðgóða sósu. Þessi uppskrift er mjög stór, miðuð við allavega 15 manns.

  • 1 kíló gulrætur, skornar í bita
  • 2 laukar, skorinn í bita
  • 1 búnt sellerí, skorið í bita
  • 10 hvítlauksrif, söxuð gróft
  • ca 200 ml tilbúinn fljótandi kalkúnakraftur
  • kalkúnahálsinn (innan úr kalkúninum)
  • 4 lítrar vatn
  • 5 dl rjómi
  • sósujafnari
  • smjör til steikingar

Gulrætur, laukur, sellerí, hvítlaukur steikt á pönnu upp úr vænum skammti af smjöri þar til  grænmetið er mjúkt, þá er hálsinn af kalkúninum brúnaður að utan með grænmetinu. Allt fært yfir í stóran pott. Vatninu bætt út í ásamt stórum hluta af kalkúnakraftinum og soðið af miklum krafti (ég hafði stillt á 5 af 9) undir loki í 4-5 tíma. Ef að lokið er mjög óþétt og soðið sýður niður of hratt er gott að fylgjast með og bæta dálitlu vatni út í við þörfum. Það er ágætt viðmið að það verði eftir um það bil 2 lítrar eftir af soði í lokin þegar búið er að sigta grænmetið frá. Undir lokinn bæti ég út pottinn hluta af soðinu sem safnast hefur í ofnskúffunni undir kalkúninum, magnið þarf að meta dálítið eftir því hver mikið af soði er í skúffunni.

Á meðan kalkúnninn bíður og jafnar sig er sósan kláruð. Soðið sigtað til að fá hreint soð með því að sigta allt grænmetið frá. Hreina soðið sett aftur í pottinn og hann látin standa á kaldri hellu í smá stund. Þá flýtur öll fitan á yfirborðið, hún veidd af og lögð til hliðar. Hluti af henni er notuð til að búa til smjörbollu sem síðan þykkir sósuna. Smjöbollan er gerð með því að hveiti og fitan er pískað saman í potti og þetta er hitað. Rjómanum bætt út soðið og sósan krydduð eftir smekk með salti og pipar. Restinni af kalkúnakraftinum bætt út í. Suðan látin koma upp og smjörbollunni hrært út í til að þykkja sósuna. Ég bætti líka við sósujafnara. Sósan látin malla þar til að kalkúninn er borinn á borð. Mikilvægt að smakka hana til með kryddum.

Meðlæti með kalkúninum (miðað við ca. 12-15 manns)

Sætkartöflumús

  • ca. 1.6 kíló sætar kartöflur (4 stykki)
  • 300 gr rjómaostur
  • salt og pipar
  • pekanhnetur

Sætar kartöflur soðnar, afhýddar og stappaðar saman með rjómaosti og kryddi. Karöflumúsin sett i eldfast mót, pekanhnetum stráð yfir og hitað í ofni við 180 gráður í ca. 15 mínútur. Það er lítið af pekanhnetur á myndinni en það var nú bara af því að ég átti svo lítið af þeim, fann ekki pokann sem ég keypti! Mér finnst betra að nota meira.

Rósakál með beikoni

  • 2 pokar frosið rósakál eða 500 gr ferskt
  • 1 beikonbréf
  • salt og pipar
  • 2 dl hvítvín
  • smjör til steikingar
  • möndluflögur ef vill

Rósakál soðið eftir leiðbeiningum ef það er frosið. Ef það er ferskt þá eru endarnir fyrst skornir af rósakálinu og ystu blöðin tekin af, hver haus skorinn í tvennt, soðið í 2-3 mínútur í söltu vatni. Smjör sett á pönnu, beikon skorið í litla bita og steikt á pönnunni. Rósakáli bætt út í steikt í smá stund, saltað og piprað. Hvítvíni hellt út á pönnuna og látið malla þar til það hefur soðið niður. Hægt að strá möndluflögum yfir rósakálið áður en það er borið fram.

Gláðar gulrætur

  • 1 kíló gulrætur, flysjaðar sneiddar langsum
  • 1 dl. púðursykur
  • 1 msk. karrí
  • smjör til steikingar
  • salt og pipar

Gulrætur snöggsoðnar, vatni hellt af og þær geymdar í potti. Smjör hitað á pönnu, karrí stráð út á, því næst púðursykri. Þegar púðursykurinn er bráðnaður er gulrótunum bætt út, kryddað með salti og pipar og þeim leyft að malla í blöndunni í smá stund.

Öðruvísi Waldorf salat

  • 3-4 græn epli, flysjuð og skorin í litla bita
  • góður klasi af grænum, steinlausum grænum vínberjum, skorin í tvennt
  • 1 stór dós ananas, skorinn í litla bita
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • þeyttur rjómi
  • valhnetur til skreytinga, má sleppa

Öllu blandað saman saman.

IMG_6816

Brúnaðar kartöflur

  • 70 gr smjör
  • 200 gr sykur
  • 0,75 dl rjómi
  • 2 kíló kartöflur

Kartöflur soðnar og afhýddar. Smjör og sykur hitað á pönnu þar til blandan hefur bráðnað og dökknað þá er kartöflunum bætt út í. Rjómanum bætt við og kartöflunum vellt upp úr bráðinni á fremur háum hita þar til þær eru allar sykurhúðaðar jafnt.

Trönuberjasulta

  • 1 poki fersk trönuber
  • 2 dl appelsínusafi
  • 2 dl sykur

Allt sett í pott og soðið niður í ca. 20 mínútur á meðalhita. Hellt í skál og kælt.

Borið fram með ljúffengu hvítvíni frá Chile: Casillero Del Diablo Chardonnay.